Í Flóanum

Færslur: 2017 Janúar

30.01.2017 21:55

Af forfeðrum mínum.

Langafi minn var Páll Eiríkur Pálsson. Hann fæddist í júlí 1873. Foreldrar hans voru Helga Friðfinnsdóttir. (f. 1839 - d. 1909) og Páll Pálson bókbindari  ( f.1819 - d. 1873 ) sem m.a.búa í Kverkártungu á Langanesströnd N-Múl. Draugagangur () og Lífsbarátta á 19. öld ()

Þegar Eiríkur langafi minn fæðist er Páll faðir hans látinn. Foreldrar hans höfðu reyndar fyrir löngu slitið samvistum. Faðir hans hafði verið í Vopnafirði en Helga móðir hans er í vinnumensku í Miðfjarðanesi Skeggastaðasókn þegar hann fæðist.

Mér hefur verið sögð sú saga af andláti Páls Pálssonar bókbindara að hann hafi verið á ferð milli bæja í Vopnafirði að kvöldi nýársdags 1873. Þá allt í einu finnst honum hann nú vera orðinn feigur. Hann ríður því heim að næsta bæ sem mér skilst að hafi verið Leiðarhöfn og knýr þar dyra. Hann spyr hvort hann megi ekki koma inn því nú styttist í að hann muni deyja. Hann kunni því illa að finnst dauður á milli bæja. Honum er boðið inn. Hann þiggur þar veitingar og situr að spjalli við húsráðendur langt fram á kvöld. Þá er honum boðið gisting og þiggur hann það, Morguninn eftir liggur hann látinn í rúmi sínu.

Eiríkur elst upp með móður sinni sem var í vinnumensku víða á þessum slóðum m.a. um tíma í Kverkártungu. En þar höfðu foreldrar Eiríks rúmum tíu árum áður en hann fæðist reynt fyrir sér með sjálfstæðan búskap. Þau áform gengu ekki upp eins og rakið hefur verið hér á síðunni. Draugagangur () og Lífsbarátta á 19. öld ()

Ekki hef ég heimildir fyrir því hvar Eiríkur langafi minn dvaldi eða gerði sem ungur maður en 1901 þegar hann er 28 ára gamall kvænist hann langömmu minni Kristínu Jónsdóttur ( f. 1869 - d. 1921 ) sem þá var ekkja með fjögur börn á aldrinum 2 til 8 ára. Kristín var ættuð úr S-þing en hafði búið í Þistilfirði með fyrri manni sínum.

Þau hefja búskap í Krossavík í Þistilfirði og þar er afi minn Aðalsteinn Eiríksson fæddur í okt 1901. Móðir Eiríks,  Helga Friðfinnsdóttir er þá hjá þeim í Krossavík. Þau búa í Krossvík í fjögur eða fimm ár en hætta þá búskap og flytja til Þórshafnar. Eiríkur og Kristín eingnast fjögur börn meðan þau búa í Krossvík en tvö þeirra deyja í frumbernsku. Eftir að þau koma á Þórshöfn eignast þau 3 í viiðbót. Eins og áður sagði átti Kristín fjögur börn fyrir með fyrri eiginmanni sínum.

Eftir að þau koma á Þórshöfn, virðist mér samkvæmt þeim heimilum sem ég hef ( eru reyndar afar litla ), Eiríkur aðallega stunda sjómensku. Heimilið er þungt í rekstri og tekjur litlar. Börnin eru mörg hver send í fóstur.

Í Laxárdal í Þistilfirði búa bræður Ólafur, Kristján og Þorsteinn Þórarinssynir. Þeir koma þangað með foreldrum sínum aldamótaárið 1900 og hefja svo sjálfstæðan búskap hver af örðum. Ólafur fyrst árið 1901, og svo Kristján og Þorsteinn árið 1907. Kona Kristjáns er Ingiríður Árnadóttir frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Árið 1913 stofna þau nýbýlið Holt í Þistilfirði sem fær land bæði frá Gunnarsstöðum og þriðjapartinn úr Laxárdal.
 
Þessi ungu hjón taka afa minn í fóstur um það leiti sem þau byggja upp í Holti. Afi er þá 12 ára gamall og elst hann upp hjá þeim upp frá því. Í Holti er rekinn myndarbúskapur og það man ég að afi taldi það sína gæfu að hafa komið þar.


  • 1
Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49695
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 03:22:05
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar