Í Flóanum

Æskuminningar úr Fagurhlíð

Foreldrar mínir Elín G. Sveinsdóttir og Þórarinn Auðunsson veittu okkur systkinunum umhyggju og öryggi í uppvextinum og fóru snemma að hafa okkur með sér við dagleg störf svo að við fórum fljótt að taka þátt í hverju og einu eftir því sem geta.okkar leyfði.

Mínar fyrstu minningar eru um fagurgræn tún og sífellt sólskin Snemma fórum við að fylgja þeim eftir við störfin bæði úti og inni og lærðum þar af leiðandi hin ýmsu störf sem tilheyrðu sveitabúskap. Fagurhlíð í Landbroti var ekki stór jörð þegar foreldrar okkar fluttu þangað árið 1922 ( í gamla bæinn) en fóru fljótlega að byggja upp steypt íbúðarhús og rafstöð. Þá var ekki raflýst á nærliggjandi bæjum svo þetta var mikill viðburður að fá rafmagn til ljósa og hitunar. Í smá áföngum var túnið stækkað þótt ekki væru stórvirk verkfæri til staðar, skófla var notuð til þess að vinna á þúfum. En seinna kom plógur sem hesti var beitt fyrir. Það var bót í máli hvað jarðvegurinn var mjúkur og frjór, svo vinnslan var auðveldari,

 

Auk túnræktarinnar voru ræktaðar kartöflur til heimilisnota einnig rófur og margskonar kál,  Fljótlega komst upp fagur blómagarður fyrir framan húsið, með bæði sumarblómum og fjölærum plöntum. Einnig trjáplöntum sem döfnuðu vel.

 

Bústofninn var ekki stór en samanstóð af kindum, kúm, hestum og hænsnum.  Réttardagarnir á vorin voru alltaf mikið tilhlökkunarefni. Eftir að lömbin voru mörkuð og ærnar rúnar, var féð rekið í sumarhaga upp til heiða.

 

Svo var að þvo ullina af kindunum, það var gert á þann hátt að útbúnar voru hlóðir út við læk sett vatn og keita í stóran pott og kveikt undir. Keitan var fengin á þann hátt að frá áramótum hafði verið safnað hreinu þvagi í stóra tunnu, sem varð hið besta þvottaefni, en lyktaði fremur illa.

 

Eldiviðurinn var skán sem búið var að stinga út úr fjárhúsunum og þurrka á túninu, að lokum var ullin skoluð í læknum, síðan breidd til þerris á túninu.  Þegar hún var orðin vel þurr, var tekin frá sú ull sem nota átti fyrir heimilið, en það sem átti að selja var sett í stóra strigapoka svokallaða ullarbala og sent með skipi frá Skaftárósi til Reykjavíkur. Þetta skip hét Skaftfellingur og var í vöruflutningum með Suðurströndinni þótt hafnlaus væri hún með öllu á löngu svæði.

 

Oft þurfti að bíða færis að skipa upp ef vont var í sjó, annars var róið á bát á móti skipinu og vörur selfluttar á land. Lítið hús var í fjörunni til skjóls fyrir menn og vörur.

 

Algengt var að erlend fiskiskip strönduðu  á þessu svæði og varð þá oft slys á mönnum, ýmist í fjörunni eða þeir villtust á landi því langt var til næstu bæja. Þessi samgöngumáti lagðist af eftir að vegir og brýr komu á árnar til Víkur.

 

Þegar búið var að reka kindurnar á fjall, var farið að huga  að heyskapnum.  Á fyrstu árum búskaparins kom sláttuvél sem dregin var af  tveimur hestum. Það var mikill búbót.

 

Flest heyvinnuverkfæri voru heimasmíðuð svo og öll möguleg handverkfæri sem notuð voru úti sem inni. Pabbi smíðaði spunavél fyrir heimilið, sem kom að góðum notum eftir að heimilið stækkaði.  Oft var hann beðinn að koma á aðra bæi ef eitthvað þurfti að gera við, sérstaklega viðkomandi rafmagni, sem hann hafði góða þekkingu á.

 

Þegar leið á sumarið notuðum við hverja stund til þess að týna ber sem var mikið af  í hólunum. Svo komu hauststörfin.  Þá var féð sótt á fjall.  Það tók vikutíma og sváfu menn um nætur í kofum sem  hlaðnir voru úr torfi og grjóti.  Eina sláturhúsið í sýslunni var  í Vík, svo að reka varð sláturfé  þangað. En árið 1936  kom svo nýtt sláturhús hjá Bjarna í Hólmi.  Þar var einnig hægt að frysta kjötið í stað þess að salta allt í tunnur eða reykja.

 

Heima var slátrað því fé sem nota átti til heimilisins yfir árið. Soðið var slátur blóðmör og lifrarpylsa, búnir til lundabaggar og rúllupylsur. Slátrið var geymt í mjólkursýru og bragðaðist vel. Einnig var búin til kæfa, sviðin og soðin svið.

 

Gærurnar af fénu voru rakaðar og svo notaðar í sauðskinnskó. Kýrnar voru inni í fjósi allan veturinn og fengu hey og vatn og voru mjólkaðar tvisvar á dag, en hestar og kindur voru oftast úti á daginn en fengu hey og húsaskjól um nætur.

 

Innivinnan var fjölbreyttari yfir veturinn.  Þá var unnið úr ullinni. Táið kembt og spunnið, prjónað og ofið allt sem þurfti til heimilisins og oft fyrir fleiri. Mamma var svo hjálpfús og viljug og fá heimili áttu prjónavélar. Það kom stundum fyrir að hún prjónaði heilu flíkurnr meðan eigandinn beið og fór svo ánægður heim. Einnig bakaði hún afar oft brauð fyrir aðra af því hún hafði rafmagn.

 

Barnaskóli var í Þykkvabæ sem var um það bil  20 mín, gangur frá Fagurhlíð. Skólaskylda var frá 10 ára til 14 ára aldurs. Kennt var frá október - apríl í 2 vikur í senn og hlé í 2 vikur á milli.

 

Ungmennafélag var starfandi fyrir fólk á öllum aldri og voru fundir haldnir í skólahúsinu.  Þar var einnig bókasafn til útláns sem var all mikið notað, ekki síst af unglingum, enda var ekki mikið um að  heimilin ættu nóg lesefni. Þá var óvíða  komið útvarp á  þessum árum, svo ekki var um fjölbreitt tómstunda úrræði að velja.

 

Fyrsta útvarp sem við gátum hlustað á var frá hátalara sem nágrannar okkar á Sólheimum miðluðu okkur frá sínu útvarpi þannig að við gátum því aðeins hlustað að þau væru með kveikt á sínu tæki.

 

Helsta skemmtun okkar var að renna okkur á skautum eða skíðum og notuðum okkur það óspart. Mér eru minnistæð heiðskír vetrarkvöld með stjörnubjartan himin og dansandi norðurljós.

 

Reykjavík 19. apríl 2012

Guðlaug G. Þórarinsdóttir

 

Flettingar í dag: 180
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 281
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 133880
Samtals gestir: 24468
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 21:35:43
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar