Í Flóanum

08.01.2019 23:27

Pistill í Áveituna

Áveitan er fréttabréf sem Ungmennafélagið Þjótandi í Flóahreppi gefur út í hverjum mánuði. Áveitan fer inn á öll heimili í sveitarfélaginu og einnig til annarra sem þess óska. Ég fékk áskorun um að skrifa pistil í Áveituna. Ég sendi inn eftirfarandi pistil sem birtist nú í fyrsta tölubl. þess árs. 


Gleðilegt ár ágætu sveitungar og allir aðrir sem þetta lesa.

Nú eftir nokkrar vikur eru liðin 50 ár frá því að ég kom hingað í Flóann í fyrsta skipti. Það var, ef ég man rétt, á Öskudaginn 1969 að ég kom hingað í Kolsholt með föður mínum ásamt fleirum að skoða aðstæður. Í framhaldi af þeirri heimsókn var jörðin keypt  og við fluttum alkomin í austurbæinn í Kolsholti 15. maí 1969.

Síðan þá hef ég búið hér. Ýmislegt hefur breyst á þessu 50 árum og nú er ég að verða kominn á þann aldur, að ég hef áráttu fyrir því að rifja upp gamla tíma. Sumarið 1969 var bæði kalt og  votviðrasamt. Heyskapur gekk illa og heyfengur lélegur. Með þess tíma verkfærum og vélum var reynt að ná heyjum langt fram á haust.

Um haustið byrjaði ég svo í Villingaholtsskóla. Skólastjórinn og eini kennarinn var hann Teddi (Theodór Kristjánsson). Teddi sá einnig um skólaaksturinn að hluta á  móti Kristjáni í Forsæti (Kristján Gestsson). Það var bara ein skólastofa í skólanum og nemendur voru rúmlega 20. Þá voru 6 árgangar í skólanum sem skiptust í eldri og yngri deild.

Ég og Þórarinn bróðir minn vorum í eldri deild. Við vorum í skólanum á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Systur okkar þær EllaVeiga og Alda voru í yngri deild á þriðjudögum og fimmtudögum.

Skólaskyldan var á þessum árum 8 ár. Nýbyrjað var að keyra elstu árgangana í Gangfræðaskólann á Selfossi til að ljúka sinni skólaskyldu. Í framhaldi af því var þá einnig möguleiki á að bæta við sig tveimur árum í skólanum og taka það sem þá hét gagnfræðapróf eða einu ári og taka s.k. landspóf og komast þá beint í Menntaskóla. En það gerðu nú bara þeir allra gáfuðustu sem ætluðu svo að taka stúdentspróf.

Síðan þá hefur ýmislegt breyst. Heyskapinn er hægt að taka á örfáum dögum, jafnvel í óþurrka sumrum eins og síðasta sumar var. Nemendur í skólanum eru nú á annað hundrað og allur grunnskólinn er í sveitinni, alls 10 árgangar.

Ég hef verið svo heppin að hafa getað fylst með hvernig þetta samfélag hefur hægt og bítandi þróast. Ég upplifi þetta sem viðstöðulausa þróun án mikilla umskipta eða kollsteypna. Þjóðfélagið allt hefur tekið miklum breytingum á þessari hálfu öld með aukinni tækni og velsæld. Íbúar í Flóanum hafa að mínu mati verið nokkuð virkir í mótun samfélagins hér.

Eins og um marga sveitunga mína var ég virkur félagi í Ungmennafélaginu starx á unglingsaldri. Ungmennfélögin hér í sveit hafa til langs tíma verið mjög virk og verið áhrifavaldar í samfélaginu. Það sama má reyndar segja um flest félög sem hér starfa s.s. kvenfélög, búnaðarfélg, og fl. félög.

Mér persónulega finnst það hafa verið forréttindi að fá koma að þessu. Mér finnst ég hafa verið þáttakandi í þessu ferli nánast alla tíð. Fyrst sem félagsmaður og svo stjórnarmaður í ungmennafélaginu og síðan einnig búnaðarfélaginu. Einnig sem almennur íbúi og svo sem sveitastjórnarmaður um tíma.

Þetta samfélag hér í sveit er gott og mestu verðmæti þess eru virkt mannlíf sem hefur haft áhuga á samfélaginu og þróun þess. Ég bind vonir við að svo verði áfram um ókomna tíð. Til þess að svo verði þurfum við að halda áfram að nenna að taka virkan þátt í þessu með einum eða öðrum þætti.

Nú er árið 2018 runnið sitt skeið og árið 2019 tekið við. Ég óska sveitungum mínum öllum gæfu og gengis á þessu nýja ári og þakka allt samstarf og alla samferð liðinna ára. Ég veit að hjá okkur öllum skiptast á skin og skúrir á lífsins leið. Það er svipað og veðurfarið er hér í Flóanum.

Á undanförnum misserum finnst mér eins og óvenjulega mikið af alvarlegum veikindum hafi komið upp hér í sveit. Nokkrar fjölskyldur hafa skyndilega þurft að horfast í augu við gerbreyttan veruleika og að takast á við krefjandi verkefni vegna mjög alvarlegra veikinda sem upp hafa komið.

Þessum sveitungum mínum sendi ég sérstakar nýárskveðjur. Bæði þeim sem glíma við veikindin og fjölskydum þeirra. Ég á enga ósk heitari en öllu þessu fólki vegni vel á nýju ári.

Að lokum vil ég skora á núverandi húsfreyjuna í Gamla bænum í Kolsholti að skrifa næsta pistil. Bænum sem ég flutti í fyrir 50 árum. En það er hún dóttir mín Erla Björg Aðalsteinsdóttir.

 

 


20.12.2018 21:12

Að vera í góðu formi

Ég hef þá sannfæringu að það besta sem ég get gert varðandi sjálfan mig er að halda mér í góðu formi. Eftir að ég greindist með Parkinsonveiki fyrir nú að verða fjórum árum hefur maður verið að velta fyrir sér hvernig maður tekst á við slíkt verkefni. 

Í dag er Parkinsonveiki ólæknandi sjúkdómur sem í flestum tilfellum herðir tökin smátt og smátt eftir því sem maður eldist. Það er því ekki um það að ræða núna, hvað sem síðar kann að verða, að ráðast til atlögu við sjúkdóminn og ætla sér að ná fullum bata. Verkefnið er halda sem mestum lífsgæðum sem lengst með Parkinson. Það er líka mikilvægt að vera vel á sig kominn ef/þegar lækning finnst. emoticon

Haustið 2016 var ég á Reykjalundi í sérstöku prógrammi fyrir fólk með Parkinsonveiki. Þá var ég búinn að vera á Parkinson lyfjum í rúmlega eitt ár og var orðinn nokkuð laus við verkina sem hráðu mig áður. Ég gat hreyft mig orðið skammlaust fannst mér en mér fannst ég samt ekki maður til nokkurra verka, bæði klaufskur og seinn.

Á Reykjalundi fór maður í nokkuð stíft prógram í umsjón hjá sjúkraþjálfurum og iðjuþjálfum, talmeinafræðingum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum og læknum. Ég var ekki búinn að vera  í þessu í marga daga þegar ég fann hverrsu áragursríkt þetta var. 

Strax í annarri vikunni var ég farinn að hlaupa upp stigana sem ég þorði varla að fara, hvorki upp né niður, án þess að styðja mig við handriðið. Mér finnst þessi dvöl mín á Reykjalundi vera frelsun sem sannaði fyrir mér hvað mikilvægt það er að stunda markvissa líkamsrækt.  

Ég lít nú á það sem aðalatriðið í meðferðinni við Parkinson að stunda líkamsrækt. Lyfin sem ég tek eru nauðynleg til að geta hreyft sig en ein og sér eru þau enganvegin fullnægandi.

Svo er annað mál hvernig manni gengur að stunda þessa hreyfingu og æfingar sem gera þarf. Þar reynir á staðfestu og einbeitingu hjá manni. Verð að viðurkenna að þetta getur nú gengið misjafnlega en það er allveg ljóst að þetta gerist ekki að sjálfu sér. Maður þarf að gefa sér tíma í þetta og eins og í mínu tilfelli að setja það í forgang fram yfir flest annað.

Ég kynntist því á Reykjalundi að fara í vatnsleikfimi og fann srax að það henntaði mér vel. Nú eru komin tvö ár síðan ég byrjaði í slíkri leikfimi hér á Selfossi og það gagnast mér mjög vel. Sérstaklega á veturnar þegar kalt er, en kuldinn getur sundum verið mér erfiður. En ég get þá alltaf hreyft mig í volgu vatninu í sundlauginni. Það er líka frábært að fara í saunu og/eða heitupottana bæði fyrir og á eftir.

Nú um daginn settist ég inn í saunuklefan eftir tíma í vatnsleikfiinni. Það voru nokkuð margir í klefanum í þetta skipti. Við þessar aðstæður kemst maður ekki hjá því að heyra tal manna í kringum mann. Jafnvel þó um tvegga manna tal sé að ræða.

Inni í klefanum voru m.a. tveir menn sem tóku til við að ræða saman: 

Maður 1: Jæja ertu búinn að kaupa jólagjöf handa konunni.

Maður 2: Neeei, ég er nú ekki búinn að því.

Maður 1: Hvað er þetta maður, þú verður að fara að drífa í því.

Maður 2: Jaaá finnst þér það.
 
Maður 1: Já að sjálfsögðu, þú verður að gefa konunnni einhverja jólagjöf.

Maður 2: Já það er líklega bara rétt hjá þér.  Kannski ætti ég bara að gera það

Maður 1: Ekki spurning maður þú verður að drífa í því að kaupa gjöf handa henni. Það eru ekki nema örfáir dagar til jóla.

Nú var þögn smá stund í saunaklefanum, en þá heyrist:

Maður 2: Heyrðu! ég þekki konuna þína bara svo lítið, en veistu nokkuð hvað hana langar í..... í jólagjöf?  emoticon  

Bestu jóla og nýárskveðjur úr Flóanum.
 

27.11.2018 15:15

Allur er varinn góður.

Hann Hrafnkell Hilmar sonarsonur minn er nokkuð sjáfstæður í skoðunum. Það vefst alls ekki fyrir honum að rökstyðja sínar skoðanir, ef eftir því er leitað. Hann á það til að draga bísna skynsamlegar álitkanir af því sem hann er að brjóta heilann um hverju sinni. 

Fyrir nokkrum árum sagði frá því hér á síðunni þegar hann taldi sig vera u.þ.b.að ráða gátuna um jólasveininn. Gleðileg jól () Nú er hann orðinn eldri og veltir fyrir sér stærri viðfangsefnum og lífsgátum.  

Hann er nú nýfarinn að æfa fótbolta eins og eldri bróðir sinn. S.l. sunnudag var hann að mæta á sitt fyrsta fótboltamót og í forföllum foreldra hans fékk ég þann heiður að fylgja honum á mótið. Við lögðum af stað kl 8:00 um morguninn og ferðinni var heitið út í Hveragerði þar sem mótið fór fram. 

Við vorum að spjalla saman á leiðinni. Það var náttúrulega ennþá myrkur enda sammdegið að ná hámarki í þessum heimshluta núna. Það var þá bót í máli að tunglsljós var og stjörnubjart og hið besta veður. Við virtum fyrir okkur stjörnubjartan himininn.

Hrafnkell spurði mig hvort ég héldi að stjörnurnar á himnum væru litlar sólir. Ég taldi það gæti alllveg verið að stjörnurnar væru sólir og kannski ekki endilega litlar þær væru bara svo langt í burtu. Þess vegna virtust þær svona litlar. 
" Nei " sagði hann " það eru ekki allar stjörnur sólir".
" Nú" sagði ég " Hvaða stjörnur eru ekki sólir " 
" Ekki Júpíter ". Maður kom ekki að tómum kofanum hjá honum
 
Þá fór Hrafnkell að segja mér það að hann hafi séð stjörnuhrap um daginn. Og þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann sá stjörnuhrap. Hann hafi séð það áður. Hann sagði mér líka að ég skyldi ekki trúa því að maður gæti óskað sér þegar maður sæi stjörnuhrap. 
" Nú " sagði ég " Er það þá bara vitleysa og hvernig veist þú það"
"Jú sko " sagði hann. " Það hafa  nánast allir séð stjörnuhrap að minnsta kosti einu sinni og sumir oft.  Ef það væri hægt að óska sér í hvert sinn þá ættu allir allt og gætu gert allt sem þá langar til. Það er ekki þannig. Þess vegna er það bara að skrökva þegar maður segir að það sé hægt að óska sér ".

Mér fannst þetta nú ekki óskynsamleg ályktun hjá honum svo ég sagði: 
"Þetta er nú sennilega bara rétta hjá þér Hranfkell minn. Það er líklega best að vera ekki að treysta um of á það að geta óskað sér".

Eins og allir góðir vísindamenn veit Hrafkell að enginn sannleikur er svo sannur að ekki geti verið að einhvern tíman seinna megi með nýjum upplýsingum afsanna það sem áður var talið sannað. Hann er alltaf tilbúinn að endurskoða eigin álitkannir ef honum finnst rök standa til þess

Eftir dálítil þögn í smástund hjá okkur í bílnum bætir hann við: 
" Ég óskaði mér bara til öryggis"   • 1
Flettingar í dag: 62
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 62
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 520664
Samtals gestir: 87541
Tölur uppfærðar: 19.1.2019 15:37:20
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar