Í Flóanum

Færslur: 2014 Febrúar

28.02.2014 23:03

Daginn lengir

Í morgun kom sólin upp yfir Mýrdalsjökli, héðan að sjá, um kl hálf níu. Þegar ég kom inn úr morgunmjöltun um áttaleitið var samt orðið albjart og morgunroðinn lýsti upp austurhimininn.



Þó það sé enn mið góa og talsvert eftir af þessum vetri, er samt ýmislegt sem minnir á að vorið mun koma að honum loknum eins og öllum öðrum vetrum. Það er hægt að treyst því orðið held ég alveg.

Í gærkvöldi heyrði ég í álftinni en hún er sá farfugl sem maður verður fyrst var við hér þegar vetri tekur að halla. Þó ég og álftin séum nú engir sérstakir mátar  ( Byggið, þurkurinn, rigningin og loftárásir () og Svanasöngur..... ()) var það ekki efst í mínum huga þegar ég heyrði í henni í gærkvöldi. Það sem mér datt í hug var að nú fari senn að vora. emoticon  

23.02.2014 08:11

Meira smjör!

Þegar ég var að alast upp var uppgangur í búskap í landinu. Það var í hverri sveit verið að puða við að stækka tún. Það var verið að byggja fjós og fjárhús vítt og breytt um landið. Lífsbaráttan gekk út á að framleiða meiri mjólk og meira kjöt. Það var sú einfalda leið til að auka tekjur og afkomu búanna.

Að vísu gekk það ekki alltaf eftir. Tíðafarið hafði afgerandi áhrif og miklu meira en nú er með nútíma tækni og afurðamagnið sveiflaðist til og frá. Afurðir voru aldrei greiddar fullu verði fyrr en eftir á þegar afkoma afurðastöðvanna lá fyrir og hvort s.k. útflutningsuppbætur væru í samræmi við veruleikan sem þær áttu að takast á við.  Það lá, ef ég man rétt, ekki fyrir fyrr en í apríl hvert endanlegt afurðaverð var fyrir næst liðið ár.

Samt sem áður var bjartsýni ráðandi. Ef illa gekk eitt árið hertu menn bara enn róðurinn og reyndu að auka framleiðsluna til að takast á við áföll úr fortíð og í framtíð. Fyrir mig ungan manninn, á þeim árum, virkaði þetta áhugavert og ögrandi verkefni. 

En það var svo um það leiti sem ég hóf formlega þátttöku í búskapnum hér á bæ að menn áttuðu sig á því að í óefni var komið. Það var einfaldlega ekki hægt að tryggja afurðaverð fyrir afurðir sem ekki var markaður fyrir. Það hlóðust upp kjötfjöll og smjörfjöll sem enginn vildi bera kostnað af.

Þá var farið í ýmsar aðgerðir til að minnka framleiðslu. Það voru settar stærðartakmarkanir á þau útihús sem "Stofnlánadeildin" (sáluga) mátti lána út á og í kjölfarið var einnig farið að verðtryggja öll lán. Síðan voru teknar upp framleiðslutakmarkanir með ýmsum hætti og til urði hugtök eins og kvóti, búmark, ærgildi, kúgildi, greiðslumark og e.t.v. einhver fleiri sem ég man ekki nú

Þessar takmarkanir voru með ýmsu móti og misgáfulegar. Þeim fylgdu allskonar reglur og regluverk til draga úr göllum þeirra og þær náðu markmiðum sínum mis vel. Þetta hefur samt verið hluti af veruleikanum allt fram til þessa nú tæplega fjörutíu árum síðar.

Nú bregður svo við, aftur á móti, að framleiðslutakmarkanir eiga ekki lengur við. Það vantar meiri mjólk fyrir innanlandsmarkaðinn og skortur á smjöri hefur þegar valdið kúabændum tjóni. Þetta er alveg nýr veruleiki fyrir flesta en getur verið áhugavert tækifæri.  

Ég vil nú ekki spá til um það hvað langt verður í það að takmarka verður framleiðsluna aftur en þykist vita að íslenskir kúabændur geta vel framleitt það magn sem innanalandsmarkaðurinn þarf á að halda. Það er reyndar stærra verkefni en svo, að auka framleiðsluna eins og þörf er nú, að það verði gert á nokkrum vikum.   emoticon



15.02.2014 16:35

Tannfé..... framh..

Þessi mynd átti að fylgja með síðasta bloggi en þegar ég ætlaði að skanna hana inn virkuðu ekki græurnar. Þar sem ég er nú enginn tölvuséní varð ég frá að hverfa í það skiptið.  



Á myndinni er Erla Björg, móðir hennar Steinunnar Lilju; vorið 1988 þegar hún tók á móti sínu tannfé.emoticon

14.02.2014 08:14

Tannfé

Hún Steinunn Lilja dótturdóttir mín kom hér í gær. Hún átti erindi við afa sinn og ömmu út í fjárhúsi. Það var tímabært að innheimta tannfé þar sem nú er kominn tönn.



Það tilheyrir fjárbúskapnum hér á bæ að allir sem að honum standa fá sína fyrstu gimbur þegar fyrsta tönnin lítur dagsins ljós. Þannig eignaðist ég mína fyrstu kind og síðan einnig börnin mín öll og svo nú barnabörnin. 

Steinunni leiddist nú ekki að koma í fjáhúsið og á ég von á því að hún eigi nú eftir að taka þar til hendinni í framtíðinni. emoticon
  • 1
Flettingar í dag: 139
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 130853
Samtals gestir: 23915
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 18:26:56
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar