Í Flóanum

22.04.2018 21:31

Vestfjaðraferð

Nú í sumar eru 20 ár síðan Búnaðarfélag Villingaholtshrepps gekst fyrir kynnis - og skemmtilferð um Vestfirði. Um fjögurra daga ferðlag var að ræða dagana 18, 19, 20 og 21 júní. 1998. 32 þátttekendur voru í þessari ferð og var held ég flestum ógeymanleg.

Á þessum tíma vorum við saman í stjórn búnaðafélagsins Óli á Hurðarbaki sem var formaður, Guðsteinn á Egilssstöum og ég. Aðdragandi og undirbúningur var nokkuð langur en upphafið má rekja til aðalfundar í apríl 1996. Þar var samþykkt að stefna að ferð um Vestfirði sumarið 1997.

Þegar við í stjórninu fórum svo að vinna að undirbúningi kom í ljós að þetta sumar hentaði ekki. Það voru einhverjir aðrir viðburðir þarna sumarið 1997 sem við töldum myndi draga úr þátttöku og því var ákveðið á aðalfundi um vorið að fresta þssari ferð um eitt ár. 

Við skiplagningu ferðarinnar var haft að leiðarljósi að nýta tíman vel. Markmið var að sjá sem mest,  og hitta heimafólk og heyra sem mest um sögu og lífsbaráttu fólks á svæðinu. Án þess þó að þurfa að spana um. Miklvægt væri líka að gefa sér tíma og njóta.

Í morgunsólinni í Stykkishólmi. Bílaferjan Baldur í höfninni 

Lagt var af stað í rútu héðan úr Flóanum kl 5:00 að morgni. Stefnan var tekin í Stykkishólm. Við áttum pantað far með morgunferð Baldurs yfir Breiðafjörð. Um borð í Baldur vorum við komin með rútuna kl 9:00 og sigldum yfir spegilsléttan Breiðafjörðin í glaða sólskíni. Það var létt yfir mannskapnum um borð og eftir 3 tíma vorum við komin að Brjánslæk.

Um borð í Baldri á leið yfir Breiðafjörð

Þar kom í rútuna til okkar Ragnar á Brjánslæk ( Ragnar Guðmundsson  f.1935  d.2014 ) og var hann með okkur sem fararstjóri það sem eftir var dags og fram á næsta. Ragnar var skemmtilegur og sagði okkur frá öllu því sem fyrir augu okkar bar. Hann sagði okkur líka sögur af fólkinu sem þarna býr eða hefur búið í aldana rás.

Í kvöldsólinni á Látrabjargi

Við keyrðum um Barðastönd, komum m.a. á Rauðasand, stoppuðum á Hnjóti, komum í Breiðuvík og fórum út á Látrabjarg. Um nóttina var svo gist í Breiðuvík. Morguninn eftir var ferðinni haldið áfram. Komið var á Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal og svo áfram vestur. Þegar komið var upp á Dynjandisheiði kvaddi Ragnar á Brjánslæk okkur og Bergur Torfason, sem þá bjó orðið á Þingeyri, kom í rútuna og tók við sem fararstjóri. Bergur var áður bóndi á Felli í Dýrafirði. Hann fylgdi okkur til Ísafjarðar.

Áð í Arnarfirði.

Stoppað var m.a.við fossin Dynjandi og á Hrafseyri. Þegar komið var í Dýrafjörð var farið að Núpi og stoppað þar. Þar bauð Búnaðarsamband Vestfjarðra hópnum í kaffi. Forsvarmenn Búnaðarsambandsins mættu þar ásamt nokkrum bændum úr Dýrafirði og spjölluðu við okkur. Einnig hittum við þar bráðfjöruga harmonikkuleikara sem voru með landsmót þar á staðum.


Kominn vestur að Núpi. Garðurinn Skrúður

Síðan var ferðinni haldið áfram og m.a. komið á Flateyri og svo Ísafjörð. Á Ísafirði var svo gist næstu nótt. En áður en lagst var til svefns gerðu menn sér glaðan dag í söng með Vestfirðingum.

Í Ósvör 

Morguninn eftir var byrjað á að fara út til Bolungarvíkur og m.a.stoppað í Ósvör. Þar vorum við uppfrædd um útgerð fyrri ára og alda.


Á leið út í Vigur með Hrefnu-Konna

Þá var ekið til Súðavíkur og þar farið um borð hjá Hrefnu-Konna sem sigldi svo með okkur út í Vigur. Þar var stoppa góða stund og gengið um eyna. Krían var aðgangshörð en Æðarfuglinn var hin rólegasti og lét lítið trufla sig.


Vigur í Ísafjarðadjúpi

Eftir góða stund í Vigur var siglt í land styðstu leið að Ögri þar sem rútan okkar beið. Geir í Breiðholti tók nú við farastjórn og keyrt var inn Ísafjarðardjúp.

Búnaðarfélgasformaðurinn, organistinn og búnaðarfélagsritarinn velta fyrir sér hvernig best sé að standa að skógrækt í vestfirskum skógi.

Stoppað var m.a. við skógræktarreit í Mjóafirði þar sem við tókum okkur til og plöntuðum út skógarplöntum. Reikna ég með að þetta geti verið orðið nokkur skógur nú 20 árum seinna. Svo var stoppað í Skálavík þar sem Hjördís og Geir fyrrum ábúendur þar, en í þessari ferð bændur í Breiðholti í Flóa, buðu upp á veitingar.

Í sundlauginni í Reykjanesi

Þennan dag var svo endað í Reykjanesi þar sem gist var næstu nótt. Að sjálfsögðu nýttu menn sér sundlaugina í Reykjanesi áður en farið var að sofa.

Allur hópurinn ásamt bílstjóra í Reykjanesi áður en lagt var af stað heim á leið. Aftasta röð frá vinstri: Bjarki Reynisson Mjósyndi, Geir Baldursson Breiðholti, Hermundur  Þorsteinsson Egilsstaðakoti, Laufey Guðmundsdóttir Egilsstaðakoti og Sigurbjörg Hermundsdóttir Selfossi. Önnur röð frá vinstri: Sigurður Guðmundon Súluholti, Alda Hermansdóttir Hróarsholti, Tryggvi Gestsson Hróarsholti, Einar Hermundsson Egillsstaðakoti, Guðjón Gestsson Selfossi, Baldur I Sveinsson Litla-Ármóti, Ólafur Sigurjónsson Forsæti, Bergþóra Guðbergsdóttir Forsæti og Árni Guðmundsson Selfossi. Þriðja röð frá vintri: Guðrún Jónsdóttir Hraungerði, Guðmundur Stefánsson Hraungerði (fyrir aftan), Þórunn Kristjánsdóttir Vatnsenda, Kristín Stefánsdóttir Hurðarbaki, Ólafur Einrsson Hurðarbaki, Lena Eriksson Orustudal (seinna), Kolbrún Júlíusdóttir Kolsholti, Hjördís Þórðardóttir Breiðholti, Aðalsteinn Sveinsson Kolsholti og Rannveig Einardóttir Selfossi, Fremsta röð frá vinstri: Jóhann Guðmundsson Kolsholtshelli, Gyða Oddsdóttir kolsholtshelli (fyrir aftan), Elín Bj. Sveinsdóttir Egilsstaðakoti, Ingi Heiðmar Jónsson Selfossi, Valgerður Gestsdóttir Mjósyndi, Halla Magnúsdóttir Syðri-Gróf, Páll Axel Halldórsson Syðri-Gróf, Vigfús Garðarsson bílstjóri, Guðsteinn Hermundsson Egilsstöðum og Hafsteinn Stefánsson Túni, 

Næsta dag var svo ekið heim. Ekið var um Þorskafjarðarheiði og Dali. Stoppað var í Bjarkarlundi þar sem borðað var saman. Þegar komið var í Borgarfjörð var farið um Lundarreykjadal og Uxahryggi á Þingvöll og þaðan heim.

Að mínu áliti var þetta einstaklega vel heppnuð ferð í alla staði og mér fannst fólk sammála um það. Þar skipi máli að allt voru þetta skemmtilegir ferðafélagar. Skipulag ferðarinnar var gott og allt gekk upp sem áætlað var. Allstaðar sem við komum var tekið vel á móti okkur og veður var einstaklega gott alla dagana. 


 

 



Flettingar í dag: 2
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 215
Gestir í gær: 24
Samtals flettingar: 126941
Samtals gestir: 22935
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 00:22:35
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar