Í Flóanum |
||
22.06.2010 07:48SumarsólstöðurNú er bjartasti tími ársins. Nóttin er björt og veðrið undanfarna daga hefur einkennst að mikilli blíðu. Ég mæli með því að hluti af svona nóttum sé tekin í útreiðar. Ég held að tvegga tíma útreiðartúr á þessu tíma jafnist á við fjögurra tíma svefn. Þórarinn bróðir sem býr í Hafnafirði kom hér í gærkvöldi og gerðum við það eina gáfulega í stöðunni. Við ásamt Jóni í Lyngholti lögðum á gæðingana og riðum út í kvöldblíðunni í Flóanum. Við létum auðvita besta og viljugasta hrossið undir gestinn. Fyrir rúmlega þrjátíu árum þegar við Þórarinn vorum báðir ennþá yngri en við erum núna keyptum við sitt hvort merfolaldið frá Laugardælum. Þórarinn vann sem fjósamaður í Laugardælum á sumrin þegar hann var í menntaskóla. Eitthvað fór hann á hestbak á þessum árum og fékk áhuga á að rækta hross. Með það í huga gekkst hann fyrir því að við keyptum þessi folöld haustið 1978. Skrifað af as 18.06.2010 07:4317. júníÍ gær var þjóðhátíðardagur Íslendinga. Það er full ástæða til þess að fagna fullveldi Íslands og halda hátíðlegan sérstakan þjóðhátíðardag. Það er vonandi að íslendingar geri sér líka grein fyrir því hvers virði það er að vera fullvalda þjóð og í hverju það fellst. Haft var eftir utanríkisráðherranum að hann taldi daginn í gær "heilla dag fyrir Ísland" þar sem Evrópusambandið var að samþykkja að hefja aðildarviðræður við Íslendinga. Það kom svo sem engum á óvart að það skyldi vera samþykkt. Aðildarviðræðurnar ganga svo út á það hvernig og með hvaða hætti Íslendingar ætla að laga sig að ESB og hvaða skilyrði önnur evrópuríki ætla að setja okkur. Hér í Flóanum var þjóðhátíðardagurinn haldinn hátiðlegur með hefðbundum hætti. Að venju varði ég hluta úr deginum við hátíðarhöld í og við Þjórsárver. Umf. Vaka stóð fyrir íþróttamóti barna á íþróttavellinum og Kvennfélag Villingaholtshrepps stóð fyrir reiptogi og pokahlaupi. Fallkonan flutti sitt ávarp og gestir hátiðarinnar gæddu sér á þeim veisluföngum sem boðið var upp á. Skrifað af as 15.06.2010 07:421. fundur nýkjörinnar sveitarstjórnarNý kjörin sveitarstjórn Flóahrepps kom saman til fundar í gærkvöldi í fyrsta skipti. Aðalverkefni fundarins var að kjósa í embætti, nefndir og fulltrúa Flóahrepps hjá hinum ýmsu stofnunum og samstarfsverkefnum. Ég var kjörinn oddviti með öllum 5 atkvæðum sveitarstjórnarmanna og þakka ég það mikla traust sem mér er sýnt með því. Árni Eiríksson á Skúfslæk var kjörinn varaoddviti. Formaður fræðslunefndar var kjörinn Elín Höskuldsdóttir á Galtastöðum og formaður atvinnu- og umhverfisnefndar var kjörinn Heimir Rafn Bjarkason í Brandshúsum Atvinnu- og umhverfisnefnd er ný nefnd hjá sveitarfélaginu. Hún verður til með sameiningu á Umhverfisnefnd og Atvinnu- og ferðamálanefnd, auk þess sem henni er ætlað að taka að sér samgöngumál sem á síðasta kjörtímabili heyrði beint undir sveitarstjórn. Á fundinum í gær var einnig samþykkt að ráða Margréti Sigurðardóttir áfram sem sveitarstjóra næstu fjögur árin. Það er mikill fengur fyrir sveitarfélagið að njóta hennar starfa áfram. Það er einnig mikill sparnaður á tíma og peningum að þurfa ekki að fara í það verkefni að finna nýjan sveitarstjóra og koma honum inn í starfið eins og mörg sveitarfélög standa í núna um þessar mundir. Ég er mjög ánægur með þann áhuga sem mér finnst fólk almennt hafa á því að vinna fyrir sveitarfélagið. Ég hef undanfarna dag rætt við fjölda fólks um að taka að sér að starfa í nefndum fyrir sveitarfélagið og fengið góðar viðtökur. Skrifað af as 10.06.2010 07:47RigningÞað er loksins farið að rigna. Þetta er kærkomin rigning en það sem af er þessu sumri og í allt vor hefur verið mjög þurrt í veðri. Það er orðin árviss viðburður að þurrkar séu hér til trafala og finnst mér eins og það séu ansi breyttir tímar. Ég man mikið frekar eftir því í gegnum Nú eru breyttir tímar. Endalaus blíða alla daga. Lítill sem enginn jarðklaki en sáralítil úrkoma. Skortur á úrkomu hefur ekki aðeins áhrif á gróður. Þurrkurinn hefur einnig haft áhrif á vatnsból bæði fyrir menn og skepnur. Skrifað af as 07.06.2010 07:43Hver er virkjanasinni og hver er virkjanaandstæðingur?Í fréttum af úrslitum kosninganna hér í sveit er því gjarnar slegið upp að hér hafi virkjanasinnar unnið stóran kosningasigur. Ekki er ég nú viss um að við öll sem gáfum kost á okkur á R listann skilgreinum okkur sem einhverja "virkjanasinna" þó svo að við vissulega höfum fallist á að gera ráð fyrir Urriðafossvirkun á aðalskipulaginu og ætlum að vinna áfram í samstarfi við Landsvirkun um mótvægisaðgerðir vegan hennar. Virkjanamál eru einfaldlega flóknari en svo að hægt sé að skipta fólki upp í virkjanasinna annarsvegar og virkjanaandstæðinga hinsvegar eins og mér finnst fjölmiðlar gjarnan vilja gera. Þó fallist sá á Urriðafossvirkjun er ekki þar með sagt að þá vilji menn virkja skilyrðislaust alls staðar þar sem því verður við komið. Eins er ekki hægt að ganga út frá því að allir þeir sem ekki vilja að Urriðafossvirkun verði byggð séu allfarið á móti því að orkan í fallvötnum og/eða í iðrum jarðar sé virkuð yfirleitt.
Skrifað af as 03.06.2010 07:55Fjör í FlóanumUm síðustu helgi var haldinn hér í sveit hátíðin "Fjör í Flóanum. Félagsheimilin í Flóahreppi hafa haldið þessa hátíð síðast liðin fimm ár um mánaðarmótin maí/júní. Þátttaka og fjöldi gesta hefur verið vaxandi ár frá ári og sýnist mér að þetta sé viðburður sem komi til með að vera hér árlega áfram. Tilgangur með svona hátíð er kannski tvíþættur. Annars vegar að kynna þá starfssemi og þjónustu sem hér er boðið upp á. Hinsvegar að íbúar sveitarfélagsins geri sér dagamun saman í upphafi sumars. Þeir viðburðir á hátíðinni sem ég kom á voru vel sóttir og mér skilst að svo hafi verið með flest atriði hátíðarinnar. Veðrið var með eindæmum gott og er það ótvíræður kostur á svona hátíð. Á föstudeginum var ég viðstaddur opnunnar atriði hátíðarinnar í Þjórsárveri. Þar var búið að setja upp heilmikla sýningu á verkum nemenda í Flóaskóla auk þess voru sýnd atriði úr söngleikum "Grease" sem nemendur sýndu með eftirminnanlegum hætti fyrr í vetur. Á föstudagskvöldið stóð Umf. Vaka fyrir kvöldvöku á íþróttavellinum við Þjórsárver þar sem fjölmenni var. Auk þess sem grillað var saman, flutti Leikdeild Umf. Vöku leikþáttinn "Ýsa varð það heillin" og keppt var í reiptogi..... Man ekki allveg hvernig það endaði. Á laugardeginum var opið hús í nýbyggingunni við Flóaskóla þar sem ég fyrir hönd sveitastjórnar, Gestur í Smíðanda fyrir hönd verktakans og Kristín skólastjóri tókum á móti gestum og sýndum þeim bygginguna. Skólinn bauð upp á kaffisopa í anddyri nýbyggingarinnar og smákökur voru í boði 8. bekkinga. Nokkur fjöldi gesta kom og fannst mér fólki lítast vel á hvernig til er að takast með þessa byggingu og almenn ánæga með þær breytingar sem hér er verið að gera á starfsemi skólanns. Á laugardagskvöldið var kvöld- og kosningavaka í Þingborg. Á sunnudeginum kom ég m.a. á fjölskylduskemmtun í Félagslundi sem var mjög vel sótt. Lögð var áhersla á að vera með dagskrá fyrir börn og sá ég ekki betur en heimsókn þeirra "Skoppu og Skrítu" hafi líkað vel í þeim aldurshóp. Vil ég þakka rekstrarstjórn og húsvörðum félagsheimilanna fyrir vel skipulagða hátíð og skemmtunina um helgina. Skrifað af as 30.05.2010 07:49KosningaúrslitNú liggja úrslit kosninganna fyrir og get ég ekki annað en verið mjög sáttur. R litinn fékk 254 atkvæði eða 72% en T listinn 97 atkvæði eða 28%. Kosningaþátttaka var nokkuð góð eða um 85,5%. Auðir seðlar voru 14 og 1 ógildur. Kosningabaráttan gekk vel fyrir sig. Nokkuð fannst mér sótt að okkur og höfðum við gott af því. Það gaf okkur líka tækifæri til þess að skýra okkar málstað betur en umræða meðal kjósenda var talsverð. Hitti ég æði marga og fékk mörg símtöl þar sem ég var spurður beint út í hin ýmsu mál og beðin um skýringar á fullyrðingum sem haldið var fram af mótframbjóðendum. Með frambjóðendur mínir á listanum unnu allir mjög vel og tóku virkan þátt í umræðunni. Lögðum við áherslu á að hitta sem flesta og ræða beint við fólkið. Með þessum kosningum verða miklar mannabreytingar í sveitastjórninni en ég er sá eini sem er í sveitastjórn núna og held áfram á næsta kjörtímabili. sem nú er að hefjast. Ég óska nýkjörnum sveitastjórnarmönnum til hamingju með kjörið og hlakka til þess að vinna með þeim. Fráfarandi sveitastjórnarmönnum þakka ég mikið og gott samstarf á síðast liðum fjórum árum. Þetta samstarf hefur verið bæði árangursríkt og farsælt. Skrifað af as 28.05.2010 07:46Vorið í FlóanumVorið er alltaf skemmtilegur tími. Þetta vor er ekki minna annasamt en öll önnur vor. Verkefnin eru áhugaverð og það gefur öllum kraft að fylgjast með bæði gróðri og dýralífi lifna við allt í kringum sig að loknum vetri. Bæði börn og fullorðnir fyllast bjartsýni og verkgleði.
Skrifað af as 20.05.2010 07:40Samningur um neysluvatnVegna mikilla umræðu og skrifa um samninginn um neysluvatnið sem sveitarfélögin Árborg og Flóahreppur gerðu sín á milli fyrir nokkru ritaði ég eftirfarandi grein í héraðsblöðin í þessari viku: Í síðasta mánuði var undirritaður samningur um öflun og sölu neysluvatns milli sveitarfélagsins Árborgar og Flóahrepps. Með þessum samningi er mikilvægu skrefi náð í neysluvatnsmálum í Flóahreppi. Samningurinn tryggir vatnsveitu Flóahrepps aðgang að fyrsta flokks neysluvatni hvenær sem er og í því magni sem á þarf að halda hverju sinni, allt að 20 lítum á sekúndu. Hér er um mikið öryggisatriði að ræða fyrir vatnsveitu Flóahrepps en sem kunnugt er hafa verið vandræði með vatn í sveitarfélaginu í þurrkum á liðum sumrum.
Skrifað af as 14.05.2010 07:54FramboðsfundurÁ miðvikudagskvöldið s.l. var haldinn framboðsfundur í Þjórsárveri. Það vorum við frambjóðendur R listans sem boðuðum til fundarins til þess að kynna stefnuskrá okkar og helstu áherslur í komandi kosningum til sveitarstjórnar Flóahrepps. Við ákváðum að hafa fundinn með nýju sniði og slepptum öllum framsöguræðum og ræðum yfirleitt. Þess í stað var öllum fundarmönnum skipt í sex til átta manna umræðuhópa. Við frambjóðendur fórum svo á milli hópanna og ræddum beint við fundarmenn um það sem þeim lá mest á hjarta í hverjum hóp. Við stoppuðum í 10 mín á hverju borði. Mér fannst þetta gefast ágætlega. Þarna fóru fram bein skoðanaskipi og ég vona að fundarmenn allment hafi verið sáttir við þetta. Þeir höfðu tækifæri á að spyrja okkur frambjóendur beint og fá svör strax. Ég finn fyrir töluverðum áhuga hjá fólki að ræða hin ýmsu mál. Það er áhugavert og nauðsynlegt að einbeita sér að því. Það er því æði verk framundan ef við eigum að ná því að spjalla við alla kjósendur fyrir kosningar. Skrifað af as 07.05.2010 07:46Samningur um VatnÁ sveitarstjórnarfundi í vikunni staðfesti sveitarstjórnin Samning um öflun og sölu vatns milli Flóahrepps og Árborgar. Samningur þessi er búin að vera í undirbúningi í allan vetur og var undirritaður fyrir skemmstu. Stórum áfanga er nú náð í vatnsmálum beggja sveitarfélaganna. Aðili að þessu samningi er Landsvirkjun en samkvæmt samkomulagi milli hennar og Flóahrepps mun fyrirtækið fjármagna þær framkvæmdir sem ráðast þarf í vegna vatnsöflunnar í Flóahreppi. Eins og allir góðir samningar þá er þessi samningur báðum sveitarfélögunum mjög hagstæður. Hann tryggir íbúum Flóahrepps aðgang að fyrsta flokks vatni allt að 20 lítrum á sekúndu. Flóahreppur kaupir vatnið í því magni sem hann þarf á að halda hverju sinni á sveitarfélagsmörkum á hagstæðu verði. Hér er um mikið öryggisatriði að ræða til framtíðar fyrir íbúa Flóhrepps.
Hér í sveit þarf að leggja nýja stofnlögn með þjóðvegi eitt frá sveitarfélagsmörkum að Neistastöðum og þaðan í miðlunartankinn í Ruddakrók. Þessi stofnlögn styrkir dreyfikerfið í gamla Hraungerðishreppnum og gefur möguleika á frekari uppbyggingu t.d. upp með Langholtsvegi. Skrifað af as 03.05.2010 07:39HúsflutningarHér á bæ er lífið nokkuð fjölbreytt og verkefnin sem verið er að fást við mörg og misjöfn. Hér háttar svo til að hér er vettvangur fjögurra ættliða í starfi og leik. Öll stöndum við með einum eða öðrum hætti að þeim búskap sem hér er stundaður en þar fyrir utan er einnig verið að fást við hin fjölbreyttustu verkefni á sviði félagsmála og annarra áhugamála. Mörg okkar stunda einnig aðra atvinnu með búrekstrinum. Meðlimur úr elstu kynslóðinni tók til við að byggja bæ í svartasta skammdeginu í vetur. Byggingarefnið var afgangs byggingarefni sem hér hefur fallið til í gegnum árin og verið haldið til haga af stakri hirðusemi. Ekki hefur fundist not fyrir þetta byggingarefni fram til þessa og það hefur aðallega tekið páss í geymslum.
Skrifað af as 30.04.2010 07:43AfréttamálafélagiðAfréttamálafélag Flóa og Skeiða hélt aðalfund sinn í fyrrakvöld. Á árvissum afréttamálafundi í ágúst í fyrra setti félagið sér nýjar samþykktir um sína starfssemi og var þetta fyrsti aðalfundurin sem haldin er samkvæmt þeim. Ég var talsmaður þess og lagði það til á sínum tíma að félagið setti sér nánari samþykktir til þess að starfa eftir en fram til þessa starfaði félagið eingöngu eftir óljósum tilmælum í fjallskilasamþykkt fyrir Árnessýslu austan vatna nr 408 /1998. Með sameiningu sveitarfélaga á svæðinu höfðu aðstæður líka breyst frá því að fjallskilasamþykktin var samþykkt og ýmislegt í þeim sem varla átti við lengur. Samkvæmt nýjum samþykktum skal Afréttamálafélagið halda tvo afréttarmálafundi á ári hverju. Fyrri fundin skal halda fyrir 1. maí þar sem m.a. reikningar síðast liðins árs eru afgreiddir og fjárhagsáætlun ársins samþykkt. Seinni fundurinn er svo haldinn í ágúst þar sem raðað er í leitir og tilhögun smölunnar og rétta er ákveðin. Á fundunum fara fullrúar sveitarfélaganna sem standa að félaginu með atkvæðisrétt . Fulltrúarnir eru alls átta og koma 4 frá Flóahreppi. Sveitarfélagið Árborg skipar tvo og Skeiða-og Gnúpverjahreppur tvo. Skrifað af as 26.04.2010 07:46RusliðEitt af þeim verkefnum sem mest hafa vaxið hjá sveitarfélögum á síðustu árum er sorphirða og sorpeyðing. Frá árinu 1995 hafa sunnlendingar getað losnað við allt sitt sorp á til þess að gera ódýran hátt í Kirkjuferjuhjáleigu þar sem það hefur verið urðað. En 1. desember s.l. var þessum sameiginlega urðunarstað sveitarfélaganna á Suðurlandi lokað samkvæmt samkomulagi við Sveitarfélagið Ölfus frá árinu 2004. Síðan þá hefur ruslinu verið ekið til Reykjavíkur þar sem það hefur síðan verið urðað í Álfsnesi. Kosnaður hefur stórlega aukist bæði vegna lengri flutninga og mikið hærri kosnaðar við urðunina.
Niðurstaðan varð sú að taka hér upp í samvinnu við Íslenska Gámafélagið þriggja tunnu sorpflokkunarkerfi. Kerfið sem byggir á þátttöku íbúa svæðisins hefur gengið mjög vel og sá árangur sem að var stefnt hefur náðst. Ávinningur er margvíslegur og má t.d. nefna:
Ýmislegt fleira jákvætt væri hægt að nefna í þessu sambandi en ég er mjög stoltur af þessu frumkvæði sem íbúar Flóahrepps hafa tekið í þessum málum.
Skrifað af as 24.04.2010 07:39Vatnsveitan Á því svæði sem nú heitir Flóahreppur hafa verið reknar sameiginlegar dreifiveitur fyrir neysluvatn í hátt í fjörutíu ár. Um gríðalega mikla og stórhuga framkvæmd hefur verið að ræða á sínum tíma fyrir þau þrjú sveitarfélög sem þá voru hér starfandi. Ekki þarf að efast um það að þessi framkvæmd skipti sköpum fyrir allt samfélagið hér á sínum tíma og þær hafa skilað samfélaginu miklu á þessum áratugum sem þær hafa verið starfandi. Þau vandamál sem helst hafa komið upp í rekstri þessara veita eru m.a. bilanir á veitunni. Lekar hafa á sumum svæðum verið þrálátir og kostnaður nokkur við lekaleit og viðgerðir. Vandamál við vatnslindirnar hafa einnig komið upp. Vatnsborð í þeim hefur lækkað í þurrka tíð og einnig hafa jarðskjálftar haft áhrif á lindirnar. Í einhverjum tilfellum hafa óhreinindi greinst í vatninu og í verstu tilfellum hefur gerlafjöldi farið yfir viðmiðunarmörk heilbrigisyfirvalda.. Þegar það hefur komið upp hefur það verið rakið til yfirborðsmengunar í "Urriðafosslind". Sú lind var virkjuð fyrir Stokkseyri á sínum tíma. Eftir að ný aðveita fyrir Stokkseyri frá Selfossi var tekin í gagnið hefur Urriðafosslind eingöngu verið notuð til þess að koma í veg fyrir vatnsleysi í miklum þurrkum.
Á síðasta ári var gerð umfangsmikil bilanaleit á veitunni. Það skilaði heilmiklum árangri og hefur viðgerð farið fram á veitunni á ýmsum stöðum. Vatnsveitan hafði í þessari vinnu aðgang að sérstökum rennslismæli sem mælir rennsli í lögnunum með nemum sem settir eru utan á þær. Þessi mælir hefur reynst mjög vel í þessarri bilanaleit þar sem með honum er hægt að mæla rennslið hvar sem er á lögnunum og rekja sig að bilunum. Jafnframt þessu hefur sveitartjórn Flóahrepps leitað samstarfs við önnur sveitarfélög um vatnsöflun. Markmið sveitarstjórnar í þeirri vinnu er að tryggja að veitan hafi alltaf aðgang að fyrsta flokks neysluvatni á sem öruggastan hátt. Horft hefur verið til þess að geta sótt vatn á öflugri vatnstökusvæði en hægt er að finna hér innansveitar og með vatnsverndarsvæði utan byggðar við rætur hálendis eða fjalla. Hér er um mikið öryggisatriði að ræða og horft hefur verið til framtíðar í allri þessarri vinnu.
Skrifað af as Flettingar í dag: 56 Gestir í dag: 10 Flettingar í gær: 836 Gestir í gær: 166 Samtals flettingar: 190368 Samtals gestir: 33806 Tölur uppfærðar: 2.4.2025 07:02:42 |
clockhere Eldra efni
Í Flóanum Nafn: Aðalsteinn SveinssonFarsími: 8607714Tölvupóstfang: kolsholt@islandia.isHeimilisfang: Kolsholti IStaðsetning: FlóahreppurHeimasími: 4863304Tenglar |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is