Í Flóanum |
||
Færslur: 2021 Apríl11.04.2021 17:25Covid19, Parkinson og égNú er liðið rúmt
ár frá því að farsóttin Covid19 fór að herja hér og kollvarpa allri rútínu,
ásamt því að spilla öllum áætlunum hjá háum sem lágum. Þetta hefur að sjálfsögðu
haft áhrif á mitt líf eins og aðra. Það sem hefur líka gerst hjá mér er að
Covid19 hefur einnig, eins og menn þekkja sem hafa Parkinson sem ferðafélaga,
haft áhrif á Parkinson einkennin. Parkinson er nefnilega afbrýðisamur út í aðra
sjúkdóma. (sbr. https://www.facebook.com/snorrimar.snorrason
) Þó ég hafi ekki
smitast af Covid19 (góðuheilli) er Parkinson vel á verði og notar flest
tækifæri til að minna á sig. Eins og það sé einhver hætta á að ég gleymi honum. Í öllu þessu umtali um Covid19 sem og
sá ruglingur sem hann hefur haft á daglegt líf hefur Parkinson notað tækifærið
til að reyna að ná fram markmiðum sínum. Þetta byrjaði nú
svolítið klaufalega hjá mér. Í febr. 2020, u.þ.l. sem Covid19 var að koma sér
fyrir hér á landi, verð ég fyrir því óláni að meiða mig lítilega fyrir
klaufaskap. Þegar ég meiði mig fyrir klaufaskap kenni ég Parkinson hiklaust um.
Þetta voru nú svo sem ekki alvarleg meiðsli. Ég marðist lítilega á síðunni. En
nóg til þess að það hafði áhrif á þá líkamsrækt sem ég stunda, til þess að hafa
hemil á Parkinson. Nokkrum vikum
seinna förum við Kolbrún til Spánar í þrjár vikur. Það gerum við til þess að
komast í meiri hita og stytta veturinn. En það hefur hjálpað mér að stunda mína
hreyfingu. Kuldinn er nefnilega ekki að vinna með mér. Á Spáni leið okkur vel
við kjöraðstæður. Við vorum í frábærri íbúð sem var í göngufæri við allt sem við
þurftum með. Veðrið var líka passlegt fyrir okkur hvorki of heitt eða kalt og
ekki rigning. Við notuðum tíman fyrst og fremst í gönguferðir Svo þegar fer að
líða að lokum þessara ferðar er Covid19 farin að grassera á Spáni og fyrirvara
laust er öllu skelt í lás. Öllum
matsölustöðum og börum er lokað. Öllum verslunum og mörkuðum nema
matvöruverslunum er lokað. Rauður fáni er kominn á allar baðstrendur og bannað að
vera þar eða fara þar um. Daginn eftir er svo komið á allsherjar útgöngubann. Síðustu þrjá dagana sem við vorum á Spáni
dvöldum við alfarið inn í íbúðinni sem við höfðum. Þegar heim var
komið tók við tvegga vika sóttkví hér heima. Ég er nú ekkert sérstklega laginn
við að hreyfa mig nóg innanhúss. Ég vil
helst geta gengið úti og komast í sund. Ég hef stundað sundleikfimi með Vatn og
heilsa ( https://www.facebook.com/vatnogheilsa.is ) á Selfossi undanfarin ár og það hefur gert
gæfumuninn fyrir mig. Fljótlega eftir að sóttkvínni hjá okkur lauk, var
öllum sundlaugum lokað hér á landi vegna Covid19. Allir þessir
þættir gerðu það að verkum að ég var engan vegin í eins góðu ástandi og ég
vildi í fyrra vor. Vorið er skemmtilegur og annasamur tími í
sveitinni. Það þarf að sinna suðburði, tæma haughúsin á réttum tíma svo
skíturinn gagnist gróðrinum sem best, vinna akrana og sá korni, grænfóðri og grasi á réttum tíma, bera
á túnin, gera við og endurnýja girðingar og ýmislegt annað. Allt eru þetta
atriði sem skipta sköpum í afkomu búsins hvert ár. Þó ég sé ekki
lengur bundinn yfir eða mín afkoma háð búrekstrinum hér á bæ, þá grípur mig
ósjálfrátt mikil meðvirkni í vorönnunum. Það er erfitt að kenna gömlum hundi að
sitja og ég á það til að fara fram úr mér á vorin. Ég er enn fullur áhuga fyrir
búrekstrinum hér á bæ og finnst þessi tíma (vorið) óskaplega skemmtilegur. En þetta gat nú
ekki farið vel í fyrra vor. Enda þegar sauðburði var lokið og það sá fyrir
endan á vorverkum og styttast fór í slátt var ég orðin ekki upp á marga fiska.
Skrokkurinn var allur eins og spíta. Ég bæði stirður og verkjaður.
Parkinsoneinkennin ágerðust, ég bæði skalf og fraus fastur til skiptist í tíma
og ótíma. Við það bættist að eitthvað
virtist hafa gefið sig í hægri öxlinni á mér. Ég var hættur að geta notað
hendina til nokkurs gagns. Fyrst reyndi
maður bara að hægja á sér og sjá til hvort þetta myndi jafan sig. En .þegar það
gerðist ekki fór ég til læknis. Heimilislæknirinn sendi mig í myndatöku og
ómskoðun á öxlinni ásamt því að gefa mér tilvísum á sérfræðing. Það var komið
fram í ágúst þegar ég fékk tímann hjá sérfræðingnum sem sagði eftir að hafa
skoðað myndirnar að það væri tvennt í stöðunni. Ég gæti farið beint til
sjúkraþjálfara og freistað þess fyrst að hann gæti með þjálfun á öxlinni í
einhverja mánuði komið hendinni í lag. Ef það gengi ekki færi ég í aðgerð. Hinn
kosturinn væri að hann geri sem fyrst aðgerð á öxlinni og síðan tæki sjúkraþjálfarinn
við. Þá væru góðar líkur á að ég gæti farið að nota hendina aftur eftir svona
12 vikur. Ég þurfti nú ekki
að hugsa mig lengi um. Það var engin ástæða til að fresta því að fara í aðgerð.
Ég þyrfi á þessari hendi að halda sem fyrst. Bara svo og gæti haldið áfram að
eiga við félag minn, hann Parkinson. Ég má engan vegin vera handlama í þeirri
baráttu. Parkinson lætur mig ekki í friði ef hann fær ekki alla athyglina. Í byrjun sept fór
ég svo í þessa axlaraðgerð. Það kom í ljós í aðgerðinni að einhver beinnibba
var að sarga í sundur sin í axlarliðnum. Hefði ég freistað þess að sleppa við aðgerðina með því að fara beint
til sjúkraþjálfara hefði það bara gert illt verra. Ég hefði alltaf endað í
aðgerð og óvíst hvort ég hefði náð fullum bata ef sinin hefði slitnað í sundur.
Fljótlega eftir
aðgerðina mætti ég hjá sjúkraþjálfara. Hún Hildur Grímsdóttir sjúkraþjálfari
hjá Mætti á Selfossi ( https://www.facebook.com/M%C3%A1ttur-sj%C3%BAkra%C3%BEj%C3%A1lfun-ehf-1009228025800113
) tók nú til við að þjálfa á mér öxlina. Í fyrstu hreyfi hún axlaliðinn sjálf
meðan ég reyndi að vera máttlaus en eftir 6 vikur var sinin orðin nægalega
traust. Þá fyrst gat ég tekið við að hreyfa handlegginn. Það var frábært
að vinna þetta með Hildi, Hún var ólöt við að peppa mig áfram og kenna mér og
ráðleggja, ekki bara til að koma öxlinni og handleggnum aftur í gagnið líka
varðandi baráttuna við Parkinson. Allt er þetta mikil þolinmæðis vinna. Ég verð að
viðurkenna að ég var orðin frekar svartsýnn
og þungur í hugsun þegar mér fannst lítið ganga. Í haust gat ég lítið orðið
hreyft mig án þess að meiða mig. Ég missteig mig og var sífellt að detta. Ég átti orðið erfitt að sætta mig við
bjargarleysið sem mér fanst ég fastur í.
Þá var Hildur alldeilis betri en enginn að hvetja mig áfram, en
jafnmframt að tileinka mér þolinmæði. Ef ekki tækist að ná ásættanlegum styrk
fyrir áramót settum við bara markið á vorið. Nú í dag finnst
mér ég vera búinn ná vopnum mínum. Þó ég sé kannski ekki alveg kominn í mitt
besta form er ég á réttri leið og ég hlakka til vorsins. Ég ætla samt að reyna
að læra af reynslunni og fara varlega. Aðalatriði er að halda sér alltaf í sem
bestu formi. Það er mikil vinna að ná því aftur upp ef maður tapar því niður. Þunglyndi er
algengur fylgikvilli með Parkinson. Ástæðan er ekki sjálfsvorkun eða
aumingjaskapur. Þunglyndið stafar einfaldlega af því að heilinn er ekki að
starfa rétt vegna skort á boðefnum. En heilann er hægt að þjálfa eins og hvern
annan vöðva og það er mikilvægt að gera það. Ég vil reyna að
forðast það eins og heitan eld að lenda í þunglyndi. Ég ímynda mér að þá fyrst
fari ég að vera aðstandendum mínum byrði. Ég held ég verði afspyrnu leiðinlegur
þunglyndissjúklingur. Ég reyni því af fremsta megni að nota heilann á jákvæðum
nótum. Jafnframt þarf ég líka að forðast allt sem veldur pressu og stressi því
þá fara Parkinson einkennin á flug. Stundum getur það verið flókið. Þeir sem eru með
Parkinson eða aðra langvinna ólæknandi sjúkdóma, sem hægt og þétt herða tökin, upplifa
oft eins og þeir séu að fá nýja greiningu aftur og aftur. Það er áfall að fá greiningu um að maður sé
með Parkinson. Svo kemst maður yfir það og lærir að lifa með því. Maður finnur
ekki mun á sér frá degi til dags og
finnst allt sé í góðu gengi. En svo einn
góðan veður dag uppgvötar maður að eitthvað sem maður gat gert fyrir nokkum
mánuðum getur maður ekki lengur og kennir þá Parkinson um. Þá finnst manni það
áfall aftur. Mikilvægt er að
láta þetta ekki draga sig miður. Ég reyni að líta þetta verkefni, að vera með
Parkinson sem baráttu eða keppni þar sem maður þarf vissulega að bera virðingu
fyrir andstæðingnum. Í raun deyr enginn úr Parkinson en hann getur gert mann að
algerlega óvirkum og farlama einstaklingi. Andstæðingurinn er vissulega til
staðar og það liggur fyrir hvað hann ætlar sér. Leikurinn gengur út á það að
hindra hann í því með þeim aðferðum sem best duga. Ritað
á alþjóðlega Parkinsondeginum 11. apríl 2021 Aðalsteinn Sveinsson í Kolsholti. Skrifað af as
Flettingar í dag: 176 Gestir í dag: 33 Flettingar í gær: 836 Gestir í gær: 166 Samtals flettingar: 190488 Samtals gestir: 33829 Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:23:53 |
clockhere Eldra efni
Í Flóanum Nafn: Aðalsteinn SveinssonFarsími: 8607714Tölvupóstfang: kolsholt@islandia.isHeimilisfang: Kolsholti IStaðsetning: FlóahreppurHeimasími: 4863304Tenglar |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is