Í Flóanum

09.12.2012 07:31

Gömul tillaga

Það rifjaðist upp fyrir mér nú um daginn þegar ég sat fulltrúaráðsfund Auðhumlu (félag mjólkurframleiðenda sem á meirihluta í MS) að fyrir 15 árum síðan flutti ég tilllögu á aðalfundi Félags Kúabænda á Suðurlandi. Tilefni þess að þetta fór að rifjast upp fyrir mér var að nokkuð var rætt á fundinum um hátt kvótaverð.

Það kom fram í máli manna m.a. hjá stjórnarformanni Auðhumlu að verðið á mjólkurkvótanum er einn af stóru kostnaðarliðunum í framleiðslukostnaði mjókurinnar. Sumir mjólkurframleiðendur, og það kom fram á fulltrúaráðsfundinum, hafa sett fram þá skoðun að eina úrræðið við þessu er að brjótast út úr kvótakerfinu með stóraukinni framleiðslu til útflutnings.

Það má vel vera að það sé eina leiðin til að losna undan kostnaði við hátt kvótaverð. Mikilvægt er samt gera sér grein fyrir því að ef farin er sú leið er verið að grafa undan þeim stuðingi sem veittur er og því verði sem fengist hefur fyrir mjólkina á innanlandsmarkaði.

Það þarf nú engum að koma á óvart að kvótaverðið er beinn kostnaðarauki við mjólkurframleiðsluna. Á það var bent, og við því var varað, þegar frjáls viðskipti með framleiðsluréttinn voru heimiluð. Þrátt fyrir það voru það forsvarsmenn kúabænda sem helst börðust fyrir því að þessi heimild fengist. Enda töldu menn þá að það væri vænlegast til þess að brjótast undan algerri stöðnun sem þá ríkti í framleiðslumálum mjókurinnar.

Þegar ég flutti áðurnefnda tillögu, fyrir 15 árum, voru rekstraraskilyrði  í mjólkurframleiðslunni mjög erfið. Bændur höfðu árin á undan tekið á sig hagræðingakröfu með beinni verðlækkun á mjólkina. Það bættist við að offramboð var á nautakjöti sem bæði leiddi til verðlækkunnar á öllu nautgripakjöti og margra mánaða bið eftir slátrun. Á þessum tíma voru skagfirskir kúabændur stórtækir í kvótakaupum með Kaupfélag Skagfirðinga sem bakhjarl við fjármögnun.  

Tillagan var svohljóðandi:

    Aðalfundur Félags Kúabænda á Suðurlandi, haldinn í Þingborg 2. apríl 1997 krefst leiðréttingar á kjörum mjólkurframleiðenda strax. Mjög brýnt er að bæta rekstrarsilyrði mjólkurframleiðslunnar ef afstýra á hruni í stéttinni.
    Fundurinn felur stjórn félagsins að beita sér af alefli fyrir bættum kjörum og bendir á eftir farandi í því sambandi:
    1)     Mjólkurverð til bænda verður að hækka. Það er langt frá að verð til bænda hafi fylgt verðhækkunum. Sú krafa um hagræðingu sem gerð hefur verið til bænda með lækkuðu verði er með öllu óraunhæf við núverandi rekstrarskilyrði. Of lágt verð á undanförnum árum hefur ekki aðeins leitt til þess að tekjur bænda hafa minnkað heldur einnig að gengið hefur verið á eignir á búunum. Slíkt leiðir aðeins  af sér kostnaðarauka og verri samkeppnisaðstöðu í náinni framtíð.
    2)    Framleiðslustýringarkerfi með takmarkalausri verslun með framleiðslurétt þarf að leggja niður. Það hefur sýnt sig að frjálst framsal á framleiðsurétti er ekki sú leið sem gerir bændum kleift að hagræða í sínum rekstri eins og stefnt hefur verið að. Útilokað er að ná fram betri nýtingu á fjárfestingum og vinnuafli sem fyrir er á búunum ef ekki er hægt að auka framleiðslu nema með því að kaupa framleiðslurétt. Það leiðir aðeins af sér aukningu á því fjármagni sem bundið er í hverju búi og minni arðsemi. Það eru allt aðrir hagsmunir sem ráða verði á framleiðslurétti enda hafa bæði mjólkursamlög og sveitarfélög skipt sér að þessum viðskiptum með þeim afleiðingum að verð hefur farið upp úr öllu valdi, Í raun er hér um "eyðibýlastefnu"  að ræða þar sem byggðir landsins reyna að verja sína sveitir. Kostnaður af þvi lendir fyrst og fremst á bændum.
    3)    Efla þarf félagsvitund bænda og samstöðu þeirra til að ná fram betri kjörum. Ljóst er að vegna samstöðuleysis hefur t.d. ekki verið hægt að halda uppi lágmarks verði á nautakjöti. Þrátt fyrir viðamikð og dýrt félagskerfi sem gæta á hagsmuna bænda hefur sú barátta mistekist í mörgum tilfellum og samstöðuleysi einkennt margar ákvarðanir þegar til kastana kemur. Mikilvægt er því að efla umræður meðal bænda og tengsl forustunnar við þá. Stjórnir samtaka og stofnanna bænda þurfa í ríkari mæli að leggja sig niður við að ræða við bændur og rökstyðja sínar skoðanir. Stefnu og stefnubreytingar þarf að ræða fyrst meðal bænda áður en ákvarðanir eru teknar en ekki öfugt eins og oft vill verða. Þetta á við um allar ákvarðanir, hvort sem um er að ræða framleiðslustjórnun, innflutning á nýju kúakyni eða einhverjar aðrar ákvarðanir.

Ef ég man rétt þá urði nokkrar umræður um þessa tilögu á fundinum á sínum tíma. Það kom strax fram að stjórnarmenn félagsins vildu ekki styðja þann kafla sem fjallaði um kvótakerfið (lið 2). Fundastjóri fékk mitt leyfi til þess að bera tillöguna upp í þremur liðum. Mig minnir að liðir 1 og 3 hafi verið samþykktir með þorra atkvæða. Liður 2 fékk einhver mótatkvæði en var samþykktur samt  með meirihluta atkvæða. Fundurinn var fjölsóttur.

Ekki var ég var við hvað stjórn FKS gerði síðan með þessa aðalfundarsamþykkt. Þau muna það kannski þau sem sátu í stjórn á þessum tima.

 

Flettingar í dag: 90
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 130804
Samtals gestir: 23902
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 12:49:09
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar