Í Flóanum

09.11.2011 07:07

Námsárangur

Það var glæsilegur árangurinn sem grunnskólanemendur í Flóahreppi náðu á samræmdum könnunnarprófum sem tekin voru í grunnskólum landsins nú fyrr í haust. Sérstaklega vekur athygli árangur 10. bekkinga hér í sveit. Þar voru þeir með hæðstu meðaleinkunn í samanburði milli sveitarfélaga á landinu í íslensku og stærðfræði. Þeir voru svo með næsthæðstu meðaleinkunn í ensku.

Þó þetta sé fyrst og fremst árangur nemendanna sjálfra og þeim til sóma þá er þetta líka ákveðin staðfesting á því að skólastarfið í Flóaskóla er að virka vel.

Það hafa verið gerðar miklar breytingar á skólastarfi hér í sveit frá því að þessir nemedur sem nú eru í 10 bekk hófu sína skólagöngu. Það er vandasamt verk að gera breytingar á skólum. Mikið hefur verið lagt upp úr því að þegar hér hafa verið gerðar breytingar að nýta vel þau tækifæri sem í breytingunum hafa falist til að efla faglega starfsemi. Þetta átti við þegar Flóaakóli var stofnaður með sameiningu gömlu skólanna og einnig þegar unglingadeildin bættist við.

Í heild virðist þetta hafa tekist mjög vel hér og ég er þeirra skoðunnar að starfsfólk skólans hefur unnið að þessum málum af metnaði og náð góðum árangri. Gæði í skólastarfi er vissulega ekki eingöngu mæld í árangri í samræmdum prófum. Það eru ótal mörg önnur atriði sem skipta máli. Það er einnig viðstöðulaus vinna að halda upp góðu skólastarfi. Sífellt breytast aðstæður. Það koma nýir nemendur og ný verkefni.

Ég óska Flóaskóla og starfsfólki hans til hamingu með þennan árangur sem styrkir það mikla traust sem mér virðist skólinn hafa hér í samfélaginu.

Sérstaklega vil ég þó óska nemendunum sem náðu þessum frábæra árangri til hamingu. Þeir hafa staðið sig mjög vel. Það er ekki lítils virði fyrir samfélagið að geta verið stolt af sínu unga fólki. Það getur ekki annað en aukið bjartsýni á framtíðina. emoticon    

06.11.2011 07:09

"Glóð er enn í öskunni....."

Þetta var m.a. sungið á mögnuðum tónleikum hjá "Reiðmönnum Vindanna" í Þingborg í gærkvöldi. Það var fjölmenni á tónleikunum og fólk skemmti sér  vel. Það var helst kvartað undan því að ekki var hægt að dansa. Sumir nefndu það við mig að rétt væri að henda stólunum út til þess að bæta úr aðstöðuleysi til að iðka dans við þessa fjörugu músik sem boðið var upp á.  emoticon

Þessir tónleikar voru lokaatriðið á "Tónahátíð" félagsheimilanna í Flóahreppi. Þeir féllu einnig að dagskrá "Safnahelgi" á suðurlandi sem Menningarráð Suðurlands stendur nú fyrir. Um Safnahelgi hér á suðurlandi er boðið upp á gríðalega fjölbreytta og áhugaverða menningardagskrá um allt suðurland allt frá Hornafirði vestur að Hellisheiði. 

Tónahátíðin hér í Flóahreppi tókst vel og vil ég þakka rekstrarastjórn Félagsheimilanna fyrir góða og metnaðarfulla dagskrá. emoticon  

03.11.2011 07:28

Íbúafundur

Það er boðaður íbúafundur hér í sveit í kvöld. Fundarefnið er að ræða kosti og galla þess að hafa leikskóla og grunnskóla á sama stað í sveitarfélaginu. Tilefni þess að þetta er tekið til umræðu nú er að fyrir liggur að stækka þarf húsnæði leikskólans. Núverandi húsnæði er orðið of lítið miðað við fjölda barna á leikskólaaldri í sveitarfélaginu.

Í nýlegum lögum um leik- og grunnskóla er opnað fyrir mun meira samstarf, samnýtingu og samreksturs þessara skólastiga. Það er einnig tekið tillit til þessa í endurskoðuðum aðalmánskrám. Mörg sveitarfélög hafa verið að velta þessum málum fyrir sér og víða hafa verðir gerðar breytingar.

Markmiðið er að efla skólastarfið og nýta betur það fjármagn sem í málaflokkin fer. Ýmsir fagaðilar bæði skólastjórnendur og kennarar og aðrir sem að þessum málum koma hafa séð í þessu tækifæri og möguleika á betra og öflugra skólastarfi. Má m.a. nefna að á "Menntaþingi" sem sveitarfélögin á suðurlandi héldu í Gunnarholti í mars s.l. var töluvert rætt um eflingu tengsla milli skólastiga.

Nú er það svo að breytingar eru vandmeðfarnar og ekki hefur endilega allstaðar tekist vel til. Þekkt er úr fjölmiðlun andstaða við sameiningu leik- og grunnskóla víða um land. Enda ekki endilega víst að markmiðum um samþættingu á námi og öðru skólastarfi náist með því eingöngu að sameina stofnanir sem jafnvel eru í töluverðri fjarlægð hvor frá annari.

Það er mikilvægt að taka þetta til umræðu hér í sveit núna áður en lagt er í umfangs mikinn kostnað í húsnæðismálum leikskólans. Í dag eru báðar þessar sofnanir vel reknar og skólastarf er öflugt á báðum stöðum. Það er því ekki vegna þess að um einhvert vandamál sé að ræða að hafa þetta á sín hvorum staðnum áfram að verið er að ræða þetta sem möguleika.

Það kemur fyllilega til greina að byggja við leikskólann þar sem hann er og nýta húsnæðið sem fyrir er áfram. Við þurfum bara þá að vera viss um að við séum ekki að útiloka möguleika á að gera það allra besta fyrir skólastarfsemina í sveitarfélaginu í framtíðinni.


31.10.2011 07:10

Daginn tekur að stytta

Október er nú að renna sitt skeið og framundan eru myrkustu vikur ársins. Tíðafarið undanfarið hefur heldur verið til þess fallið að minna mann á skammdegið framundan. Það er aðallega boðið upp á rigningu og rok flesta daga. emoticon

Nóg er af verkefnum samt að fást við. Þessi mánuður hefur að vísu mikið farið á fundarsetur hjá mér. Nú síðast var Ársþing sunnlenskra sveitarfélaga en það var í Vík nú á föstudag og laugardag í siðustu viku. Ég fór reyndar austur strax á fimmtudag vegna stjórnarfundar hjá SASS sem haldinn var þá í tengslum við þingið.

Hér á bæ er búið að slátra öllu fé sem á að slátra þetta haustið. Hrútar og lömb eru komin á hús. Ærnar verða teknar einhvern tíman á næstu vikum eða þegar það hentar rúningsmanninum að koma hér. Búið er að sleppa reiðhrossunum og því lítið um útreiðar þessa dagana. Talsvert er borið af kúm í fjósinu eftir að burður hófst um mánaðarmótin ág.-sept. og hefur það að mestu gengið prýðilega.  

Eins og undanfarin ár þá stendur rekstrarstjórn félagsheimilanna í Flóahreppi fyrir "Tónahátíð" í haust. Hátíðin saman stendur af þremur viðburðum hvert í sínu félagsheimilinu í sveitarfélaginu. Byrjað var í Félagslundi 1. október s.l á tónleikum með lögum Oddgeirs Kristjánssonar úr Vetsmanneyjum. 15. október var síðan leikþátturinn "mamma ég" sýndur í Þjórsárveri ásamt því sem heimamaðurinn Sigurður Ingi Sigurðsson var með uppistand.

Núna n.k. laugardagskvöld 5. nóv verður Helgi Björnsson og "Reiðmenn vindanna" í Þingborg svo með stórtónleika. Það er ástæða til þess að hvetja fólk til þess að láta það ekki fram hjá sér fara. emoticon 



 

24.10.2011 20:36

Baráttan um ruslið

Eitt af verkefnum sveitarfélaga er að sjá til þess að hægt sé að losna við rusl á viðurkenndan og löglegann hátt. Lengst af var það víðast hvar gert með þeim hætti að öll efni sem einstaklingar og fyrirtæki töldu sig ekki hafa not fyrir og þurftu að losa sig við var flokkað sem rusl og urðað á vegum sveitarfélaganna. 

Á  meðan sveitarfélögin tóku endalaust við og urðuðu, á til þess að gera ódýrann hátt, varð alltaf til meira og meira af rusli. Þessu fylgdi gífuleg sóun á efnum og eftir því sem umfangið jókst olli það auknum umhverfisskaða. Það hefur lengi verið augljóst að eitthvað þurfti að gera til þess að sporna við þessari þróun. Íslendingar sem og aðrar evrópuþjóðir skuldbundu sig til þess að stór minka urðun á sorpi.

Urðunarstaðir eru heldur ekki neinir óska nágrannar. Nú er staðan orðin þannig að nánast vonlaust er að fá land undir urðunarstað þó allir vilji losna við ruslið sitt á ódýrann hátt.

Mér finnst lykilatriði að reynt sé að sporna við framleiðslu á sorpi. Það er ekki gert með þeim hætti að sá sem hendir ruslinu geti látið kostnaðinn sem af því hlýst lenda á öðrum. Þess vegna tel ég það ekki ásættanlegt til frambúðar að skattpengingar almennings séu látir standa undir sorpeyðingu. Það er eðlilegra að sorpeyðing sé fjármögnuð með þjónustugjöldum sem taki mið af því magni sem hver og einn er að henda.

Það er mikilvægt að koma í veg fyrir að verðmæti lendi í ruslinu. Megnið ef því efni sem urðað hefur verið á undanförnum áratugum er endurvinnanlegt. Það þarf að vera auðveld leið til þess að losna við slík efni án þess að það fari með sorpinu.

Svo því sé nú haldið til haga þá var Flóahreppur fyrsta sveitarfélagið í dreyfbýli sem tók upp svo kallað þriggja tunnu flokkunarkefi í úrgangsmálum. Markmiðið var einmitt að minka sorp sem fer til urðunar og það tókst bara vel. Sem betur fer því síðan þá hefur kostnaður við urðun stóraukist eftir að urðunarstaður sunnlennskra sveitarfélaga í Kirkjuferjuhjáleigu lokaði og farið er að keyra allt sorp héðan suður á Kjalarnes.

Nú gæti maður haldið að þessi árangur sem hér, og reyndar viða annarstaðar, hefur náðst væri öllum fagnaðarefni en svo er nú ekki allveg. Það er nefnilega þannig með sorpeyðingu að hún lýtur sömu lögmálum og annar rekstur. Eftir því sem umfangið minnkar verður gróðinn minni. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga stórt og mikið fyrirtæki í þessum bransa sem er Sorpa bs. 

Eftir að sunnlendingar töpuðum sínum urðunarstað höfum við verið háð samstarfi við Sorpu með urðun. Þar er sú stefna rekin að koma í veg fyrir að sorpið minnki og reynt er eftir framsta megni að tryggja að allur úrgangur skili sér sem best til fyrirtækisins. Þetta er væntanlega gert til þess að halda uppi öflugri starfsemi hjá fyrirtækinu.

Sveitarfélög sem ekki skila endurvinnanlegum efnum og lífrænum úrgangi til fyrirtækisins eru litin hornauga og eru látin borga meira fyrir urðunina en önnur sveitarfélög. Með þessu er fyrirtækið sem er í eigu opinberra aðila að tefja fyrir og koma í veg fyrir að hámarks árangur náist í því að minnka umhverfisáhrif vegna úrgangsmála.


16.10.2011 07:16

Fjármál

Þessar vikurnar brjóta sveitarstjórnarmenn heilann um fjármál sem aldrei fyrr en í vikunni sat ég fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í Reykjavík. Vinna sveitarstjórnarmanna snýst nú kannski eingöngu um fjármál. Verkefnið er að nýta skattfé sem sveitarfélögum tilheyrir sem allra best til hagsbóta fyrir íbúana.

Undanfarið höfum við hér hjá Flóahrepp verið að skoða rekstrarstöðu sveitarfélagsins á þessu ári og endurskoða fjárhagsáætlunina. Vinna við fjárhagsáætlun næsta árs er einnig að komast á skrið. Ljóst er að töluvert vantar upp á að fjárhagsáætlun þessa árs, eins og hún var samþykkt fyrir tæpu ári síðan, gangi upp. Ástæðan er fyrst og fremst launahækkanir vegna kjarasamningana sem gerðir voru á árinu. Tekist hefur bærilega að vera innan áætlunnar í öðrum rekstrarliðum þrátt fyrir mun meiri verðbólgu en reiknað var með. Á móti launahækkunum kemur að þær skila sér einnig að hluta í hærri útsvarstekjum.

Framundan er haustfundur Héraðsnefndar Árnessýslu en þar eru fjárhagsáætlanir ýmissa stofnanna sem sveitarfélögin í Árnessýlsu reka saman afgreiddar. Fjárhagsnefnd Hérðasnefndar er þessa dagana að yfirfara tillögur að áætlunum sem forstöðumenn og stjórnir þessara stofnanna hafa lagt fram. Sjálfur á ég sæti í þessari fjárhagsnefnd en nefndin skilar svo áliti á Héraðsnefndarfundinum.

Ársþing SASS er svo seinna á þessum mánuði en þar eru haldnir einir 5 aðalfundir. Á öllum þessum fundum er fjallað um og afgreidd fjárhagsáætlun fyrir viðkomandi stofnun. Þessar stofnanir eru Atvinnuþróunnarfélag Suðurlands, Skólaskrifstofa Suðurlands. Sorpstöð Suðurland, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga. Til viðbótar verður einnig fjallað um áætlun fyrir stórt og mikið samstarfsverkefni sveitarfélaganna en það er þjónusta við fatlaðra á svæðinu. 

Í allar þessar áætlanir fer mikil vinna en ég er þeirra skoðunnar að nauðsynlegt sé að vanda hana eins og kostur er. Það er mikilvægt að sveitarfélög og stofnanir þeirra sníði sér stakk eftir vexti fyrirfram með vönduðum fjárhagsáætlunum. 

 

09.10.2011 07:28

Byggið, þurkurinn, rigningin og loftárásir

Kornið var skorið hér á föstudagskvöldið. Eins og stundum áður þá hafa haustrigningarnar staðið uppskerustörfum í byggræktinni fyrir þrifum. Við bættist þetta árið að uppskera var sein á ferðinni vegna kulda og þurka í vor. Þannig hófst kornskurður hér í Flóanum u.þ.b. 10 dögum seinna þetta haustið en oft áður.

Bærilega gekk að skera fyrstu dagana eftir að kornskurður hófst og voru menn nokkuð bjartsýnir að ná þokkalegri uppskeru vandræðalaust. En upp úr miðjum september fór haustrigningin sífellt að verða fyrirferðameiri. Liðu nú orðið heilu vikurnar án þess að hægt væri að skera því alltaf rigndi og rigndi. emoticon

Þessu til viðbótar bættist nú önnur óværan við, því meðan á þessu stóð urðu akrarnir fyrir loftárásum. Sá alfriðaði fugl, álftin, sá sér nefnilega leik á borðri og nýtti sér vel það nægtar borð sem blasti nú við. Á meðan við kornbændur biðum þess að stytti upp svo hægt væri að uppskera byggið gekk hún skipulega til verka og át upp heilu hektarana. emoticon 

Það stytti loks upp nú vikunni og var þá ekki beðið boðanna. Þreskivélin sem Flóakorn ehf rekur fór af stað á þriðjudaginn og má segja að hún hafi gengið stanslaust dag og nótt til kl. 2:00 aðfaranótt laugardagsins er hún kláraði að slá akrana hér á bæ. Það stóð á endum að það skall á slaðveður aftur um það leiti sem hér var verið að klára síðustu fermetrana. Þá var búið á þessum tæpum 4 sólarhringum að slá tugi ha á 10 bæjum hér í Flóanum og Ölfusi. emoticon 

Það er alltaf góð tilfinning að vera búinn á ná uppskeru í hús. Þrátt fyrir nokkuð tjón er ég þokkalega sáttur með útkomuna. Þrátt fyrir tíðarfarið stóð akurinn ennþá mjög vel og ef álftinni hefði ekki verið til að dreyfa væri uppskeran vel í meðallagi þrátt fyrir allt.  emoticon 



 

30.09.2011 22:24

"Fyrir og eftir" myndir

Eins og fram hefur komið hér á síðunni, s.b. Húsabætur () , þá var ráðist í umtalsverðar endurbætur á íbúðarhúsinu hér á bæ. Nú þegar framkvæmdum er að mestu lokið er rétt til gamans að setja hér inn "fyrir og eftir" myndir af húsinu.



Svona leit það út þegar framkvæmdir hófust seint í síðasta mánuði.



Núna lítur það svona út og má segja að það hafi tekið nokkrum stakkaskipum. emoticon


23.09.2011 07:20

Á fjalli

Mér fannst það bæði fróðlegt og skemmtilegt að fara á fjall í síðustu viku. Það er vart hægt að hugsa sér áhugaverðari ferðamáta en að fara um landið á hestum. Ef menn yfir höðuð hafa einhvern áhuga á að skoða landið og velta fyrir sér staðháttum og náttúru Íslands gefst best tækifæri til þess þegar farið er um ríðandi.

Ef þú ert gangandi verður þú að gæta þess að horfa niður fyrir lappirnar á þér svo þú rekir ekki tærna í og dettir. Ef þú ert keyrandi hvort sem er á bíl eða fjórhjóli, sleða eða hverju öðru faratæki ert þú upptekinn við akstur á meðan þú ert á ferð. Auk þess er farið það hratt yfir að vart gefst tækifæri á að njóta alls sem upp á er boðið. Ríðandi getur þú stanslaust fylgst með umhverfi þínu alla leiðina bæði nær og fjær. emoticon

Allavega finnst mér ég upplífa landið á allt annan hátt þegar farið er um á þokkalega ferðavönum hestum. Ég hef reyndar ekki mikið farið um afréttin fram að þessu þannig að víða var ég að koma í fyrsta skipti þessa daga sem smalað var. Athyglisvert var að sjá hvað afrétturinn er fjölbreyttur að landslagi og gróðurfari.

Mér fannst líka skemmtilegt að sjá hvað við Flóamenn búum vel að því leiti að hafa öflugt lið í að smala afréttinn. Í fjallsafnið var mætt þrautvant lið á þjálfuðum hestum, og sumir einnig með hunda, tilbúið að takast á við verkefnið. Þó ég hafi verið nýliði í hópnum var ég held ég elstur í vesturleitinni að undanskildum trússinum sem er nokkrum vikum eldri en ég.  Þar sem allir sem eru yngri en ég eru ungir verður þetta að teljast bæði ungt og efnilegt lið þó flestir hafi margra ára reynslu á fjalli.

Þrátt fyrir öflugt lið verður að viðurkennast að smölun gekk ekki alveg sem skildi og ljóst er að töluvert er eftir af kindum. Féð er rígvænt af afréttinum og var þungt í rekstri. Þegar viðbættist þoka sem lagðist yfir á fimmtudeginum var verkefnið orðið mjög erfitt og árangur eftir því. Það er vonandi að betur takist til í eftirsafni í næstu viku. emoticon



18.09.2011 22:52

10 ára afi

Í dag eru 10 ár síðan ég varð afi. Hún Kolbrún Katla Jónsdóttir í Lyngholti á nefnilega afmæli í dag. Það var hlutskipti hennar að ala mig upp í að vera afi, eins og það var hlutskipti mömmu hennar á sínum tíma að ala mig upp sem faðir. Að koma barni til manns er nefnilega æfinlega gagnvirkt verkefni.



Við Kolbrún Katla höfum haft tækifæri til þess að gera ýmislegt saman þessi 10 ár. Hún er virkur þátttakandi í ýmsu sem verið er að fást við hér á bæ. Það hefur hún verið í öll þessi ár allt frá því hún var pínulítil.


   
Nú er hún er farin að taka fullan þátt í hestmennskunni með okkur. Í sumar fór hún m,a, í hestaferð til Vestmannaeyja, Hún reið með mér og pabba sínum ásamt Unnsteini og Reyni á Hurðarbaki Þjórsárbakkana frá Murneyrum eitt kvöldið í sumar og hún var með í Ungmennafélagsreiðtúrnum. Í gær reið hún með okkur heim úr réttunum.



Það er ýmislegt annað sem Kolbrún Katla tekur sér fyrir hendur. Hún er m.a. í tónlistaskóla og stundar íþróttaæfingar. Myndin hér að ofan er tekin þegar hún söng á fjölmennu ættarmóti með eftirminnanlegum hætti fyrir 3 árum.



Til hamingju með daginn Kolbrún Katla




11.09.2011 22:51

Hjalti Geir

Hann Hjalti Geir Jónsson dóttursonur minn í Lyngholti er 5 ára í dag. Hjalti er kröftugur strákur og atorkusamur. Hann kemur hér oft og þá er nú yfirleitt ekki setið auðum höndum. Hann reynir sig við hin ólýklegustu viðfangsefni.
.


Hann var ekki gamall þegar hann eignaðist reiðhjól og var fljótur að komast upp á lag með að nota það. Fyrst í stað var það bara notað innandyra en það dugði honum ekki lengi. Svona faratæki er hægt að nota í ferðalög og hann var ekki orðinn fjögurra ára þegar hann hjólaði með pabba sínum og systur hér á milli bæja en það erum u.þ.b 4 km.



Nú þegar hann er orðinn eldri fer hann sundum ríðandi hér á milli bæjanna.



Eða bara skreppur í útreiðatúr með Aldísi frænku sinni í Jaðarkoti í hestagirðingunni.



Hjalti er að æfa fimleika og stundum finnst honum afa hans hann heldur kappsamur í iðkunn sinni á þeirri göfuðu íþrótt. Hann á það t.d. til þegar hann kemur í hesthúsið að fara lítið eftir gólfinu. Hann hleypur frekar eftir milligerðum og innréttingum og er uppi um alla veggi. Sem betur fer þekkja hrossinn þennan orkumikla strák vel og láta sér fátt um finnast þó hann svefli sér um eins og Tarsan í trjánum í hesthúsinu.


10.09.2011 07:18

Haustverkin

Nú er hér verið að taka síðasta heysskapinn í sumar. Ég er búinn að slá eitthvað rúmlega 30 ha. Háin er ágætlega sprottin og nauðsynlegt að hreinsa hana af túnunum. Við höfum aftur á móti verið í vandræðum með að raka saman vegna þess hve norðan áttin er eitthvað að flýta sér. Vonandi hefst það nú um helgia. emoticon 

Kornsláttur er nú hafinn í Flóanum en Sigmar sló fyrsta akurinn á fimmtudaginn. Hann reiknar með að slá eitthvað rúmlega 200 ha. fyrir u.m.b 20 aðila  hér í Flóanum og í Ölfusi. Í vikunni var hann að standsetja nýjan kornvals en Flóakorn ehf endurnýjaði valsinn. Sá nýji er stærri og afkasta meiri þannig að nú ætti það síður að tefja fyrir slætti þegar valsað er jafnóðum. Nýji valsinn er það stór og þungur að Sigmar setti undir hann hjólastell til þess að auðvelda flutning á honum milli bæja.

Ég er að undirbúa mig fyrir að fara á fjall. Þetta hefur ekki áður verið meðal haustverkanna hjá mér en nú tel ég mig vera það vel ríðandi að tímabært sé orðið að upplifa þá reynslu að taka þátt í að smala afréttinn. Ég fer héðann á þriðjudaginn og fer með öðrum leitarmönnum á "Tangann". Það er styðsta leitin  í fjallsafni Flóamanna. Komið er með safnið niður í réttir á föstudaginn og  réttað í Reykjaréttum í laugardag. emoticon

06.09.2011 07:28

80 ára

Hann "langi" er áttræður í dag. Hann hefur gengið undir þessu nafni hér síðastliðin 10 ár eða frá þvi að hann varð langafi. Rúm tuttugu ár þar á undan var hann bara afi en nú er það ég sem ber þann tilil á bænum.



Í tilefni dagsins birti ég hér mynd sem hún Sandra tók af þeim Hrafnkatli í Jaðarkoti og "langa" í sumar. Þeir eru elstir og yngstir af því fjölmenna liði sem hér á bæ lifir og hrærist og telur 4 ættliði. Þó aldursmunir sé á þeim félögum fer vel á með þeim.

31.08.2011 23:46

Ungmennafélagsreiðtúrinn

Umf. Vaka hefur staðið fyrir útreiðatúr hér í Flóanum síðsumars um langa tíð. Reyndar er það svo að ég man eftir fyrsta túrnum og tók þátt í honum.  Það mun líklega hafa verið árið 1976 en þetta muna engir lengur nema "elstu menn".  emoticon

Síðan þá hefur þetta verið liður í starfi félagsins og eitt af mörgu sem Umf. Vaka tekur sér fyrir hendur til þess að efla félagsandann í Flóanum. Skipulag reiðtúrsins miðast við að sem flestir geti tekið þátt. Þarna kemur saman ungt fólk á öllum aldri en aldurmunur þátttakenda í lífaldri getur verið nokkuð mikill. Gefur það atburðinum enn meira gildi. 

Það var svo nú á sunnudaginn var sem farið var. Farinn var hringur um hálendi Flóans. Áð var við Skotmannshól þar sem atburðir sem áttu sér stað löngu fyrir tíð ungmennafélagsreiðtúrsins, og getið er í Flóamannasögu, voru rifjaðir upp.

Ég lét þetta ekki fram hjá mér fara og mætti. Kolbún Katla í Lyngholti var að sjálfsögðu einnig mætt ásamt báðum foreldrum sínum. Þó við höfum verið þarna þrír ættliðir saman þá var Kolbrún Katla alls ekki yngst í ferðinni og ég ekki heldur elstur.

Þetta var hin ánægulegasti útreiðatúr í alla staði. Þátttaka var góð. Veðrið og félagsskapurinn var frábær. Eins og í öllum alvöru ferðalögum kemur ýmislegt óvænt fyrir en ég held að allir hafi samt komist heilir heim. emoticon



26.08.2011 07:19

Húsabætur

Nú standa hér yfir töluverðar endurbætur á íbúðarhúsinu. Við Kolbrún tókum til við að byggja þetta hús sumarið 1979. Ég var þá tvítugur og hún átján ára og okkur fannst allir vegir vera færir. Ekki var á þessum tíma eins auðvelt að fá fjármagn í svona framkvæmdir og síðar varð. Man ég eftir að hafa eitt töluverðum tíma á biðstofum bankastjóra.

Við fluttum í húsið vorið 1982. Það vantaði ýmislegt upp á að það væri fullbúið þá en við vorum alsæl að vera kominn í eigið húsnæði. Haldið var áfram að klára það sem upp á vantaði innahúss á næstu árum s.s. gólfefni, loftaklæðningar, innihurðir og innréttingar. Eftir því sem árin liðu bætist svo viðhald á því sem fullbúið var við. Þetta finnst mér vera eðlileg framvinda húsnæðismála hjá fólki sem byrjar sinn búskap með tvær hendur tómar. Í þessu húsi hefur okkur liðið vel á hvaða byggingastigi sem er.







Nú var staðan orðin þannig að nauðsynlegt þótti að fara í umtalsverðar endur bæður á ytra byrði hússins. Suðaustanáttin var farin að gera sig einum of heimakomna í húsinu. Stefán Helgason og hans menn mættu hér í síðustu viku og byrjuðu að rífa utan af húsinu. Ætlunin er að skipta um klæðningu á veggjum og setja nýtt járn á þakið og nýjar rennur og nýjan þakkant,


Flettingar í dag: 14
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 281
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 133714
Samtals gestir: 24451
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 01:33:59
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar