Í Flóanum

13.01.2013 07:13

Ljósleiðari, uppboð og afmæli

Þeir voru í hátíðarskapi nágrannar okkar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í gær. Þá var efnt til samkomu í Árnesi í tilefni þess að nú er búið að leggja ljósleiðara inn á hvert heimili í sveitarfélaginu, Það er sveitarfélagið sem stendur að þessari framkvæmd.

Ég er ekki í vafa um að hún á eftir að hafa áhrif á atvinnnuuppbyggingu og búsetuþróun þar í sveit. Ég óska íbúum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi til hamingu með þetta.

Á föstudaginn var boðinn upp hjá sýslumanninum á Selfossi hestur sem búið er að vera í óskilum hér í sveit undanfarin misseri. Ég mætti með klárinn stundvíslega kl 2 á planið hjá sýslumanni. Nokkrir áhugasamir kaupendur voru þar einnig mættir og gengu boðin á víxl um leið og borðalagður fulltrúinn lýsti eftir boðum. 

Það voru nú reyndar ekki háar upphæðir sem boðnar voru og fljótlega var hesturinn sleginn  nýjum hamingusömum eiganda. Þó ekki hafi fengist fyrir þeim kostnaði sem nú þegar hefur fallið á sveitarfélagið vegna þessa er þessi hestur nú ekki lengur á ábyrð þess og ég vona að nýr eigandi hafi þau not af honum sem hann væntir.

Ég átti afmæli á fimmtudaginn og þótti Morgunblaðinu það tilefni til þess að birta mynd af mér í blaðinu. Ég hef nú átt afmæli á hverju ári frá því ég man eftir mér og það er í sjálfu sér ekkert fréttnæmt. Mér finnst aftur á móti ágætt og ekkert að því að sjá í blaðinu líka hversdagslegar fréttir og viðtöl við venjulegt fólk um það sem hver og einn er að taka sér fyrir hendur.



Fólkinu mínu þótti við hæfi að gefa mér í afmælisgjöf þennan forláta hjálm sem ætlast er til að ég noti þegar ég fer um á fjórhjólinu. Einu sinni var ég töluvert að spekulera í að fá mér skellinörðu og þá líka einhvern vegin svona hjálm. Það eru nú fjörutíu ár síðan svo sennilega hefur verið um að ræða mun fornfálegri hjálm en þennan.

Þessi er alvöru nútímalegur og er ekki að efa að ykkur mun finnast ég töluvert töffaralegur með hann. Mig minnir allavega að það hafi skipt máli hér um árið þegar ég var mest að spá í þetta. Reyndar þroskaðist maður hratt á þessum árum og örfáum mánuðum eftir að ég var mest að spá í skellinörður keypti ég mér bíl í félagi við Tóta bróður sem þá var að fá bílprófið svo aldrei varð meira úr skellinöðru- eða hjálmkaupum á þeim tíma.

Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 250
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 130609
Samtals gestir: 23851
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 08:40:06
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar