Í Flóanum

18.02.2016 13:58

Hvanndalir

Hvanndalir voru um aldir eitt afskektasta byggða ból á Íslandi. Það rifjaðist upp fyrir mér fyrr í vetur, þegar ég las frétt um að Siglfirðingar hefðu sótt þangað kindur, að ég hafði heyrt af því, að tengdaforeldrar mínir hefðu einhverju sinni verið þar við heyskap.

Hvanndalir eru á milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar handan Víkurbyrðu í Héðinsfirði sem er 890 m hátt fjall. Til að komast í Hvanndali úr Héðinsfirði þarf annað hvort að fara yfir "Byrðuna" eða um Hvanndalaskriður. Frá Ólafsfirði Í Hvanndali er gengið fyrst í Fossdal og áfram upp úr Fossdalsbotni yfir í Hvanndali. 

Í Hvanndölum er talað um þrjá dali, Yst er Hvanndalur og sunnan úr honum er lítið dalhvolf er heitir Selskál. Syðst er Sýrdalur sem er grynnstur og aðeins slakki á bak Hvanndalabjörgum. Hvanndalabjörg (755m) ganga í sjófram sunnan við Hvanndali og norðan vjð Fossdal.

Ég tek það fram að ég haf aldrei komið þarna eða farið þessar leiðir. Þetta eru aðeins leiðir og staðhættir sem ég hef lesið mér til um á netinu. En gaman væri nú að fara þetta einhvern tímann ef/og þegar maður hefur heilsu til.

Mér skilst að byggð í Hvanndölum hafi í gegnum aldir verið stopul vegna einangrunnar. Landkostir voru þar samt taldir miklir að ýmsu leiti og grösugt. Ódáinsakur er í Hvanndölum og stóð þar bær. Þar uxu lífgrös og sá er þeirra neytti gat ekki dáið. Fór svo að þessi bær lagðist í auðn vegna þesss að enginn taldi sig geta búið við slík örlög.

Síðast var búið í Hvanndölum 1896. Þá keypi sveitarfélaið jörðina gagngert til þess að setja hana í eyði. U.þ.b.10 árum seinna var jörðin seld bónda í Ólafsfirði og muni Ólafsfirðingar hafa haft hana eitthvað til heyskapar á fyrri hluta síðustu aldar.



Tengdaforeldrar mínir, Júlíus Sigmar Stefánsson (f.1912, d 1989) Tengdapabbi () og Guðfinna Björg Þorsteinsdóttir (f.1916, d. 1984) hófu sinn búskap á Kleifum í Ólafsfirði um miðjan fjórða ártug síðustu aldar. Óli mágur minn  ( Ólafur Júlíusson f. 1936 ) sagði mér frá því að hann mundi eftir því að eitt sumarið fór hann með foreldrum sínum í Hvanndali til heyskapar. Hann var þá sennilega 6 eða 7 ára ganall.

Þau fóru gangandi frá Kleifunum. Július bar á bakinu koffort með vistum og öðru sem til þurfti til viku dvalar. Guðfinna bar tjald og annan viðlegubúnað og leiddi strákinn. Auk þess báru þau með sér heyvinnuamboðin, kaðla og allt annað sem þurfti til heyskapar. 

Þau voru svo í Hvanndölum í viku tíma og unnu alla daga að heyskapnum. Óli hefur sjálfsagt verin látinn hjálpa til eins og hann hafði getu til. Hann sagði mér þó að honum væri minnistæðast þegar hann lék sér með svartbaksungunum þennan tíma í Hvanndölum. Þau voru heppin með veður allan tíman þetta sumar

Að viku liðinni kom svo bátur frá Ólafsfirði og lagðist út frá ströndinni. Heyið var allt bundið í bagga og nú var böggunum velt fyrir klettabjörgin niður í fjöru. Það var komið á árabát frá bátnum frá Ólafsfirði. Böggunum var síðan komið út í árbátinn og róið með þá út í bátinn fyrir utan. Þegar búið var að koma öllu heyinum með þessum hætti út í bátinn, sigldi hann með það, fyrir þau, til Ólafsfjarðar.

Ungu hjónin með elsta son sinn tóku nú saman föggur sínar og héldu heim á leið.





Flettingar í dag: 110
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 94
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 131286
Samtals gestir: 24038
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 09:22:30
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar