Í Flóanum

Færslur: 2017 Febrúar

21.02.2017 15:05

Örnefni

Fyrir u.þ.b. þrjátíu árum var ég forðagæslumaður hér í gamla Villingaholtshreppnum í nokkur ár  Það var einmitt á þeim árum sem Steingrímur J Sigfússon varð ráðherra í fyrsta sinn. Steingrímur var landbúnaðar- og samgönguráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannsonar sem tók við í lok september 1988.

Steingrími var mjög í mun í sinni tíð sem landbúnaðarráðherra að búfjárfjöldi væri rétt skráður. Hann hafði einhverjar efasemdir um að svo væri. Hann fyrirskipaði því okkur forðagæslumönnum, í hverju sveitarfélagi fyrir sig að skrá búfjárfjölda aftur einn veturinn.

Forðagæslumenn, sem voru starfsmenn sveitarfélaganna í landinu, heimsótti alla bæi á hverju hausti og fylltu út skýrslur um fjölda búfjár og heyforða. Seinnipart vetrar voru svo allir bæir heimsóttir aftur og ástand gripa skoðað.

Nú vildi ráðherrann að við sérstaklega teldum aftur búfénaðinn á hverjum bæ í seinni ferðinni til að sannreyna fyrri skýrslur. Þar sem ráðherrann hafði nú ekki skipunnarvald yfir forðagæslumönnum fyrirskipaði hann hreppstjóranum í hverju sveitarfélagi að fara með forðagæslumanninum og aðstoða hann við verkefnið.

Sigurður Guðmundsson heitinn í Súluholti var hreppsstjóri í gamla Villingaholtshreppnum þegar þetta var. Þetta verkefni dæmdist því á okkur að sinna hér í sveit. Ég man að okkur þótti báðum verkefnið arfavitlaust og afurðin sem út úr því kæmi yrði aldrei annað en ein skýrslan enn sem engum myndi gagnast en tæki pláss í skúffum eða hillum.

Það kom samt aldrei annað til greina af okkar hálfu en að sinna þessu eftir bestu getu. Sigurður sinnti sínum embættisskyldum af mikilli samviskusemi. Því til viðbótar var hann skemmtilegur samferðamaður.

Auk þess að fylla út skýrlur um hvern bæ um búfjárfjölda skrifaði Sigurður heilmikla frásögn af þessari ferð okkar. Inn í þá frásögn orti hann fjöldan allan af vísum um menn og málefni sem bar á góma. Þessi för okkar á alla bæi í gamla Villingaholtshreppnum varð því bæði eftirminnanleg og skemmtileg.

Sigurður var hafsjór af fróðleik. Hann kunni óteljandi sögur um atburði sem gerðust hér í sveit í aldanarás. Hann fræddi mig um fjöldan allan af örnefnum um alla sveit. Hann útskýrði hvernig öll þessi örnefni höfðu tilgang í daglegu lífi fólks og gátu einfaldað lífsbaráttu fólks.

Sigurður sagði mér að hann gæti sagt jafn kunnugum manni til um það hvar hann hefði lagt frá sér brýni á þúfu út á engjum í Súluholti þannig að sá hinn sami gæti gengið að því. Það var grundvallaratriði að fólk lagði sig niður við að læra þessi örnefni og fara rétt með þannig að ekki varð um meinn rugling að ræða.

Í dag er öldin önnur. Að stórum hluta er hætt að nota mikið af örnenfum í daglegu lífi þannig að þau gleymast og ungt fólk lærir þau aldrei. Svo er annað að það er enginn metnaður í að nota þau örnefni sem enn eru algeng rétt. Fjölmiðlar landsins fara nú, að manni finnst, út og suður í lýsingum sínum á staðsetningu út frá örnenfum.

Í tengslu við ömurlegt sakamál í vetur tók t.d. hver fjölmiðillin upp eftir öðrum að Selvogsviti væri á Reykjanesi. Fyrr í vetur var sagt frá því á einni útvarpsstöðinni að hálka væri í uppsveitum Árnessýslu einknn fyrir austan Hvolsvöll. Í tenglum við fréttir um jarðskjálfta á síðasta ári var því haldið fram að Húsmúli væri á Hellisheiði. Ég hef líka heyrt í fölmiðlum að Svínahraun væri á Hellisheiði.

Annað sem hefur haft áhrif á hvernig örnefi eru orðin notuð rangt er póstnúmerakerfið og að heimilsfang er alltaf skrifað með staðsetningu pósthúss. Það er orðið sama hvar þú ritar nafn þitt þú þarft alltaf að gefa upp pósthúsið en ekki hvar í sveit þú býrð. Þannig er bóndi í Flóanum oft sagður vera bóndi á Selfossi, Það var vitnað í bónda sem ég hef haldið fram að þessu að byggi í Kelduhverfi um daginn í fjölmiðlum. Þar var hann sagður vera bóndi á Kópaskeri.

Ég geri mér allveg gein fyrir að örnefni verða ekki notuð eins og áður fyrr og þau munu halda áram að gleymast nema e.t.v. einhverjum dellu köllum og kellingum. En mér finnst allveg lágmarks krafa að þeir sem hafa það að atvinnu að tala eða skrifa í fjölmiðla landsins fari rétt með þegar þeir nota örnefni til að útkýra sitt mál.

Svo mörg voru þau orð.  emoticon

  • 1
Flettingar í dag: 222
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49878
Samtals gestir: 5989
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 05:07:37
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar