Í Flóanum

30.08.2012 07:15

Háin og byggið

Í þessari viku hefur veðrið verið þurrt en kalt. Það er norðanátt. Þó hér hafi varla frosið sem heitið getur er jörð loðhrímuð núna í morgunsárið. Höfuðdagur var í gær og nokkuð ljóst að nú fer að hausta.

Hér á bæ höfum við verið að keppast við að ná hánni. Þó heymagnið sé kannski ekki mikið af seinni slætti í ár er þetta nokkurn vegin jafn mikil vinna og áður. Á þriðjudag var full hvasst og lítð hægt að hreyfa hey. Eitthvað fauk út í veður og vind eftir þvi sem heyið þornaði meira en það reyndar slapp nú að mestu.

Ég var svo megnið af deginum í gær að raka saman. Það flýtti ekki fyrir að það sprakk á rakstaravélinni í miðgum klíðum. emoticon Þegar klukkan var farin að ganga 11 í gærkvöldi var mykrið orðið það mikið að ég varð frá að hverfa. Ég var hættur að greina í ljósunum frá traktornum hvar búið var að raka og hvar ekki.

Þetta er nú reyndar bara smá blettur sem eftir er og sýnist mér að það ætti að nást núna þegar tekur af undir hádegi. Verður þá lokið heyskap á þessu sumri hér á bæ. Í kvöld er svo spáð að hann fari í austan átt og rigningu.

Kornsláttur er hafinn í Flóanum á fullu. Búið er að þreska á nokkrum bæjum og skilst mér að uppskera sé yfirleitt góð. Sigmar og Kristinn tóku þreskivélina í heilmikla yfirhalningu áður en byrjað var. Skipt var um flesta legur í vélinni og hún yfirfarin að öllu leiti. En miklu máli skiptir að þessar vélar séu í lagi þá fáu daga á ári sem verið er að nota þær. emoticon
Flettingar í dag: 196
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 79
Gestir í gær: 24
Samtals flettingar: 130518
Samtals gestir: 23843
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 22:56:35
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar