Í Flóanum

19.03.2011 07:45

Gömul saga

Svanur í Dalsmynni á Snæfellsnesi setti hér inn álit við síðustu færslu. Mér þótti það skemmtilegt að fá kommet frá honum en Svanur er einn allra skemmtilegasti bloggari sem ég les.  http://dalsmynni.123.is  Þó ég eigi nokkra ágæta kunninga og vini á Snæfellsnesinu og komi þar stundum er ég ekki viss um að við Svanur höfum nokkurn tíman hist. Þó skal á það minnst að ég er bæði ómannglöggur og gleymin.

 Það rifjast nú samt upp fyrir mér að ég hef einu sinni komið heim á hlað í Dalsmynni.

Það var fyrir réttum 32 árum síðan. Ég var þá við nám á Hvanneyri og nýlega orðinn tvítugur. Við nemedur skólans höfðum staðið í ströngu við að æfa upp leikrit sem frumsýnt var á árlegri marshátíð. Hátíðin fór fram ef ég man rétt í félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit.  Að lokinni leiksýningu var dansað og skemmt sér eitthvað fram eftir nóttu.

Ágæt skólasystir mín og góð vinnkona hafði komið í skólann þessa viku á bíl móður sinnar sem var Moskvíts árg. 1972. Hún þurfti að skila bílum aftur þessa helgi en þau bjuggu  þá í Stykkishólmi. Við tókum það ráð að fara beint af hátíðinni vestur með bílinn og ætlunin var að koma til baka á Hvanneyri með rútunni daginn eftir.

Við lögðum af stað um miðnætti frá Brún. Veðrið var nú engann veginn heppilegt til ferðalaga. Bæði var talsvert frost og snjókoma með skafrenningi. Við vorum búinn að frétta það að Kerlingaskarðið  væri ófært en töldum hægt að komast Heydalinn vestur.  Á þessum árum var nú ferðakvíði ekki að þvælast fyrir manni og við höfðum ofurtrú á Moskanum.

Þegar þetta var þá lá vegurinn vestur Mýrarnar allur í hlykkjum. Þetta var malarvegur sem stóð lítuð upp úr umhverfinu og var niðurgrafinn á köflum. Þrátt fyrir það gekk ferðin nokkuð vel.  Það snjóaði og skóf stanslaust. Við skiptumst á að keyra og rýna út í myrkrið og snjóbylinn.  Það munaði litlu að við færum fram hjá vegamótunum við veginn inn á Heydalinn en það var orðið þá svo blint að erfitt var að sjá vegmerkingarnar.

En nú tók færðin að þyngast og eftir að hafa djöflað Moskanum í gegnum hvern skafinn af öðrum fórum við að átta okkur á því að þetta var nú engann vegin skynsamlegt ferðalag.  Við ákváðum því að snúa við áður en við festum bílinn endanlega í óbyggðum og freista þess að koma honum frekar  vestur að Vegamótum.

Við komumst til baka og eitthvað vetur yfir Haffjarðaána en snjó var nú töluvert farin að festast á veginum. Það endaði svo á þann eina veg sem gat orðið við þessar aðstæður að Moskinn sat pikk fastur í skafli á veginum og komst ekki lengra.

Við vissum að það var ekki mjög langt síðan við fórum fram hjá veginum niður að Laugagerðiskóla og okkur sýndist við sjá ljósin þar. Einnig greindum við ljós norðan og/eða austan við okkur en erfitt var að greina hvað það var langt í burtu. Ég hafði aðeins einu sinni áður komið á þessar slóðir en það var vorið sem ég fermdist en þá fór ungmennfélagið í rútuferð um Snæfellsnesið.

Klukkan hefur eflaust verið um þrjú eða eitthvað farin að ganga fjögur um nóttina þegar þetta var.  Eftir að hafa gert tilraun til þess að ganga af stað til bæja var það niðurstaða okkar að bíða frekar í bílnum þar til birti. Þegar líða fór að morgni hætti að snjóa og hann létti til. Þegar birta tók, blast við okkur bær beint fyrir framan bílinn nokkuð hundruð metra í burtu.

Strax og við vorum var við hreyfingu á bænum og lagði ég af stað gangandi þangað til þess að freista þess að fá einhverja hjálp við að losa bílinn úr skaflinum. Skólasystir mín varð eftir í bílum ef einhver skyldi eiga leið um veginn á meðan sem gæti dregið okkur upp.

Þegar ég kom heim að bænum kom þar til dyra kona ein sem strax bar með sér að hún gæti leyst hvers manns vanda, allavega ef hún kærði sig um. Ekki veit ég hvað hún hugsaði um þennan drengstaula sem var að þvælast þarna illa búinn, í snarvitlausu veðri, eldsnemma að morgni, um hávetur, en hún tók málaumleitan minni mjög vel.

Hún vildi endilega bjóða mér eitthvað að borða eða drekka en ég kunni alls ekki við að þiggja það þar sem vinkona mín beið enn í kuldanum út í Moskanum. Þess í stað spurði ég hana hvort á bænum væri einhver á jeppa eða traktor sem gæti dregið bílinn okkar upp úr skaflinum. Hún kvaðst geta reddað því og hringdi í snarhasti eitt símtal. Að loknu þessu símtali sagði hún mér að það væri maður á leiðinni að bílum að hjálpa okkur. Ekki spurði ég þessa ágætu konu að nafni en seinna var mér tjáð að þetta myndi hafa verið Margrét Í Dalsmynni.  Kann ég henni bestu þakkir fyrir skjót og góð viðbrögð við erindi mínu þennan marsmorgun, snjóaveturinn 1979.

Ég hraðaði mér til baka að bílum aftur og það passaði að þegar ég var þangað komin var þar mættu ungur og röskur maður á Bronko jeppa einum glæsilegum. Mig minnir að ég hafi séð hann koma frá Laugagerði. Ungi maðurinn var vel meðvitaður um að hann var á góðum bíl og var snöggur að kippa Moskanum upp úr skaflinum. 

Ekki vildi hann nú láta þar við sitja. Honum hefur vafalaust fundist þetta ferðalag hjá þessu pari heldur ógæfusamlegt og við yrðum fljót að koma okkur aftur í vandræði. Það varð því úr að hann fylgdi okkur vestur að Vegamótum. Vinnkona mín settist hjá honum inn í hlýann Bronkoinn sem keyrði svo á undan.  Hann keyrði á fullri ferð í gegnum hvern skafinn á fætur öðrum þannig að snjórinn þeyttist í allar átti. Ég kom svo á eftir á Moskanum og lét hann vaða í förin eftir jeppan. Þetta gekk stanslaust og vorum við komin vestur að Vegamótum á örskömmum tíma.

Þar kvöddum við þennan björgunarmann okkar. Ekki veit ég hver þessi maður er eða hvort hann keyrir  ennþá um á Bronkonum. Ef einhver sem les þetta og áttar sig á hver maðurinn er  má hann gjarnan bera honum kveðju frá mér með þakklæti fyrir hjálpsemina.

Á þessum tíma var veitingasalan á Vegamótum lokuð. Á hurðinni var miði sem á stóð að opnað yrði kl 12:00. Við vorum nú bæði gegnköld eftir veruna í bílum alla nóttina, glorhungruð, og ósofinn. Það var talsverður tíma í það að opnað yrði svo ég ákvað að berja að dyrum þar sem ég taldi að væri íbúð þarna á staðnum.  

Enginn kom nú til dyra en ég var ekki búin að berja lengi þegar glugga á húsinu var svift upp og kona ein sem virtist nývöknuð kom þar hálf út og jós yfir mig skömmum. Ekki setti ég á minnið hvað nákvæmlega hraut af vörum hennar en stutta útáfan af því var á þá leið að veitingasalan opnaði kl: 12 og hún vildi fá frið fyrir óþolandi viðskipavinum þangað til.

Ég hrökklaðist því til baka og bættust nú rúmir tveir tímar við dvöl okkar í Moskanum þennan sólarhringinn. Fljótlega eftir hádegi kom rútan frá Helga Pé. vestan af Nesi  á leið suður og skildum við nú Moskan eftir og tókum rútuna að Hvanneyri. Veðrið var nú allveg  gengið niður, það var sólskin og stillt en talsvert frost.

Rétt er að taka fram að síðan þetta var hef ég oft stoppað á Vegamótum og alltaf fengið góða og fína þjónustu.

Fyrir þá sem ekki þekkja framhald sögunnar þá má geta þess að þessi skólasystir mín og góð vinnkona á þessum tíma er enn að ferðast með mér. Nokkrum mánuðum eftir þetta flutti hún suður til mín í Flóann. Hún hafði þá tryggt sér eignarhald á Moskanum og kom á honum suður.

Nú 32 árum, tæplaga 30 ára hjónabandi, 3 uppkomnum börnum ,3 tengdabörnum og 6 barnabörum síðar erum við enn að takast á við verkefnin saman. Við erum að vísu fyrir nokkru hætt að ferðast um á Moskanum (í bili allavega) en höfum ýmislegt annað tekið okkur fyrir hendur saman á þessum árum.

Það vill nú svo til að hún heldur upp á afmæli sitt í dag og því kannski ekki úr vegi að nota tækifærið og þakka henni samfylgdina öll þessi ár. Jafmframt óska ég þess að við eigum eftir að vera samferða  áfram um ókomna framtíð. 


                                                                                          
Til hamingu með daginn Kolbrún mín!  emoticon

Flettingar í dag: 212
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 215
Gestir í gær: 24
Samtals flettingar: 127151
Samtals gestir: 22949
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 17:00:58
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar