Í Flóanum

Greinar

\files\flóahreppur 2006 til 2010.doc
\files\Um áramót 2010-2011.doc


(Stutt) yfirlit um starfsemi sveitastjórnar Flóahrepps á kjörtímabilinu 2006 til 2010

Samstarf í sveitastjórn hefur verið gott og fulltúara beggja lista sem í framboði voru og eiga fulltrúa í sveitastjórn hafa lagt sig fram um að fjalla málefnalega um öll mál. Þetta á við einnig um starfið í nefndum sveitarfélagsins að ég best veit. Fræðslunefnd hefur verið mjög virk og gengt mikilvægu hlutverki hjá sveitarfélaginu enda málflokkurinn stór hluti af rekstri sveitarfélagsins.

 

Skatttekjur eru sá rammi sem sveitarfélagið hefur hverju sinni. Skatttekjur hafa dregist saman  á síðasta ári og horfur á frekari samdrætti á þessu ári. Á sama tíma hefur verðlag hækkað talsvert (vísitala neyslv. um rúm 40% frá ársb. 2006) og fólksfjölgun verið töluverð í sveitarfélaginu. (um 15% frá ársbyrjun 2006)

Skatttekjur árið 2006:   226 millj.

Skatttekjur árið 2007:   312 millj.

Skatttekjur árið 2008:   329 millj

Skatttekjur árið 2009: 307 millj. áætlaðar

Skatttekjur árið 2010:   294 millj. áætlaðar

Lögð hefur verið á það áhersla allt kjörtímabilið að sína ráðdeild í öllum rekstri og stöðugt verið að leita að leiðum til hagræðingar og sparnaðar í rekstri. Markmiðið hefur verið að nýta fjármagnið sem allra best fyrir samfélagið og íbúa sveitarfélagsins. Tekist hefur að sníða rekstrinum stakk eftir vexti og samdrættinum hefur verið mætt með frekari sparnaði og samdrætti í rekstri.   

 
Við uppbyggingu á yfirstjórn og skrifstofu
hjá nýju sveitarfélagi var það haft að leiðar ljósi að koma upp skilvirku skrifstofuhaldi sem nýtist bæði við stjórn sveitarfélagsins og stofnunum þess og íbúunum sem þangað þurfa að leita eftir þjónustu. Jafnframt var þess gætt að hafa yfirbyggingu sveitarfélagsins í samræmi við stærð þess og tekjupósta. Farið var varlega í fjölda stöðugilda og öllum fjárfestingum. Ekki var lögð áhersla á að gera alla hluti í einu í upphafi heldur hefur starfsemi skrifstofunnar smátt og smátt verið að eflast eftir því sem tekist hefur að koma verkefnunum í gott horf. Í upphafi var lögð áhersla á að sameina bókhald gömlu sveitarfélaganna og koma allri bókhaldsvinnu sveitarfélagsins í þannig horf að hún nýtist við stjórnun og eftirliti með áætlunum hjá sveitarfélaginu. Skrifstofan hefur einnig það hlutverk að koma upplýsinga um starfsemi sveitarfélgsins til íbúanna. Fljótlega á kjörtímabilinu var opnuð heimasíða fyrir sveitarfélagið. Þar er reynt að hafa allar upplýsingar sem fólk þarf á að halda vegna þeirra þjónustu sem í boði er. Þar birtast einnig fréttir úr sveitarfélaginu. Heimasíðan var sniðin með það fyrir augum að hún geti nýst sem flestum sem erindi eiga við íbúa sveitarfélagsins eða vilja vekja athygli að starfsemi í Flóahreppi. Reglulega birtast einnig pistlar í féttabréfi sveitarinnar "Áveitunni" frá sveitastjóra, leikskólanum og Flóaskóla. Verkefni skrifstofunnar hafa smátt og smátt verið aukast. Fyrst var lagt upp með eitt stöðugildi auk sveitastjóra en það var síðan aukið í 1,2 með tveimur starfsmönnum. Kosnaður við skrifstofuhaldið hefur lækkað á síðasta ári þrátt fyrir aukin verkefni sem skýrist af meiri færni starfsfólksins, vinnu við sameiningu og skipulag minkar eftir því sem verkefnin komast í sinn farveg og minni þörf á aðkeyptri þjónustu. 

Flóahreppur fyrst sveitarfélaga hér á Suðulandi er núna að taka í notkunn skipulega skjalaskráningu eftir sérstökum skráningalykli sem Héraðsskjalasafnið hefur samþykkt.

 
Flóahreppur er í samstarfi við önnur sveitarfélög
á fjölmörgum sviðum. Markmið með slíku samstarfi er bæði að spara peninga og reyna að tryggja faglegri vinnu við þau verkefni sem um ræðir í hvert skipti. Við getum nefnt samstarf um rekstur stofnanna á sviði menningarmála eins og Hérðaskjalasafnið, Byggðasafnið og Listasafnið.Einnig er t.d. hægt að nefna að Flóahreppur er aðili að Skólaskrifstofu Suðurlands, Sorpsamlagi Suðurlands, Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands og Heilbrigiseftirliti Suðurlands. Um starfsemi allra þessarra stofnanna er sérstakt byggðasamlag um rekstur hverra fyri sig.  Við höfum einnig verið að kaupa þjónustu hjá öðrum sveitarfélögum eins og t.d. hjá Árborg í skólamálum og Hrunamönnum í sambandi við launafulltrúa.

Sveitastjórn Flóahrepps hefur á kjörtímabilinu verið opin fyrir enn frekari samvinnu og samstarfi við nágranna sveitarfélögin  um verkefni þar sem okkur hefur þótt vera ávinningur af samstarfi. Stæðstu verkefnin hafa verið að tekið var upp samstarf um skipulags- og byggingafulltrúa og um félagsmálafulltrúa við uppsveitir Árnessýslu. Við höfum verið að leita eftir samstarfi við önnur sveitarféög um vatnsölfun fyrir neysluvatn til framtíðar. Við höfum verið að vinna með sveitarfélögum hér í nágrenni okkar að því að efla atvinnulíf hér á svæðinu.  Á öllum þessum sviðum sem hér hafa verið talin upp hefur fjárhagslegur og faglegur ávinningur verið af samstarfinu. Með aukum verkefnum sveitarfélaga eins og fyrihuguð eru er nauðsynlegt fyrir flest sveitarfélög ef þau vilja starfa áfram að huga vel að aukum samstarfsvekefnum. Það er samt eðlilegt að það sé skoðað á hverjum tima hvort samstarfið sé að skila markmiðum sínum og  við sem sjálfstætt sveitarféag eigum stöðugt að gera það.

 
Rekstur málaflokka
hjá Flóahreppi á kjörtímabilinu hefur gengið eftir áætlunum. Sífellt er samt verið að leggja mat á það hvernig til tekst. Eru fjármunirnir sem ráðstafað er í málaflokkin að nýtast á bestan hátt og eru verkefnin að styrkja samfélagið og koma íbúum að sem mestum notum?   


Fræðslu og uppeldimál
eru lagstæðsti málaflokkurinn. Rekstur leik- og grunnskóla er þar veigamest. Mjög gott starf er unnið í þessum stofnunum sveitarfélagsins og njóta þær mikils trausts meðal íbúa sveitarfélagsins. Á síðasta ári var tekin sú ákvörðun í sveitastjórn að færa kennslu elstu bekkja grunnskólans frá Selfossi í Flóaskóla í áföngum á þremur næstu árum. Þessi ákvörðun var tekin eftir að fram kom skýr vilji til þess meðal íbúa sveitarfélagsins að stíga þetta skref. Einnig var framkvæmda þörfin vegna þessa nákvæmlega metin og kannað hvaða bolmagn sveitarfélagið hefði til slíkra framkvæmda. Ljóst var að það þurfti að auka húsnæði skólans hvort sem var vegna þeirra fjölgunnar sem orðin var frá því að Flóaskóli var stofnaður. Ég bind miklar vonir við þetta verkefni og hef fulla trú á að þetta muni skyrkja hér skólastarf til framtíðar og auka gæði í skólastarfi. Ekki er ætlunin að auka hlutfall skatttekna sem fer í málaflokkinn heldur frekar að nýta það fjármagn sem annars er greitt til Árborgar vegna kennslu unglinga úr Flóahreppi og í skólaaksturs vegna þess til rekstur Flóaskóla í staðinn með þessu. 


Menningarmál
eru einnig æði stór málflokkur hjá Flóahreppi miðað við önnur sveitarfélög. Skýringin er fyrst og fremst sú að sveitarfélagið er með á sinni könnu þrjú Félagsheimili. Öll þessi félagsheimili gegna mikilvægu hlutverki í öflugu félga- og menningarlífi sveitarinnar. Á kjörtímabilinu var unnið að því að ná fram hagræðingu í rekstri húsanna. Rekstur þeirra var sameinaður undir einni rekstrarstjórn. Unnið var að sameiningunni í samstarfi við Ungmennafélögin og kvennfélögin á svæðinu. Þessi félög eru eignaraðilar að húsunum og taka þátt í rekstrinum á þann hátt að skipa fulltrúa sína í rekstrarstjórnina.

Nokkur árangur hefur nást með þessarri sameiningu og samstarfið í rekstrarstjórninni gengur mjög vel. Stæðsti gjaldaliðurinn er samt svokölluð innri leiga sem gjaldfærð árlega til að mæta föstum kostnaði s.s afskriftum, viðhaldi, fasteignasköttum og fjármagngjöldum.


Félagsþjónustan
hefur verið efld á kjörtímabilinu. Tekið var upp samstarf við uppsveitir Árnessýslu um félagsmálafulltrúa. Sveitarfélagið hefur sett sér reglugerð um afslátt fasteignagjalda hjá elli- og örorkulífeyrisþegum. Boðið er upp á akstur fyrir fatlaða. Einnig geta aldraðir nýtt sér dagdvöl sem rekin er á Selfossi og boðið er upp á akstur vegna hennar. Annars er fyrst og fremst lögð áhersla á heimaþjónustu til þeirra sem hennar þurfa við. Þessi málaflokkur á væntanlega eftir að stækka mjög á næstu árum með færslu verkefna frá ríkinu til sveitarfélaga. Nú er unnið að því að sveitarfélögin taki við málefnum fatlaðra um næstu áramót.


Sorphirða og sorpeyðing
hafa verið mjög til skoðunnar hjá sveitarfélögum á suðurlandi á síðasta ári. Ástæðan er að með lokun á sorpurðun í Kirkjuferjuhjáleigu nú 1 des s.l. búa sunnlendingar ekki lengur við það að geta losnað við sorp á ódýran hátt. Einng hafa íslendingar skuldbundið sig til þess að minnka sorp sem fer til urðunar á næstu árum. Flóahreppur gekk á undan öðrum sveitarfélögum með því að taka hér upp s.k. þriggjatunnu kerfi í samstarfi við Ísl. Gámafélagið haustið 2007.  Verkefnið var unnið í miklu samstarfi við íbúa sveitarfélagins og hefur tekist vel. 


Skipulags- og byggingamál
voru  í upphafi kjörtímabilsins tekin til endurskoðunnar. Tekið var upp samstarf við uppsveitir Árnessýlu um rekstur embættis skipulags- og byggingafulltrúa. Þessi ákvörðun var ekki óumdeild í sveitarfélaginu en ég er samfærður um að með þessu tókst að ná betur utan um alla stjórnsýslu málaflokksins og koma betra skipulagi á gagnasafn hans. Tekin voru upp vandaðri og nákvæmari vinnubrögð með nútímalegri tækni. Samtímis því lækkaði heildarkostnaður við þá rekstrarliði sem þetta samstarf er um, í málaflokknum. Þrátt fyrir mikið tekjufall í málaflokknum á síðasta ári og horfur á að verði á þessu ári hefur þessi kostnaður lækkað að raungildi miðað við þann kostnað sem var áður en skipulagsbreytingin var gerð.

 
Aðalskipulag  fyrrum Villingaholtshrepps
hefur verið í vinnslu hjá sveitastjórn á kjörtímabilinu. Vinna við það var vel á veg komin vorið 2006 þegar Flóahreppur varð til. Í samráði og með leyfi Skipulagsstofnunnar var ákveðið að klára þá vinnu í stað þess að byrja upp á nýtt að gera eitt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Var það m.a gert til þess að hafa betri möguleika á að uppfylla lagaskilirði um að allt land yrði að vera búið að skipuleggja með aðalskipulagi í árslok 2008.  Gerð þessa skipulags hafði verið unnið í ágætri sátt framan af  en þegar þarna var komið sögu var að koma fram mikil andstaða við virkjanaframkvæmdir. Í aðalskipulag fyrrum Villingaholtshrepps þurfti að taka afstöðu til þess hvort gera ætti ráð fyrir virkun við Urriðafoss eða ekki í framtíðinni. Sveitastjórn Flóahrepps gaf sé mikinn tíma í að fara yfir þessi mál og hlusta á öll þau sjónarmið sem fram komu varðandi þetta. Sveitastjórn Flóahrepps setti strax fram þá skoðun sína að ef að gera ætti ráð fyrir Urriðafossvirkun yrði að tryggja það að þetta svæði hér og íbúar sveitarfélgsins hefðu einhvern ávinning af  því. Það var allveg ljóst í okkar huga að það var með öllu óásættanlegt að allur ávinningur af stórri framkvæmd í sveitarfélaginu færi í burt af svæðinu. Einnig var fjallað mikið um umhverfisáhrif af virkjuninni og þess krafist að leitað yrði allra leiða að lágmarka þau. Í ljósi þess að umfang virkjunarinnar var minnkað veruleg frá því sem fyrst var gert ráð fyrir og að samningur var gerðir við Landsvirkun um mótvægi aðgerðir og ýmis verkefni sem tryggja eiga þessu samfélagi hér ávinning af framkvændinni var samþykkt samhjóða í sveitastjórn að gera ráð fyrir virkuninni á skipulaginu. Það var einning gert í ljósi þess að mati sveitastjórnar er um að ræða mjög hgakvæman virkjunarkost með lítil umhverfisáhrif vegna þess að Þjórsá hefur þegar verið virkjuð og öll vatnsmiðlun er þegar fyrir hendi í ánni. Einnig var þegar gert ráð fyrir virkuninni í hinum þremur sveitarfélögunum sem hún nær yfir.     

Það er allveg ljóst að þessi ákvöðpun sveitastjórnar var umdeild en ég er þess fullviss að sveitastjórnarmenn allir höfðu fyrst og fremst hagsmuni sveitarfélagsins og svæðisins að leiðarljósi við þessa ákvörðun. Þarna varð eins og stundum þarf að gera að taka heildarhagsmuni fram yfir sérhagsmuni og langtímahagsmuni fram yfir stundarhagsmuni.       


Vatnsveitan
hefur mikið verið til skoðunnar á kjörtímabilinu. Það lá fyrir að fara þyrfir í úrbætur í málefum vatnsveitunnar og að því hefur verið unnið allt kjörtímabilið. Flóahreppur er eitt fárra sveitarfélaga í dreifbýli sem hefur það að stefnu að geta þjónustað alla í íbúa og sumarhúsaeigendur með neysluvatn. Vatnsveita í deifbýli er ekki lögbundin þjónusta sveitarfélaga. Nú eru samt orðin vel yfir 30 ár síðan hér var lagt í stórfelldar vatsveituframkvæmdir og vatsveita lögð á nær alla bæi. Þessar veitur er að mörgu leiti í fullu gildi en í dag. Sveitastjórn Flóahrepps telur gott neysluvatn vera ein af grunnforsendum fyrir búsetu og hefur í sínum áformum um umbætur  í málefnum vatnsveitunnar viljað horfa til langtímahagsmuna fremur en skammtímasjónarmiða. Mörg önnur sveitarfélög eru að skoða þessi mál hjá sér. Áhugi er meðal þeirra að fara í umfangsmiklar framkvæmdir sem miða að því að taka vatn utan byggðar á svæðum sem geta gefið mikið vatn í hvaða tíðafari sem er og leggja sem víðast um dreyfbýlið.  Heilmikið er af slíkum svæðum á suðurlandi en ekkert í Flóahreppi þar sem Flóahreppur á hvergi land að miðhálendinu og í sveitarfélaginu er ekkert fjall.  Með því að fara í slíkar framkvæmdir verður ekki þörf á að nota mikið af þeim vatnsbólum sem verið er að nota í dag í dreyfbýli á suðurlandi sem hafa mörg hver ekki reynst vel. Vatnsborð í þeim hefur fallið í þurkum á sumrin og sum hver jafnvel allveg þornað og vatnsvernd er bæði erfið og dýr inn á milli bæja. Þetta á einmitt við um vatnsbólin hér í sveit. Eitt af þeim skilyrðun sem Flóahreppur setti ef gera ætti ráð fyrir Urriðafossvirkun á aðalskiðulagi að hægt væri að leysa málefni vetnsveitunnar til framtíðar. Samið var um það við Landsvirkun sem fer með vatnsréttindi ríkisins í Þjórsá að þeir myndu kosta aðveitu nýrra vatnsveitu fyrir allt sveitarfélagið.  Á árinu 2007 hófst undirbúningur að sameiginlegri aðveitu fyrir neysluvatn í vestanverðu RangárþinginYtra, í Ásahreppi og fyrir Flóahrepp. Um var að ræða heilmikla framkvæmd þar sem Flóahreppur myndi nýta u.þ.b. helming að því vatsmagni sem verið var að virkja. Haustið 2008 var undirbúningu langt komið og farið að stefna að framkvæmdum en í kjölfar bankahrunsins frestuðu sveitafélögin fyrir austan Þjórsá öllum sínum áformun um þessa framkvæmd um óákveðin tíma.  Þar sem Flóahreppur taldi sig ekki geta frestað því að fara í úrbætur var farið í það að leita annarra leiða. Nú er unnið að því með Sveitarfél. Árborg að lögð verði ný aðveitu fyrir Vatnsveitu Flóahrepps frá Selfossi og geri ég mér vonir um að framkvæmdir geti hafist fljótlega. Enn er þó verið að ganga frá þeim samningum sem gera þarf og tryggja að staðið verði þannig að málum að samningurinn við Landsvirkun standi straum að öllum kostnaði við framkvæmdina.

 
Rekstur fasteigna
er nokkuð stór liður í rekstri sveitarfélagsins. Auk þess að eiga og reka húsnæði fyrir leikskóla, Grunnskóla og þrjú félagsheimili,  á sveitarfélagið nokkur íbúðahús sem eru leigð út og eina bújörð sem er í eyði.  Stefnt hefur verið að því að sinna viðhaldverkefnum sem mest eftir þörfum og varast að láta verkefnin safnast upp. Töluverðar endurbætur hafa verið unnar á húsnæði leikskólans á kjörtímabilinu en þar hefur m.a. verið skipt um allt hitakerfi, sett nýtt þak á byggingun og nokkrar endurbætur unnar innanhúss sem miðuðu að betri nýtingu fyrir starfsemina. Breytingar hafa verið gerðar innadyra í Flóaskóla og þá aðallega í elstu byggingunni sem ætlaðar eru til þess að auka nýtingu húsnæðisins fyrir skólann. Byggt var við eitt íbúðarhúsið sem sveitarfélagið á til þess að það þjónaði betur sem skóalstjóraíbúð fyrir  Flóaskóla. Það er ekki stefna sveitastjórnar að eiga meira af fasteinum en þörf er á hverju sinni. Á kjörtímabilinu hafa tvær fasteigir verið seldar þ.e. íbúðarhús við Þingborg og gamli Gaulvejaskóli.

Til þess að sinna rekstri fasteinganna, húsvörslu í skólanum og umsjón með opnum svæðum sveitarfélagsins var embætti umsjónamanns fasteigna sett á stofn í sveitarfélaginu. Ráðning í þessa stöðu hefur borgað sig í betri nýtingu á fjármagni sem fer í þennan rekstur.

 
Samstarf og samskipti
sveitastjórna við íbúa sveitarfélagsins hefur mér fundist ganga í lang flestum tilfellum mjög vel. Sveitastjórn hefur viljað leggja áherslu á góð samskipti og  uppýsingagjöf til íbúa. Á kjörtímabilinu hafa verið haldnir nokkir íbúafunda ( 13 fundir alls sýnist mér í fljótu bragði. ) um hin ýmsu mál. Má þar nefna skólamál. skipulagsmál, sorphirðu, lausagöngu búfjár og atvinnumál svo eitthvað sé nefnt.  Auk þess hefur oddviti og sveitastjóri auglýst opna fundi með íbúum sveitarfélagsins í nokkur skipti. Ég hef átt fjölda funda og samtala við einstaka íbúa, félög eða hópa sem þess hafa óskað. Umræðuefnin hafa verið margvísleg. Oft hefur umræðan snúist um málefni sem snerta íbúa sveitarfélagsisn mjög en eru ekki beint í verkahring sveitarfélagsins að leysa. Má þar t.d. nefna vegasamgöngu, tölvutengingar, símasamband og þriggjafasa rafmagn. Sveitastjórn hefur beitt sér töluvert í því að krefjast úrbóta fyrir íbúa svæðisins í þessum efnum. Það hefur verið t.d. gert með ályktunum í sveitastjórn, bréfaskriftum, tölvusamskiptum og beinum samtölum við forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem um ræðir. Einnig hafa þessi mál verið rædd við þingmenn kjördæmisins og beint við viðkomandi ráðherra.

 

Læt þessarri yfirferð um störf sveitastjórnar Flóahrepps á kjörtímabilinu hér lokið.

 


                                                                                    Kolsholti I 9.  jan 2010

                                                                                    Aðalsteinn Sveinsson

Flettingar í dag: 222
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49878
Samtals gestir: 5989
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 05:07:37
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar