Í Flóanum

28.11.2014 21:53

Góð tíð

Ég rak ærnar inn í morgun. Nú er ekki seinna vænna en að fara að huga að rúningi og undirbúningi fyrir fengitímann ef maður ætlar að búast við einhverjum lömbum næsta vor. Annars hefur ekki væst um féð í blíðunni undanfarnar vikur. Rígresið sprettur sem á sumardegi og þrátt fyrir hlýindin hefur töluvert þornað um hér síðustu vikur.

Hann var kátur formaður sauðfjárbænda í sjónvarpinu um daginn. Keyrði skít á tún og ekki farin að gefa fénu. Enda virtist gróður engu minni hjá honum en hér í Flóanum. Ég sem taldi hann búa á hjara veraldar. En það virðist nú vera öðru nær. Það er gaman að vera bóndi þegar tíðin  leikur við mann. Þá líður bæði mönnum og skepnum vel og erfiðleikar gærdagsins eru gleymdir. 

Fréttamaðurinn spurði formanninn  hvað hann væri nú spara í fóðri og svaraði hann drjúgur að nú væri hann sjálfsagt búinn að spara hundrað rúllur. Þá spurði fréttamaðurinn hvað rúllann kostaði og svaraði formaðurinn að bragði: 10.000 kall. Fréttastofan reiknaði svo út að bóndinn í Grítubakkahreppnum væri búinn að græða milljón kr. emoticon

Fréttamaðurinn spurði hinsvegar ekki hvað mikið hey þurfti aukalega þegar vetraráhlaup gerir snemma hausts eins og nokkrum sinnum hefur gerst á síðustu árum. Jafnvel þannig að sumstaðar þuftir að taka sláturlömb á gjöf og stundum töluverðum fjárskaða. Enda gagnslaust að spyrja að því í blíðunni nú. 

Bændur á Íslandi hafa fyrir löngu  lært að takast á við náttúruöflin með því hugafari að velta sér ekki upp úr erfiðleikunum en kunna að njóta ánægunnar þegar vel gengur.

Fyrir þó nokkrum árum síðan (nokkuð mörgum) man ég að einu sinni snemma sumars gerðu veðurspár ráð fyrir blíðu um allt land yfir heila helgi. Strax á miðvikudegi gerði langtímaspá ráð fyrir sól og hita nánast um allt land föstudag, laugardag og sunnudag. Það var gúrkutíð í fjölmiðlum þessa dagana svo þessi langtímaspá varð aðalforsíðufréttin. Það hugsuðu  margir sér gott til glóðarinnar. emoticon

Bændur voru farnir að huga að slætti. Strax á fimmtudegi var farið að slá víða um land. Það var slegið allan föstudaginn en lítið glaðnaði til. Um nóttina fór svo að rigna og það ringdi svo alla helgina og vikuna þar á eftir. emoticon

Þvílík vonbrigði. Enda ætlaði allt um koll að keyra. Fjölmiðlar landsins voru yfirfullir af fréttum, lesendabréfum og greinum um hrakfarir fólks sem ætluðu njóta góða veðursins í helgarfríinu sínu. Málið var tekið fyrir í Kastljósinu og veðurfræðingar voru teknir á teppið. emoticon

Fjölmiðlamenn spurðu hvers ættu mann að gjalda. Fólk hafi lagt af stað með alla fjölskylduna í tjaldútilegu í trausti þess að veðurspáin væri rétt. Hafi svo bara hrökklast til baka hundblaut á fyrsta degi. Spurt var hvort veðurfræðingar væru ekki ábirgir fyrir sínum veðurspám.

Ég man ekki eftir að nokkur hafi velt fyrir sér hvað tjónið varð mikið á heyfeng landsins þessa helgi. Það hefur sjálfsagt verið hægt að reikna það í hundruðum milljónum ef allt er talið. Þetta tjón lenti á bændum. Ég  man ekki heldur eftir því að bændur hafi kveinkað sér mikið enda svo sem ekki í fyrsta skipi sem hey hrekst. emoticon



Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 250
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 130632
Samtals gestir: 23856
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 13:05:42
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar