Í Flóanum |
||
Færslur: 2010 Nóvember29.11.2010 07:38KosningarÉg get nú ekki sagt að léleg kosningaþátttaka á laugardaginn hafi komið mér á óvart. Sjálfur hef ég ekki miklar væntingar til þessa stjórnlagaþings sem kosið var til. Það er ekki þar með sagt að ég sé á móti því að endurskoða stjórnarskrána og vafalaust er margt í henni sem betur má fara. Mér finnst það samt ekki vera forgangsverkefni í því efnahagsástandi sem nú ríkir. Efnahagshrunið var ekki stjórnarskránni að kenna og þau mistök sem vissulaga voru gerð í stjórn þessa lands voru ekki heldur stjórnarskránni að kenna. Ég hef líka efasemdir um að það að breyta stjórnarskránni hjálpi mikið til við að byggja upp "hið nýja Ísland" sem talað er um. Vonandi hef ég rangt fyrir mér í því efni. Þessi tilraun sem gerð var með persónukjör finnst mér gjörsamlega hafa mistekist. Útilokað var fyrir kjósendur að kynna sér til hlítar skoðanir og stefni allra frambjóðenda. Málefnaumræða var sáralítil. Frambjóðendur höfðu lítil tækifæri til þess að koma sínum sjónamiðum að. Persónukjör eins og þetta verður varla lýðræðislegar en listakosningar. Niðurstaða úr svona kosningu getur orðið bísna einsleit og í raun getur einfaldur meirihluti kjósenda fyrir einhverri niðurstöðu ráðið öllum sætunum sem komast að. Ég er helst á því að það sé fyrst og fremst hending en ekki einhver vilji þjóðarinnar sem ráði niðurstöðu úr svona kosningu. Skýringin á þessari afstöðu minni er sjálfsagt bara sú að ég er bæði svartsýnn og geðstirður. Þrátt fyrir allt þetta tók ég þessar kosningar hátíðlega eins að allar aðrar kosningar. Ég reyndi að fremsta megni að lesa allt sem ég komst yfir um frambjóðendurnar. Ég verð að viðurkenna að þá sem ég þekkti eitthvað til fyrir var auðveldara að átta sig á. Ég var engu nær um fjölmarga frambjóðendur og gat því alls ekki kosið þá. Ég gat að endingu pikkað út nokkur nöfn sem ég treysti mér til þess að kjósa. .........eða eins og maðurinn sagði einhvers staðar "Guð blessi Ísland"!!
Skrifað af as 26.11.2010 07:32Heimareykt hangikjötÞessa dagana er ég að fást við að reykja jólahangikjötið. Það er orðin hefð hjá mér að reykja kjöt í aðdraganda aðventunnar. Þetta er auðvita bara vesen og yfirlega að vera að fást við svona verkefni. En þegar öllu er á botninn hvolt getur það bæði verið skemmtilegra og áhugaverðugra að þurfa að hafa eitthvað fyrir hlutunum. Þorsteinn Logi Í Egilsstaðakoti kom hér í síðustu viku og rúði féð. Það er nú allt komið á gjöf og það styttist í fengitíma. Ég fæ ekki betur séð en vel fari um kindurnar á hálminum í flatgryfjunni. Skrifað af as 22.11.2010 20:19Nýr afkomandiFátt er gleðilegra í þessu lífi en það þegar nýr einstaklingur fæðist. Í gærkvöldi stækkaði fjölskyldan í Lyngholti en þá fæddist þeim Höllu og Jóni dóttir. Litla stúlkan er fimmta barnabarnið okkar Kolbrúnar. Það er eintóm hamingja að eignast fleiri barnabörn. Ég geri mér vonir um það að þessi unga dama eigi nú eftir að bjástra eitthvað með honum afa sínum eins og öll hin barnabörnin mín gjarnan gera þegar tækifæri gefst. ![]() Skrifað af as 18.11.2010 07:27Að spara aurinn en henda krónunni....Í tekjusamdrætti er mikilvægt í öllum reksrtri að bregðast strax við og sníða sér stakk eftir vexti. Þetta á einnig við í opinberum rekstri. Bæði ríki og sveitarfélögin í landinu hafa verið að fást við það verkefni. Til þess að ná árangri þarf að ganga þannig til verks að niðurskurður á einum stað verði ekki til þess að meiri kostnaður verði til annars staðar í kerfinu. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú er til umræðu á Alþingi er gert ráð fyrir miklum niðurskurði heilbrigðisgeiranum. Alls skilst mér að eigi að draga saman í þessum málaflokki um 4 til 5%. Á stjórnarfundi hjá SASS í síðustu viku voru málefni Heilbrigðisstofunnar Suðurlands (Hsu) til umræðu. Magnús Skúlason forstjóri stofunnarinnar var gestur fundarins. Hsu er gert í fjárlagafrumvarpinu að skera niður kostnað hjá sér um 412,5 milljónir kr. á næsta ári. Þessu á fyrst og fremst að ná með niðurskurði á sjúkrahúsa- og sérfræðiþjónustu stofnunarinnar. Á þessu ári nema fjárveitingar til þessarra starfsemi hjá Hsu 863,3 m.kr. Ef skera þarf niður um rúmar 412 m.kr. er ljóst að það er nánast verið að leggja starfsemina niður. Þessu hafa sunnlendingar mótmælt kröftulega með undirskriftalista rúmlega 10 þús einstaklinga. Nú er það svo að þörfin fyrir þessa þjónustu leggst ekki niður enda er ekki verið að tala um það. Þjónustan mun flytjast annað og þá væntanlega á Landspítalann og á læknastofur á höfðuðborgarsvæðinu. Gróflega áætlaður kostnaður ríkisins við þær breytingar gæti verið þannig: Aukinn kostnaður við sjúkraflutninga þ.e. frá Self. til Rvík: 50 - 100 millj Aukin heimahjúkrun; u.þ.b. 50 millj. Aukin heimaþjónusta ljósmæðra: u.þ.b. 10 millj. Aukin þjónusta ljósmæðra á LSH í Rvík: u.þ.b 10 millj. Flytjist 10.þús legudagar frá Hsu til LSH má gera ráð fyrir útgjaldaaukningu hjá LSH um 500 millj. Því til frádráttar gæti komið áður áætlaður aukinn kostnaður við heimahjúkrun upp á u.þ.b. 50 millj. Aukinn kostnaður Sjúkratrygginga vegna göngu- og dagdeildarþjónustu sem gera má ráð fyrir að flytjist á læknastofur á höfuðborgarsvæðinu: u.þ.b 65 millj. Samtals gæti kostnaður ríkisins því verið u.þ.b. 635 -685 millj. við það að spara 412,5 millj. í fjárveitingum til Hsu. Skrifað af as 13.11.2010 21:19VeturUndan farna daga hefur verið frost og norðan strekkingur suma dagana. Sólin kemur orðið upp á tíundatímanum. Hún er þó farin að skína hér lægra á lofti en áður þar sem hún er hætt að koma upp á bakvið austurfjöllin á morgnanna. Nú kemur hún upp fyrir framan Seljalandsmúlann og skín þá við sjóndeildarhring á heiðskýrum morgnum. Lömbin og hrútarnir hafa verin tekinn inn fyrir nokkru. Hér voru settir á fjórir lambhrútar. Það ætti nú að duga á þessar ær sem hér eru ásamt veturgamlahrútun. 12 gimbrar voru settar á. Ærnar verða teknar inn núna næstu daga þegar rúningsmaðurinn er tilbúinn að koma hér. Hænurnar fengu nýjan samanstað núna um daginn. Þær hafa undanfarin ár búið í gámi sem var færður inn í hlöðu á veturnar en var úti á sumrin. Þar sem ristarnar í fjárhúsinu eru farnar að gefa sig og fyrirsjánlegt að þeirra biði nokkuð viðhald ef féð ætti að vera á þeim í vetur var ákveðið að gera tilraun með að hafa fullorðnu ærnar á hálmi í hlöðunni í vetur. Þessu fylgir einnig nokkur vinnusparnaður þar sem nú er áformað að gefa þeim í heilum rúllum í gafagrind. Þannig hljóp á snærið hjá hænunum þar sem þá var hægt að útbúa aðstöðu fyrir þær í hluta af fjárhúsunum. Það er rétt að taka fram að hér er að sjálfsögu um að ræða virðulegar íslenskar hænur af "landnámsstofni". Ein þeirra ber meira að segja titilinn "falllegasta hænan á Íslandi". Í fjósinu er nú liðlega helmingur borin af þeim fjölda sem reiknað er með að beri í vetur. Hér á bæ hefur burðri verið stillt inn á mánuðina september og fram í byrjun maí. Nokkuð vel hefur gengið í haust og til þess að gera lítil vanhöld í kálfunum og kúm.
Skrifað af as 08.11.2010 07:29StútungasagaLeikdeild Umf. Vöku stóð fyrir hópferð héðan úr Flóanum á leiksýningu Leikfélags Ölfus á "Stútungasögu" í Þorlákshöfn á laugardagskvöldið. Ferðin var hin besta skemmtun og sýningin frábær. Ungmennfélögin þrjú í Flóahreppi tóku sig saman vorið 2005 og æfðu þetta leikrit. Ekki man ég lengur hvað sýningar voru margar en það var sýnt þó nokkru sinnum og á nokkrum stöðum. Hér í Flóanum var leikritið bæði sýnt í Þjórsárveri og í Þingborg. Svo var einnig farið í leikferð austur í Rangárvallasýslu og vestur á land. Sýnt var í Hvolnum á Hvolsvelli og í Brautartungu í Lundareykjadal. Það er töluverður fjöldi leikara sem þarf í þessa sýning. Það myndast góð stemming í góðum hóp sem tekst á við jafn krefjandi verkefni eins og að setja upp leikrit. Fyrir þá sem tóku þátt í þessu fyrir fimm árum hefur þessi ferð til Þorlákshafnar verið skemmtileg upprifjun. Ég hvet alla til þess að sjá þessa sýningu. Leikritið er stórskemmtilegt og húmorin óborganlegur. Leikara fóru á kostum og vil ég þakka Leikfélagi Ölfus fyrir fábæra skemmtun.![]() Skrifað af as 05.11.2010 07:30FlóaáveitanNú eru að hefjast framkvæmdir við endurbætur á vegslóða sem liggur að Flóðgáttinni á Brúnastaðaflötum. Markmiðið með því er að auka aðgengi að þessu merka mannvirki og gefa sem flestum kost á að skoða það. Flóðgáttin var tekin í notkunn árið 1927 þegar Flóaáveitan tók til starfa. Hún gegnir enn viðamiklu hlutverki í vatnsmiðlun í sveitarfélaginu. Flóaáveitan var mikið stórvirki á sínum tíma en framkvæmdir við hana hófust vorið 1922. Flóaáveitan mun hafa náð yfir 12 þúsund hektara land og með tilkomu hennar á sínum tíma urðu mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum í Flóanum. Það er með ólýkindum hvað fólk á þessum tíma bjó yfir mikilli þekkingu, bjartsýni og elju að leggja út í jafn stórkostlegar framkvæmdir með þess tíma verkfærum. Nú er ekki eins og þetta hafi verið áhættulaust. Þetta var ekki fyrsta áveitan sem gerð var og árangur gat verið misjafn. Ómæld vinna var lögð í þetta og miklum fjármunum var varið í verkefnið. Lán voru tekin með veðum í jörðunum. Samtímis og í kjölfar framkvæmda við Flóaáveituna var farið að huga að hagnýtingu á grasaukanum sem varð með tilkomu hennar. Farið var að leggja bílvegi um Flóann og huga að stofnum Mjólkurbús Flóamanna til þess að taka við og koma á markað mjólkinni sem framleidd yrði á ört stækkandi búunum . Í fyrstu var um stóraukinn engjaheyskap að ræða en með því að veita jökulvatnu á engarnar á vorin virkaði það eins og áburður á grösin. Skurðakerfi áveitunnar reyndist svo einnig grundvöllur túnræktar í stórum hluta Flóans og er svo raunin ennþá í dag. Það er ljóst að þessi framkvæmd orsakaði gríðaleg umhverfisáhrif hér í Flóanum. Hún hafði mikil áhrif á gróður, dýralíf og mannlíf svæðisins. Hvort þessar breytingar væru taldar til bóta í umhverfismati nútímans veit ég ekki en þær eru undirstaðan í fjölbreyttri náttúru og atvinnu-og mannlífinu sem nú er hér að finna. Við Jón í Lyngholti tókum hluta úr degi í síðasta mánuði í að fara ríðandi að Flóðgáttinni. Þetta var síðasti reiðtúrinn okkar á þessu hausti. Nú er búið að draga undan hrossunum og sleppa þeim. Við fórum héðan um hádegi. Fórum um land Hurðarbaks og að Neistastöðum. Þaðan upp vegin að Brúnastöðum að stóra áveituskurðinum (Vélskurðinum). Þaðan eftir skurðbakkanum austanmegin að Flóðgáttinni. Það er einmitt á þessum skurðbakkanum sem verið er að endurbæta vegslóðan svo hægt verði að fara þessa leið á bíl. Alls er þessi slóði eitthvað á þriðja kílómeter.
Skrifað af as
Flettingar í dag: 176 Gestir í dag: 33 Flettingar í gær: 836 Gestir í gær: 166 Samtals flettingar: 190488 Samtals gestir: 33829 Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:23:53 |
clockhere Eldra efni
Í Flóanum Nafn: Aðalsteinn SveinssonFarsími: 8607714Tölvupóstfang: kolsholt@islandia.isHeimilisfang: Kolsholti IStaðsetning: FlóahreppurHeimasími: 4863304Tenglar |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is