Í Flóanum

Færslur: 2013 Nóvember

27.11.2013 23:36

Grænn opal

Ekki veit ég hvort þeir sem viðstaddir voru útför föður míns, Sveins Þórarinssonar, í Selfosskirkju í gær veittu því eftirtekt að á meðal blóma lá á kistunni einn pakki af grænum opal. Opalpakkin lá þarna allan tíman sem athöfnin fór fram og var borinn með kistunni út úr kirkjunni að athöfn lokinni.


Margt fallegt og gott er hægt að minnast á og segja frá um hann pabba. Það var gert í gær bæði í  minnarorðum prestsins sem og í samtölum við fjölmarga að athöfn lokinni og í minnargreinum sem ritaðar voru. Ekkert fannst mér ofaukið af því sem sagt var. Allt þetta fannst okkur, nánustu ættingum, vel viðeigandi enda var verið að kveðja mann með stórt hjarta sem kunni á sinn hátt að láta sér finnast vænt um fólk.


Eitt af persónueinkennum  pabba var hvað hann hafði mikið dálæti af börnum og lét sér velferð og hamingju þeirra sig varða. Þetta höfum við afkomendur hans fengið að njóta mann fram af manni í hverri kynslóð.


Nú hin seinni ár hafa það aðallega verið barnabarnabörnin hans sem þess hafa notið. Þau eru í dag orðin 14 talsins. Hann lagði sig fram um það að kynnast þeim hverju og einu og myndaði sérstök persónuleg tengst við hvert og eitt þeirra á þeim forsendum sem hentaði hverju fyrir sig.


Systkinin í Jaðarkoti hafa notið þess í ríku mæli þar sem þau búa í nálægð við langafa sinn og langömmu. Þau hafa gjarna skokkað yfir túnið og heimsótt "langa og löngu" . Yfirleitt fer þó aðeins eitt í einu og það passaði "langa" best. Þá gat hann  einbeitt sér að gestinum. Og það var ekki slegið slöku við. Það var smíðað, lesið, spilað, spjallað saman eða hvað eina sem fundið var upp á. Og "langi" var óþrjótandi í því að finna verkefni sem voru til þess fallinn að styrkja tengslin og þroska barnið.


Þegar svona náinn einstakingur fellur svo frá er skarð fyrir skildi. Börnin sakna langafa sins og það eru margar spurningar sem þarf að svara. Við sem fullorðin eru reynum að vera þeim innan handa við að leysa úr flóknum spurningum og hughreysta þau og styrkja. En stundum snýst svo dæmið við og það eru börnin sem koma með einföldu lausnirnar og eru okkur ekki síður stoð og stytta.


Hann Arnór Leví sex ára  sonarsonur minn í Jaðarkoti átti eins og öll hin barnabarnabörnin hans "langa" alveg sérstakt samband við langafa sinn. Þeir eru ófáir dagarnir sem þeir hafa brallað saman og báðir hafa haft af því ómælda ánægju. Þó það hafi ekki verið stíll "langa " að kaupa börnin með sælgæti þá átti hann oft í fórum sínum opalpakka sem hann fór sparlega með. Þessir opalpakkar voru m.a. geymdir þar sem útifötin voru geymd eða út í mjólkurhúsi og hugsanlega víðar.


Það var svo oftar en ekki þegar þeir félagar kvöddust, kannski eftir að hafa verið tveir saman að smíða eða gera eitthvað annað í einhverja klukkutíma, að opalpakkin var tekinn fram og  Arnór fékk sér einn opalmola áður en hann fór heim.


Foreldrar langafa barnanna hans pabba fannst ekki rétt að leggja á þau að vera við alla útförina hans. Þess í stað komu þau í kirkjuna áður en útförin fór fram. Presturinn talaði við börnin og þau komu að kistunni og kvöddu langafa sinn í hinsta sinn.


Þegar fjölskyldan í Jaðarkoti var á leiðinni í kirkjuna í gærmorgun bað  Arnór skyndilega um að það yrði stoppað í sjoppu. Það þyrfti nauðsynlega að kaupa einn pakka af opal. Það var gert og síðan var farið í kirkjuna. Þar voru samankomin flest (ekki þau allra yngstu) barnabarnbörnin hans pabba ásamt foreldrum sínum og prestinum.


Þarna kvöddu þau langafa sinn hvert með sínum hætti áður en útförin sjálf fór fram. Arnór var allveg með á hreinu hvernig hann ætlaði að bera sig að . Hann hlustaði á allt sem sagt var en þegar hann gekk svo að kistunni setti hann hljóður opalpakkan ofan á eitt hornið á kistunni.


Hann skeytti því engu hvað aðrir voru að gera eða hvernig þeir höguðu sér í þessari stuttu athöfn. Þetta var á milli hans og "langa".  Hann skyldi vel að hann gat ekki talað við langafa sinn því hann var dáinn. En þetta var hans aðferð til að sýna hvað allar stundirnar sem þeir voru búnir að eiga saman voru dýrmætar og þetta var hans aðferð til þakka fyrir sig og kveðja langafa sinn.


Þess vegna var það ekki minna viðeigandi, en allt sem sagt var og hugsað, blómin, hátíðleikin, tónlistin og hvað eina í þessari útför, þessi græni opalpakki sem á kistunni lá

26.11.2013 01:00

Sveinn Þórarinsson f. 6. sept. 1931 d. 11. nóv 2013 (langi)


 
   Sveinn Þórarinsson fæddist í Fagurhlíð í Landbroti V-Skaft. 6. sept.1931. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 11. nóv. 2013.

    Foreldrar hans voru Elín Guðbjörg Sveinsdóttir frá Reyni í Mýrdal f. 7. júlí 1898, d. 29. des. 1993 og Þórarinn Auðunsson frá Eystri-Dalbæ Landbroti f. 15. maí 1892, d. 24. júní 1957.

    Systur Sveins  voru: Valgerður Þórarinsdóttir húsmóðir  f. 18. júlí 1922, d. 7. júlí 2006. Guðlaug Guðný Þórarinsdóttir sérleyfishafi  f. 7. des. 1925. og Ólöf Þórarinsdóttir handavinnu-og íþróttakennari  f. 18 sept. 1928, d. 2 okt. 2013.

    Sveinn kvæntist 20. okt 1956 Höllu Aðalsteinsdóttur grunnskólakennara f. 25 nóv 1935. í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.  Börn þeirra eru:

 

    1. Þórarinn f. 3. ágúst 1957 prófessor við Háskóla Ísland, maki Kristjana Gunnarsdóttir f. 1959 deildarstjóri hjá Velferðarsviði Reykjavikurborgar. Börn þeirra eru:

    a) Sveinn f. 1979 sérfræðingur hjá Landsbankanum, maki Dagný Franklínsdóttir f. 1977 viðskiptastjóri hjá  Creditinfo  Þeirra börn eru Jökull f. 2005  og Þóranna f. 2008.

    b) Edda Sólveig f.1994 nemi í Flensborgarskóla


 

    2. Aðalsteinn f. 10. janúar 1959 bóndi í Kolsholti 1 Flóahreppi,  maki Kolbrún J. Júlíusdóttir  f. 1961 bóndi. Börn þeirra eru:

    a) Hallfríður Ósk. f. 1980 aðstoðarleikskólastjóri í Flóahrepp, maki Jón Valgeir Geirsson f. 1975 verktaki. Þeirra börn eru: Kolbrún Katla f. 2001, Hjalti Geir f. 2006 og Ásta Björg  f. 2010.

    b) Sigmar Örn f. 1983 verktaki og bóndi í Jaðarkoti Flóahrepp, maki Sandra Dís Sigurðardóttir f. 1986 bóndi og matráður. Þeirra börn eru: Aldís Tanja f.2005, Arnór Leví f. 2007 og Hrafnkell Hilmar f. 2010. 

    c) Erla Björg f. 1987 umhverfisskipulagsfræðingur. maki Kristinn Matthías Símonarson f. 1984 sem rekur  véla- og bíla- og sprautuverkstæði í Kolsholti. Barn þeirra er : Steinunn Lilja f. 2013


    3. Elín Bjarnveig f. 3. janúar 1960 bóndi í Egilsstaðakoti Flóahrepppi, maki Einar Hermundsson  f. 1955 bóndi. Börn þeirra eru:

    a) Guðbjörg Hulda f. 1981 hjúkrunarfræðingur hjá Kópavogsbæ, maki  Kári Ólafsson f. 1981  lögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þeirra barn er  Ólafur Veigar. f. 2008.

    b) Þorsteinn Logi  f. 1982 bóndi í Egilsstaðakoti í Flóahrepp, maki. Cathy Krentel f.1990 bóndi og nemi við Háskólann á Akureyri.Barn Þorsteins er Luca Elías f 2012 búsettur í Þýskalandi.

    c) Halla f. 1983 verkfræðingur hjá Umhverfisstofnun, maki Ragnar T. Ragnarsson f 1985 nemi í hagnýtri ritstjórn við Háskóla Íslands.

    d) Laufey f. 1989 hjúkrunarfræðinemi við Háskóla Íslands.

    d) Sveinn Orri f. 1996 nemi í Fjölbrautarskóla Suðurlands.

    
    4. Alda Agnes f. 3. maí 1961 leikskólastjóri í Hafnafirði. Hennar börn   

    a) Stefán Ágúst. f. 1981 læknir hjá Landspítala/Háskólasjúkrahúsi, maki. Ragnheiður Halldórsdóttir f. 1986 hjúkrunarfræðingur.

    b) Agnes f. 1985 meistaranemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, maki Böðvar Stefánsson f. 1981 smiður. Börn þeirra: Embla María f. 2005 og Nökkvi Marel. f. 2008.

    c) Aðalsteinn f. 1990 blaðamaður hjá DV, maki Erna Hrund Hermannsdóttir f. 1989 förðunarfræðingur  Barn þeirra er Tinni Snær. f. 2012.


Langi ásamt bræðrunum í Jaðarkoti og Söndru í víðavangshlaupi Umf. Vöku sumardaginn fyrsta s.l.

    Sveinn elst upp í Fagurhlíð til ársins 1940. Þá flytur hann með foreldrum sínum að Skeggjastöðum í Mosfellssveit og að Úlfarsá í sömusveit 1944. Árið 1945 flytja þau svo að nýbýlinu Láguhlíð í Mosfellssveit sem foreldra hans byggðu upp. Sveinn gekk 3 vetur í Barnaskólann að Brúarlandi Mosfellssveit og var síðan í hópi 18 nemenda sem hófu nám við Unglingaskóla Mosfellsskólahverfis veturnar 1947-1948 og 1948-1949.


    Sveinn starfaði við bú foreldra sinna frá barnæsku. Hann var tímabundið við störf hjá Ræktunasambandi Kjalarnesþings á árunum 1948-1950. Var með rekstur á vörubíl, mjólkurbíl eða hópfeðabíl á árunum1950-1956. Hann starfaði í íhlaupum hjá Bifreiðarverkstæðinu Lágafelli 1953-1956 og hjá Kaupfélagi Kjalarnesþings á árunum 1965-1967.  Í ársbyrjun 1957 tekur hann við búi foreldra sinna í Láguhlíð. Sveinn og Halla  kaupa svo jörðina Kolsholt 1 og eyðibýlið Jaðarkot í Flóanum árið 1969 og hafa búið þar síðan.

    
    Sveinn starfaði að ýmsum félagsmálum í gegnum tíðina. Hann tók virkan þátt í starfi UMF Aftureldingar, var þar í stjórn á árunum 1949-1957 og í stjórn UMSK árið 1953. Hann var einn af stofnendum Framsóknarfélags Kjalarnesþins 1949 og í stjórn þar um tíma. Hann var  einnig í hópi stofnenda Kaupfélags Kjalarnesþings árið 1950 og í stjórn þess árin 1963-1969.  Hann var formaður Búnaðarfélags Mosfellssveitar 1964 -1969 og í stjórn Búnaðfélag Villingaholtshrepps 1971-1986.  Sveinn var fulltrúi í fulltrúaráði MBF árin 1976-1996 og sat í hreppsnefnd Villingaholtshrepps árin1978-1994.

    Útför Sveins fer fram frá Selfosskirkju í dag, 26. nóvember og hefst athöfin kl 13:00

  • 1
Flettingar í dag: 173
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 72
Gestir í gær: 8
Samtals flettingar: 126897
Samtals gestir: 22932
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 18:54:56
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar