Í Flóanum

16.02.2011 07:35

Að hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi

Stundum blöskrar manni alveg sá málflutningur sem stjórnmálamenn geta boðið upp á. Það á við um margt af því sem sagt hefur verið Umhverfisráðherra til varnar eftir að dómur Hæstaréttar féll á fimmtudag s.l. Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms þar sem ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um synjun á staðfestingu á aðalsskipulagi í Flóahreppi var dæmd ólögleg. 

 Umhverfisráðherra sjálfur sem og Forsætisráðherra og ýmsir aðrir hafa varið lögbrot ráðherra gegn Flóahreppi og  íbúum hans með þeim orðum að nauðsynlegt hafi verið að skera úr lagaóvissu. Lögbrot ráðherra hafa einnig verið réttlæt  með þvi að standa hafi þurft  við þá pólitík sem ráðherra segist hafa verið kosin til ...?????

Varðandi lagaskýringarnar þá liggur fyrir að Flóahreppur er ekki fyrsta sveitarfélagið sem afgreiðir aðalskipulag þar sem stórir framkvæmdaaðilar hafa komið að með einum eða öðrum hætti að gerð þess og greitt kostnað við vinnu þess. Skipulagsstofnun sem fer með leiðbeiningarskyldu og eftirlit með skipulagsvinnu sveitarfélaga hefur aldrei gert athugasemdir við slíkt.  Það hefur ekki staðið í Umhverfisráðherrum fram til  þessa  að staðfesta slík skipulög.  Núverandi ráðherra hefur staðfest slík aðalskipulög án nokkurra athugasemda nema þegar kom að því að staðfesta aðalskipulagið í Flóahreppi.

Nú má vera að ráðherra hafi þótt þetta óeðlilegt að þetta væri með þessum hætti.  Þá er að sjálfsögðu eðlilegast að leggja til við Alþingi að breyta lögum á þann hátt að þetta verði með skýrum hætti bannað.  Það reyndi ráðherra reyndar að gera.  Alþingi félls hinsvegar ekki á þessa breytingu.  Þar á bæ var sú skoðun ofaná  að það væri ekki sanngjarnt  að sveitarfélög bæru ein allan kostnað við skipulagsvinnu vegna stórframkvæmda.  Þetta væri í raun hluti af undibúningakosnaði við framkvæmdina sjálfa.

Þessi niðurstaða  Alþingis lá fyrir þegar ráherra gat ekki sætt sig við niðurstöður Héraðsdóms og áfrýjaði málinu til Hæstaréttar með þeim orðum að rökstuðningur Héraðsdóms væri ekki nógu skýr og um einhverja lagaóvissu væri að ræða.  Samt var Alþingi búið á þessum tíma að endurskoða skipulagslögin og í stað þess að setja í lögin bann við kostnaðarþátttöku framkvæmdaaðila er nú með beinum hætti sagt að hún sé leyfileg.

Það lá sem sagt fyrir að lögin sem ráðherra vildi fá skýrð betur  með því að áfrýja til Hæstaréttar og eyða lagaóvissu voru orðin úrelt og Alþingi sjálft var búið að taka á málinu ef um einhverja  lagaóvissu hafi verið að ræða. Niðurstaða Alþingis var að vísu ekki í samræmi við væntingar ráðherra en getur það  réttlætt það að brotið sé á Flóahreppi og íbúum hans?

 Það hefur einnig verið nefnt  ráðherra til varnar að hún hafi verið kosin til starfa vegna sinna póítísku skoðana og hún taki afstöði samkvæmt þeim. Forsætisráðherra hefur einnig sagt að það sé ekki stefna ríkistjórnarinnar að virkja í Neðri-Þjórsá og samkvæmt því sé embættisfærsla umhverfisráðherra í málinu eðlileg og ekki aðfinnsluverð.

Fyrst að það er tilfellið þá vil ég spyrja:

-Afhverju er verið að leggja fyrir sveitarstjórn Flóahrepps að gera ráð fyrir Urriðafossvirkjun í aðalskipulagi?  Vatnsréttinn sem þar á að virkja er í eigu íslenska ríkisins og eru það ekki stjórnvöld hverju sinni sem ráða því hvort og hvenær ráðist verður í virkjun?

-Afhverju er verið að láta vinna rammaáætlun og sífellt verið að vitna í hana varðandi virkjanaáform ef það á fyrirfram að útiloka Urriðafossvirkun í aðalskipulagi Flóahrepps. Ef rýnt er í það efni sem í rammáætlun er búið að vinna og birta opinberlega virðast fáar vatnsaflsvirkjanir líklegri en Urriðafosvirkjun að flokkast í nýtingarflokk.

-Afhverju á Flóahreppur ekki að taka mark á úrskurði Umhverfisráðherra um umhverfismatskýrslu Urriðafossvirkunnar þar sem falllist er á virkjun með ákveðnum skilyrðum.

-Afhverju staðfestir Umhverfisráðherra skipulag í Ásahreppi, Rangárþingi ytra, og Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem gert er ráð fyrir Urriðafossvirkjun en bara ekki í Flóahreppi.  Samkvæmt lögum á Umhverfisráðherra m.a. að gæta þess að samræmi sé í skipulagáætlunum milli sveitarfélaga og óheimilt er að staðfesta aðalskipulag sem er í ósamræmi við aðalskipulag aðliggjandi sveitarfélaga.

-Afhverju  er allri þessarri vinnu ekki einfaldlega hætt og hún slegin út af borðinu af stjórnvöldum Íslands í stað þess að brjóta lög á einu sveitarfélagi og valda því og íbúum þess skaða eingöngu að því að virðist til þess að tefja málin.

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur fjallað um Urriðafossvirkjun á aðalskipulagi vegna þess að Landsvirkjun í umboði stjórnvalda fór fram á að það yrði gert. Fyrir lá mat af umhverfisáhrifum virkjunarinnar og úrskurður Skipulagsstofnunnar og Umhverfisráðuneytisins þar sem fallist er á fyrirhugaða virkjun en ákveðin skilyrði sett um mótvægisaðgerðir vegna umhverfisáhrifa.

Það lá einnig fyrir að Umhverfisráðuneytið var búið að staðfesta aðalskipulög í þremur sveitarfélögum þar sem gert er ráð fyrir Urriðafossvirkjun.  Það er skýrt tekið fram í skipulagslögum að sveitarstjórnir skulu láta vinna aðalskipulög fyrir allt land innan sveitarfélagsmarka sinna. Einnig er tekið skýrt fram í sömu lögum að óheimilt er að samþykkja aðalskipulög sem  stangast á við þegar staðfest aðalskipulög í aðliggjandi sveitarfélögum.

Ef sveitarstjórn sem er að vinna aðalskipulag getur ekki sætt sig við það skipulag sem  þegar er búið að staðfesta í aðliggjandi sveitarfélagi þá er skipulagi á því svæði frestað og skipuð nefnd allra sveitarfélaganna sem aðild eiga að svæðinu ásamt oddamanni frá Skipulagsstofnun. Nefnd þessari er ætlað að ljúka skipulagi á umræddu svæði og hefur til þess afmarkaðan tíma.

Sveitarstjórn Flóahrepps á þessum tíma taldi sig hafa um tvo kosti að ræða varðandi Urriðafossvirkjun.  Annars vegar að fallast ekki á virkjunina og framselja skipulagsvaldið á svæðinu til nefndar þar sem Flóahreppur myndi hafa 2 fulltrúa, hin sveitarfélögin þrjú sem um ræðir hefðu 6 fulltrúa og skipulagsstofnun 1 fulltrúa.

Hin leiðin var sú að beita sér með beinum hætti í því að því að minnka neikvæð umhverfisáhrif vikjunarinnar og freista þess að tryggja sem best að jákvæð áhrif af framkvæmdinni yrði samfélaginu hér á staðnum til framdráttar og eftir atvikum og árangri í þeirri vinnu að fallast á virkjun í aðalskipulaginu.

Á meðan aðalskipulagið var í vinnslu hjá Flóahreppi náðist árangur í ýmsum málum frá því að Umhverfisráðherra úrskurðaði um umhverfismatið sem kom til viðbótar við þau skilyrði sem sett voru varðandi mótvægisaðgerðir.  Þetta voru atriði sem snertu bæði áhrif á lífríki, samfélag og efnahag svæðisins og skipta öll máli þegar verið er að vega og meta kosti þess að virkja.

·         Umfang virkunarinnar var minnkað verulega með lægra yfirborði á inntakslóni. Inntakslónið var allt fært út í núverandi árfarveginn. Með minna vatnsmagni í lóninu og örara vatnsstreymi þar í gegn minnkar bæði hætta af flóðum og setmyndun í lóninu. Ekkert gróið land í sveitarfélaginu fer undir lón.

·         Hættumat var unnið og gengið úr skugga um að hætta fólks vegna hugsanlegra flóða myndi ekki aukast vegna virkjunarinnar. Í mörgum tilfellum reyndist hún frekar minnka.

·         Gerður var samningur við Landsvirkjun um ýmsar mótvægisaðgerðir sem allar miða að því að styrkja samfélagið hér á svæðinu til búsetu. Lögð var á það áhersla af hálfu Flóahrepps að semja um að farið yrði í framkvæmdir sem nýttust samfélaginu öllu.

·          Stjórn Landsvirkjunnar gaf út að orkan úr virkjunum í Neðri-Þjórsá yrði ekki seld til nýrra álvera. Aðrir orkukaupendum áttu að hafa hér forgang og stuðlað skyldi að fjölbreyttari atvinnustarfsemi og umhverfisvænni.

Eftir að sveitarstjórn hafði einnig verið upplýst um hvernig staðið yrði við skilyrði þau sem Skipulagsstofnun og Umhverfisráðherra settu í úrskurði sínum um umhverfismatið féllst sveitarstjórn á að gera ráð fyrir virkjuninni á aðalskipulaginu.

Eftir að aðalskipulagstillagan var síðan búin að fara í gegnum hefðbundið auglýsingaferli, búið var að taka afstöðu til þeirra athugasenda sem bárust og svara þeim var aðalskipulagið samþykkt samhljóða í sveitarstjórn  4. des 2008. Skipulagsstofun fékk þá aðalskipulagið til skoðunnar. Hún fór yfir öll gögn og vinnubrögð  sveitarstjórnar  og mælti síðan með því við ráðherra að staðfesta skipulagið.

Eftir tæpt ár frá því að skipulagstofnun afgreiðir skipulagið frá sér til ráðuneytisins kemur svo loks niðurstaða ráðherra í þá veru að neita að staðfesta skipulagið eins og það liggur fyrir.  Ráðherra er að vísu tilbúin að staðfesta sumt  en ekki að því leiti sem snýr að Urriðafossvirkjun.

Það virtist nokkuð augljóst að sú leið sem ráðherra bauð upp á að fara til þess að geta sloppið við að staðfesta  Urriðafossvirkjun á aðalskipulagi Flóahrepps var ekki lögum samkvæmt.  Örstuttu áður hafði þessi sami ráðherra staðfest nýtt aðalskipulag í Rangárþingi ytra þar sem gert er ráð fyrir umræddri Urriðafossvirkjun.  Sveitastjórn Flóahrepps gat ekki fallist á að taka þátt í lögleysu þessari og ákvað að höfða mál til þess að hnekkja þessari ákvörðun ráðherra.

Ég get vel skilið það að það geti orkað tvímælis hvað og hvar eigi að virkja. Ég get einnig skilið það að skiptar skoðanir eru um það. Ég get hinsvegar ekki skilið það að ráðherra sem vill ekki að einhver ákveðin virkjun sé byggð skuli þá ekki beita sér gegn því í ríkisstjórninni sjálfri og á Alþingi. Í stað þess kýs ráðherra að ráðast á garðinn þar sem hann telur að hann sé lægstur og reynir að gera vinnu sveitarstjórnar í einu sveitarfélagi tortryggilega. Ráðherra segist með því ætla að standa við þá pólitík sem hún er kosin fyrir.

Mér finnst eins og það sé komið fyrir Svandísi Svavarsdóttur Umhverfisráðherra svipað og þeim sem sagt var um að "þeir hefndu þess í héraði sem hallaðist á alþingi".  Þarna mun reyndar  vísað til þess að menn töldu sig geta verið djarfari á heimaslóðum en annarsstaðar.

Er hugsanlegt að vegna þess að Svandís hafi ekki getað komið sínum málum fram í ríkisstjórn og Alþingi hafi hún talið sig geta staðið upp í hárinu á sveitarstjórnarmönnum austur í Flóa. Ef svo er, þá hefur hún vanmetið Flóamenn.

Kúgaðu fé af kotungi,
svo kveini undan þér almúgi; 
þú hefnir þess í héraði,
sem hallaðist á alþingi    

            ( lausavísu eftir Pál lögmann Vídalín (d.1727))

Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 94
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 131332
Samtals gestir: 24054
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 16:46:49
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar