Í Flóanum

Færslur: 2010 Júní

26.06.2010 07:44

Fundir

Í gærmorgun var fyrsti fundur skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps á þessu kjörtímabili haldinn á Laugarvatni. Töluverðar breytingar hafa orðið á nefndinni eftir kosningarnar. Frá því að ég tók sæti í nefndinni fyrst 2007 eru allir hinir sem þá voru í nefndinni hættir og nýir fulltrúar tekið við.

Þrátt fyrir kreppu hefur málafjöldi hjá nefndinni ekkert dregist saman en alls voru tekin fyrir 45 mál á fundinum í gær. Þar af voru þrjár fundagerðir afgreiðslufunda hjá embætti Byggingafulltrúa en á þeim fundum eru afgreiddar þær byggingaleyfisumsóknir sem uppfylla alla skipulagsskilmála sem í gildi eru sem og allar aðrar kröfur sem gerðar er til byggingaleyfisumsókna.

Ég fór beint af skipulagsnefndarfundinum á stjórnarfund hjá SASS á Selfossi. Þar voru ýmis áhugaverð mál til umfjöllunnar. m.a. kynntu fulltrúar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Vegagerðinni vinnu sem er í gangi sem varðar stefnumörkun ráðuneytisins í almenningssamgöngum. Gífurlegum fjármunum af opinberu fé er varið í almennignssamgöngur af ýmsum toga. Má þar t.d. nefna sérleyfisakstur, ríkisstyrkt flug og  ferjusiglingar, strætisvagna, skólaakstur bæði fyrir grunnskóla og framhaldsskóla, ferðaþjónustu faltlaðra, og akstur með aldraða.  

Mjög misjafn er hvernig þessi þjónusta er að nýtast og það er full ástæða til þess að skoða hvort ekki sé hægt að nýta þessa fjármuni betur. Það er einmitt markmið  með þessari vinnu hjá ráðuneytinu. Dæmi er um þjónustu sem er niðurgreidd af opinberu fé en samt er fargjald sem farþegi þarf að greiða hærra en sem nemur beinum kostnaði við að fara sömu leið á einkabíl.

Á stjórnarfundinum var einnig kynnt minnisblað vegna skýrslu um endurskipulagningu sjúkrahúsaþjónustu á Suðvesturhorni landsins frá því í des s.l. Í þeirri skýrslu er verið að leggja til stórfeldan flutning á verkefnum frá sjúkrahúsunum á Selfossi, Suðurnesjum, Hafnafirði og Akranesi til LHS í Reykjavík. Í þessu minnisblaði sem kynnt var á fundinum í gær er sýnt fram á að alls ekki er ljóst hver ávinningur er af þessum flutningi og hann gæti allt eins aukið kostnað.

Stjórn SASS samþykkti að taka þátt í að senda heilbrigðisráðherra ásamt Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Hafnafjarðarbæ erindi vegna málsins.

 

22.06.2010 07:48

Sumarsólstöður

Nú er bjartasti tími ársins. Nóttin er björt og veðrið undanfarna daga hefur einkennst að mikilli blíðu. Ég mæli með því að hluti af svona nóttum sé tekin í útreiðar. Ég held að tvegga tíma útreiðartúr á þessu  tíma jafnist á við fjögurra tíma svefn.

Þórarinn bróðir sem býr í Hafnafirði  kom hér í gærkvöldi og gerðum við það eina gáfulega í stöðunni. Við ásamt Jóni í Lyngholti lögðum á gæðingana og riðum út í kvöldblíðunni í Flóanum. 

Við létum auðvita besta og viljugasta hrossið undir gestinn.  Fyrir rúmlega þrjátíu árum þegar við Þórarinn vorum báðir ennþá yngri en við erum núna keyptum við sitt hvort merfolaldið frá Laugardælum. Þórarinn vann sem  fjósamaður í Laugardælum á sumrin þegar hann var í menntaskóla. Eitthvað fór hann á hestbak á þessum árum og fékk áhuga á að rækta hross. Með það í huga gekkst hann fyrir því að við keyptum þessi folöld haustið 1978.
 
Undan annarri þessarri meri hafa fæðst hér nokkur folöld í gegnum tíðina. Þessi hryssa sem Þórainn fékk svo  lánaða hér  í gærkvöldi er síðan út af henni komin og einnig grárri hryssu sem hann átti hér áður fyrr.  Það má því sega að nú fyrst hafi hann nýtt sér afrakstus þeirra rætkunnar sem hann lagði grunn að fyrir 32 árum síðan. 

Þó Þórarinn sé kannski ekki allveg í toppþjálfun sem knapi þessi misserin gaf hann okkur Jóni ekkert eftir í útreiðunum. Eftir rúmlega tvegga tíma útreiðatúr hvaddi hann okkur aftur og hélt endurnærður aftur í Hafnafjörðinn. Aðspurður sagðist hann ekki hafa neina trú á því að hann yrði með harðsperrur í dag.... emoticon

18.06.2010 07:43

17. júní

Í gær var þjóðhátíðardagur Íslendinga. Það er full ástæða til þess að fagna fullveldi Íslands og halda hátíðlegan sérstakan þjóðhátíðardag. Það er vonandi að íslendingar geri sér líka grein fyrir því hvers virði það er að vera fullvalda þjóð og í hverju það fellst.

Haft var eftir utanríkisráðherranum að hann taldi daginn í gær "heilla dag fyrir Ísland" þar sem Evrópusambandið var að samþykkja að hefja aðildarviðræður við Íslendinga. Það kom svo sem engum á óvart að það skyldi vera samþykkt. Aðildarviðræðurnar ganga svo út á það hvernig og með hvaða hætti Íslendingar ætla að laga sig að ESB og hvaða skilyrði önnur evrópuríki ætla að setja okkur.

Ljóst er að áhugi ríkja innan Evrópu á að fá Ísland inn í sambandið er ekki vegna þess að hér sé svo áhugaverður markaður. Áhugi þeirra beinist fyrst og framst að þeim auðlindum og tækifærum sem hér eru. Þetta eru m.a.fiskimiðin okkar, orkan í fallvötnunum og jarðhitanum og mikið af lítið notuðu landi. Landrými þetta getur bæði verið áhugvert vegna möguleika á aukinni ræktun eða annarri landnotkunn og einnig sem ósnortin náttúra.

Það er mér algerlaga óskiljanlegt afhverju íslensk stjórnvöld eru að leggja upp í þann leiðangur að sækja um aðild að þessu Evrópusambandi. Ég held að möguleikar okkar séu mikið vænlegri utan þess. Við verðun bara að læra og nenna að nýta okkur þau tækifæri og þá þekkingu sem hér eru fyrir hendi. 

Við erum ekki góð í alþjóðlegum bankarekstri eða öðrum slíkum hlutum. Það er búið að reyna það. Einbeitum okkur frekað að því sem við kunnum og eflum þekkingu á þeim hlutum. Ef við ætlum að hasla okkur völl á nýjum sviðum gerum það þá með þeim hætti að við vitum hvað við erum að gera
.

Hér í Flóanum var þjóðhátíðardagurinn haldinn hátiðlegur með hefðbundum hætti. Að venju varði ég hluta úr deginum við hátíðarhöld í og við Þjórsárver. Umf. Vaka stóð fyrir íþróttamóti barna á íþróttavellinum og  Kvennfélag Villingaholtshrepps stóð fyrir reiptogi  og pokahlaupi. Fallkonan flutti sitt ávarp og gestir hátiðarinnar gæddu sér á þeim veisluföngum sem boðið var upp á.








Mér fannst skemmtilegt að fyljast með m.a. barnabörnum mínum taka þátt íþróttakeppninni. 17 júní mót umf. Vöku hefur verið haldið í áratugi og hafa margir byrjað sinn íþróttaferil á einmitt þessu móti. Meðal áhorfenda var fólk sem fyrir einhverjum árum síðan hafði keppt á þessu móti og seinna fylgst með börnum sínum keppa en voru nú að aðstoða og hvetja barnabörnin sín.

15.06.2010 07:42

1. fundur nýkjörinnar sveitarstjórnar

Ný kjörin sveitarstjórn Flóahrepps kom saman til fundar í gærkvöldi í fyrsta skipti. Aðalverkefni fundarins var að kjósa í embætti, nefndir og fulltrúa Flóahrepps hjá hinum ýmsu stofnunum og samstarfsverkefnum.

Ég var kjörinn oddviti með öllum 5 atkvæðum sveitarstjórnarmanna og þakka ég það mikla traust sem mér er sýnt með því. Árni Eiríksson á Skúfslæk var kjörinn varaoddviti. Formaður fræðslunefndar var kjörinn Elín Höskuldsdóttir á Galtastöðum og formaður atvinnu- og umhverfisnefndar var kjörinn Heimir Rafn Bjarkason í Brandshúsum

Atvinnu- og umhverfisnefnd er ný nefnd hjá sveitarfélaginu. Hún verður til með sameiningu á Umhverfisnefnd og Atvinnu- og ferðamálanefnd, auk þess sem henni er ætlað að taka að sér samgöngumál sem á síðasta kjörtímabili heyrði beint undir sveitarstjórn.

Á fundinum í gær var einnig samþykkt að ráða Margréti Sigurðardóttir áfram sem sveitarstjóra næstu fjögur árin. Það er mikill fengur fyrir sveitarfélagið að njóta hennar starfa áfram. Það er einnig mikill sparnaður á tíma og peningum að þurfa ekki að fara í það verkefni að finna nýjan sveitarstjóra og koma honum inn í starfið eins og mörg sveitarfélög standa í núna um þessar mundir.

Ég er mjög ánægur með þann áhuga sem mér finnst fólk almennt hafa á því að vinna fyrir sveitarfélagið. Ég hef undanfarna dag rætt við fjölda fólks um að taka að sér að starfa í nefndum fyrir sveitarfélagið og fengið góðar viðtökur. 


10.06.2010 07:47

Rigning

Það er loksins farið að rigna. Þetta er kærkomin rigning en það sem af er þessu sumri og í allt vor hefur verið mjög þurrt í veðri. Það er orðin árviss viðburður að þurrkar séu hér til trafala og finnst mér eins og það séu ansi breyttir tímar.

 

Ég man mikið frekar eftir því í gegnum minn búskapar tíma að bleyta hafi hamlað vinnu í flögum og öðrum vorverkum. Að vísu man ég vel eftir köldum og þurrum dögum í maí hér áður fyrr. Þá var yfirleitt klaki í jörð og og lítið hægt að gera vegan þess. Síðan þegar hlýnaði þá fór hann að rigna og ringdi stundum svo vikum skipti. emoticon

 

Nú eru breyttir tímar. Endalaus blíða alla daga. Lítill sem enginn jarðklaki en sáralítil úrkoma. Skortur á úrkomu hefur ekki aðeins áhrif á gróður. Þurrkurinn hefur einnig haft áhrif á vatnsból bæði fyrir menn og skepnur. 

Nú er bara að vona að það komi fleiri rigningadagar næstu daga. Vafalaust verður maður samt farin að hvarta yfir rigningunni áður en langt um líður. Það er þannig með veðrið að seint verður hægt að gera mönnum til hæfis. emoticon

07.06.2010 07:43

Hver er virkjanasinni og hver er virkjanaandstæðingur?

Í fréttum af úrslitum kosninganna hér í sveit er því gjarnar slegið upp að hér hafi virkjanasinnar unnið stóran kosningasigur. Ekki er ég nú viss um að við öll sem gáfum kost á okkur á R listann skilgreinum okkur sem einhverja "virkjanasinna"  þó svo að við vissulega höfum fallist á að gera ráð fyrir Urriðafossvirkun á  aðalskipulaginu og ætlum að vinna áfram  í samstarfi við Landsvirkun um mótvægisaðgerðir vegan hennar.

Virkjanamál eru einfaldlega flóknari en svo að hægt sé að skipta fólki upp í virkjanasinna annarsvegar  og virkjanaandstæðinga hinsvegar eins og mér finnst fjölmiðlar gjarnan vilja gera. Þó fallist sá á Urriðafossvirkjun er ekki þar með sagt að þá vilji menn virkja skilyrðislaust alls staðar þar sem því verður við komið. Eins er ekki hægt að ganga út frá því að allir þeir sem ekki vilja að Urriðafossvirkun verði byggð séu allfarið á móti því að orkan í fallvötnum og/eða í iðrum jarðar sé virkuð yfirleitt.


Það er mikilvægt með virkjanir sem og allar aðrar framkvæmdir að kostir og gallar séu vel ígrundaðir áður en ákvarðanir eru teknar. Þetta á við um allar farmkvæmdir stórar og smáar. Allar framkvæmdir sem og önnur mannanaverk hafa umhverfisáhrif. Sumar jafnvel talsvert meiri en t.d. Urriðafossvirkun en þurfa samkvæmt lögum ekki umhverfismat og eru jafnvel ekki skipulagsskildar.


Bæði frambjóðendur og kjósendur R listans hafa vafalaust mismikinn áhuga á byggingu  Urriðafossvirkunar. Rekstur sveitarfélagsins snýst heldur alls ekki um þessa virkjun. Það eru allt aðrir hlutir sem sveitarfélagið er að fást við frá degi til dags.  

03.06.2010 07:55

Fjör í Flóanum

Um síðustu helgi var haldinn hér í sveit hátíðin "Fjör í Flóanum.  Félagsheimilin í Flóahreppi hafa haldið þessa hátíð síðast liðin fimm ár um mánaðarmótin maí/júní. Þátttaka og fjöldi gesta hefur verið vaxandi ár frá ári og sýnist mér að þetta sé viðburður sem komi til með að vera hér árlega áfram. Tilgangur með svona hátíð er kannski tvíþættur. Annars vegar að kynna þá starfssemi og þjónustu sem hér er boðið upp á. Hinsvegar að íbúar sveitarfélagsins geri sér dagamun saman í upphafi sumars.

Þeir viðburðir á hátíðinni sem ég kom á voru vel sóttir og mér skilst að svo hafi verið með flest atriði hátíðarinnar. Veðrið var með eindæmum gott og er það ótvíræður kostur á svona hátíð. Á föstudeginum var ég viðstaddur opnunnar atriði hátíðarinnar í Þjórsárveri. Þar var búið að setja upp heilmikla sýningu á verkum nemenda í Flóaskóla auk þess voru sýnd atriði úr söngleikum  "Grease" sem nemendur sýndu með eftirminnanlegum hætti fyrr í vetur. Á föstudagskvöldið stóð Umf. Vaka fyrir kvöldvöku á íþróttavellinum við Þjórsárver þar sem fjölmenni var. Auk þess sem grillað var saman, flutti Leikdeild Umf. Vöku leikþáttinn "Ýsa varð það heillin" og keppt var í reiptogi.....  Man ekki allveg hvernig það endaði. emoticon

Á laugardeginum var opið hús í nýbyggingunni við Flóaskóla þar sem ég fyrir hönd sveitastjórnar, Gestur í Smíðanda fyrir hönd verktakans  og Kristín skólastjóri tókum á móti gestum og sýndum þeim bygginguna. Skólinn bauð upp á kaffisopa í anddyri nýbyggingarinnar og smákökur voru í boði 8. bekkinga. Nokkur fjöldi gesta kom og fannst mér fólki lítast vel á hvernig til er að takast með þessa byggingu og almenn ánæga með þær breytingar sem hér er verið að gera á starfsemi skólanns. Á laugardagskvöldið var kvöld- og kosningavaka í Þingborg.

Á sunnudeginum kom ég m.a. á fjölskylduskemmtun í Félagslundi sem var mjög vel sótt. Lögð var áhersla á að vera með dagskrá fyrir börn og sá ég ekki betur en heimsókn þeirra "Skoppu og Skrítu" hafi líkað vel í þeim aldurshóp.

Vil ég þakka rekstrarstjórn og húsvörðum félagsheimilanna fyrir vel skipulagða hátíð og skemmtunina um helgina.
  • 1
Flettingar í dag: 163
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 215
Gestir í gær: 24
Samtals flettingar: 127102
Samtals gestir: 22948
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 12:48:14
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar