Í Flóanum

06.05.2011 21:46

Folald

Vorið er skemmtilegur tími. emoticon

Maður bíður allan veturinn eftir því og hlakkar til að takast á við vorverkin. Samt er það alltaf svo að þegar vorið brestur á virðist tíminn alltaf allt of knappur. Maður fyllist örvæntingu um að allt sem maður vill og þarf að gera strax komist ekki í verk nógu tímalega. emoticon

Þessa dagana er allt kapp lagt á að vinna þá akra sem ætlunin er að sá korni í. Hér er hugmyndin að sá grasfræi í hluta akranna með bygginu. Nauðsynlegt er því að jafna endanlega í flaginu og ganga þannig frá að úr geti orðið góð tún. 

Þessi vinna hvílir nú kannski ekki mikið á mínum herðun nú orðið. Það er aðallega Sigmar sem sér um þetta. Kristinn tengdasonur hefur einnig verið drjúgur í þessum með honum þegar hefðbundum vinnudegi er lokið hjá honum. Sjálfur reyni ég að komast í þetta með þeim þegar færi gefst. Tók i vikunni, suma dagana, nokkra klukkutíma á jarðýtunni. emoticon

Sauðburður er einnig hafinn. Sú fyrsta bar á miðvikudagskvöldið. Seinna sama kvöld þegar ég var að kom heim af sveitarstjórnarfundi rétt eftir miðnætti voru tvær í viðbót að byrja að bera. Eitthvað gekk það ekki nógu vel en með minni hjálp eru nú hér komin þrjú lifandi lömb undan þrem ám. Ég vonast til að ég fá nú fleiri lömb til nytja eftir hverja á en þetta þegar upp er staðið.

Í dag kastaði svo gráa merin hennar Erlu Björg, hún Pandóra og kom með brúnt hestfolald.



Það er nú orðið ansi langt síðan hér hafa fæðst folöld og tilhlökkun var mikil. Sjálfur var ég á Héraðsnefndarfundi í morgun þegar merin kastaði en Kolbrún tók þessar myndir af hestinum nokkurra mínútna gömlum.


Börnin í Jaðarkoti og Lyngholti hafa svo í dag komið að heilsa upp á nýjasta gæðingsefnið á bænum.

30.04.2011 07:38

Suðurland...hvorki meira né minna.

Það er alveg ljóst að ef íslendingar ætla að vinna sig út úr þeirri kreppu sem nú herjar verður að nýta eitthvað af þeim tækifæri sem fyrir hendi eru til atvinnuuppbyggingar. Ef ætlunin er að minnka atvinnuleysi og auka tekjur í þjóðfélaginu aftur er lykilatriði að snúa sér að því verkefni. Þá er nauðsynlegt að halda sér við raunhæfar áætlanir og hugsa til einhverra framtíðar í þeim efnum

Hér á suðurlandi eru tækifærin mörg og margvísleg. Samband sveitarfélaga á Suðurlandi ásamt Atvinnuþróunnarfélagi Suðurlands og Markaðsstofu Suðurlands stóðu fyriri atvinnu- og orkumálaráðstefnu á Hótel Selfoss í gær. Ráðstefnan var haldinn undir heitinu "Suðurland - hvorki meira né minna- " Þar var reynt að draga fram eitthvað af þeim fjölmörgu tækifærum sem hér eru í aukinni atvinnuuppbyggingu.

Á ráðstefnunni var fjallað um málaflokkana; orkumál, ferðaþjónustu, skapandi greinar og matvælaframleiðslu. Fram kom, sem er mikilvægt að gera sér grein fyrir, að uppbygging í einni grein útlokar ekki annað og í mörgum tilfellum skapar uppbygging í einni frekar tækifæri í annarri grein. T.d. var á ráðstefnunni bent á að þau tækifæri sem helst blasa við í ferðaþjónustu tengjast þeirri fjölbreyttu matvælaframleiðslu sem er fyrir hendi og hægt að byggja hér upp.

Ferðaþjónustan á einnig möguleika í tengslum við lista og menningarlíf svæðisins en á ráðstefnunni var bent á nauðsyn þess að nýta betur þær fjárfestingar og þekkingu sem í ferðaþjónustunni er með aukinni vetrarstarfsemi.

Mjög áhugavert erindi var um ræktun á olíurepju. Á suðurlandi er til mikið af góðu ónotuðu ræktunnarlandi og það hlítur að vera eitt af okkar stóru tækifærum í framtíðinni að nýta það meira. Framleiðsla á olíu sem nýtt er sem eldsneyti er einn af þeim kostum sem eru í stöðunni.Sú ræktun stuðlar einnig að meiri fóðurframleiðsu sem nýtist til matvælaframleiðslu.

Á ráðstefnunni var gerð grein fyrir þeirri vinnu sem hefur verið í gangi á vegum rammaáætlunnar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með tillit til virkjanakosta. Stór hluti af raforkuframleiðslu í landinu fer fram hér á suðurlandi og hestu áhugverðustu kostirnir til aukningar í þeim efnum virðast einnig vera hér. Það er mikilvægt ef farið verður í virkjanaframkvæmdir að nýta þá raforku sem allra best og þannig að það skili sem allra mestum tekjum og atvinnu. Að mínu mati á það að vera krafa númer eitt að íslenskt samfélag og þá ekki síður það samfélag sem næst slíkum virkjunum stendur hafi sem mestan hag af þeim.

24.04.2011 19:43

Sumarpáskar

Páskarnir hafa þá sérstöðu að þeir eru aldrei á sama tíma frá einu ári til annars. Yfirleitt eru þeir nú einhvern tíman í einmánuði. En svo kemur fyrir að þeir eru ekki fyrr en helgina eftir sumardaginn fyrsta eins og núna í ár. Þá eru sumarpáskar og skírdagur og sumardagurinn fyrsti bera upp á sama dag.

Þetta mun að jafnaði gerast á 15 ára fresti. Reyndar er misjafnt hvað líður langt á milli en eftir því sem ég hef lesið mér til um er styðsta bil á milli 3 ár en lengsta bilið 41 ár. Sumarpáskar voru síðast árið 2000. Það voru einnig sumarpáskar árin 1984 og 1973 en það var vorið sem ég fermdist.

Næst verða sumarpáskar ekki aftur fyrr árið 2038.

Svo getur það einnig komið fyrir að páskar séu á góu. Það er öllu sjaldgæfara en sú var raunin fyrir þremur árum 2008. Það mun ekki gerast aftur á þessari öld. Á síðustu öld voru góupáskar tvisvar árin 1913 og 1940.

Nú er mér í sjálfu sér alveg sama hvenær ársins páskarnir eru. Það eru ekki endilaga svo mikill munur á s.k. frídögum og öðrum dögum í sveitinni. Samt er það nú svo að á stórhátíðum er gjarna notað tækifærið til þess að gera sér dagamun.

Hér var mikið fjölmenni í mat hjá okkur í dag. Má sega að ættbálkurinn minn hafi komið saman en það eru alltaf góðar stundir. Börnin, tengdabörnin, barnabörnin ásamt foreldrum mínum og Öldu systir með sín barnabörn voru hér. Alls voru þetta 19 manns og tókum við hraustlega til matar okkar ásamt því að spjalla og leika okkur saman. emoticon

Annað sem við létum eftir okkur þessa dagana var góður útreiðartúr á föstudaginn. Þá var hér blíðu veður. Við Jón lögðum hér af stað um hádegi og riðum upp í Egilsstaðakot. Þaðan riður þeir feðgar, Einar og Þorsteinn, með okkur áfram upp í gamla Hraungerðishreppin þar sem við stoppuðum í Hjálmholti. Þar hafði bæst við í hópinn  Óli á Hurðarbaki. Frá Hjálmholti riðum við að Hurðarbaki ásamt Ólafi í Hjálmholti. Að endingu var komið við í Vatnsholti á leiðinni hingað heim. Hingað  vorum við Jón komnir um miðnætti aftur.

Þetta var mjög góður túr. Hrossin höfðu mjög gott af þessu og ferðafélagarnir voru skemmtilegir. emoticon

19.04.2011 07:32

Er komið vor?...

Þó það séu engin ný sannindi og hefur komið fyrir áður, þá er veðrið búið að vera hálf leiðinlegt undanfarið. Það svo að maður hefur jafnvel sleppt þvi að fara á hestbak þó tækifæri hafi gefist. emoticon

Nú er það ekki  þannig að um einhvert óveður hafi verið að ræða. Hér hefur hvorki verið frosthörkur, snjóbilur eða hvassviðri.  Það er aftur á móti vestanáttin, sem hefur verið nokkuð ríkandi undanfarið, sem fer í taugarnar á mér. Henni  fylgir gjarnan éljagangur ýmist með hagléljum, snjókomu, slyddu eða rigingu ásamt vindbelgingi.

Þrátt fyrir þetta er jörðin tilbúin fyrir almennilegt vor. Jarðklaki er víðast hvar enginn og almennt farið að þorna um. Það er að verða fært að hefja jarðvinnslu að fullum krafti. Það er nokkuð fyrr en í flestum árum. emoticon

Farfuglarnir hafa verið að tínast til landsins undanfarnar vikur.  Þó mófuglarnir virðast nokkuð umkomulausir í snjófölinni sem hér er annað slagið þessa dagana þá fer ekki á milli mála að þeirra tími er framundan.

Ein er sú samkoma hér í sveit sem gjarna  er haldin um það leiti sem vetur er að renna sitt skeið og vorið að taka við en það er Árshátíð Flóaskóla. Þetta eru ávalt mjög skemmtilegar samkomur og svo var einnig í ár. Hátíðin var haldin í Þjórsárveri  s.l. föstudag. Nemendur skólans  höfðu æft upp heilmikla dagskrá og sýndu á tveimur sýningum. Húsrúm í Þjórsárveri tekur orðið ekki alla gesti á einni sýningu.

Það er mikil vinna að skipuleggja svona dagskrá þannig að vel fari. Með samstilltu átaki nemenda, sem allir með tölu eru þátttakendur  í verkefninu, og starfsmanna skólans verður útkoman stór glæsileg.

Það er ekkert sem virkar betur við að uppræta svartsýni en það að sjá allt þetta unga fólk sem hér býr spreyta sig á verkefni eins og þessu. Maður getur ekki annað en orðið bjartsýnn á framtíðina eftir að hafa séð sýninguna hjá þeim. Ég þakka kærlega fyrir skemmtunina. emoticon

13.04.2011 21:15

Ársreikningur

Nú eru sveitarfélög almennt að leggja fram ársreikninga sína og afgreiða þá. Hjá Flóahrepp var hann lagði fram til fyrri umræði í sveitarstjórn 16. mars s.l. og hann síðan samþykktur samhljóða og undirritaður af sveitarstjórn á sveitarstjórnarfundi 6. apríl.

Þrátt fyrir samdrátt í rauntekjum og miklar kostnaðarhækkanir á síðasta ári gekk rekstur Flóahrepps vel á síðasta ári. Það hjálpaði til að tekjusamdráttur varð minni en áætlað var. Fjárhagsáætlun stóðst í aðalatriðum mjög vel. Má segja að einu liðirnir sem fóru fram úr áætlun voru skatttekjur og einnig launakostnður lítilega sem má rekja til hækkunnar á tryggingagjaldi.

Það er ekki sjálfgefið að það takist að reka sveitarfélagið með jafn góðri rekstrarniðurstöðu og raunin varð. Hér hafa allir tekið höndum saman bæðið kjörnir fulltrúar og starfsmenn sveitarfélagsins og stofnanna þess. Fólk hefur lagt sig fram við það að ná þessum glæsilega árangri. Vil ég þakka öllum sem að þessum rekstri koma fyrir gott starf og góðan árangur. 

Eins og fram kemur á heimasíðu Flóahrepps www.floahreppur.is voru heildartekjur tæpar 400 millj. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 37 milljónir. Bókfærð eign er upp á rúmar 558 millj og heildarskuldir eru tæpar 139 millj.  

Miðað við stærð og tekur er fjárhagsstaða Flóahrepps sterk. Skuldir í hlutfalli við heildartekjur eru mjög litlar og fjármagnskostnður er sáralítill. Það er mikilvægt að verja þess stöðu og en hún gefur okkur tækifæri á að halda áfram uppbyggingu á innviðum samfélgsins hér. Það er bæði áhugavert og spennandi verkefni.  emoticon   

05.04.2011 07:41

Félagsþjónustan

Þó félagsþjónustan sé ekki hlutfallslega stór málaflokkur hjá sveitarfélaginu er um afskaplegan mikilvægan málaflokk að ræða.  Það er mikilvægt að öll félagsleg aðstoð sé markviss og að henni sé unnið á faglegan hátt. Hún á að standa þeim til boða sem hennar þarfnast en öðrum ekki. Hún þarf alltaf að vara til staðar hvernig sem árar.

Frá því að Flóahreppur varð til fyrir tæplega fimm  árum hefur  markvisst verið unnið að því að efla samstarf við önnur sveitarfélög  um þessi mál. Í fyrstu var reynt að efna til samstarfs með Sveitarfélaginu  Árborg á grundvelli samnings sem gömlu hrepparnir höfðu gert árið 2005 við þáverandi sveitarstjórn Árborgar.  

Það samstarf gekk hinsvegar ekki upp þar sem Árborg  treysti sér ekki til þess að standa við þann hluta samkomulagsins  sem kvað á um að gerður yrði þjónustusamningur sem tryggði  Flóahrepp aðgang  að sérfræðingum fjölskyldumiðstöðvar Árborgar í málefnum íbúa Flóahrepps.  Það var lykilatriði fyrir Flóahrepp í samstarfinu og var því þessu samstarfi slitið og leitað annað.

Frá því seint á árinu 2007 hefur Flóahreppur verið í samstarfi við uppsveitir Árnessýslu um þennan málaflokk. Sveitarfélögin sem eru fimm talsins hafa verið með sameiginlegan Félagsmálastjóra sem sinnt hefur þessum málum á öllu svæðinu.

Þetta samstarf hefur gengið mjög vel og skipti að mínu mati alveg sköpum hér í þvi að efla faglega vinnu við þessi mál. Það má hinsvegar alltaf gera betur og nú í vetur hefur verið í gangi vinna við að skoða möguleika á enn meira samstarfi við fleiri sveitarfélög. Markmiðið er að efla og styrkja félagsþjónustuna á svæðinu öllu.

Undanfarnar vikur hafa sveitarfélögin í Ölfusi og í Hveragerði verið í viðræðum við okkur um þetta. Bæði í Þorlákshöfn og í Hveragerði eru Félagsmálastjórar sem sinna þessum málum í sínum sveitarfélögum.  Nú er verið að skoða hagkvæmni þess að sameina þessi þrjú embætti í eitt en vera með fleiri félagsráðgjafa sem sinna verkefnum á hverjum stað. Markmiðið er að geta sinnt skjólstæðingum þjónustunnar á svæðinu öllu betur.

30.03.2011 07:43

Strætó

Í gærmorgun heimsótti ég, ásamt framkvæmdastjóra SASS, bæjarstjórunum í Árborg og Hveragerði, fulltrúum frá Innanríkisráðuneytinu og vegamálastjóra höfuðstöðvar Strætó  bs. Ég var þarna mættur sem varaformaður SASS og tilgangur þessara heimsóknar var að kynna sér starfsemi Strætó og þá fyrst og fremst þá þjónustu sem þeir eru að bjóða sem nýst gæti til að efla almenningssamgöngur í landinu.

Tilefnið er að nú um nokkurt skeið hefur vinna verið í gangi í ráðuneyti samgangna að leita leiða til þess að nýta betur það opinbera fé sem varið er til almenningssamgangna. Jafnframt er það stefna núverandi ríkisstjórnar að efla almenningssamgöngur.  Nú um næstu áramót skilst mér að allir samningar um sérleyfisaksturs í landinu renni út og því kannski tækifæri til þess að breyta til.

Það blasir við þegar þessi mál eru skoðuð að í núverandi kerfi eru fjármunir að nýtast mjög illa. Það er niðurstaða ráðuneytismanna og Vegagerðarinnar sem sér um framkvæmd þessarra mála að það kerfi sem við erum að reka í dag sé vægt til orða tekið handónýtt.

Nú hefur Innaríkisráðuneyið ákveðið að bjóða landshlutasamtökum sveitarfélaga að taka þessi mál upp á sína könnu. Stjórn SASS hefur tekið jákvætt í að skoða þessi mál.  Það eru klárlega ákveðnir hagræðingar möguleikar í stöðunni. Sérstalega með því að skipuleggja allt svæðið sem eina heild og stilla ferðum þannig upp að þær nýtist sem flestum og sem víðast. Einnig má sjá fyrir sér ákveðna möguleika í betri samþættingu við aðra akstursþjónustu eins og skólaskstur með framhaldskólanema og e.t.v. eitthvað fleira.

Mér finnst verkefnið spennandi en það er flókið. Það er áhugavert að auka hlut almenningssamgangna m.a. út frá sjónarmiðum umhverfismála. En það verður þá líka að vera þannig að það sé verið að reka samgöngukerfi sem nýtist fólki og það komi að gagni.  

Nú á alveg eftir að sjá hvað kemur út úr þessari skoðun á málinu hjá SASS. Lykilatriði er hvaða fjármuni er verið að ræða í þessu sambandi hjá ríkisvaldinu og hvort einhver meining er að baki þess að efla þessa starfsemi.  emoticon

19.03.2011 07:45

Gömul saga

Svanur í Dalsmynni á Snæfellsnesi setti hér inn álit við síðustu færslu. Mér þótti það skemmtilegt að fá kommet frá honum en Svanur er einn allra skemmtilegasti bloggari sem ég les.  http://dalsmynni.123.is  Þó ég eigi nokkra ágæta kunninga og vini á Snæfellsnesinu og komi þar stundum er ég ekki viss um að við Svanur höfum nokkurn tíman hist. Þó skal á það minnst að ég er bæði ómannglöggur og gleymin.

 Það rifjast nú samt upp fyrir mér að ég hef einu sinni komið heim á hlað í Dalsmynni.

Það var fyrir réttum 32 árum síðan. Ég var þá við nám á Hvanneyri og nýlega orðinn tvítugur. Við nemedur skólans höfðum staðið í ströngu við að æfa upp leikrit sem frumsýnt var á árlegri marshátíð. Hátíðin fór fram ef ég man rétt í félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit.  Að lokinni leiksýningu var dansað og skemmt sér eitthvað fram eftir nóttu.

Ágæt skólasystir mín og góð vinnkona hafði komið í skólann þessa viku á bíl móður sinnar sem var Moskvíts árg. 1972. Hún þurfti að skila bílum aftur þessa helgi en þau bjuggu  þá í Stykkishólmi. Við tókum það ráð að fara beint af hátíðinni vestur með bílinn og ætlunin var að koma til baka á Hvanneyri með rútunni daginn eftir.

Við lögðum af stað um miðnætti frá Brún. Veðrið var nú engann veginn heppilegt til ferðalaga. Bæði var talsvert frost og snjókoma með skafrenningi. Við vorum búinn að frétta það að Kerlingaskarðið  væri ófært en töldum hægt að komast Heydalinn vestur.  Á þessum árum var nú ferðakvíði ekki að þvælast fyrir manni og við höfðum ofurtrú á Moskanum.

Þegar þetta var þá lá vegurinn vestur Mýrarnar allur í hlykkjum. Þetta var malarvegur sem stóð lítuð upp úr umhverfinu og var niðurgrafinn á köflum. Þrátt fyrir það gekk ferðin nokkuð vel.  Það snjóaði og skóf stanslaust. Við skiptumst á að keyra og rýna út í myrkrið og snjóbylinn.  Það munaði litlu að við færum fram hjá vegamótunum við veginn inn á Heydalinn en það var orðið þá svo blint að erfitt var að sjá vegmerkingarnar.

En nú tók færðin að þyngast og eftir að hafa djöflað Moskanum í gegnum hvern skafinn af öðrum fórum við að átta okkur á því að þetta var nú engann vegin skynsamlegt ferðalag.  Við ákváðum því að snúa við áður en við festum bílinn endanlega í óbyggðum og freista þess að koma honum frekar  vestur að Vegamótum.

Við komumst til baka og eitthvað vetur yfir Haffjarðaána en snjó var nú töluvert farin að festast á veginum. Það endaði svo á þann eina veg sem gat orðið við þessar aðstæður að Moskinn sat pikk fastur í skafli á veginum og komst ekki lengra.

Við vissum að það var ekki mjög langt síðan við fórum fram hjá veginum niður að Laugagerðiskóla og okkur sýndist við sjá ljósin þar. Einnig greindum við ljós norðan og/eða austan við okkur en erfitt var að greina hvað það var langt í burtu. Ég hafði aðeins einu sinni áður komið á þessar slóðir en það var vorið sem ég fermdist en þá fór ungmennfélagið í rútuferð um Snæfellsnesið.

Klukkan hefur eflaust verið um þrjú eða eitthvað farin að ganga fjögur um nóttina þegar þetta var.  Eftir að hafa gert tilraun til þess að ganga af stað til bæja var það niðurstaða okkar að bíða frekar í bílnum þar til birti. Þegar líða fór að morgni hætti að snjóa og hann létti til. Þegar birta tók, blast við okkur bær beint fyrir framan bílinn nokkuð hundruð metra í burtu.

Strax og við vorum var við hreyfingu á bænum og lagði ég af stað gangandi þangað til þess að freista þess að fá einhverja hjálp við að losa bílinn úr skaflinum. Skólasystir mín varð eftir í bílum ef einhver skyldi eiga leið um veginn á meðan sem gæti dregið okkur upp.

Þegar ég kom heim að bænum kom þar til dyra kona ein sem strax bar með sér að hún gæti leyst hvers manns vanda, allavega ef hún kærði sig um. Ekki veit ég hvað hún hugsaði um þennan drengstaula sem var að þvælast þarna illa búinn, í snarvitlausu veðri, eldsnemma að morgni, um hávetur, en hún tók málaumleitan minni mjög vel.

Hún vildi endilega bjóða mér eitthvað að borða eða drekka en ég kunni alls ekki við að þiggja það þar sem vinkona mín beið enn í kuldanum út í Moskanum. Þess í stað spurði ég hana hvort á bænum væri einhver á jeppa eða traktor sem gæti dregið bílinn okkar upp úr skaflinum. Hún kvaðst geta reddað því og hringdi í snarhasti eitt símtal. Að loknu þessu símtali sagði hún mér að það væri maður á leiðinni að bílum að hjálpa okkur. Ekki spurði ég þessa ágætu konu að nafni en seinna var mér tjáð að þetta myndi hafa verið Margrét Í Dalsmynni.  Kann ég henni bestu þakkir fyrir skjót og góð viðbrögð við erindi mínu þennan marsmorgun, snjóaveturinn 1979.

Ég hraðaði mér til baka að bílum aftur og það passaði að þegar ég var þangað komin var þar mættu ungur og röskur maður á Bronko jeppa einum glæsilegum. Mig minnir að ég hafi séð hann koma frá Laugagerði. Ungi maðurinn var vel meðvitaður um að hann var á góðum bíl og var snöggur að kippa Moskanum upp úr skaflinum. 

Ekki vildi hann nú láta þar við sitja. Honum hefur vafalaust fundist þetta ferðalag hjá þessu pari heldur ógæfusamlegt og við yrðum fljót að koma okkur aftur í vandræði. Það varð því úr að hann fylgdi okkur vestur að Vegamótum. Vinnkona mín settist hjá honum inn í hlýann Bronkoinn sem keyrði svo á undan.  Hann keyrði á fullri ferð í gegnum hvern skafinn á fætur öðrum þannig að snjórinn þeyttist í allar átti. Ég kom svo á eftir á Moskanum og lét hann vaða í förin eftir jeppan. Þetta gekk stanslaust og vorum við komin vestur að Vegamótum á örskömmum tíma.

Þar kvöddum við þennan björgunarmann okkar. Ekki veit ég hver þessi maður er eða hvort hann keyrir  ennþá um á Bronkonum. Ef einhver sem les þetta og áttar sig á hver maðurinn er  má hann gjarnan bera honum kveðju frá mér með þakklæti fyrir hjálpsemina.

Á þessum tíma var veitingasalan á Vegamótum lokuð. Á hurðinni var miði sem á stóð að opnað yrði kl 12:00. Við vorum nú bæði gegnköld eftir veruna í bílum alla nóttina, glorhungruð, og ósofinn. Það var talsverður tíma í það að opnað yrði svo ég ákvað að berja að dyrum þar sem ég taldi að væri íbúð þarna á staðnum.  

Enginn kom nú til dyra en ég var ekki búin að berja lengi þegar glugga á húsinu var svift upp og kona ein sem virtist nývöknuð kom þar hálf út og jós yfir mig skömmum. Ekki setti ég á minnið hvað nákvæmlega hraut af vörum hennar en stutta útáfan af því var á þá leið að veitingasalan opnaði kl: 12 og hún vildi fá frið fyrir óþolandi viðskipavinum þangað til.

Ég hrökklaðist því til baka og bættust nú rúmir tveir tímar við dvöl okkar í Moskanum þennan sólarhringinn. Fljótlega eftir hádegi kom rútan frá Helga Pé. vestan af Nesi  á leið suður og skildum við nú Moskan eftir og tókum rútuna að Hvanneyri. Veðrið var nú allveg  gengið niður, það var sólskin og stillt en talsvert frost.

Rétt er að taka fram að síðan þetta var hef ég oft stoppað á Vegamótum og alltaf fengið góða og fína þjónustu.

Fyrir þá sem ekki þekkja framhald sögunnar þá má geta þess að þessi skólasystir mín og góð vinnkona á þessum tíma er enn að ferðast með mér. Nokkrum mánuðum eftir þetta flutti hún suður til mín í Flóann. Hún hafði þá tryggt sér eignarhald á Moskanum og kom á honum suður.

Nú 32 árum, tæplaga 30 ára hjónabandi, 3 uppkomnum börnum ,3 tengdabörnum og 6 barnabörum síðar erum við enn að takast á við verkefnin saman. Við erum að vísu fyrir nokkru hætt að ferðast um á Moskanum (í bili allavega) en höfum ýmislegt annað tekið okkur fyrir hendur saman á þessum árum.

Það vill nú svo til að hún heldur upp á afmæli sitt í dag og því kannski ekki úr vegi að nota tækifærið og þakka henni samfylgdina öll þessi ár. Jafmframt óska ég þess að við eigum eftir að vera samferða  áfram um ókomna framtíð. 


                                                                                          
Til hamingu með daginn Kolbrún mín!  emoticon

14.03.2011 22:46

Eitt ár

Nú er ár liðið frá því að ég tók upp á því að skrifa á þessa heimasíðu hugleiðinga mínar. Ég veit svo sem lítið um það hverjir lesa þetta eða hvað þeim finnst þessum sem kíkja hér inn. Enda skiptir það kannski ekki öllu máli. Ég treysti því að þeim sem líkar þetta illa eða finnst þetta leiðinlegt sleppi því að erga sig á þessu með því að lesa það.

Það eru ekki margir sem látið hafa álit sitt í ljós en þó hefur það komið fyrir. Það er helst Bjarni í Gróf sem hefur gert það og þá reyndar oftast til þess að skamma sveitarstjórnina. Ég vil nú sérstaklega þakka Bjarna fyrir þetta sem og öðrum sem hafa sett fram sitt álit á síðunni.

Mér hefur fundist áhugaverðara að skrifa á síðuna þegar maður fær álit hvort sem menn eru mér sammála eða ekki. Ég á alveg eins von á því að ég haldi áfram að skrifa hér þegar og það sem mér dettur í hug.



Í síðustu viku var hér fallegt vetrarveður með sólbjörtum dögum en nokkuð frost. Snjóföl var yfir öllu og var það eingöngu til bóta. Þrátt fyrir frost og snjó finnur maður að vorið er ekki langt undan.


Daginn er farin að lengja. Nú hefur maður orðið ágætan möguleika á að taka þokkalegan útreiðatúr eftir kvöldmjaltir í björtu og er ég að vona að það verði til þess að fjölga þeim stundum sem maður kemst á bak.




Þó álftin sé nú enginn auðfúsugestur hér í nýrækir þá er hún nú yfirleitt fyrsti farfuglinn sem maður tekur eftir. Nú er orðin rúm vika frá því að ég sá fyrstu álftirnar hér á flugi. Þá flaug einnig gæsahópur hér yfir um svipað leiti. Það bendir til þess að það sé alls ekki svo langt þangað til fleiri farfuglar fara að láta sjá sig hér um slóðir.   

11.03.2011 20:05

.......

Sjálfsagt kemst engin í gegnum lífið án þess að upplifa einhver áföll. Til þess að takast á við þau er mikilvægt að fólk leiti styrks hvort í annað og fjölskylda og vinir standi þétt saman. Þannig komast menn sjálfsagt frekast í gegnum sína erfiðleika í lífinu. Fólk stendur jafnvel sterkara á eftir.

Stundum verða samt atburðir með svo hörmulegum afleiðingum að manni finnst það eigi ekki að leggja á nokkurn mann eða fjölskyldu. Þegar slíkir atburðir snerta einhverja sem standa manni nærri eða fólk sem manni þykir vænt um, þá vill maður helst geta það sem enginn mannlegur máttur getur. Maður vill geta breytt því sem gerðist þannig að það hafi aldrei gerst.

Maður vill geta gert eitthvað eða sagt eitthvað sem máli skiptir. Það eina sem maður getur samt gert er að hugsa til þeirra og reyna á einhvern hátt að sýna samhug sinn. Ég veit ekki hvort það getur skipt máli en maður vonar það.

Í dag var ég við jarðarför Kristófers Alexanders Konráðssonar fimm ára drengs sem lést af slysförum 5. mars s.l.

03.03.2011 21:17

Gullið hans Afa

Hún Aldís Tanja heimasæta í Jaðarkoti er orðinn 6 ára gömul. Mér finnst eins og það sé örstutt síðan hún kom hér fyrst 9 mánaða gömul með mömmu sinni um jólin 2005. Síðan þá hefur hún verið mitt næst elsta barnabarn og við höfum haft tækifæri til þess að gera margt skemmtilegt saman.  emoticon  

Á meðan foreldrar hennar þau Sigmar og Sandra voru að byggja húsið sitt í Jaðarkoti hér örstutt frá átti hún heima hjá okkur eða í tæpt ár. Eftir að þau fluttu í húsið er hún hér tíður gestur auk þess sem við hittumst alltaf reglulega annað hvort í fjósinu, hesthúsinu, fjárhúsinu eða í einhverjum öðrum útverkum hér á bæ.



Það hefur aldrei verið neinn verkkvíði í Aldísi og hún gjarna tekst á við hin ýmsu og flóknustu verkefni. Þegar við erum tvö ein saman spjöllum við mikið og höfum eiginlega gert það allt frá því áður en hún var byrjuð að tala og gerum enn. 



Aldís á mikið af öfum og ömmum sem hún hittir reglulega. Stundum skokkar hún hér yfir túnið og heimsækir "Langa og Löngu" (langalöngu) sem búa hérna líka. Hún á einnig bæði afa og ömmu í Grindavík sem hún heimsækir regluleg. Hún Aldís veit nákvæmlega hvernig á að umgangast svona fólk þannig að gagn sé af. emoticon

Ég á von á því að við eigum ýmislegt eftir að bralla og ræða saman í framtíðinni. Auðvita breytast verkefnin og umræðuefni okkar eftir því sem við bæði eldumst. Nú hefur hún t.d sagt mér að hún ætli að hefja nám í Flóaskóla næsta haust og sé því fljótlega að fara að hætta í leikskólanum.



Eins og um margt annað sem hún ætlar að gera heyrist mér hún full tilhlökkunnar að takast á við það verkefni. Hún puðar nú við að æfa sig í að skrifa og reikna þannig að hún verði sem best undirbúin fyrir krefjandi skólagöngu næsta haust.    


27.02.2011 07:44

Leiksýnig

Leikdeild Ungmennfélagsins Vöku frumsýndi í Þjórsárveri tvo stutta gamanþætti síðast liðið föstudagskvöldið. Þetta eru leikverkin "Á þriðju hæð" eftir Vilhelm Mejo og "Amor ber að dyrum" eftir Georg Falk. Leikstjóri er heimamaðurinn Þorsteinn Logi Einarsson í Egilsstaðakoti.
 
Ég mætti að sjálfsögðu og skemmti mér konunglega. Alls verða fjórar sýningar á þessum verkum og allar í Þjórsárveri. Önnur sýning var í gærkvöldi fyrir fullu húsi. Tvær sýningar verða svo á laugardaginn kemur 5,mars. Sú fyrri kl. 15:00 og hin síðari kl 22:00.

Það er full ástæða til þess að hvetja fólk til þess að sjá þetta. Starfsemi leikdeildarinnar er búin að vera mjög öflug frá upphafi. Hvert stórvirkið hefur rekið annað hjá deildinni. Hún var stofnuð 2003 í tengslum við uppsetningu á Gullna hliðinu. Síðan þá hafa verkefnin verið æði mörg og af margvíslegum toga.

Árin 2005, 2007  og 2009 var unnið í samstarfi við hin ungemnnafélögin Í Flóahreppi. Þá voru sett upp stór leikverk með fjölda leikenda úr öllum félögunum. Þess á milli hefur leikdeildin sett upp minni verk og staðið fyrir námskeiðum.

Það er ánægulegt að sjá núna unga og mjög efnilega leikara taka þátt í sýningu hjá deildinni fyrsta sinn. Þeir ásamt þrautreyndum leikurum deildarinnar fara hreint á kostum í þessari sýningu. Það er styrkur leikdeildarinnar hvað margir félagsmenn standa að baki verkefnum hennar. Í hverju verki koma fram nýir leikarar ásamt því sem reynsla hinna nýtist áfram í starfseminni.

Ég þakka kærlega fyrir skemmtunina. emoticon   

25.02.2011 07:27

Leikskólinn

Hér í Flóahreppi  er rekinn öflugur leikskóli. Ég er þeirra skoðunnar að það starf sem þar er unnið sé mjög gott enda heyrist mér að leikskólinn njóti töluverðs trausts hér í samfélaginu. Þar starfar öflugt starfslið sem hefur metnað fyrir því sem það er að gera og vinnur af fagmensku undir öruggri stjórn Karenar leikskólastjóra. 

Hér hafa foreldrar getað komið börnum sínum í leikskóla strax um 9 mánaða aldur. Biðlistar hafa ekki verið og hægt hefur verið að taka á móti öllum þeim börnum úr sveitinni sem sótt hefur verið um að vera í leikskólanum.

Nú er svo komið að húsmæði leikskólans er að verða of lítið. Bæði er það að íbúaþróun hefur verið þannig síðustu ár hér að það fjölgar nokkuð stöðugt í sveitarfélaginu. Eins getur það líka verið að börnin eru að meðaltali yngri þegar þau byrja en fram að þessu hefur það verið nokkuð misjafn á hvaða aldri þau koma inn í skólann.

Á síðasta sveitarstjórnarfundi voru málefni leikskólans rædd. Ef ekki eiga að myndast hér biðlistar eins og sumstaðar annarsstaðar þá verður að grípa til einhverra ráða varðandi húsnæðismálin. Sveitarstjórn fól fræðslunefnd að standa fyrir íbúaþingi til þess að ræða þessi mál og velta fyrir sér þeim kostum sem geta verið í stöðunni.

Íbúaþingið var haldið í síðustu viku. Meðal þess sem þar kom fram var að almennt lítur fólk á það sem grunnþjónustu sveitarfélagsins að tryggja það að hægt sé að koma börnunum í leikskóla strax og fæðingarorlofum lýkur  þ.e. um 9 mánaða eins og hér hefur verið.

Almennt held ég að að það sé ekki mjög algengt hjá sveitarfélögum að svona þjónusta sé í boði. Þessi þjónusta kostar mikið og er ekki eitt af lögbundnum verkefnum sveitarfélaganna. Hitt veit ég vel að þessi þjónusta er mikils virði fyrir íbúana og ég held að sveitarstjórn hafi metnað til þess að halda  áfram að veita hana.  

Húsmæðismálin þarf því að leysa. Það þarf að gera án þess að auka rekstrarakostnað leikskólans það mikið að rekstur hans verði sveitarfélaginu ofviða. Það er vandasamt í þeim tekjusamdrætti sem við búum við í dag.

16.02.2011 07:35

Að hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi

Stundum blöskrar manni alveg sá málflutningur sem stjórnmálamenn geta boðið upp á. Það á við um margt af því sem sagt hefur verið Umhverfisráðherra til varnar eftir að dómur Hæstaréttar féll á fimmtudag s.l. Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms þar sem ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um synjun á staðfestingu á aðalsskipulagi í Flóahreppi var dæmd ólögleg. 

 Umhverfisráðherra sjálfur sem og Forsætisráðherra og ýmsir aðrir hafa varið lögbrot ráðherra gegn Flóahreppi og  íbúum hans með þeim orðum að nauðsynlegt hafi verið að skera úr lagaóvissu. Lögbrot ráðherra hafa einnig verið réttlæt  með þvi að standa hafi þurft  við þá pólitík sem ráðherra segist hafa verið kosin til ...?????

Varðandi lagaskýringarnar þá liggur fyrir að Flóahreppur er ekki fyrsta sveitarfélagið sem afgreiðir aðalskipulag þar sem stórir framkvæmdaaðilar hafa komið að með einum eða öðrum hætti að gerð þess og greitt kostnað við vinnu þess. Skipulagsstofnun sem fer með leiðbeiningarskyldu og eftirlit með skipulagsvinnu sveitarfélaga hefur aldrei gert athugasemdir við slíkt.  Það hefur ekki staðið í Umhverfisráðherrum fram til  þessa  að staðfesta slík skipulög.  Núverandi ráðherra hefur staðfest slík aðalskipulög án nokkurra athugasemda nema þegar kom að því að staðfesta aðalskipulagið í Flóahreppi.

Nú má vera að ráðherra hafi þótt þetta óeðlilegt að þetta væri með þessum hætti.  Þá er að sjálfsögðu eðlilegast að leggja til við Alþingi að breyta lögum á þann hátt að þetta verði með skýrum hætti bannað.  Það reyndi ráðherra reyndar að gera.  Alþingi félls hinsvegar ekki á þessa breytingu.  Þar á bæ var sú skoðun ofaná  að það væri ekki sanngjarnt  að sveitarfélög bæru ein allan kostnað við skipulagsvinnu vegna stórframkvæmda.  Þetta væri í raun hluti af undibúningakosnaði við framkvæmdina sjálfa.

Þessi niðurstaða  Alþingis lá fyrir þegar ráherra gat ekki sætt sig við niðurstöður Héraðsdóms og áfrýjaði málinu til Hæstaréttar með þeim orðum að rökstuðningur Héraðsdóms væri ekki nógu skýr og um einhverja lagaóvissu væri að ræða.  Samt var Alþingi búið á þessum tíma að endurskoða skipulagslögin og í stað þess að setja í lögin bann við kostnaðarþátttöku framkvæmdaaðila er nú með beinum hætti sagt að hún sé leyfileg.

Það lá sem sagt fyrir að lögin sem ráðherra vildi fá skýrð betur  með því að áfrýja til Hæstaréttar og eyða lagaóvissu voru orðin úrelt og Alþingi sjálft var búið að taka á málinu ef um einhverja  lagaóvissu hafi verið að ræða. Niðurstaða Alþingis var að vísu ekki í samræmi við væntingar ráðherra en getur það  réttlætt það að brotið sé á Flóahreppi og íbúum hans?

 Það hefur einnig verið nefnt  ráðherra til varnar að hún hafi verið kosin til starfa vegna sinna póítísku skoðana og hún taki afstöði samkvæmt þeim. Forsætisráðherra hefur einnig sagt að það sé ekki stefna ríkistjórnarinnar að virkja í Neðri-Þjórsá og samkvæmt því sé embættisfærsla umhverfisráðherra í málinu eðlileg og ekki aðfinnsluverð.

Fyrst að það er tilfellið þá vil ég spyrja:

-Afhverju er verið að leggja fyrir sveitarstjórn Flóahrepps að gera ráð fyrir Urriðafossvirkjun í aðalskipulagi?  Vatnsréttinn sem þar á að virkja er í eigu íslenska ríkisins og eru það ekki stjórnvöld hverju sinni sem ráða því hvort og hvenær ráðist verður í virkjun?

-Afhverju er verið að láta vinna rammaáætlun og sífellt verið að vitna í hana varðandi virkjanaáform ef það á fyrirfram að útiloka Urriðafossvirkun í aðalskipulagi Flóahrepps. Ef rýnt er í það efni sem í rammáætlun er búið að vinna og birta opinberlega virðast fáar vatnsaflsvirkjanir líklegri en Urriðafosvirkjun að flokkast í nýtingarflokk.

-Afhverju á Flóahreppur ekki að taka mark á úrskurði Umhverfisráðherra um umhverfismatskýrslu Urriðafossvirkunnar þar sem falllist er á virkjun með ákveðnum skilyrðum.

-Afhverju staðfestir Umhverfisráðherra skipulag í Ásahreppi, Rangárþingi ytra, og Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem gert er ráð fyrir Urriðafossvirkjun en bara ekki í Flóahreppi.  Samkvæmt lögum á Umhverfisráðherra m.a. að gæta þess að samræmi sé í skipulagáætlunum milli sveitarfélaga og óheimilt er að staðfesta aðalskipulag sem er í ósamræmi við aðalskipulag aðliggjandi sveitarfélaga.

-Afhverju  er allri þessarri vinnu ekki einfaldlega hætt og hún slegin út af borðinu af stjórnvöldum Íslands í stað þess að brjóta lög á einu sveitarfélagi og valda því og íbúum þess skaða eingöngu að því að virðist til þess að tefja málin.

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur fjallað um Urriðafossvirkjun á aðalskipulagi vegna þess að Landsvirkjun í umboði stjórnvalda fór fram á að það yrði gert. Fyrir lá mat af umhverfisáhrifum virkjunarinnar og úrskurður Skipulagsstofnunnar og Umhverfisráðuneytisins þar sem fallist er á fyrirhugaða virkjun en ákveðin skilyrði sett um mótvægisaðgerðir vegna umhverfisáhrifa.

Það lá einnig fyrir að Umhverfisráðuneytið var búið að staðfesta aðalskipulög í þremur sveitarfélögum þar sem gert er ráð fyrir Urriðafossvirkjun.  Það er skýrt tekið fram í skipulagslögum að sveitarstjórnir skulu láta vinna aðalskipulög fyrir allt land innan sveitarfélagsmarka sinna. Einnig er tekið skýrt fram í sömu lögum að óheimilt er að samþykkja aðalskipulög sem  stangast á við þegar staðfest aðalskipulög í aðliggjandi sveitarfélögum.

Ef sveitarstjórn sem er að vinna aðalskipulag getur ekki sætt sig við það skipulag sem  þegar er búið að staðfesta í aðliggjandi sveitarfélagi þá er skipulagi á því svæði frestað og skipuð nefnd allra sveitarfélaganna sem aðild eiga að svæðinu ásamt oddamanni frá Skipulagsstofnun. Nefnd þessari er ætlað að ljúka skipulagi á umræddu svæði og hefur til þess afmarkaðan tíma.

Sveitarstjórn Flóahrepps á þessum tíma taldi sig hafa um tvo kosti að ræða varðandi Urriðafossvirkjun.  Annars vegar að fallast ekki á virkjunina og framselja skipulagsvaldið á svæðinu til nefndar þar sem Flóahreppur myndi hafa 2 fulltrúa, hin sveitarfélögin þrjú sem um ræðir hefðu 6 fulltrúa og skipulagsstofnun 1 fulltrúa.

Hin leiðin var sú að beita sér með beinum hætti í því að því að minnka neikvæð umhverfisáhrif vikjunarinnar og freista þess að tryggja sem best að jákvæð áhrif af framkvæmdinni yrði samfélaginu hér á staðnum til framdráttar og eftir atvikum og árangri í þeirri vinnu að fallast á virkjun í aðalskipulaginu.

Á meðan aðalskipulagið var í vinnslu hjá Flóahreppi náðist árangur í ýmsum málum frá því að Umhverfisráðherra úrskurðaði um umhverfismatið sem kom til viðbótar við þau skilyrði sem sett voru varðandi mótvægisaðgerðir.  Þetta voru atriði sem snertu bæði áhrif á lífríki, samfélag og efnahag svæðisins og skipta öll máli þegar verið er að vega og meta kosti þess að virkja.

·         Umfang virkunarinnar var minnkað verulega með lægra yfirborði á inntakslóni. Inntakslónið var allt fært út í núverandi árfarveginn. Með minna vatnsmagni í lóninu og örara vatnsstreymi þar í gegn minnkar bæði hætta af flóðum og setmyndun í lóninu. Ekkert gróið land í sveitarfélaginu fer undir lón.

·         Hættumat var unnið og gengið úr skugga um að hætta fólks vegna hugsanlegra flóða myndi ekki aukast vegna virkjunarinnar. Í mörgum tilfellum reyndist hún frekar minnka.

·         Gerður var samningur við Landsvirkjun um ýmsar mótvægisaðgerðir sem allar miða að því að styrkja samfélagið hér á svæðinu til búsetu. Lögð var á það áhersla af hálfu Flóahrepps að semja um að farið yrði í framkvæmdir sem nýttust samfélaginu öllu.

·          Stjórn Landsvirkjunnar gaf út að orkan úr virkjunum í Neðri-Þjórsá yrði ekki seld til nýrra álvera. Aðrir orkukaupendum áttu að hafa hér forgang og stuðlað skyldi að fjölbreyttari atvinnustarfsemi og umhverfisvænni.

Eftir að sveitarstjórn hafði einnig verið upplýst um hvernig staðið yrði við skilyrði þau sem Skipulagsstofnun og Umhverfisráðherra settu í úrskurði sínum um umhverfismatið féllst sveitarstjórn á að gera ráð fyrir virkjuninni á aðalskipulaginu.

Eftir að aðalskipulagstillagan var síðan búin að fara í gegnum hefðbundið auglýsingaferli, búið var að taka afstöðu til þeirra athugasenda sem bárust og svara þeim var aðalskipulagið samþykkt samhljóða í sveitarstjórn  4. des 2008. Skipulagsstofun fékk þá aðalskipulagið til skoðunnar. Hún fór yfir öll gögn og vinnubrögð  sveitarstjórnar  og mælti síðan með því við ráðherra að staðfesta skipulagið.

Eftir tæpt ár frá því að skipulagstofnun afgreiðir skipulagið frá sér til ráðuneytisins kemur svo loks niðurstaða ráðherra í þá veru að neita að staðfesta skipulagið eins og það liggur fyrir.  Ráðherra er að vísu tilbúin að staðfesta sumt  en ekki að því leiti sem snýr að Urriðafossvirkjun.

Það virtist nokkuð augljóst að sú leið sem ráðherra bauð upp á að fara til þess að geta sloppið við að staðfesta  Urriðafossvirkjun á aðalskipulagi Flóahrepps var ekki lögum samkvæmt.  Örstuttu áður hafði þessi sami ráðherra staðfest nýtt aðalskipulag í Rangárþingi ytra þar sem gert er ráð fyrir umræddri Urriðafossvirkjun.  Sveitastjórn Flóahrepps gat ekki fallist á að taka þátt í lögleysu þessari og ákvað að höfða mál til þess að hnekkja þessari ákvörðun ráðherra.

Ég get vel skilið það að það geti orkað tvímælis hvað og hvar eigi að virkja. Ég get einnig skilið það að skiptar skoðanir eru um það. Ég get hinsvegar ekki skilið það að ráðherra sem vill ekki að einhver ákveðin virkjun sé byggð skuli þá ekki beita sér gegn því í ríkisstjórninni sjálfri og á Alþingi. Í stað þess kýs ráðherra að ráðast á garðinn þar sem hann telur að hann sé lægstur og reynir að gera vinnu sveitarstjórnar í einu sveitarfélagi tortryggilega. Ráðherra segist með því ætla að standa við þá pólitík sem hún er kosin fyrir.

Mér finnst eins og það sé komið fyrir Svandísi Svavarsdóttur Umhverfisráðherra svipað og þeim sem sagt var um að "þeir hefndu þess í héraði sem hallaðist á alþingi".  Þarna mun reyndar  vísað til þess að menn töldu sig geta verið djarfari á heimaslóðum en annarsstaðar.

Er hugsanlegt að vegna þess að Svandís hafi ekki getað komið sínum málum fram í ríkisstjórn og Alþingi hafi hún talið sig geta staðið upp í hárinu á sveitarstjórnarmönnum austur í Flóa. Ef svo er, þá hefur hún vanmetið Flóamenn.

Kúgaðu fé af kotungi,
svo kveini undan þér almúgi; 
þú hefnir þess í héraði,
sem hallaðist á alþingi    

            ( lausavísu eftir Pál lögmann Vídalín (d.1727))

06.02.2011 07:40

Snjór

Hér er meiri snjór en sést hefur lengi. Það þarf í sjálfusér ekki að kom á óvart að það geti snjóað á miðjum Þorra og ágætt á meðan snjórinn liggur kyrr á jörðinni. Hann vill nú yfirleitt vera á stanslausri hreyfingu og það er þá sem hann verður aðalega til leiðinda. emoticon 

Um leið og eitthvað bætir við snjó fara hlutirnir í gang á skíðasvæði höfuðborgarbúa í Bláfjöllum. Jón í Lyngholti hverfur þá til fjalla og puðar við að troða snjó í gríð og erg allan sólahringinn. Ekki er þessi vinna alltaf að koma mörgum að notum. Stundum leggst hann í hláku aftur þegar búið er að leggja nótt við dag við að útbúa skíðafæri sem bjóðandi er upp á og stundum er einfaldlega blind bilur allan daginn. En í anna tíma koma heilu dagarnir þar sem jafnvel þúsundir manna koma á skíðasvæðin sér til skemmtunar og heilsubótar.

Hér niður í Flóa eru menn nú ekki mikið að stunda skíðaíþróttir. Það er nú samt allveg nóg við að vera mönnum til skemmtunar og geðheilsubótar. Í gærdag voru m.a. haldnir tónleikar í Villingaholtskirkju en þeir voru í tilefni þess að nýtt orgel er nú komið í kirkjuna. Í gærdag var einnig folaldasýning Hrossræktarfélags Villingaholtshrepp í nýrri reiðhöll hestamannfélagsins Sleipnis. Eitt af þremur Þorrblótum sem haldin eru í sveitarfélaginu árlega var svo í gærkvöldi en það var Hjónaball Gaulverja í Félagslundi.emoticon

Ég var nú fjarri góðu gamni á öllum þessum viðburðum. Við hjónum ráðstöfuðum þessari helgi aðalega í að fara í fimmtugsafmæli. Á föstudagskvöldið vorum við á Flúðum í fjölmennu afmæli nafna míns og skólabróður okkar frá Hvanneyri. Eins og við var að búast þegar Aðalsteinn á Hrafnkellstöðum heldur mannfagnað var þetta mikil gleði. Karlakór Hreppamanna fór á kostum auk fjölda annarra sem skemmtu með ræðum, söng og myndum af lífshlaupi Alla.

Í gær var svo haldið í Hafnafjörðin þar sem Böddi frændi og jafnaldri Kolbrúnar hélt upp á fimmtugsafmæli sitt með fjölskydu sinni og vinum. Það er annars merkilegt hvað fólk er orðið ungt þegar það verður fimmtugt. Þetta hefur breyst mikið síðan ég varð fimmtugur fyrir örfáum árum síðan.emoticon    




Flettingar í dag: 152
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 281
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 133852
Samtals gestir: 24460
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 15:16:37
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar