Í Flóanum

Færslur: 2010 Maí

30.05.2010 07:49

Kosningaúrslit

Nú liggja úrslit kosninganna fyrir og get ég ekki annað en verið mjög sáttur. R litinn fékk 254 atkvæði eða 72% en T listinn 97 atkvæði eða 28%. Kosningaþátttaka var nokkuð góð eða um 85,5%. Auðir seðlar voru 14 og 1 ógildur.

Kosningabaráttan gekk vel fyrir sig. Nokkuð fannst mér sótt að okkur og höfðum við gott af því. Það gaf okkur líka tækifæri til þess að skýra okkar málstað betur en umræða meðal kjósenda var talsverð. Hitti ég æði marga og fékk mörg símtöl þar sem ég var spurður beint út í hin ýmsu mál og beðin um skýringar á fullyrðingum sem haldið var fram af mótframbjóðendum. Með frambjóðendur mínir á listanum unnu allir mjög vel og tóku virkan þátt í umræðunni. Lögðum við áherslu á að hitta sem flesta og ræða beint við fólkið.

Með þessum kosningum verða miklar mannabreytingar í sveitastjórninni en ég er sá eini sem er í sveitastjórn núna og held áfram á næsta kjörtímabili. sem nú er að hefjast.  Ég óska nýkjörnum sveitastjórnarmönnum til hamingju með kjörið og hlakka til þess að vinna með þeim. Fráfarandi sveitastjórnarmönnum þakka ég mikið og gott samstarf á síðast liðum fjórum árum. Þetta samstarf hefur verið bæði árangursríkt og farsælt.

  

28.05.2010 07:46

Vorið í Flóanum

Vorið er alltaf skemmtilegur tími. Þetta vor er ekki minna annasamt en öll önnur vor. Verkefnin eru áhugaverð og það gefur öllum kraft að fylgjast með bæði gróðri og dýralífi lifna við allt í kringum sig að loknum vetri. Bæði börn og fullorðnir fyllast bjartsýni og verkgleði.




Sauðburður hér á bæ gekk mjög vel og mikið til orðið af lömdum. Alls komu hér 11 þrílembur og 4 einlemdur af  35 ám. Hinar eru allar með tveimur lömbum og ein er óborin enn. Þeir frændur Hjalti Geir í Lyngholti og Arnór Leví í Jaðarkoti  buðu öllum börnunum sem eru með þeim á Strumpadeild í Leikskólanum í lambaskoðunaferð hingað. Því miður var ég ekki heima þegar leikskólinn kom hér en þetta var mjög skemmtileg heimsókn.




Systkinin í Jaðarkoti fylgjast vel með hænsnaræktinni hjá ömmu sinni, en hér komu 13 ungar úr eggjum nýlega.




Það kunna engir betur en kýrnar á vorin þegar þær fara í fyrsta skipti út að sletta úr klaufunum.






Þegar mikið er að gera og unnið er úti og leikið sér allan daginn er matarlystin líka góð. Stundum er hér æði fjölmennt lið og þétt setinn bekkurinn þegar borðað er saman að loknu dagsverki. 

20.05.2010 07:40

Samningur um neysluvatn

Vegna mikilla umræðu og skrifa um samninginn um neysluvatnið sem sveitarfélögin Árborg og Flóahreppur gerðu sín á milli fyrir nokkru ritaði ég eftirfarandi grein í héraðsblöðin í þessari viku:

Í síðasta mánuði var undirritaður samningur um öflun og sölu neysluvatns milli sveitarfélagsins Árborgar og Flóahrepps. Með þessum samningi er mikilvægu skrefi náð í neysluvatnsmálum í Flóahreppi. Samningurinn tryggir vatnsveitu Flóahrepps aðgang að fyrsta flokks neysluvatni hvenær sem er og í því magni sem á þarf að halda hverju sinni, allt að 20 lítum á sekúndu. Hér er um mikið öryggisatriði að ræða fyrir vatnsveitu Flóahrepps en sem kunnugt er hafa verið vandræði með vatn í sveitarfélaginu í þurrkum á liðum sumrum.

Samkvæmt samningi sem Flóahreppur gerði við Landsvirkjun sumarið 2007 mun fyrirtækið fjármagna þær framkvæmdir sem ráðast þarf í vegna þessa samnings. Allar framkvæmdir innan sveitarfélagsmarka Flóahrepps verða eign og hluti af veitukerfi sveitarfélagsins. Þær framkvæmdir sem ráðast þarf í innan bæjarmarka Árborgar mun Árborg endurgreiða Flóahrepp að fullu í formi vatns á næstu árum eða áratug. Viðskipi með vatnið fara fram á sveitarfélagsmörkum samkvæmt mæli á sanngjörnu verði fyrir bæði sveitafélögin.


Sú staðreynd að Flóahreppur gerði samning við Landsvirkjun um þennan stofnkostnað í tengslum við gerð aðalskipulags hefur orðið tilefni þess að ýmsir hafa reynt að gera vatnssamninginn í heild tortryggilegan. Fullyrt hefur verið að einhver önnur sjónarmið en hagsmunir íbúa Flóahrepps hafi verið hafðir að leiðarljósi við samninsgerðina. Svo er alls ekki. Landsvirkjun hafði engan sérstakan áhuga á að fara í þetta verkefni nú. Það er ekki von til þess að ráðist verði í virkjun Urriðafoss á þessu ári og Umhverfisráðherra var búinn að setja aðalskipulagsmálið í ferkari tafir. Það er eingöngu vegna  þess að fyritækið er samningbundið Flóahrepp að þeir koma að málinu nú.

Það er einnig eingöngu vegna hagsmuna vatnsnotenda í Flóahreppi að ekki er beðið með að fara í framkvæmdir þegar samningsniðurstaða loks er fengin. Það er mikilvægt að koma sem fyrst á öflugum tengingum milli sveitarfélaga þannig að einhver not gæti verið af framkvæmdinni strax í sumar.  Samningurinn er óuppsegjanlegur til þess að tryggja að Flóahreppur hafi not af framkvæmdinni til framtíðar en hér er vissulega verið að ráðstafa miklum fjármunum í framkvæmdir.


Bent hefur verið á að hagstæðara gæti hafa verið að sækja vatnið í grunnvatnsstraum sem líkur eru á að sé undir hrauninu í landi Hjálmholts noðran við Bitru. Afhverju menn halda að hagstæðara sé að fara í vatnsölfun á nýju svæði þar sem eftir er að gera nauðsynlegar rannsóknir, semja um vatnsréttindi, bora og virkja neysluvatnsholu sem gefi allt að 20 lítra á sekúndu og leggja stofnlögn úr Hjálmholtshrauni í miðlunartanka veitunnar veit ég ekki. Hinsvegar er nauðsynlegt að benda á að  vatnstaka í hrauni á láglendi með landbúnað og sumarhúsabyggð allt í kring finnst mér ekki spennandi kostur. Sú vatnsvernd sem er vissulega þarna er takmörkuð og nær aðeins að sveitarfélagsmörkum. Þar fyrir ofan er skipulagt sumarhúsahverfi með tugi rotþróa.  


Ef Flóahreppur ætlar að hafa það áfram að markmiði að bjóða öllum vatnsnotendum í sveitarfélaginu, sem þess óska, að tengjast vatnsveitu sveitarfélagsins með gæða neysluvatni er ekki komist hjá kostnaðarsömum úrbótum. Hvort næsta sveitarstjórn vill falla frá  samkomulaginu við Landsvirkun frá 2007 eða ekki breytir þar engu um. Ef það á að fall frá þessu samkomulagi  bið ég menn samt að hafa þann metnað að takast á við þau verkefni sem nauðsynleg eru á raunhæfan hátt.

14.05.2010 07:54

Framboðsfundur

Á miðvikudagskvöldið s.l. var haldinn framboðsfundur í Þjórsárveri. Það vorum við frambjóðendur R listans sem boðuðum til fundarins til þess að kynna  stefnuskrá okkar og helstu áherslur í komandi kosningum til sveitarstjórnar Flóahrepps.

Við ákváðum að hafa fundinn með nýju sniði og slepptum öllum framsöguræðum og ræðum yfirleitt. Þess í stað var öllum fundarmönnum skipt í sex til átta manna umræðuhópa. Við frambjóðendur fórum svo á milli hópanna og ræddum beint við fundarmenn um það sem þeim lá mest á hjarta í hverjum  hóp. Við stoppuðum í 10 mín á hverju borði. 
 

Mér fannst þetta gefast ágætlega. Þarna fóru fram bein skoðanaskipi og ég vona að fundarmenn allment hafi verið sáttir við þetta. Þeir höfðu tækifæri á að spyrja okkur frambjóendur beint og fá  svör strax.

Ég finn fyrir töluverðum áhuga hjá fólki að ræða hin ýmsu mál. Það er áhugavert og nauðsynlegt að einbeita sér að því. Það er því æði verk framundan ef við eigum að ná því að spjalla við alla kjósendur fyrir kosningar. emoticon

07.05.2010 07:46

Samningur um Vatn

Á sveitarstjórnarfundi í vikunni staðfesti sveitarstjórnin Samning um öflun og sölu vatns  milli Flóahrepps og Árborgar. Samningur þessi er búin að vera í undirbúningi í allan vetur og var undirritaður fyrir skemmstu. Stórum áfanga er nú náð í vatnsmálum beggja sveitarfélaganna. Aðili að þessu samningi er Landsvirkjun en samkvæmt samkomulagi milli hennar og Flóahrepps mun fyrirtækið fjármagna þær framkvæmdir sem ráðast þarf í vegna vatnsöflunnar í Flóahreppi.

Eins og allir góðir samningar þá er þessi samningur báðum sveitarfélögunum mjög hagstæður. Hann tryggir íbúum Flóahrepps aðgang að fyrsta flokks vatni allt að 20 lítrum á sekúndu. Flóahreppur kaupir vatnið í því magni sem hann þarf á að halda hverju sinni á sveitarfélagsmörkum á hagstæðu verði. Hér er um mikið öryggisatriði að ræða til framtíðar fyrir íbúa Flóhrepps.


Töluverðar framkvæmdir þarf að ráðst í vegna þessa í báðum sveitarfélögunum og er samkomulag um að þeim verði skipt á tvö ár.  Þær endurbætur og sveranir á lögnum í Árborg  sem gerðar verða munu nýtast vel innan Árborgar auk þess sem meira vatn verður virkjað við rætur Ingólfsfjalls.

Hér í sveit þarf að leggja nýja stofnlögn með þjóðvegi eitt frá sveitarfélagsmörkum að Neistastöðum og þaðan í miðlunartankinn í Ruddakrók. Þessi stofnlögn styrkir dreyfikerfið í gamla Hraungerðishreppnum og gefur möguleika á frekari uppbyggingu t.d. upp með Langholtsvegi.

Með þessum samningi taka Flóahreppur og Árborg upp meira samstarf í neysluvatnsmálum en verið hefur. Mér finnst nokkuð ljóst að með meira samstarfi sveitarfélaga í málefnum neysluvatns er hægt að stórbæta bæði rekstur og öryggi vatnsveitna á Suðurlandi.  Árborg og Flóahreppur hafa nú stigið mikilvægt skref í þessum málum sem á eftir að koma íbúum og fyrirtækjum í þessum sveitarfélögum til góða til langrar framtíðar. emoticon

03.05.2010 07:39

Húsflutningar

Hér á bæ er lífið nokkuð fjölbreytt og verkefnin sem verið er að fást við mörg og misjöfn. Hér háttar svo til að hér er vettvangur fjögurra ættliða í starfi og leik. Öll stöndum við með einum eða öðrum hætti að þeim búskap sem hér er stundaður en þar fyrir utan er einnig verið að fást við hin fjölbreyttustu verkefni á sviði félagsmála og annarra áhugamála. Mörg okkar stunda einnig aðra atvinnu með búrekstrinum.

Meðlimur úr elstu kynslóðinni tók til við að byggja bæ í svartasta skammdeginu í vetur. Byggingarefnið var afgangs byggingarefni sem hér hefur fallið til í gegnum árin og verið haldið til haga af stakri hirðusemi. Ekki hefur fundist not fyrir þetta byggingarefni fram til þessa og það hefur aðallega tekið páss í geymslum.


Bæinn byggði hann innadyra en alltaf er nóg pláss í hlöðunni. Við smíðina naut hann aðstoðar yngstu kynslóðarinnar sem tók virkan þátt í smíðinu. Þau fylgdust með af áhuga hvernig bærinn varð til frá fyrstu spýtu til síðasta nagla. Eftir að smíðinni lauk hafa þau svo notið góðs af en bæinn hafa þau óspart notað til sinna leikja.   




Á Sumarsdaginn fyrsta þótti tilhlíðilegt að flytja bæinn út undir bert loft. Systkinin í Jaðarkoti, þau Aldís Tanja og Arnór Leví,  tóku fullan þátt í verkefninu enda hafði bænum verið fundinn staður í bakgarðinum heima hjá þeim. Þar á hann eflaust eftir að þjóna sínu hlutverki sem vattvangur sumarleikja barnanna. 




Nú er tekinn við annasamur og skemmtilegur tími í sveitinni. Kornakrana er verið að vinna og sauðburður er hafinn. Fyrsta ærin bar í gær og varð þrílemd.

  • 1
Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 130774
Samtals gestir: 23894
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 08:06:36
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar