Í Flóanum

16.12.2021 10:26

Sagan af Matthíasi.

Sagan af Matthíasi

Gömul/gamalsdags jólasaga

 

Matthías var að flýta sér. Hann var kominn á nýja BMW-inum sínum niður í bæ og var að leita að bílastæði. Umferðin gekk hægt enda jólaösin í  algleymingi. Það úði og grúði af allskonar fólki og allskonar bílum um allt. Komið var fram á daginn og skuggsýnt orðið. Það var þungskýjað og örlítil snjókoma. Allir virtust vera að flýta sér. Matthíasi fannst hann ekkert komast áfram. Hann hafði aðeins ætlað að skreppa sem snöggvast niður í bæ og sjá hvort hann fyndi eitthvað sem hann gæti keypt til jólagjafa. Hann var nú ekki vanur að gefa margar jólagjafir, en hann vissi að sumir af hans nánustu myndu gefa honum eitthvað í jólagjöf. Hann hugsaði með sér að hann yrði að gefa þeim eitthvað á móti. Hann vissi ekkert að hverju hann var að leita. Þó nú væru aðeins nokkrir dagar til jóla, var hann ekkert búinn að láta sér detta neitt í hug til jólagjafa. Hann var búinn að vera upptekinn í vinnu síðustu vikur enda jólamánuðurinn mikilvægasti mánuðurinn í hans geira. Allur hans tími hafði farið í að tryggja nóg af vörum til landsins í tæka tíð fyrir jólaverslunina og koma þeim í verslanir. Allt hafði þetta gengið vel og jólaverslunin var með allra besta móti þetta árið og útlit fyrir góðan hagnað.

Þrátt fyrir það var Matthías ekki í góðu skapi. Honum leiddist  þetta jólagjafavesen og hann var fyrir löngu hættur að hlakka til jólanna. Honum fannst þetta eiginlega tilgangslaust streð. Hann mundi sjálfur ekkert hvað hann fékk í jólagjöf eða hvað hann sjálfur gaf í jólagjafir í fyrra.  Samt taldi hann það skyldu sína að gefa einhverjar jólagjafir.

Matthías gafst upp að finna bílastæði niður í bæ. Hann nennti heldur ekki að fara að ganga þar á milli verslana í þessari snjókomu. Hann var engan vegin búinn til þess. Hann keyrði því að Kringlunni og fann stæði þar.  Þegar hann kom þar inn ákvað hann að byrja á að fá sér kaffi. Hann var nýsestur með kaffimálið og búinn að fá sér einn sopa þegar hann kom auga á strákpeyja svona u.þ.b. 7 til 8 ára ráfa um einan, fram og til baka eins og hann væri að leita að einhverjum. Strákur kom nú að borðinu hjá Matthíasi og spurði skýrt og greinilega.

          - Hefur  þú séð hana mömmu mína?

          - Nei það hef ég ekki, svaraði Matthías: ertu búinn að týna mömmu þinni?        

  - Nei nei hún er hérna einhvers staðar ég veit bara ekki hvar, svaraði strákur sallarólegur.

          - Ef þú veist ekki hvar hún er, ert þú þá ekki búinn að týna henni? spurði Matthías.

          - Nei en kannski er hún búinn að týna mér, svaraði strákurinn og virtist alls ekki taka þetta nærri sér.

Strákurinn settist nú við borðið hjá Matthíasi og sagðist ætla að bíða þar til mamma hans kæmi að leita að honum.

          - Hlakkar þú til jólanna? spurði hann svo Matthías.

          - Hlakka ekki allir til jólanna? svaraði Matthías og hafði lúmst gaman að hvað strákur var ófeimin og rólegur í þessum aðstæðum. Matthías gerði sér samt grein fyrir því að hann gæti ekki farið frá þessu barni hér einu. Hann yrði að finna einhvern til að taka ábyrð á því ef móðirin kæmi ekki fljótlega að leita hans.

- Heyrði vinur, sagði hann: ég er að flýta mér og má því ekki vera að þessu slóri. Eigum við ekki að finna einhvern sem getur hjálpað þér að finna hana móður þína?

- Hún kemur örugglaga rétt bráðum. Hún finnur mig fljótar ef ég er kyrr á sama stað, frekar en að vera að hlaupa um allt. Þá fer okkur bara á mis við hvort annað, sagði strákur sallarólegur og dinglaði fótunum  þar sem hann sat sem fastast við borðið hjá Matthíasi.

- En afhverju ert þú að flýta þér svona mikið? bætti hann svo við

Matthías ætlaði að fara að útskýra fyrir stráksa afhverju hann væri að flýta sér en uppgvötaði þá að hann hafði ekki hugmynd afhverju hann var að flýta sér svona mikið. Hann þurfti ekkert að flýta sér. Hann var ekki búinn að ráðgera neitt sérstak það sem eftir var dagsins. Hann bjó einn og það var enginn sem beið eftir honum.  Það lá s.s ekkert annað fyrir en að koma sér heim og finna sér eitthvað að borða, horfa á sjónvarpið eða eitthvað annað sem engu máli skipti. Matthías hafði unnið  mikið síðustu vikur og vinnudagurinn oft verið langur að  undanförnu. Nú var orðið svo stutt til jóla og allt hafði gengið vel hjá honum varðandi jólaverslunina. Hann gat nú allveg farið aðeins að hægja á. Hann var bara orðin svo vanur að djöflast áfram og vera alltaf á hlaupum að hann var hættur að kunna annað. Hugsanlega var hann að blekkja sjálfan sig á því að hann hefði ekki tíma fyrir þessa jólagjafaleit. En það var eitthvað í fari þessa stráks sem fékk hann til þess að hugsa sig aðeins um.

          - Heldur þú að þú fáir einhverjar jólagjafir? spurði Matthías

          - Já já svarði strákurinn:  ég fæ örugglega jólagjafir. Allveg fullt, bætti hann við.

          - Hvað langar þér helst í jólagjöf. Kannski flottan bíl með ljósum og fjarstýringu? spurði Matthías en eitt af mörgu sem hann hefur staðið að innflutningi á voru leikföng.

          - Nei ég á fullt af bílum. Nú í ár langar mig mest í svolítið annað en leikföng, svaraði strákur og það fór ekki á milli mála að hann vissi vel hvað hann langaði mest í jólagjöf þetta árið.

- Þarna kemur mamma - bless bless.

Strákur stökk á fætur og hlóp á móti mömmu sinni sem kom stormandi út úr mannfjöldanum með áhyggusvip en létti augljóslega þegar hún kom auga á son sinn.  Þau hurfu síðan strax í mannfjöldann.

Matthías sat eftir og nú fór hann að velta fyrir sér hvað gæti það verið sem 7 - 8 ára strákur óskaði sér meira í jólagjöf en ný leikföng.  Matthías var enn að hugsa um þetta þegar hann kom heim til sín. Hann braut heilan um þetta allt kvödið og eftir að hann var kominn upp í rúm var hann enn að velta þessu fyrir sér. Svo stíft sótti þessi spurning að honum að hann gat ekki sofnað. Hann lá andvaka. Í fyrstu velti hann fyrir sér þessum strák. Hann var honum á einhvern hátt mjög minnisstæður. Hvaða strákur á hans reki vill ekki ný leikföng í jólagjöf?  Matthías var búinn að standa að innflutningi m.a. á allslags leikföngum í mörg ár. Leikföngin seldust betur og betur á hverri jólaversluninni á fætur annari. Þau voru farin að skila Matthíasi góðum hagnaði í desember ár hvert. Gat verið að þau væru einfaldlega að detta úr tísku? Var eitthvað annað sem börn voru farin að vilja frekar í jólagjöf? Var þarna kannski viðskiptatækifæri?  Matthías fannst hann verða að finna þennan strák aftur. En hvernig átti hann að fara að því? Hann vissi ekki einu sinni hvað hann heitir. Hann varla tók eftir því hvernig mamma hans leit út og því síður vissi hann hvað hún heitir. Hvernig í ósköpunum átti hann að geta fundið hann aftur.

Hann var enn að brjóta heilan um þetta þegar hann vaknði undir hádegi daginn eftir. Þetta átti orðið hug hans allan þó hann vissi ekkert hvernig hann gæti leist gátuna. Hann byrjaði á að reyna að "gúggla" allskonar orð í von um að það myndi leiða til einhvers.  Hvað gat það verið sem börn vildu í jólagjöf annað en ný leikföng? Hann hringdi í alla foreldra sem hann þekkti og áttu börn á þessum aldri og spurði þau hvort þau vissu hvað þetta gæti verið. Engin kannaðist við það.  Hann fór út og spurði alla krakka sem hann mætti hvað þau vildu helst í jólagjöf. Öll vildu þau einhverskonar leikföng. Gat verið að hann hafði misskilið strákinn eða misheyrt hvað hann sagði? Hann varð að reyna að finna strákinn aftur. Matthías fór nú í Kringuna og settist aftur á sama stað og hann hafði drukkið kaffið sitt daginn áður. Hann sat þar í þrjá tíma í von um að strákurinn myndi birtast aftur. Ekki sá hann strákinn. Matthías var orðin dauðþreyttur á að fylgast með öllum sem gengu framhjá honum.  Hann vissi ekki hvernig í ósköpunum hann gæti fundið þennan strák aftur. Þegar Matthías kom heim aftur settist hann við tölvuna og setti inn auglýsinu inn á alla samfélagsmiðla og heimasíður sem hann hafði aðgang að, jafnvel sem "commet"  á fréttasíður. Hann auglýsti að hann vildi hafa aftur tal af stráknum sem settist hjá honum í Kringunni í gær. Hann birti með mynd af sér til þess að reyna að vekja meiri eftirtekt. Þetta skilaði ekki neinum árangri.

Dagarnir liðu og fyrr en varði voru komin jól. Matthías var enn að hugsa um þetta. Hvar sem hann fór var hann alltaf að horfa í kringum sig eftir þessum ókunna strák. Hann var sannfærður um að þessi strákur vissi leyndarmálið um það hvað börnum langaði mest í jólagjöf þegar leikföng væru kominn úr tísku. Ef hann kæmist að þessu gæti það orðið besta viðskiptatækifærið sem hann kæmist nokkurn tíman yfir. En jólin liðu og svo leið veturinn líka. Alldrei rakst Matthías á strákinn. Fyrr en varði var komið vor og svo sumar. Matthías var fyrir löngu farin að  undirbúa næstu jólaverslun. Nú brá svo við að hann var óöruggur með sig. Hann var ekki viss hvort hann ætti að leggja jafn mikla áherslu á leikföngin eins undan farin ár. Hann vissi bara ekki hvað ætti að koma í staðin.

Svo var það einn daginn, seint um haustið, að Matthías  var á leiðinni heim til sín eftir langan vinnudag, á BMW-inum sínum. Þá sér hann lítinn hóp af krökkum bíða eftir strætó. Um leið og hann keyrir framhjá sér hann ekki betur en þessi strákur, sem hann hefur verið að leita að, er þarna í hópnum. Matthías, sem var á nokkurri ferð, snarhemlar BMW-inum og ætlar að fara að snúa við. Ekki vildi betur til en það að bílstjórinn í bílnum fyrir aftan hann var alls ekki viðbúinn svo snöggri hraðabreytingu og keyrir aftan á BMW-inn hans Matthíasar.  Þetta var nú ekki harður árekstur, en það brotnuðu einhvar ljós á báðum bílunum og einhverjar smá beyglur. Matthías stekkur samstundis út úr bílnum. Ekki til þess að athuga með bílinn eða hvað af fólki væri í hinum bílnum. Hann var fyrst og fremst að horfa til baka og sjá hvort krakkarnir væru enn við biðskýlið.  Hann sá að þau voru að stíga inn í strætisvagn. Hann reyndi að kalla til þeirra og hljóp síðan af stað á eftir vagninum. En hann var of langt frá. Krakkarnir hurfu öll inn í vagninn og hann keyrði burt. Matthías hljóp nú aftur að BMW-inum. Maðurinn sem keyrði bílinn sem lenti aftan á honum stóð þar hjá. Hann starði forviða á Matthías.

          - Ég verð að flýta mér. Ég þarf lífsnauðsynlega að ná í strák sem fór með þessum strætó, sagði Matthías við manninn og leitaði í vösum sínum. Þar fann hann nafnspjald sitt og rétti manninum.

- Þú hefur bara samband við mig þegar þú ert búinn að láta gera við bílinn þinn. Ég skal borga enn ég verð að fara núna.

Að svo búnu stökk hann inn í BMW-inn. Hann snéri honum við og þaut af stað á eftir strætisvagninum. Matthías var ekki vanur að taka stætó og hann var ekki viss hvaða vagn þetta var eða á hvaða leið hann væri. Hann kom auga á vagn talsvert fyrir fram sig og ákvað að elta  hann.  Hann reyndi að komast nær vagninum og tókst það með  því að keyra BMW-inn eins hratt og hægt var án tillits til hvaða hámarkshraði gilti. Hann svínaði fyrir aðra vegfarendur allstaðar þar sem færi gafst. Matthías var nú farin að nálgast strætisvagninn. Hann sá að vagninn stoppaði og farþegar gengu frá borði m.a. nokkrir krakkar. Matthías stoppar BMW-inn  með það sama og stekkur út til þess að reyna að sjá hvort strákurinn væri þarna. Hann flýtir sér heldur mikið og rekur tærnar í og fellur fram fyrir sig beint ofan í stóran poll sem var þarna á götunni.

Það fór ekki fram hjá neinum sem þarna voru þegar þessi jakkafata klæddi maður steyptist beint á andlitið í pollinn. Hann saup hveljur og reyndi með bagslagangi að koma aftur fyrir sér fótunum. Þegar hann leit upp þar sem hann var á fjórum fótum í pollinum mætti hann augum stráksins sem hann var búinn að reyna að finna í bráðum heilt ár.

          - Hæ mannstu eftir mér? stundi Matthías upp við strákinn.

          - Neeei  það geri ég ekki. Á ég að gera það? svarði hann varfærnislega og horfði  stórum augum á Matthías í pollinum.

          - Já við hittumst í Kringunni rétt fyrir jól í fyrra manstu. Þú varst búinn að týna mömmu þinni.

          - Nei það var mamma sem var búinn að týna mér, svaraði strákur. Það var svolítið hik á honum.

- Ert þú maðurinn sem ég talaði við á meðan ég var að bíða eftir mömmu minni? spurði hann svo.

- Já akkúrat,

Matthías var nú staðinn á fætur upp úr pollinum. Það lak af honum vatnið og honum var orðið skítkalt. Hann var við það að fara að skjálfa. En þar sem ekkert annað virtist vera að honum og hann var í samræðum við strákinn fór fólkið að tínast í burtu sem þarna kom að þegar Matthías féll í pollinn.

- Hvað fékkstu í jólagjöf í fyrra? spurði hann strákinnn: fékkstu það sem þig langaði mest í?

Strákur horfði undrandi á Matthías.

          - Það er svo langt síðan jólin voru. Afhverju ert þú að spyrja að því? spurði hann svo

          - Hvað langar þér í jólagjöf núna á þessu ári" spurði Matthías sem var nú farinn að skjálfa.

          -  Það veit ég ekki. Það er ennþá svo langt til  jóla. Ætli ég vilji ekki bara nýjan bíl sem hægt er að keyra með fjarstýringu, svaraði strákur hugsi. Honum fannst þetta greinilega skrýtið samtal.

          - En þú vildir engin ný leikföng í fyrra. Hvað var það sem þig langaði mest í, í fyrra? Fékkstu það sem þú óskaðir þér? spurði Matthías skjálfandi röddu.

Nú var smá þögn og strákurinn horfði niður á tærnar á sér og virtist vera að hugsa sig um. Svo leit hann upp og sagði brosandi:

          - Já ég fékk það og það var besta jólagjöf sem ég hef fengið.

          - Hvað var það? spurði Matthías allt að því  óþolumæðilega.

          - Ég óskaði þess að pabbi minn og litla systir mín gætu verið heima  með okkur mömmu á jólunum.

          - Nú hvar voru þau? Matthías var nú hættur að skjálfa og virtist algerlega hafa verið sleginn út af laginu með þessu svari hjá stráknum.

          - Þau voru á sjúkrahúsi út í Ameríku. Litla systir mín er búinn að vera veik frá því að hún fæddist og er búinn að vera á sjúkrahúsi hér um bil alla sína æfi. Pabbi og mamma hafa skipst á að vera hjá henni. Svo var hún send til Ameríku til að reyna að lækna hana. En það gekk ekki. Þegar mamma sagði mér það að ekki væri hægt að lækna hana vildi ég bara fá hana heim um jólin. svaraði strákurinn blátt áfram og yfirvegað:

- Og það rættist. Pabbi og litla systir komu heim rétt fyrir jól og við vorum öll saman á jólunum. Það voru sko bestu jólin mín.

Nú var Matthíasi farið að líða mjög illa. Hann áttaði sig á því að hann hafði allgerlega tekið vitlausan pól í hæðina. Honum leið eins og hann væri 7 ára og þessi lífreyndi strákur væri orðin fullorðin og læsi yfir honum til að kenna honum lífsreglurnar. Hann hafi í græðgi sinni haldið að allt snérist um viðskipatækifæri og gróða. Nú á augabragði fannst honum hann vera fífl og skammaðist sín

- En um mæstu jól, getið þið verið aftur öll saman þá? hvíslaði Matthías  hikandi.

          - Nei nú er það ekki hægt eins og var í fyrra. Litla systir er dáinn" svaraði strákurinn rólega. Svo andvarpaði hann svolítið og sagði:

- Ég þarf að fara heim núna, bless blesss.

Síðan rölti hann af stað og skyldi Matthías eftir skjálfandi

Þegar Matthías var kominn, rennblautir, inn í BMW-inn sinn, vissi hann varla hvort hann ætti að hlæja eða gráta. Honum fannst eins og þessi ungi drengur, sem hann var búinn að leita að svo lengi, hafi kennt honum meira en allt það sem hann lærði á háskólaárum sínum. Hann vissi ekki ennþá hvað drengurinn heitir eða hvar hann býr. Hvaðan kom hann og hvert fór hann? En þetta hafði varanlega áhrif á Matthías. Þegar fór að nálgast jól aftur hafði hann samband við alla sem hann bjóst við að myndu gefa sér jólagjöf og bað þau að styrkja frekar einhver málefni barna. Sjálfur gaf hann allan ágóða sem hann hafði af leikfangainnflutingi fyrir jólin til langveikra barna.

Hann hefur ekki hitt strákinn aftur, en gleymir aldrei þessum stuttu samskiptum sem þeir átti. Matthías hlakkar nú orðið aftur til jólanna eins og hann gerði þegar hann var barn.

 

Sögulok

 

25.06.2021 17:22

Orgelið á Vestri-Loftsstöðum

Þegar Jón Jónsson á Vestri-Loftsstöðum ( f. 1894 - d. 1978 ) var um fermingu fór hann fyrst á vertíð.  Fyrir hýruna sem hann fékk á vertíðinni mun hann hafa keypt sér orgel sem hann bar heim að Loftsstöðum. Þetta orgel stóð þar inni alla tíð síðan á meðan Jón (Nonni) bjó þar, allt til elli ára.  Nonni fór vestur að Stokkseyri og lærði orgelleik hjá Ísólfi Pálssyni. Gerðist síðan organisti við Gaulverjabæjarkirkju með búskapnum og sjómenskunni.

 

Orgelið góða notaði hann alla tíð óspart til æfinga því ekki dugði að koma óæfður að spila við athafnir í kirkunni. En með tímanum fóru bæði orgelið og húsakynni á bænum að eldast og loks var svo komið að það fór að koma niður á gæðum hljóðfærisins. Það lýsti sér m.a. þannig að í frosthörkum á veturnar hætti allveg að heyrast nokkuð í því.

 

Nonni sagði svo frá sjálfur að það truflaði hann ekkert. Hann æfði sig jafnt sem áður, hvort sem hljóð kæmi úr hljóðfærinu eða ekki. Hann kunni þessa sálma hvort sem er og þurfi ekkert frekar að heyra þá eina ferðina enn.

 

Svo var það einn veturinn að langan frostakafla gerði og orgelið var hljóðlaust svo vikum skipti. Að sögn Nonna, gerði svo allt í einu asahláku eina nóttina og þá vaknar hann við það að um húsið berast himneskið orgeltónar og öll fegustu orgelverk heimsins hljóma um bæinn á Vestri-Loftsstöðum. Þarna var þá að þiðna úr hljóðfærinu öll tónlistin sem Nonni hafði spilað á orgelið á meðan kuldakastið stóð yfir..

 

Það er nokkuð svipað komið fyrir mér og orgelinu á Loftsstöðum. Þegar kalt er á veturna og komið frost á ég mjög erfitt með að hreyfa mig almennilega. Ég "frís" einhvern vegin fastur og þarf mikla einbeitingu til þess að hreyfa legg eða lið. Ég á erfitt með að hita upp til að gera æfingar til þess að halda mér í formi sem er nauðsynlegt vegna þess að ég er með Parkinson.  Ég verkjast allur upp og stífna í stað þess að hitna.

 

Það sem bjargar mér allveg í þessum aðstæðum er að geta kominst í sundleikfimina á Selfossi. Í volgu vatninu get ég alltaf hreyfit mig eitthvað og skiptir það sköpum fyrir mig að komast reglulega í sund. En nú er sumar og engar frosthörkur. Þó kalt hafi verið það sem af er sumri þá er ég í ágætu formi þessa daganna og geri reglulega hinar flóknustu fimleikaæfingar. emoticon 


Þetta er sennilega orðað nokkuð í stíl við frásagnagleði Nonna á Loftsstöðum. emoticon emoticon


04.05.2021 19:52

Kolsholts-hellir eða Fjárhellir

Ungmennfélagið, hér í  sveit ( Umf. Þjótandi ), hefur á undanförnum sumrum verið með stórskemmtilegt verkefni á sínum verkefnalista. Það er útivistarverkefnið "Sá ég spóa suðr´í Flóa". Vil ég hvetja alla til þess að kynna sér það og taka þátt. Þetta er opið öllum sem áhuga hafa. Tilvalið til þess að fá sér hreyfingu úti og kynnast landslaginu hér í Flóanum. Um er að ræða stuttar gönguferðir utan hefðbunda gönguleiða.    https://www.facebook.com/umfthjotandi

Ein þessarar leiða nú í sumar er heimsókn hingað í Kolsholt og ganga að hellinum í skógræktarreitnum hérnan. Í tilefni þess tók ég saman stuttan fróðleik um þennan helli ef fólk hefur áhuga á að kynna sér. Þetta prentuðum við út og settum í plast og hengdum upp við hellin þannig að þeir sem þangað koma geta lesið. Ég set þetta líka hér á heimasíðuna mína  ef einhverjir hafa áhuga:   



Kolsholtshellir (Fjárhellir) 

Þessi hellir hefur jafnan verið nefndur Kolsholts-hellir. Í örnefnaskrám er hann  einnig nefndur Fjárhellir. Þetta er samt ekki hellirinn sem bærin Kolsholtshellir er nefndur eftir. Í Kolsholtshelli er annar hellir, sem í dag er ekki eins aðgengilegur og þessi, sem heitir Kolsholtshellis-hellir.


Til er lýsing á þessum helli sem byrtist í grein í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1930 en þessi mynd byrtist með greininni. Þá er forskáli framan við hellinn sem lýst er þannig "Forskáli er með dyrum mót suðaustri, er 4 m. að lengd og ¾ - 1 ¼ m. að breydd, veggir dálítið hlaðnir saman, þrengstur efst og fremst. Þak er yfir með hellum og torfi á þverslám og 2 ásum langsum. Virðist ekki gamall. 6 þrep lág og breið niður að ganga"


Hellinum er einnig lýst vel í þessari grein frá 1930. Þá eru jötur við báða veggi og breydd á milli þeirra sögð vera 2,40 m. Yfir opinu í loftinu var hlaðinn torfstrompur mikill "og dregst mjög að sér að vanda; er örmjór efst." ( sést ekki á myndinni. )


Sennilega hefur hellirinn lengst af verið notaður fyrir sauðfé.  Um og eftir 1960 var hann notaður sem kartöflugeymsla. Þá var steyptur veggur í hellismunnan og minni forskáli byggður framan við hann. Smá saman fór þessi forskáli að gefa sig. Steinveggurinn var sprunginn og seig inn, og gaflinn með dyrunum, sem var úr timbri og klæddur bárujárni, fúnaði og riðgaði og vegghleðslur fóru að hrynja.


Upp úr 1990 var hreinsað frá hellismunnanum og hann látinn vera eins og hann er í dag. Einnig var um síðustu aldamót hreinsað út úr hellisgólfinu talsvert af mold og skít.


Hér vestar í Bjallanum, en það heita þessar brekkur, eru leyfar af fleiri hellum. Til eru sagnir um stóran helli hér sem hét Dimmihellir eða Dimmhellir. Hann á að vera svo langur að hann nái allt upp í Hestfjall. Þessum helli á að hafa verið lokað vegna ólofts sem í honum var, " að menn sýktust af." Dimmhellir er á skrá um friðlýstar fornminjar þó engin viti í dag hvar hann nákvæmlega er.


Í sóknarlýsingu Villingaholts- og Hróarsholtssóknar segir Séra Tómas Guðmundsson árið 1841: " Hellirar eru og engir merkilegir, svo menn viti, utan ef telja skal, Dimmhelli í Kolsholtslandi, í hvers frammunna ( þó á engum rökum ), að kálfur skyldi hafa átt að fara, en komið út hárlaus í Hestfjalli fyrir ofan Hvítá."


Þessi hellir, eins og margir aðrir hellar hér á landi, er að mestu eða öllu leiti manngerður. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær þeir eru gerðir eða hvort einhvern tíman fólk hafi búið í þeim. Það er lítið rannsakað en þó eru vísbendingar um, að minsta kosti einhverjir hellanna hafi verið til á, eða jafnvel fyrir, landmámsöld. Lífseig er sú skoðun  að írskir munkar (Papar) hafi búið í einhverjum þeirra áður en norrænir landnámsmenn komu hér. 

 



11.04.2021 17:25

Covid19, Parkinson og ég

Nú er liðið rúmt ár frá því að farsóttin Covid19 fór að herja hér og kollvarpa allri rútínu, ásamt því að spilla öllum áætlunum hjá háum sem lágum. Þetta hefur að sjálfsögðu haft áhrif á mitt líf eins og aðra. Það sem hefur líka gerst hjá mér er að Covid19 hefur einnig, eins og menn þekkja sem hafa Parkinson sem ferðafélaga, haft áhrif á Parkinson einkennin. Parkinson er nefnilega afbrýðisamur út í aðra sjúkdóma. (sbr. https://www.facebook.com/snorrimar.snorrason )

 

Þó ég hafi ekki smitast af Covid19 (góðuheilli) er Parkinson vel á verði og notar flest tækifæri til að minna á sig. Eins og það sé einhver hætta á að ég gleymi  honum. Í öllu þessu umtali um Covid19 sem og sá ruglingur sem hann hefur haft á daglegt líf hefur Parkinson notað tækifærið til að reyna að ná fram markmiðum sínum.

 

Þetta byrjaði nú svolítið klaufalega hjá mér. Í febr. 2020, u.þ.l. sem Covid19 var að koma sér fyrir hér á landi, verð ég fyrir því óláni að meiða mig lítilega fyrir klaufaskap. Þegar ég meiði mig fyrir klaufaskap kenni ég Parkinson hiklaust um. Þetta voru nú svo sem ekki alvarleg meiðsli. Ég marðist lítilega á síðunni. En nóg til þess að það hafði áhrif á þá líkamsrækt sem ég stunda, til þess að hafa hemil á Parkinson.

 

Nokkrum vikum seinna förum við Kolbrún til Spánar í þrjár vikur. Það gerum við til þess að komast í meiri hita og stytta veturinn. En það hefur hjálpað mér að stunda mína hreyfingu. Kuldinn er nefnilega ekki að vinna með mér. Á Spáni leið okkur vel við kjöraðstæður. Við vorum í frábærri íbúð sem var í göngufæri við allt sem við þurftum með. Veðrið var líka passlegt fyrir okkur hvorki of heitt eða kalt og ekki rigning. Við notuðum tíman fyrst og fremst í gönguferðir    

 

Svo þegar fer að líða að lokum þessara ferðar er Covid19 farin að grassera á Spáni og fyrirvara laust  er öllu skelt í lás. Öllum matsölustöðum og börum er lokað. Öllum verslunum og mörkuðum nema matvöruverslunum er lokað. Rauður fáni er kominn á allar baðstrendur og bannað að vera þar eða fara þar um. Daginn eftir er svo komið á allsherjar útgöngubann.  Síðustu þrjá dagana sem við vorum á Spáni dvöldum við alfarið inn í íbúðinni sem við höfðum.  emoticonemoticonemoticon

 

Þegar heim var komið tók við tvegga vika sóttkví hér heima. Ég er nú ekkert sérstklega laginn við að hreyfa mig nóg innanhúss.  Ég vil helst geta gengið úti og komast í sund. Ég hef stundað sundleikfimi með Vatn og heilsa ( https://www.facebook.com/vatnogheilsa.is  ) á Selfossi undanfarin ár og það hefur gert gæfumuninn fyrir mig. Fljótlega eftir að sóttkvínni hjá okkur lauk, var öllum sundlaugum lokað hér á landi vegna Covid19.

 

Allir þessir þættir gerðu það að verkum að ég var engan vegin í eins góðu ástandi og ég vildi  í fyrra vor.  Vorið er skemmtilegur og annasamur tími í sveitinni. Það þarf að sinna suðburði, tæma haughúsin á réttum tíma svo skíturinn gagnist gróðrinum sem best, vinna akrana og sá  korni, grænfóðri og grasi á réttum tíma, bera á túnin, gera við og endurnýja girðingar og ýmislegt annað. Allt eru þetta atriði sem skipta sköpum í afkomu búsins hvert ár.

 

Þó ég sé ekki lengur bundinn yfir eða mín afkoma háð búrekstrinum hér á bæ, þá grípur mig ósjálfrátt mikil meðvirkni í vorönnunum. Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og ég á það til að fara fram úr mér á vorin. Ég er enn fullur áhuga fyrir búrekstrinum hér á bæ og finnst þessi tíma (vorið) óskaplega skemmtilegur.  emoticon

 

En þetta gat nú ekki farið vel í fyrra vor. Enda þegar sauðburði var lokið og það sá fyrir endan á vorverkum og styttast fór í slátt var ég orðin ekki upp á marga fiska. Skrokkurinn var allur eins og spíta. Ég bæði stirður og verkjaður. Parkinsoneinkennin ágerðust, ég bæði skalf og fraus fastur til skiptist í tíma og ótíma.  Við það bættist að eitthvað virtist hafa gefið sig í hægri öxlinni á mér. Ég var hættur að geta notað hendina til nokkurs gagns.

 

Fyrst reyndi maður bara að hægja á sér og sjá til hvort þetta myndi jafan sig. En .þegar það gerðist ekki fór ég til læknis. Heimilislæknirinn sendi mig í myndatöku og ómskoðun á öxlinni ásamt því að gefa mér tilvísum á sérfræðing.

 

Það var komið fram í ágúst þegar ég fékk tímann hjá sérfræðingnum sem sagði eftir að hafa skoðað myndirnar að það væri tvennt í stöðunni. Ég gæti farið beint til sjúkraþjálfara og freistað þess fyrst að hann gæti með þjálfun á öxlinni í einhverja mánuði komið hendinni í lag. Ef það gengi ekki færi ég í aðgerð. Hinn kosturinn væri að hann geri sem fyrst aðgerð á öxlinni og síðan tæki sjúkraþjálfarinn við. Þá væru góðar líkur á að ég gæti farið að nota hendina aftur eftir svona 12 vikur.

 

Ég þurfti nú ekki að hugsa mig lengi um. Það var engin ástæða til að fresta því að fara í aðgerð. Ég þyrfi á þessari hendi að halda sem fyrst. Bara svo og gæti haldið áfram að eiga við félag minn, hann Parkinson. Ég má engan vegin vera handlama í þeirri baráttu. Parkinson lætur mig ekki í friði ef hann fær ekki alla athyglina.

 

Í byrjun sept fór ég svo í þessa axlaraðgerð. Það kom í ljós í aðgerðinni að einhver beinnibba var að sarga í sundur sin í axlarliðnum. Hefði ég freistað þess að  sleppa við aðgerðina með því að fara beint til sjúkraþjálfara hefði það bara gert illt verra. Ég hefði alltaf endað í aðgerð og óvíst hvort ég hefði náð fullum bata ef sinin hefði slitnað í sundur.

 

Fljótlega eftir aðgerðina mætti ég hjá sjúkraþjálfara. Hún Hildur Grímsdóttir sjúkraþjálfari hjá Mætti á Selfossi ( https://www.facebook.com/M%C3%A1ttur-sj%C3%BAkra%C3%BEj%C3%A1lfun-ehf-1009228025800113 ) tók nú til við að þjálfa á mér öxlina. Í fyrstu hreyfi hún axlaliðinn sjálf meðan ég reyndi að vera máttlaus en eftir 6 vikur var sinin orðin nægalega traust. Þá fyrst gat ég tekið við að hreyfa handlegginn.

 

Það var frábært að vinna þetta með Hildi, Hún var ólöt við að peppa mig áfram og kenna mér og ráðleggja, ekki bara til að koma öxlinni og handleggnum aftur í gagnið líka varðandi baráttuna við Parkinson. Allt er þetta mikil þolinmæðis vinna.

 

Ég verð að viðurkenna að ég var orðin frekar  svartsýnn og þungur í hugsun þegar mér fannst lítið ganga. Í haust gat ég lítið orðið hreyft mig án þess að meiða mig. Ég missteig mig og var sífellt að detta.  Ég átti orðið erfitt að sætta mig við bjargarleysið sem mér fanst ég fastur í.  Þá var Hildur alldeilis betri en enginn að hvetja mig áfram, en jafnmframt að tileinka mér þolinmæði. Ef ekki tækist að ná ásættanlegum styrk fyrir áramót settum við bara markið á vorið.

 

Nú í dag finnst mér ég vera búinn ná vopnum mínum. Þó ég sé kannski ekki alveg kominn í mitt besta form er ég á réttri leið og ég hlakka til vorsins. Ég ætla samt að reyna að læra af reynslunni og fara varlega. Aðalatriði er að halda sér alltaf í sem bestu formi. Það er mikil vinna að ná því aftur upp ef maður tapar því niður.

 

Þunglyndi er algengur fylgikvilli með Parkinson. Ástæðan er ekki sjálfsvorkun eða aumingjaskapur. Þunglyndið stafar einfaldlega af því að heilinn er ekki að starfa rétt vegna skort á boðefnum. En heilann er hægt að þjálfa eins og hvern annan vöðva og það er mikilvægt að gera það.

 

Ég vil reyna að forðast það eins og heitan eld að lenda í þunglyndi. Ég ímynda mér að þá fyrst fari ég að vera aðstandendum mínum byrði. Ég held ég verði afspyrnu leiðinlegur þunglyndissjúklingur. Ég reyni því af fremsta megni að nota heilann á jákvæðum nótum. Jafnframt þarf ég líka að forðast allt sem veldur pressu og stressi því þá fara Parkinson einkennin á flug. Stundum getur það verið flókið.  emoticon

 

Þeir sem eru með Parkinson eða aðra langvinna ólæknandi sjúkdóma, sem hægt og þétt herða tökin, upplifa oft eins og þeir séu að fá nýja greiningu aftur og aftur.  Það er áfall að fá greiningu um að maður sé með Parkinson. Svo kemst maður yfir það og lærir að lifa með því. Maður finnur ekki mun á sér  frá degi til dags og finnst allt sé í góðu gengi.  En svo einn góðan veður dag uppgvötar maður að eitthvað sem maður gat gert fyrir nokkum mánuðum getur maður ekki lengur og kennir þá Parkinson um. Þá finnst manni það áfall aftur.

 

Mikilvægt er að láta þetta ekki draga sig miður. Ég reyni að líta þetta verkefni, að vera með Parkinson sem baráttu eða keppni þar sem maður þarf vissulega að bera virðingu fyrir andstæðingnum. Í raun deyr enginn úr Parkinson en hann getur gert mann að algerlega óvirkum og farlama einstaklingi. Andstæðingurinn er vissulega til staðar og það liggur fyrir hvað hann ætlar sér. Leikurinn gengur út á það að hindra hann í því með þeim aðferðum sem best duga. emoticon

 

                                                            Ritað á alþjóðlega Parkinsondeginum 11. apríl 2021

                                                                        Aðalsteinn Sveinsson í Kolsholti.

                                                           

 

 

 

27.07.2020 08:29

Skál fyrir Steina

Margar sögur hafa verið sagðar af Ólafi Ketilssyni sérleyfishafa (Óla Ket). Meðal annars hef heyrt að einhverju sinni þegar hann átti stóafmæli hafi hann boðið til mikilla veislu. Öllum helstu framámönnum Suðurland var boðið. Þetta var á þeim tíma þegar Þorsteinn Pálsson var nýtekinn við formennsku í Sjálfstæðisflokkknum og frambjóðandi flokksins á Suðurlandi

Í veislunni var boðið upp á kótilettur með kartöflum og svo ávaxtagraut í eftirrétt. Þegar veislugestir voru ný byrjaðir á grautnum kallar Óli Ket upp: "Skál fyrir steina". Standa þá allir veislugestir upp og lyfta glösum og segja "skál fyrir steina". Allir héldu að nú vildi gestgjafinn skála fyrir væntanlegum 1. þingmanni Suðurlands Þorsteini Pálssyni sem var þar á meðal gesta.

Svo setjast menn bara aftur og halda áfram með grautinn. En þá kallar gestgjafinn aftur upp "Skál fyir steina".  Og aftur standa allir upp og lyfta glösum og skála fyriir formanni Sjálfstæðisflokksins og væntanlegum 1. þingmanni kjördæmisins. 

Veislugestir eru svo ný sestir aftur niður til að halda áfram að slafra í sig grautinn, þegar enn á ný Óli Ket kallar og nú: "hvernig er það er ekki hægt að koma með skál fyrir sveskjusteinana úr grautninum?"

Skál fyrir Steina!

26.05.2020 01:30

Á vorin gerast kraftaverkin

Þennan pistil skrifaði ég fyrir Parkinsonsamtökin og birtist hann á heimasíðu samtakanna Parkinson.is 11. maí s.l.


Vorið er skemmtilegur tími.. Ég hlakka alltaf til vorsins. Þá er eins og allt vakni og allt fyllist nýju lífi. Farfuglarnir flykkjast til landsins, allur gróður fer að grænka og veröldin skiptir um lit. Lömbin og folöldin koma í heiminn. Sérhvert nýtt líf sem kviknar er kraftaverk, hvort sem það tilheyrir jurtaríki eða dýraríki. Börnin flykkjast út frá sjónvarps- eða tölvuskjánum á reiðhjólum, í fótbolta eða einhverjum öðrum íþróttum og leikjum.

Hér í sveitinni er vorið mikill annatími. Öll afkoma í búrekstrinum er undir og margt sem þarf að gera og mörgu þarf sinna á stuttum tíma. Veðurfarið er úrslitavaldur í þeirri baráttu.

Ég sem hef verið við búskap alla mína ævi og starfandi bóndi í yfir 40 ár hef marga fjöruna sopið í þeim efnum. Ég man eftir köldum vorum eftir kaldan vetur. Jarðklaki fór ekki úr jörðu fyrr en í júní og ekki hægt að komast um fyrir bleytu allt vorið. Enginn gróður fyrir lambfé og allt á fullri gjöf allan sauðburðin.

Ég man líka eftir hlýjum vorum. Allt orðið grænt um sumarmál og nóg að bíta. Jörðin þurr og hægt að byrja jarðvinnslu um miðjan apríl. En á slíkum vorum þarf líka að hafa hraða á. Það þarf að koma ábuði á tún áður en allt sprettur úr sér og það þarf að vera tilbúið að hefja slátt snemma á meðan grösin eru á besta þroskaskeiði.

Vinnudagurinn hefur því oft verið langur hjá mér á vorin, allt frá því ég var unglingur. Mér hefur líkað það vel. Ég hef fengið útrás í þeirri vinnu og upplifað hana nánast sem meðferð fyrir geðheilsu mína. Jafnvel þó allt hafi gengið á afturfótunum og í örvæntingu hefur maður gert sér grein fyrir að búreksturinn myndi ekki skila miklu þetta árið. Næsta vetur er það allt gleymt og grafið. Maður er farinn að hlakka til að takst á við vorverkin aftur.

Þetta vor er mjög sérstakt. Ekki kannski hér í sveitinni sérstaklega, heldur í öllum heiminum. Covid-19 hefur svo sannarlega sett mark sitt á heimsmyndina undanfarin misseri og mun gera það áfram í einhvern tíma. Barnadætur mínar tvær, sem báðar eru 4 ára, verða varar við þetta eins og allir aðrir. Þær eru nú samt ekki að láta þetta trufla sig mikið enda báðar lífsglaðar og orkumiklar. Þær tala um "kórónuvesenið" og spurja mig reglulega hvort það sé núna búið.

En þetta "kórónavesen" er býsna mikill skaðvaldur. Það hefur valdið mörgum heilsutjóni og hefur kostað margt mannslífið. Það hefur orsakað vanlíðan og kvíða hjá mörgum, ekki bara af heilsufarsástæðum. Líka vegna annarra afleiðinga þess faraldurs s.s. atvinnumissis og almennri óvissu um flesta hluti í náinni framtíð.

En svo er það, í þessum hörmungum sem öðrum, að það er alltaf eitthvað sem telja má jákvætt í öllu amstrinu. Samtakamáttur fólks kemur í ljós við svona aðstæður og ótrúleg aðlögunarhæfni. Útsjónasemi í að leysa verkefni við breyttar aðstæður blómstrar og neyðin kennir fólki að tileinka sér breytt vinnubrögð og stafshætti.

Það sem helst hefur komið við mig í þessu ástandi er það að komast ekki í sund og sundleikfimina sem ég hef mætt samviskusamlega í, að verða fjögur ár. Mér er það lífsnauðsyn að halda mér í góðu formi. Það er það sem skiptir öllu máli í minni baráttu við að halda sem bestum lífgæðum með parkinsonsjúkdóminn. Lyfin sem ég er að taka gera aðeins gagn ef ég held mér viðstöðulaust í góðri þjálfun.

Þar hefur sundleikfimin verið mér gagnleg. Sérstaklega á veturnar þegar kalt er. Það er nefnilega þannig að mér hættir til að stífna allur upp, sérstaklega í kuldum. Það svo mikið að ég get verið í vandræðum að hita mig upp fyrir líkamsræktaræfingar. En ég get alltaf hreyft mig í volgu vatninu.

En nú þegar allar líkamsræktarstöðvar og sundlaugar eru lokaðar er maður í nokkrum vandræðum. En þá ríður á að hugsa í lausnum. Í boði á internetinu eru núna hinir ýmsu tímar hjá íþróttaþjálfurum, sjúkraþjálfurum, jókakennurum og ýmsum öðrum sem að gagni geta komið. Parkinsonsamtökin bjóða nú upp á hópþjálfunartíma á internetinu hjá iðjuþjálfa. Þar hef ég reynt að mæta og reynst mér vel.

Þetta er í raun ótrúlega skemmtilegt. Guðrún Jóhanna iðjuþjálfi stýrir þessu með glæsibrag og tíminn fer fram í Zoom fjarfundakerfi. Þar getum við verið öll í mynd hver heima hjá sér og gert æfingarnar saman. Mér finnst bara betra að geta fylgst með sjálfum mér á skjánum um leið og ég fylgist með Guðrúnu gera æfingarnar. Þá gerir maður sér betur grein fyrir hvort maður er að ná þessu rétt.

Það er bara heimilisleg stemming yfir þessum tímum og margt getur komið upp á. Um daginn vorum við að þjálfa handleggina. Guðrún lét okkur halda handleggunum út og hreyfa þá síðan upp og niður eins og við værum að blaka vængjunum. Allt í einu stendur Guðrún upp og labbar út úr myndinni hreyfandi hendurnar eins og vængi. Það næsta sem við heyrum er að hún opnar glugga og ég hugsa: Ætlar hún að fljúga út um gluggann? Ætli við eigum að gera það líka? En þá kemur hún aftur í mynd. Hún hafði bara staðið upp til að hleypa kettinum sínum inn.

Mér finnst augljóst, eftir að hafa tekið þátt í þessum tímum sem og netspjalli hjá Parkinsonsamtökunum í Zoom fjarfundakerfinu, að þetta er kjörið tækifæri fyrir samtökin að efla sína þjónustu og starfsemi. Þarna er tækifæri fyrir fólk sem býr um land allt að taka þátt og nýta sér þjónustu samtakanna.

Eins veit ég að margir sem eru haldnir þessum sjúkdómi eiga erfitt með að fara út á meðal fólks. Ég mundi vilja láta reyna á það hvort þetta geti ekki hentað betur. Það þarf bara að kynna það vel og kenna fólki að nota þessa tækni. Hún er ekki flókin.

En ég sakna þess að komast ekki í sund. Nú þegar vorverkin eru í algleymingi á bænum er mér mest hætt á að ofbjóða skrokknum á mér. Það er ekki vegna þess að ég sé nauðbeygður til að vinna mér til skaða. Ástæðan er að ég er svo meðvirkur í búskapnum að ég gleymi mér í hita leiksins. Áður en ég veit af er ég farinn fram úr sjálfum mér.

Hér á mínu svæði er ekki hitaveita. Heitir pottar eru því ekki mjög algengir við heimili. Þó eru á nokkrum stöðum rafkyndir pottar sem eru bara að virka ágætlega. Þeir eru búnir öflugum hreinsibúnaði þannig að vatnið sem búið er að hita upp nýtist sem best. Það er ekki alltaf verið að skipta um vatn og því eru þeir oftast klárir heitir og notalegir þó ekki sé endilega verið að nota þá daglega.

Einn slíkur er hér við næsta hús, hjá syni mínum og hans fjölskyldu og er talsvert notaður. Þegar ég hef verið slæmur í skrokknum undafarnar vikur hef ég fengið fara í pottinn hjá þeim. Sonarsynir mínir koma þá gjarna með mér og kunnum við allir vel að njóta.

Eitt kvöld, nú fyrir stuttu, fékk ég leyfi til að nota pottinn hjá þeim. Ég var hálf stirður og það var frekar kalt í veðri þetta kvöld. Þar sem ekki er langt hér á milli fór ég í sturtu heima hjá mér og í sundfötin áður en ég skaust yfir til þeirra. Ég fer svo beint inn í bakgarðin hjá þeim. Mér var skítkalt og hlakkaði til að setjast í heitan pottinn. Ég geng beint að pottinum, svifti lokinu af og vippa mér í pottinn.

En það var akkúrat þá sem ég gerði mér ljóst að ekki var allt eins og það átti að vera. Sekúndubroti seinna, vissi ég næst af mér, þar sem ég stóð í kuldanum við hliðina á pottinum. Ekki þeirri hlið sem ég kom að fyrst, heldu hinum megin við pottinn. Ég var nánast þurr, aðeins blautur á iljunum.

Við rannsókn kom í ljós að rafmagnsöryggið við pottinn hafði slegið út og þar sem potturinn hafði ekki verið notaður dagana á undan hafði enginn tekið eftir því fyrr en nú og vatnið orðið ískalt.

Ég held að það hafi bara einu sinni áður gerst að gengið hafi verið á vatni. Fyrra skiptið var fyrir 2.000 árum. Það var þá álitið kraftaverk og eru menn að enn að tala um það.

Með sumarkveðjum,
Aðalsteinn.



21.04.2020 08:49

Hvenær er maður orðinn gamall?

Sagt er að aldur sé hugarástand og það er talsvert til í því. Sennilega er maður bara jafngamall og manni finnst maður vera. Þá skipir engu hvað öðrum finnst maður vera orðinn gamall.


Mér finnst ég enn vera ungur. Þrátt fyrir langan starfsaldur og veralega skerta starfsorku vegna heisubrests finnst mér ég allavega ekki orðinn gamall. Hún Rakel Ýr sonardóttir mín er ekki allveg á sama máli. Hún segir að ég sé gamall. Og það finnst henni bara vera kostur. Gamlir kallar geta verið skemmilegir segir hún.  


Fyrir nokkrum árum kom ég á fund þar sem ég þekkti fá. Ég kom tímalega á fundinn og voru fáir mættir þegar ég kom. Smá saman fjölgaði í fundarsalnum og þegar tók að fyllast í sætin settist hjá mér gömul kona. Hún heilsaði mér og kynnti sig og ég kynnti mig.  Ekki fór okkur meira á milli því nú fófst fundinn.


Ég átti ekki alveg gott með að einbeita mér að því sem fram fór á fundinum því mér fannst ég kannst eitthvað við nafnið á gömlu konunni. Í fyrstu gat ég ekki komið því fyrir mér hvers vegna en svo smá saman rifjaðist það upp fyrir mér að í nokkra mánuði fyrir nálagt 45 árum var með mér í bekk stelpa sem hét sama nafni og gamla konan.


Ég vissi ekkert hvað varð svo um þessa stelpu. Hún stoppaði stutt í skólanum á Selfossi. Þrátt fyrir það var hún  mér svolítið minnistæð. Sennilega hef ég á þeim árun eitthvað verið að spá í hana enda stórglæsileg stúlka sem vakti almenna eftirtekt.


Nú fór ég að velta fyrir mér hvort það gæti verið að þessi gamla kona sem sat við hliðina á mér gæti verið sama manneskjan og þessi fyrrum bekkjar systir mín. Mér fannst það í fyrstu ósennilegt en fór nú að reyna líta á hana svo lítið bæri á. Ég var ekki sannfærður. Þetta gæti allveg hugsanlega verið.  


Í fundarhléi fór ég því að ræða við hana og spurði hana hvort hún hafi verið á yngri árum í skóla á Selfossi í nokkra mánuði. Gamla konan sagðist svo enmitt vera. 

  "Getur verið að þú hafir verið í bekknum mínum?" spurði ég þá eftirvæntinga fullur

   "Það getur allveg verið. Ég man það ekki allveg. Hvaða fög kenndir þú aðalllega?" spurði þá gamla konan.    

emoticon

24.03.2020 23:25

Fordæmalausir tímar

Það er óhætt að segja það að þessi staða sem nú uppi og hefur áhrif á alla jarðarbúa sé fordæmalaus. (...eða bara dæmalaus, ég veit ekki hvort einhver munur er á dæmalaus eða fordæmalaus.) Það er að vísu vel þekkt að farsóttir hafa gengið yfir áður og oftar en einu sinni með hörmulegum afleiðingum. Samt er það svo og ég verð að viðurkenna, að ég átti alls ekki von á að í nútíma samfélagi kæmi þessi staða upp. En það er að vísu bara merki um grandvaraleysi og hvað maður getur verið góður með sig.

 

Ég held að fáir hafi samt búist við þessu. Ég allavega gat miklu frekar átt von á einhvers konar öðrum náttúruhamförum, eins og jarðskjálfum, eldgosum eða flóðum, eða jafnvel styrjöldum eða efnahagshruni en ekki þessu. Ólíkt öðrum náttúruhamförum þá er ekki um staðbundnar hamfarir að ræða núna. Þessi farsótt mun ná til alls heimsins. Nú er um sameiginlegan óvin alls mannkyns að ræða. Nú er ekki hægt að kalla til hjálp frá öðum svæðum. Nú er hvergi hægt að komast undan. Það skiptir engu máli hvað þú átt mikla peninga í vasanum eða í skattskjóli. Það skipir engu máli hvort þú ert múslimi eða kristinn, hvítur eða svartur, Enginn er óhultur.

 

Þetta er því sameiginlegt verkefni allra að berjast við þessa óværu. Og það er heilmikið hægt að gera og ekki ástæða til að gefast upp eða að láta sér falla hendur. Mér finnst okkur takast  nokkuð vel upp hér á landi. Þessum sóttvarnar aðgerðum er stýrt af fólki sem nýtur mikils trausts í samfélaginu. Allir eru með einum eða öðrum hætti að takast á við verkefnið. Mér sýnist menn vinna mjög lausnamiðað.

 

Margir eru undir talsverðu álagi og má t.d. nefna heibrigðisstarfsfólk sem vert er að þakka sérstaklega fyrir þeirra þátt. En það eru fleiri sem eru undir miklu álagi. Allstaðar þarf að skipuleggja starfsemi upp á nýtt. Við getum nefnt starfsfólk skólanna sem standa frammi fyrir mjög ögrandi verkefnum. En allir eru að gera sitt til að standast þetta áhlaup sem best og það mun ganga yfir. Það er næsta víst.

 

 Eitt af því sem nýtist nú vel við  þessar aðstæður er internetið. Mörg fyrirtæki, sem og framhaldskólarnir, háskólarnir, mörg félagasamtök og einstakligar hafa fært  sína starfsemi að stórum hluta út á internetið. Það er hægt vegna þess að bæði netið og nettengingar eru til staðar sem og allur tæknibúnaður og forrit og öpp og hvað það nú heitir. Þatta er allt til staðar. En það er verið að nýta þessi tæki og tól miklu betur og gengur víða bara nokkuð vel.

 

Ég er búinn að vera hér heima hjá mér í viku í sótthví og á aðra viku eftir. Tvær vikur  þar á undan var ég í fríi á Spáni. Á þessum vikum hef ég getað sótt fundi hjá Parkinsonfélaginu og mætt í líkamsþjálfun í hóptíma hjá iðjuþjálfa þannig að fullt gagn var að. Allar þessar samkomur fóru fram á internetinu og það skipti mig engu hvort ég var út á Spáni eða í sótthví heima hjá mér. Ég var fullgildur þátttakandi á þessum viðburðum hjá félaginu.

 

Þetta er að opna augu manna fyrir því hvað þetta er lítið mál og getur verið tækifæri á að efla starfsemi félaga eins og Parkinsonsamtakanna. Það er og hefur verið takmarkandi fyrir þátttöku í félagstarfsemi Parkinsonsamtakanna að margir sem þennan sjúkdóm hafa eiga erfitt með að ferðast á milli staða og/eða vera í fjölmenni innan um fólk. Samt veit ég að margir hafa áhuga á að hitta og ræða við fólk með þennan sjúkdóm. Eins er fólk út um allt land með þennan sjúkdóm sem ekki hefur tækifæri á að taka þátt í hefðbundnu félagsstarfi samtakanna í Reykjavík. 

 

Mér finnst mjög áhugavert að skoða þetta sem raunhæfan kost til að efla félagsstarf Parkinsonsamtakanna í áframhaldandi framtíð, þegar þessarri farsótt líkur.



 

 

 

14.02.2020 20:44

Óveður

Það var bísna hvasst hér í nótt og í morgun. Óveður hefur gengið yfir landið og gætti þess í öllum landshlutum. Víða varð mikið tjón enda veðrið með allra versta móti. Einhver meiðsli urðu líka á bæði mönnum og skepnum en sem betur fer ekki í miklu mæli. Engin stórslys urðu á fólki og er það þakka vert.

Hér á bæ varð ekkert tjón og allir eru ómeiddir en svo hvasst varð að stórbaggarnir í baggastæðunni norðan við hlöðu fuku af stað. Einhverjum kann að finnast það ósennilegt enda svona meðalstórbaggi u.þ.b. hálft tonn að þyngd. Þetta hjómar því kannski eins og einhver ýkjusaga. Ég set því hér mynd til þess að reyna að sanna mál mitt. Baggarnir sem liggja þarna á veginum voru allir snyrtilega raðaðir í stæðunni hægramegin á myndinni í gærkvöldi en svona lágu þeir svo í morgun.

Þessir baggar eru nú reyndar ekki svo þungir. Þetta er hálmur sem tókst að þurrka nokkuð vel í haust. Þeir ná því væntanlega ekki neinni meðalþyngd en talsverðan vind þarf nú samt til að feykja þeim af stað.   

Þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem hvessir á landinu og ekki heldur hér í Flóanum. Veðurlýsingar geta verið með ýmsu móti og misáheyrilegar. Þær lifa kannski lengst sem eru svolítið krassandi og ég er ekki frá því að þær séu skemmtilegastar. Það skiptir þá kannski ekki allveg máli hversu sennilegar þær eru.

Margir hafa heyrt söguna sem sögð er að Jón Jónsson (Nonni) organisti á Vestri-Loftstöðum hér í Flóanum sagði. Ég hef heyrt hana nokkrum sinnum og minnir að hún sé einhvern vegin svona:

Auk þess að vera með búskap á Loftstöðum og vera organisti í Gaulverjabæjakirkju stundaði Nonni sjóróðra frá Loftstaðasandi. Það var ekki hættu laust að róa frá Loftstaðasandi, lendingin var erfið og mátti ekki mikið útaf bregða svo hægt væri að koma bátunum inn úr brimgarðinum.

Það var einhvern tíman á vertíðinnni í blíðskapar verðri að allir bátar voru á sjó og þar á meðal Nonni. Það var mok fiskirí og mannskapurinn upptekinn við veiðarnar. Allt í einu taka menn eftir þvi að það er byrjað að hvessa. Hafa menn nú snör handtök og hætta veiðum og byrja að róa til lands.

En það hvessir snöggt og áður en öllum tekst að koma sér til lands er komið snældu vitlaust veður. Nú berjast menn upp á líf og dauða þarna í brimgarðinum. Það er heldur betur tekið á því við árarnar og róið eins og þrek leyfir. Það sér ekki orðið út úr augum fyrir sjávarroki og seltu.

Þá er það sem Nonna finnst eins og eitthvað komi fjúkandi frá landi og fari yfir hann þar sem hann situr í bátnum og hamast við róðurinn. Eldsnöggt sleppir hann annarri hendinni af árinni og grípur í þetta og kippir því niður í bátinn. Það er svo ekki fyrr en hann er komin með heilu og höldnu í land sem hann fer að kann hvað þetta var.

Þá sér hann að þetta er stóra sleggjan á Loftstöðum sem staðið hafi upp við skemmu vegginn en var þarna að fjúka á haf út. En með snarræði tókst Nonna að afstýra því.







30.12.2019 22:29

Lausavísa

Rakst á þess lausavísu, eftir ókunnan höfund, á intarnetinu. Set hana hér inn svo ég finni hana aftur.

Enginn ratar ævibraut
öllum skuggum fjarri.
Sigurinn er að sjá í þraut
sólskinsbletti stærri.

(höf. ókunnur)





30.11.2019 12:52

Jólapistill úr sveitinni

Þennan pistil skrifaði ég fyrir Parkinsonsamtökin og birtist hann á heimasíðu samtakanna 5.desember.


Ég hlakka til jólanna. Það held ég hafi yfirleitt gert á hverju ári alla mína ævi. Jólin er tími hefðanna og þá sem aldrei fyrr er leitast við að halda í sömu siðina frá ári til árs. Það eru einhvern veginn hálfgerð helgispjöll að vera að róta til í jólahefðunum og leggja margir mikið upp úr því að fylgja þeim í hvívetna.

Það mætti því halda að lítið hafi breyst í áranna rás varaðandi jólahald landsmanna og sjálfum finnst mér jólin alltaf jafn hátíðleg og samt eins frá ári til árs. En svo fer maður að hugsa til baka.

Ég minnist þess allt frá barnæsku hafi undirbúningur jólanna staðið með einum eða öðrum hætti alla aðventuna. Þegar ég var barn einkenntist þessi tími af húsþrifum, kökubakstri, fatasaum, jólakortagerð og öðru jólaföndri, jólakortaskrifum, eplakaupum, kaupum á jólaöli í 20 lítra plastbrúsum, hangikjötslykt og ýmsu öðru sem hægt væri að telja upp.

Þegar maður var orðinn fullorðinn og kominn með fjölskyldu sjálfur var leitast við að viðhalda sem mest af þeim jólahefðum sem maður ólst upp við. Síðan þegar börnin manns eru orðin fullorðin og komin með fjölskyldur og farin að halda sín jól leitast þau einnig við að viðhalda þeim jólahefðum sem þau ólust upp við. Og þannig virðist þetta vera á mörgum heimilum. Maður gæti því haldið að ekkert hafi breyst og allt væri við það sama og áður.

En í dag virðist mér aðventan einkennast meira af jólahlaðborðum, jólatónleikum, jólaverslun, jólalögum, jólabókum, jólasælgæti, jólakvikmyndum, jólasveinum, jólamessum, jólabjór, jólaljósum, jólaskreytingum, jólabónus, jólaglöggi, jólagjöfum, jólakveðjum á facebook, jólaauglýsingum, jólamat, jólaboðum, jólaböllum. jólaferðum, jólaskrauti, jólaauglýsingum, jólamyndum, jólasýningum, jólafötum, jólaafsláttum, jólabúðingum, jólaskóm, jólaslökun, jólalestum, jólatrjám, jólakökum, jólaskemmtunum, jólaleikjum, jólasteikum...o.s.frv.

Samt eru jólin alltaf jól og ég hlakka bara til.

--------

Ég hef verið spurður að því hvort jólin hafi mikið breyst hjá mér eftir að hafa greinst með Parkinsonveikina. Stutta svarið er nei það hefur ekkert breyst.

Að vísu kem ég ekki miklu í verk miðað við það sem áður var. Ég er hættur að standa í því að reykja jólahangikjötið sjálfur eins og ég gerði stundum áður og var eitt af þeim verkum sem kom manni í jólagírinn. Ég er líka latur við að koma upp jólaljósum utandyra þar sem ég þoli illa orðið að vinna úti þegar kalt er. Ég fæ nú samt heimareykt hangiket á jólunum og nóg er af fallegum jólaljósum um allt.

Ég er ómögulegur í margmenni og í örtröð og biðröðum get ég alls ekki verið. Þá fara parkinsoneinkennin á flug og ég ýmist frýs fastur eins og myndastytta eða skelf eins og jarðvegsþjappa. Ég hætti að heyra og sjá almennilega þar sem hugsunin virðist líka frjósa og öll einbeitingin fer í að hafa stjórn á hreyfingunni. Ég forðast því slíkar aðstæður. Ég hef svo sem aldrei verið mikið fyrir að versla og jólaversluninni er sinnt af öðrum en mér á mínu heimili.

Ég hef alveg ánægu af að hitta fólk en fæ samt orðið smá kvíða ef ég fer á sýningar, tónleika eða aðra slíka viðburði. Maður veit aldrei á hverju Parkinson tekur upp á við slíkar aðstæður. Ég gætu þurft að fara á klósettið á fimm mínuta fresti. Ég gæti skyndilega fengið verk eins og hnífi væri stungið í lærið á mér eða í hálsinn eða hvar sem er. Ég gæti kippst við eins og í flogakasti eða öskrað ósjálfrátt upp með hjóðum. Ég fæ verki ef ég þarf að vera kyrr lengi sem geta orðið óbærilegir.

Og þetta er ekki bara ástæðulaus hugaburður. Þetta hefur allt gerst hjá mér við hinar ýmsu athafnir og á mannamótum. Ég fer því ekki á marga slíka viðburði en vel þá vel sem ég sæki og reyni að fara vel undirbúinn.

Ég hef orðið lítið lyktar- og bragðskyn. Það er því ekki lyktin eða bragðið sem er þess valdandi að maður borðar yfir sig af mat. Ég þarf orðið meira að segja að passa mig á að borða nóg svona hversdagslega. Jólamaturinn er samt alltaf dýrlega góður og ég nýt þess sem aldrei fyrr að borða hann með því fólki sem mér þykir vænst um.

Já jólin eru alltaf jól og ég hlakka bara til eins og áður.

---------

Ég hitti einn kunningja minn um daginn. Þetta var einhvern tímann í nóvember. Hann er mikill jólakall og tekur jólaundirbúninginn og jólin alveg með trompi. Hann var að koma út úr Húsasmiðjunni með fangið fullt af jólaljósaseríum. Hann mátti lítið vera að stoppa og spjalla við mig. Hann var að fara að setja upp jólaljós á og við húsið sitt og í garðinum hjá sér. Hann hvatti mig bara til að koma og skoða skreytinguna hjá sér þegar hann væri búinn.

Ég hitti hann svo viku seinna á sama stað og aftur var hann með jólaljósaseríur í fanginu og að flýta sér. Suðaustanáttin hafði verið nokkuð sterk nóttina áður og einhvert tjón varð á jólaskreytingunum hjá mínum manni. Hann var keppast við að lagfæra það sem aflaga fór en var í tímahraki. Hann og frúin voru nefnilega á leið í jólahlaðborð í Reykjavík seinnipartinn. Hann skammaði mig þó fyrir að hafa ekki komið að sjá hjá sér skreytingarnar.

Nokkrum dögum seinni ákvað ég því að líta við hjá honum og skoða jólaskreytingarnar hjá honum. Hann var nú ekki heima þegar ég kom og konan hans ekki heldur. Ég stoppaði samt í smá stund fyri utan hjá þeim og virti fyrir mér fagurskreytt húsið.

Það voru jólaljós á öllum útlínum hússins og um allan garðinn, upp um flest tré í garðinum og jólasveinar og snjókallar hingað og þangað um alla lóðina og upp um alla veggi. Þetta var virkilega flott og ég gat ekki annað en dáðst að dugnaðinum í honum að koma þessu upp.

Nú kom konan hans heim með eitthvað af börnum þeirra hjóna. Þegar ég hafði heilsað henni fór ég að hrósa þeim fyrir jólaskreytingarnar. Hún tók því vel en mátti lítið vera að tala við mig. Hún sagði mér að hún hafi gleymt að panta miða fyrir þau hjón á einhverja jólatónleika og ætlaði að hringja strax og athuga með þessa miða. Hún óttaðist mest að nú væri orðið uppselt og þau myndu missa af þessum tónleikum

Þegar frúin var nýhlaupin inn til að athuga með miða á þessa tónleika kom kunningi minn heim. Ég hrósaði honum fyrir flottar jólaskreytingar. Hann tókst allur á loft við það og leiddi mig um allan garðinn og hringinn í kringum húsið svo ég gæti séð jólaskrautið og jólaljósin hans nákvæmlega.

Allt í einu hringir hjá honum síminn og hann svara að bragði. Hann er ekki búinn að heyra nema nokkur orð í símanum hjá sér þegar ég sé að hann fórnar höndum og biður þann sem í símanum var, margfaldlega afsökunar og segist koma strax. Síðan biður hann mig afsökunar og segist hafa gleymt að hann var búinn að lofa syni sínum að koma og sjá einhverja jólasýnigu í skólanum á þessum tíma. Síðan var hann rokinn í burtu.

Þegar maðurinn var nýfarinn kom konan hans aftur út. Ég spurði hana hvort hún hafi fengið miða á tónleikana og játaði hún því. Þetta voru að vísu síðustu lausu miðarnir. Hún hafði ekki getað fengið tvö sæti hlið við hlið. En henni tókst þó að fá tvo miða fyrir þau, annað á fremsta bekk í salnum en hitt aftast á efstu svölum í salnum. En þau myndu þó ekki missa af tónleikunum.

Ég hitti þau bæði svo aftur fyrir tilviljun á gangi í Reykjavík nokkrum dögum seinna. Eða réttast sagt ég var á gangi en þau komu hálfhlaupandi á móti mér. Ég bauð góðan daginn en þau rétt köstuðu á mig kveðju og síðan afsökun. Þau sögðust vera að keppast við að gera jólainnkaupin. En dagurinn væri bara svo stuttur hjá þeim þvi það var eitthvert jólglögg í kvöld sem þau vildu mæta í.

Í gær hitti ég svo þennan kunningja minn enn og aftur. Hann virtist nokkuð þreytulegur og var hálf ergilegur. Hann trúði mér fyrir því að hann vissi ekki hvað hann ætti að gefa konunni sinni í jólagjöf. Ég gat nú lítið hjálpað honum í þeim vanda, því ég veit svo sem aldrei hvað ég á að gefi minni konu í jólagjöf.

En ég vildi nú samt reyna að hughreysta manninn svo ég segi svona við hann: "Ertu ekki bara að fara heldur geyst í þessum jólaundirbúningi. Er ekki kannski tímabært að hægja aðeins á og hugsa sinn gang. Hvernig væri nú að stoppa aðeins við og fara bara heim og njóta þess sem þú átt þar dýrmætast og þér þykir vænst um."

Hann horfði fyrst á mig skilningsvana. Svo færðist undrunarsvipur yfir hann og svo segir hann með hálfgerðum hneykslunarsvip. "Ert þú að segja mér, að af því að ég veit ekki hvað ég eigi að gefa konunni í jólagjöf, sé best fyrir mig að fara bara heim og drekka allt koníakið mitt."

---------

Ekki týna ykkur í jólaösinni.

Með bestu jólakveðjum, Aðalsteinn.










25.10.2019 09:09

Fréttabréfin

Ég held að það hafi verið haustið 1984 eða fyrir 35 árum.  Vegna verkfalls félagmanna  í Félagi bókagerðamanna komu engin dagblöð út á landinu vikum saman þetta haust. Ekki man ég hvort það truflaði mannlífið í Flóanum nokkuð mikið. En stjórn Ungmennafélagsins Vöku var að leggja línurnar fyrir vetrarstarfið,. 

Formaður félagsins var á þessum tíma Einar H Haraldsson á Urriðafossi . Ég var, ef ég man rétt, gjaldkeri og Oddný Kristjánsdóttir í Ferjunesi ritari. Til þess að koma upplýsingum um væntanlega viðburði og verkefni félagsins til félgasmanna og íbúa sveitarfélagsins og segja fréttir af starfinu á liðnu sumri ákvað stjórnin að gefa út fréttabréf.

Á þessum árum voru ljósritunnarvélar að verða nokkuð algengar. Skólar og félagasamtök fóru að fjárfesta í þessum vélum. Var um algera byltingu að ræða í fjölföldun á efni. Efni fréttabréfsins var vélritað á venjulega ritvél. Fyrirsagnir og myndir voru teiknaðar og svo var þetta klipt til og límt upp á blaðsíður sem síðan voru ljósritaðar. 

Þetta fyrsta fréttabréf Umf. Vöku minnir mig að hafi verið ljósritað hjá Héraðsambandinu (HSK) en þar var nýlega komin  ljósritunnarvél. "Póst og síma" var svo falið að dreyfta fréttabréfinu á alla bæi í gamla Villingaholtshreppnum. Það fékk gríðalegar góðar viðtökur hér innansveitar og var vel lesið á flestum bæjum.. Kannski vakið meiri athygli en ella vegna þess að dagblöð höfðu ekki komið út í einhverjar vikur þegar fréttabréf ungmennfélagsins barst allt í einu.

Um veturinn eftir ákvað svo stjórn Umf. Vöku að stefna að þremur tölublöðum fréttabréfs á ári og fól ritnefnd Velvakanda að annast  útgáfu þess. Á hverjum aðalfundi Umf. Vöku var ritnefnd Velvakanda kosin.  Velvakandi var upphaflega handskrifað félagsblað Umf. Vöku og lesið upp á fundum félagsins. Árin 1977, 1978, 1979 og 1981 kom Velvakanda út sem veglegt fjölritað blað og var selt í lausasölu. 

Formaður ritnefndar og ritstjóri allra þessara blaða var Elín Bj. Sveinsdóttir þá í Kolsholti en í dag í Egilsstaðakoti.  Á þessum tíma voru formenn félagsins  Albert Sigurjónsson á Sandbakka (árin 1977,1978 og 1979) og Einar Hermundsson í Egilsstaðakoti (árin 1980, 1981 og 1982).

Á aðalfundi  Umf. Vöku í ársbyrjun 1985 var Kolbrún J Júlíusdóttir í Kolsholti 1 kostin formaður ritnefndar og það kom því í hennar hlut að ritstýra fréttabréfinu sem fékk nú nafnið "Fréttabréf Velvakanda"   Þrjú tölublöð komu út þetta ár en um mitt næsta árs (1986) var svo ákveðið að stefna að útgáfu fréttabréfsins í byrjun hvers mánaðar. Síðan þá hefur fréttabréf ungmennafélagsins hér í sveit komið út í hverjum mánuði eða allt frá því í júní 1986. 

Á aðalfundi Umf. Vöku 2. jan 1987 er ég kosin formaður félagsins þegar Einar á Urriðafossi gefur ekki kost á sér lengur, en hann var búinn að vera formaður frá 1984. Ég var búin að vera gjaldkeri félagsins frá árinu 1983 og fylgdist því vel með hvað fór fram á þessum árum. 

Frétabréfið var nú orðið nokkuð fastur punktur hér í sveitinni í byrjun hvers mánaðar. Strax í upphafi var því ætlað stærra og veigameira verkefni en bara að segja frá starfi ungmennfélagsins og birta tilkynningar og auglýsingar frá því, Öllum öðrum félögum í sveitinni og einstaklingum var boðið að nýta sér fréttabréfið til að koma hverju því á framfæri sem erindi átti við íbúa sveitarfélagsins.

Haustið 1988 var ákveðið í stjórn Umf. Vöku að halda stjórnarfundi reglulega í lok hvers mánaðar. Á þessa stjórnarfundi voru einnig boðaðir formenn allra nefnda félagsins. Á þessum fundum var farið yfir starfið í liðnum mánuði og komandi mánuður skipulagður. Ákveðið var hvaða fréttir þyrftu að koma í næsta fréttabréf og hvaða viðburði ætti að auglýsa.  Þannig var nú útgáfa fréttabréfsins orðið nokkurs konar prímusmotor í starfi félagsins.

Ég minnist þessara stjórnarfund sem með því skemmtilegra sem ég hef gert um daganna. Það var alltaf gaman á þessum fundum. Það var virkilega gefandi að vinna með og kynnast öllu því unga og áhugasama fólki sem þar koma saman í hverjum mánuði. Að loknum fundi var svo unnð að útgáfu næsta fréttabréfs. Ég tók yfirleitt lungað úr einum vinnudegi á milli gegninga og mjalta í að skrifa fréttir og auglýsingar frá ungmennafélaginu í byrjun hvers mánaðar á þessum árum.

Og ég er sannfærður um að fréttabréfið varð fjótt áhrifavaldur á allt félags- og menningarlíf í sveitinni. Eins og fram kom áðan var öllum boðið og þau í raun hvött til þess að nýta sér útgáfu fréttabréfsins. Mér fannst þetta falla vel að markmiðum félagsins að efla allt félags- og menningarlíf á félagssvæðinu sem var gamli Villingaholtshreppurinn. Mér er til efs að nokkuð annað sem ungmennafélagið hafi tekið sér fyrir hendur hafi haft meiri áhrif, til langs tíma, á jákvæðan hátt og einmitt fréttabréfið.   

Ég hætti svo í stjórn  ungmennafélagsins í ársbyrjun 1992 en þá var ég komin í stjórn Héraðsambandsins (HSK) og orðin þar gjaldkeri. Fannst mér tímabært að breyta til enda tel ég aðalsmerki öflugs félags að enginn sitji of lengi í sömu stjórnunnarstöðu. Í starfi ungmennfélags er það ekki síst mikilvægt þar sem alltaf eru að koma upp nýir árgangar. Ungmennfélögin hafa frá upphafi litið á það sem sína skyldu og verkefni að þjálfa upp og kenna  ungu fólki að stunda félagsstörf og því mikilvægt að sem flestir fái tækifæri til þess að takast á við það að sitja í stjórn.

Hrafnhildur Tryggvadóttir í Hróarsholti tók við formensku í félaginu þegar ég hætti. Ég var þó áfram eitthvað viðloðandi þessa mánaðarlegu stjórnarfundi og þá sem fulltrúi íþróattanefndar og skrifaði eitthvað af fréttum og auglýsingum í fréttabréfið. Á þessum árum stóð félagið líka í stórframkvæmdum með bygginu íþróttarvallar á lóð þjórasárvers og skólans. 

Gríðalegur fjöldi félagsmanna og aðrir íbúar í sveitarfélagu lögðust á eitt með félaginu í þeirri framkvænd. Ég er þeirra skoðunnar að fréttabréfið og það hvað ungmennafélagið var í góðu og miklu sambandi við alla sveitungana í gengum það er hluti af skýringunni  á þeirri velvild sem félagið nýtur

Kolbrún var öll þessi ár formaður ritnefndar og ritstjóri fréttabréfanna. Á henni hvíldi öll vinnan við að setja upp frétttabréfin og koma þeim út í byrjun hvers mánaðar. Því til viðbótar fór ungmennfélagið að gefa út árskýrslu hvers árs. Fyrsta fjölfaldaða árskýrslan kom út í jan 1989 fyrir árið 1988. og hefur komið út á hverju ári síðan. Árin 1986 og 1996 kom Velvakandi einnig út í prentaðri útgáfu. Öll þessi útgáfa var á hendi ritnefndar Umf . Vöku og ritstýrð af Kolbrúnu.

Eins og fram kom hér áður var allt lesefni fréttabréfsins vélritað upp. Kolbrún fékk efnið yfirleitt til sín handskrifað. Yfirleitt kom fólk sjáft með það hingað, Einnig var hægt að senda það hingað með faxtæki og í sumum tilfellum skrifaði hún það upp eftir fólki í síma. Fyrst í stað var fréttabréfið ljósritað hjá HSK en síðan í skólanum hér innansveitar þegar sveitarfélagið ákvað að koma að þessu með ungmennafélaginu með því að skaffa pappírinn og ljósritun 

Ungmennafélagið fjárfesti í rafmagnsritvél á kr. 13.000 haustið 1986 eða fljótlega eftir að ákveðið var að vera með reglulega útgáfu í hverjum mánuði.  Hún var notuð allt þar til talva kemur hingað á heimilið árið 1999. Það var heilmikil bylting, nú var hægt að ganga frá textanum með fyrirsögnum og leiðrétta í tölvunni. Áður varð að vinna allar fyrisagnir og leiðréttingar sérstaklega og líma ínn á blaðsíðurnar. Þeir sem höfðu aðgang að tölvu gátu nú unnið sinn texta sjálf og skilað honum tilbúnum á disklingi. 

Árið 2003 er svo intarnetið komið og orðið það allmennt að það er óskað eftir því að allt efni komi í tölvupósti. Það var líka heilmikil breyting en eftir sem áður þarf að setja fréttabréfið upp, prenta út, ljósrita og koma í póst í hverjum mánuði. 

Kolbrún tekur svo ákvörðun um að hætta á aðalfundi félagsins 2.jan 2007 eftir að hafa sinnt þessu í 22 ár. þá er búið að sameina bæða skólana hér í Flóanum (2004) og svo sveitarfélögin (2006). og ekki ljóst hvaða áhrif það mun  hafa  á alla félags- og menningarstarfsemi. Síðasta tölublaðið sem Kolbrún ritstýrir er janúar tölublað 2007. Við starfinu tekur Fanney Ólafsdóttir á Hurðarbaki og hefur hún sinnt því síðan. 

Eins og flestir vita hafa orðið heilmiklar breytingar hér síðan sameinað var. Í öllum þremur sveitarfélögunum sem sameinuðust hér í Flóanum árið 2006 voru starfandi öflug og virk ungmennfélög sem öll stóðu að útgáfu fétttabréfs með svipuðu sniði í sinni sveit. Fljótlega fóru ungmennfélögin að spá í meira samstarf og hugsanlega sameiningu. 

Eitt það fyrsta sem gert var í þeim efnum var að sameina fréttabréfin. Fyrst umf. Vaka og Umf. Samhyggð og síðar einnig Umf. Baldur.   Síðasta tölublað "Fréttabréfs Velvkanda" kom út í mars 2007 og fyrsta tölublað "Áveitunnnar" kom í næsta mánuði á eftir í apríl 2007. Þetta þróaðist svo áfram með meira samstarfi og að lokun sameiningu ungmennafélaganna þegar "Umf. Þjótandi" var stofnað hér í sveit en fyrsta stafsár þess var árið 2016.

Enn er útgáfa fréttabréfs í hverjum mánuðu hér í sveit í umsjón ungmennafélagsins. (nú Umf. Þjótanda.)  Þótt margt hafi breyst á þessum 35 árum í samskiftum fólks og upplýsingatækni halda fréttabréfin gildi sínu. Þrátt fyrir internet, heimasíðugerð, facbook og hvað annað sem ekki var til staðar þegar þessi saga hófst. Ég held að "Áveitan" sé með því mest lesna efni sem berst heim á bæina hér sveit og það hefur enn mikið gildi fyrir mannlífið hér.



Set hér inn mynd af forsíðu og baksíðu 5. tbl. 1995 af "Fréttabréfi Velvakanda" svona til þess að rifja upp útlit þess. Líka vegna þess að mér finnst auglýsingin á baksíðunni skemmtileg. Þetta hefur sennilega verið í fyrsta en ekki síðasta skipti sem núverandi formaður ungmennafélagsins skrifaði í fréttabréfið.  emoticon







   

28.09.2019 20:01

Stærsta ísbúð í heimi.

Hann Hrafnkell Hilmar sonarsonur minn hefur jafnan velt hlutunum vel fyrir sér. Hann dregur sínar álitkanir úr frá vel ígunduðu máli og getur verið nokkuð rökfastur að útskýra sinn málstað. Ég hef áður sagt frá því hér á síðunni s.b. Gleðileg jól ()  og Allur er varinn góður. ()

Við Hrafnkell skerppum stundum saman í sund á Selfossi. Þá spjöllum mikið saman og veltum fyrir okkur allskonar lífsgátum.  Í sumar vorum við einu sinni  leiðinni í sund tveir saman og þá spurði Hrafnkell mig allt í einu hvort ég vissi hvar stærsta ísbúð í heimi væri. Nei ég vissi það nú ekki. 

Það er Ísbúð Huppu á Selfossi fullyrti hann. Ég dróg það nú í efa en hann þóttist nokkuð viss um það. "Allavega sem ég veit um" bætti hann þó við. Ég spurði hann þá afhverju hann teldi það. Hann sagðist geta sýnt mér það ef við færum þangað á eftir þegar við værum búnir í sundi.

Það var nú ekki annað að gera en fara í Ísbúð Huppu eftir sundið. Þeir sem til þekkja vita að Ísbúð Huppu á Selfossi er til húsa í sama húsi og Hótel Selfoss. Í þeirri sömu byggingu má einnig  finna Domino´s pizza, Subway, Selfossbíó og e.t.v fleiri fyritæki. 


Hótel Selfoss 

Þar er einnig innadyra frægur "Menningarsalur" eða fyrirhugaður menningarsalur sem hannaður var einhverntíman á síðustu öld þegar fyrsti áfangi hússins var byggður. Aldrei hefur tekist að fá fjármagn hvorki til þess að klára umræddan menningarsal né til þess að tryggja reksturs hans. Salurinn stendur því þarna enn ókláraður eins og "lík í lestinni" 40 árum síðar. 


Hótel Selfoss (eða ísbúð Huppu)

Þegar við komum svo að íbúðinni og stigum út úr bílnum bentu Hrafnkell mér á að Ísbúð Huppu væri eina ísbúðin sem væri með pizzsa stað.  Huppa væri líka með Subway og bíósali . Svo benti hann á hjótelherbergisgluggana á efri hæðum hússins og sagði  "Svo er Ísbúð Huppu líka með efri  hæðir"

Ég sá núna að þetta var auðvita alveg rétt hjá stráknum. Íbúð Huppu er sennilaga stærsta ísbúð í heimi. Það var líka frábært að fá sér ís eftir sundið. emoticon  







29.08.2019 14:13

Kolefnissporið

Ég hitti gamlan kunningja minn um daginn og fórum við að ræða um umhverfismál og hratt vaxandi hlínun jarðar. Hann hafði nokkrar áhyggur af stöðunni fyrir hönd komandi kynslóða og vildi ekki láta standa upp á sig að grípa til aðgerða ef hægt væri.

 

Þessi kunningi minn var búinn að vera í búskap alla sína æfi með einum og öðrum hætti norður í landi. Vegna aldur m.a. var hann samt búinn að draga saman seglin í sínum búskap.  Hann sagði mér líka að hann væri að reyna að taka upp umhvefisvænni stefnu í búskapnum.

 

Upphafið af  því var að einhver sem býr í Reykjavík og var búinn að kaupa af honum kjöt lengi hafði tilkynnt honum að hann væri hættur að borða kjöt því það væri svo umhverfisspillandi að framleiða kjöt.

 

Hann sagði mér að í kjölfarið hafi hann ákveðið að hætta að ala upp nautgripi til kjötframleiðslu. Þeir kálfar sem fæddust á bænum er nú bara lógaði strax nýfæddum. Þetta væru nú nokkrir kálfar á ári þar sem hann væri enn að framleiða nokkuð af mjólk.

 

Þar sem nokkuð langt er í næsta sláturhús þar sem hann býr er ekki grundvöll fyrir þvi að koma kálfunum þangað, þannig að hann sagðist bara verða að lóga þeim sjálur heima. Vandmálið við það væri helst að ekki mætti hann grafa þá sjálfur heldur þyrfti hann að koma þeim á viðurkenndan urðunnarstað.

 

Til þess að koma dauðum kálfinum þangað þarf hann að fara  á traktornum 30 km og setja hann í hrægám sveitarfélagsins. Gámurinn er svo tekinn þegar hann er fullur og farið með innihald hans til urðunnar í annan landsfjórðung.

 

Ég spurði nú þennan ágæta kunningja minn hvort hann ætti þá ekki allt of mikið af heyjum fyrst hann væri hættur í nautaeldinu. Nei hann hélt nú ekki, nú væri hann farinn að selja heyið.  Einmitt þessi sami maður í Reykjavík og hætti að kaupa af honum kjötið væri nú farinn að kaupa hey af honum. Hann væri með hóp af hrossum og væri að stofna hestleigu og bjóða upp á hestferðir um landið. Það væri mun umhverfisvænna að fara í slíkann rekstur heldur en að ala upp nautgripi.

 

"Sækir hann þá til þín hey" spyr ég. "og keyrir til Reykjavikur"

"Já já hann sækir til mín margar ferðir af heyi og fer með til Reykjavíkur."

"En er hann að bjóða upp á hestaferðir í Reykjavík" spyr ég.

"Nei hann er að bjóða upp á hestferðir um allt land. Hann flytur hrossin á bílum eða rekur þau í hópum  hvert á land sem er, ásamt mannskap, búnaði og  fóður fyrir menn og skepnur eins og þarf."

 

Ég ákvað nú að spyrja ekki meir út í þessar hestaferðir. Þess í stað spurði ég hann að því hvort hann væri búinn að fækka fénu eitthvað. Já hann sagði svo vera. Eftir að hann frétti að kolefnisspor íslenska lambakjötsins væri með því mesta sem gerðist væri hann búinn að missa áhugan á því. Nú væri hann alvarlega að hugsa um að hætta alveg með það. 

 

Hann kviði því eiginlega mest að hafa ekki lambakjöt handa sjálfum sér ef hann hætti allveg. En nú væri hann að skoða möguleika á því að breyta fjárhúsunum í svínahús og fara út í svínabúskap. Hann sagði mér að kolefnisspor svínakjötsins væri mun minna en lambakjötsins.  

 

Svínin ætu ekki hey og því gæti hann aukið heysöluna til Reykjavíkur ef hann skipi yfir í svínin.  Hann yrði að vísu líka að kaupa allt fóður hand svínunum. Það kæmi nú aðalega frá útlöndum og flutt til hans frá Rykjavík. Það væri nú minsta málið.

 

Ég spurði nú þennan kunningja minn að norðan hvernig hagarnir hjá honum væru nú þegar fénu fækkaði. Hann sagði mér að þeir væru nú allveg að verða ónýtir til beitar. Um leið og fénu fækkaði hefði víðir og allskonar kvistir og blómagróður vaðið uppi. Framræsluskurðirnir væru að fyllast af gróðri og jarðvegi og væru orðir vita gagnslausir. Í rigningatíð sæti vatnið upp og víða orðið of blautt fyrir búfénað.

 

En þetta væri mjög í anda umhverfisins og maðurinn úr Reykjavík sem einu sinni keypti af honum kjöt en núna hey hefði bent honum á að votlendissjóður hefði áhuga á þessu. Nú væru komar stórar ýdur á svæðið og þeirra verkefni væri að ýda jarðvegi í þessa gagnslausu skurði.

 

"Og hvar á að taka þennan jarveg til að setja í skurðina" spurði ég

"Nú hann er bara tekinn í landinu næst skurðunum. Þetta væri ekki svo mikið sem kæmist í skurðina þeir væru fullir að drullu fyrir" svaraði hann

" En skilur það þá ekki eftir sig sár á gróðrinum í kring.  Ekki er það fallegt "

 

Kunningi minn hafði engar áhyggur af því. Þetta væri allt saman gert að fyrirskipan færustu sérfræðinga úr Reykjavík í umhverfimálum. Hann sagði að vísu væri smá vandamál en á jörðinni við hliðina á honum sem væri í eyði er verið að skipuleggja skógrækt í stórum stíl.

 

Það væru hópur fólks sem ætti þessa jörð, m.a. maðurinn úr Reykjavík sem einu sinni keypti af honum kjöt en væri núna að kaupa af honum hey, og þau væru nú að leita eftir fjármagni til þess að rækta skóg á allri jörðinni. Það ætluðu þau að gera til þess að binda kolefni úr andrúmsloftinu.

 

Til þess að það geti gengið upp er verið að endur skipuleggja framræslu á jörðinni. Nú þegar búið er að loka skurðunum hjá kunningja mínum er ekki lengur hægt að nýta þá skurði til að veita vatni burtu.  Því þarf að grafa nýja skurði á jörðunum í kring til þess að geta ræktað þennan fyrirhugaða skóg.

 

Eftir þetta samtal verð ég að viðurkenna að ég veit ekki alveg  hvort ég er að skilja þessi umhverfismál alveg nógu vel.  Ég hlít að þurfa að reyna að komst betur til botns í þessum útreikningum á kolefnissporinu.  emoticon  emoticonemoticon 

 

 

 

 

 

 

Flettingar í dag: 3
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 53
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 125487
Samtals gestir: 22675
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 01:01:11
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar