Í Flóanum

19.03.2012 07:08

P 443

Fyrir réttu ári síðan rifjaði ég upp gamla ferðasögu hér á síðunni. Gömul saga () Tilefnið var að kona mín til margra ára, hún Kolbrún, átti stórafmæli og rifjaðist þá upp fyrir mér þessi saga frá fyrstu mánuðum í okkar sambandi. 

Nú er það svo að þegar maður hefur búið með sömu konunni í áratugi fer ekki hjá því að við erum farin að þekkja hvort annað bísna vel.  Ég get fullyrt það að það er  ekki  algengt að hún Kolbrún láti koma sér á óvart eða það að henni verði svarafátt. 

Þeim tókst það nú samt, Sigmari og Kristni, að koma henni í opna skjöldu í gær þegar fjölskyldan kom saman í tilefni þess að enn á ný var komið að afmælisdegi hjá móður og tengdamóður þeirra.  Og ég náði því meira að segja á mynd.

 

Síðustu vikur hafa þeir, með mikilli leynd,  gert upp gamlan Moskvítch. Þetta er samskonar bíll og sagt er frá í ferðasögunni sem ég nefndi hér fyrst. Þennan bíl, nær full uppgerðan og gljáfægðan, færðu þeir henni  svo í afmælisgjöf í gær. Afmælisdagurinn er reyndar í dag en þar sem fjölskyldan er mannmörg og upptekin í ýmsu, á virkum dögum frekar, var komið saman í gær í tilefni hans.




Það hefur  lengi verið draumur Kolbrúnar að eignast svona Moskvitch aftur. Meðal annarra verðmæta sem hér á bæ hafa leynst eru svona gamlir og lúnir Moskar. Ekki hefur mátt henda þessu því alltaf var meiningin að gera þetta upp.  Það hefur eins og ýmislegt annað sem manni hefur dottið í hug að gaman væri að gera dregist.

Sennilega var Kolbrún farin að reikna með því að aldrei yrði af þessu og þvi kom það henni gjörsamlega á óvart að þeir skyldu vera búnir að þessu og það án þess að hún vissi af því.

Nú þarf bara að koma bílum á skrá svo hægt sé að fara að ferðast á Moskanum aftur. Til þess að eiga nú einhvern þátt í þessu gamani þá ákvað ég að gefa henni Kolbrúnu númeraplötur á bílinn og hafa þær nú verð pantaðar.  Það kom að sjálfsögu ekkert annað til greina en að setja á gripinn  gamla númerið sem var á Moskanum sem  hún eignaðist fyrir 33 árum:  P 443 

 

 

 

Flettingar í dag: 116
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 94
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 131292
Samtals gestir: 24040
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 10:44:50
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar