Í Flóanum

Færslur: 2012 Ágúst

30.08.2012 07:15

Háin og byggið

Í þessari viku hefur veðrið verið þurrt en kalt. Það er norðanátt. Þó hér hafi varla frosið sem heitið getur er jörð loðhrímuð núna í morgunsárið. Höfuðdagur var í gær og nokkuð ljóst að nú fer að hausta.

Hér á bæ höfum við verið að keppast við að ná hánni. Þó heymagnið sé kannski ekki mikið af seinni slætti í ár er þetta nokkurn vegin jafn mikil vinna og áður. Á þriðjudag var full hvasst og lítð hægt að hreyfa hey. Eitthvað fauk út í veður og vind eftir þvi sem heyið þornaði meira en það reyndar slapp nú að mestu.

Ég var svo megnið af deginum í gær að raka saman. Það flýtti ekki fyrir að það sprakk á rakstaravélinni í miðgum klíðum. emoticon Þegar klukkan var farin að ganga 11 í gærkvöldi var mykrið orðið það mikið að ég varð frá að hverfa. Ég var hættur að greina í ljósunum frá traktornum hvar búið var að raka og hvar ekki.

Þetta er nú reyndar bara smá blettur sem eftir er og sýnist mér að það ætti að nást núna þegar tekur af undir hádegi. Verður þá lokið heyskap á þessu sumri hér á bæ. Í kvöld er svo spáð að hann fari í austan átt og rigningu.

Kornsláttur er hafinn í Flóanum á fullu. Búið er að þreska á nokkrum bæjum og skilst mér að uppskera sé yfirleitt góð. Sigmar og Kristinn tóku þreskivélina í heilmikla yfirhalningu áður en byrjað var. Skipt var um flesta legur í vélinni og hún yfirfarin að öllu leiti. En miklu máli skiptir að þessar vélar séu í lagi þá fáu daga á ári sem verið er að nota þær. emoticon

24.08.2012 20:35

Myndband

Jón Magnús á Reykjum í Mosfellsbæ hringdi í mig í morgun. Hann benti mér á og sendi mér síðan link á skemmtilegt myndband á YouTube. MYNDBAND  Á þessu myndbandi er kvikmynd sem Kristófer Grímsson þáverandi framkvæmdastjóri Ræktunarsamband Kjalarnesþings lét taka fyrir rúmlega 60 árum.

Þetta eru svipmyndir frá búskaparháttum og ræktunnarvinnu á þessum tíma á félagssvæði Ræktunnarsambandsins. Myndin er sennilega tekin árið 1951. Á þessum árum er mikill uppgangtími í ræktun og vélavinna er að riðja sér til rúms.

Það sem mér þótti ekki síst gaman að sjá er örstutt svipmynd (tími:20,05 - 20,36) frá heyskap hjá afa mínum í Láguhlíð. Það er pabbi þá ekki orðin tvítugur sem keyrir traktorinn með vagninn. Afi kemur svo og handstýrir vagninum þegar honum er ýtt afturábak inn á hlöðupallinn. Ég reikna með því að það sé svo frænka mín hún Ella sem nú býr í Sölvanesi í Skagafirði sem stendur í vagninum á meðan, þá sex ára gömul.

Í vor þegar ættarmótið var haldið hér var einmitt heilmikið verið að rifja upp búskaparhætti og vinnuaðstöðu í búskap afa og ömmu. Skemmtilegt ættarmót ()  Þetta kvikmyndarbrot er skemmtileg viðbót við það.

22.08.2012 07:12

Á söguslóðum Eyrbyggju

Ég gekk Berserkjagötu í Berserkjahrauni í Helgafellssveit á sunnudaginn með góðu fólki. Við Kolbrún skruppum vestur á Snæfellsnes núna um síðustu helgi og það var eitt af mörgu sem við tókum okkur fyrir hendur að fara þessa götu. Við nutum leiðsagnar Eybergs og Laugu á Hraunhálsi.



Þetta er sögusvið Eyrbyggju og vorum við uppfrædd um það og bent á þau örnefni sem sögunni tengast á leiðinni.

Berserkir voru tveir ofstopa Svíar sem virðast þrátt fyrir afl og hreysti víða hafa verið til vandræða. Allavega sá Noregskonungur sér leik á borði og sendi þá með Vermundi hinum mjóva þegar hann fór til Ísland. Vermundur bjó í Bjarnarhöfn en bróðir hans Viga-Styrr bjó á Hrauni. Hraunið sem nú heitir Berserkjahaun er þar á milli bæjanna.

Það fór þannig að þegar Vermundur hafði ekki orðið nóg fyrir berserkina, en þeir hétu Halli og Leikni, að gera voru þeir ævinlega til einhverra vandræða og fékk hann þá bróðir sinn á Hrauni til að taka við þeim. Víga-Styrr tók við þeim óviljugur en hafði þá þó til aðstoðar við að vega menn.

En þegar Halli fer síðan að fá áhuga á Ásdísi dóttur Styrrs og og fer fram á að fá hana fyrir konu líst Víga-Styrr nú ekki á blikuna. Eftir að hafa ráðfært sig við Snorra goða á Helgafelli lofar hann honum samt að gefa honum Ásdísi en fyrst verða þeir Halli og Leikni að leysa þrjár þrautir.

Þeir áttu að leggja veg yfir úfið hraunir á milli bæjanna Bjarnarhöfn og Hrauns en það var einmitt gatan sem við gengum á sunnudaginn.



Þeir áttu einnig að hlaða garð í hrauninun á milli bæjanna. Þessi garður stendur þarna enn og gengur í sjó fram. Þriðja þrautin sem þeir áttu að framkvæma var að hlaða fjárrétt. 

 

Þessa rétt sem heitir Krossrétt  sáum við einnig þegar við gengum hraunkantinn upp að eyðibýlinu Berserkjahrauni (Hraun) þegar við komum til baka af Berserkjagötunni. Það mun hafa runnið á þá Halla og Leikni berserksgangur og luku þeir við gerð þessa mannvirkja á skömmum tíma.

En á meðan hafði Styrr látið grafa baðhús í jörð og bauð nú berserkjunum að ganga þangað að loknu verki enda móðir og þreyttir. Þá lét Styrr bera grjót á hlemmin yfir innganginn og helti síðan sjóðandi vatni inn á þá. Þó mikið væri nú af berserkunum dregið tókst þeim samt að brjóta hlemmin yfir útgönguleiðinni en detta þá á blautri nautshúð sem Styrr hafði komið þar fyrir og voru þeir þar drepnir.

Þeir voru síðan dysjaðir við Berserkjagötuna og það er einmitt við dysina sem við stöndum hér á fyrstu myndinni. Snorri á Helgafelli fær síðan Ásdísi fyrir konu.

Það er ótrúlega skemmtilegt að fara um með kunnugum í svona gönguferðum. Auk þess að fræða okkur um þessa sögu úr Eyrbyggju sagði Eyberg okkur frá ýmsu öðru úr seinni tíma sögu staðháttum og landslagi á þessu svæði.

Þetta var ekki eina áhugaveðra sem við gerðum á meðan við vorum fyrir vestan. M.a. fórum við í magnaða siglingu með Ástu og Guðjóni á Borgarlandi út í Brokey. Ég segi ykkur kannski frá því seinna en það var ekki síður skemmtilegt. Einmitt ekki síst vegna þess að við vorum í för með fólki sem þekkti vel til og sagði okkur vel frá.
 



07.08.2012 07:05

Verslunnarmannahelgin

Nú er þessari mestu ferða- og skemmtanahelgi lokið og gekk hún að mestu stórslysalaust. Mikill mannfjöldi var samankomin hér um slóðir. Ég varð að vísu ekki mikið var við það og mannlífið hér í miðjum Flóanum tók lítið mið af því.

Unglingalandsmót UMFÍ er nú orðin stæðsta útihátíðin um þessa helgi. Mótið var að þessu sinni haldið á Selfossi og tókst að mér skilst ljómandi vel. Þetta mót er með allt öðru sniði en aðrar útihátíðir. Á Unglingalandsmóti er það leikgleði og þátttaka mótgesta sjálfra sem skiptir megin máli.  

Nú eru tuttugu ár frá því að fyrsta Unglingalandsmótið var haldið á Dalvík árið 1992. Næsta mót var svo haldið þremur árum seinna á Blönduósi og svo aftur þremur árum seinna í Reykjavík. Tveimur árum eftir það var mótið haldið á Tálknafirði og í Vesturbyggð. Það var þá sem ákveðið var að halda mótið um verslunnarmannhelgina. Tveimur árum seinna eða 2002 var það svo endur tekið í Stykkishólmi og síðan hafa mótin verið haldin árlega um þessa helgi.

Það er virkilega ánæjulegt að sjá hvernig þessi Unglingalandsmót hafa vaxið og dafnað frá því að ungmennfélögin fóru fyrst að efna til þeirra. Það var á sínum tíma nokkuð djarft að færa mótið yfir á verslunnarmannahelgina og í framhaldi af því að halda mótið árlega. Með því var farið í beina samkeppni við þær fjölmörgu útihátíðir sem haldna um allt land þessa helgi. 

Ég hafði á sínum tíma efasemdir um að þetta væri skynsamlegt. Ég og ýmsir fleiri inna ungmennafélagshreyfingunnar höfðu áhyggur af því að erfitt gæti verið að fá fólk til þess að koma á svona mót um þessa miklu skemmtanahelgi. Ég óttaðst líka að sú samkeppni myndi leiða til þess að meiri áhersla yrði á aðkeypta skemmtikrafta og íþróttakeppnin sjálf yrði aukaatriði.

Þessi ákvörðun hefur nú fyrir lögnu sannað sig og reynslan hefur sýnt að var mikið framfaraskref fyrir Unglingalandsmótin og Ungmennafélaghreyfinguna. Ég fagna því að sjálfsögðu og hef mikla ánægu af því að fylgjast með hvað þetta eru mikið skemmtileg mót. Ekki síst akkúrat um þessa helgi.

Ég er haldinn þeirri sérvisku að hafa litla löngun til þess að sækja útihátíðir. Ég hef aldrei kunnað vel við mig í fjölmenni. Góða veðrið um helgina nýttum við Kolbrún til þess að mála þakkantinn á íbúðarhúsinu. Það verkefni var eftir frá því að húsið var gert upp að utan í fyrra haust. (sjá Húsabætur () og "Fyrir og eftir" myndir () )

Samt sem áður var nú aðeins farið í bíltúr. Þá voru valdar leiðir sem ekki eru fjölfarnar. Í gær t.d. fórum við með Erlu og Kristni inn að Skjaldbreið. Fórum línuveginn frá Uxahryggjaleið inn á Haukadalsheiði og þaðan niður í Haukadal. Þessa leið hef ég ekki farið áður. Fyrir Flóamannin virkar langslagið fyrst og fremst gróðurlaust. Eða eins og Kolbrún orðaði það þá var þarna að sjá mikið af engu. emoticon

Það er samt alltaf áhugavert að fara um landið og sérstaklega þar sem maður hefur ekki komið áður. Það var t.d. gaman að sjá fjöllin hinum megin frá sem skarta sínu fegursta í fjallahringnum í norðurátt héðan úr Flóanum.




  • 1
Flettingar í dag: 132
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 94
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 131308
Samtals gestir: 24048
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 12:06:25
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar