Í Flóanum

19.04.2010 07:38

Eyjafjallajökull



Hér í Flóanum hefur fjallahringurinn allt frá Selvogsheiðinni í vestri um Kálfstinda í há norður og fram í Seljalandsmúlann í suðaustri með Vestmannaeyjar lengra til suðurs verið að mestu leiti til friðs. Öll þessi fjöll hafa aðallega verið til prýði og skapað stórkostlega umgjörð um hið mikla víðsýni sem víða er í Flóanum.  

Eyjafjallajökull gnæfir við himin og hann er eitt mest áberandi kennileiti í fjallahringnum til austurs. Hann hefur löngum þótt tilkomu mikill héðan frá séð og ekki verið á nokkurn hátt til ama frá því ég kom hér í sveit.  Nú ber svo við að eldgos er hafið i jöklinum með hrikalegum afleiðingum í næstu sveitum. Töluverð ógn stafar víða af þessu gosi og ekki séð fyrir endan á þvi hvaða afleiðingar það getur haft þegar upp er staðið.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem eldgos verður í þessum fjallahring frá því að ég kom hér í sveit. Nokkrum sinnum hefur gosið í Heklu, einu sinni í Vestmannaeyjum og nú fyrir nokkrum vikum á Fimmvörðuhálsi.  Oftast hafa þessi gos verið til þess að gera meinlaus og valdið litlu tjóni. Það á ekki við um eldgosið í Vestmannaeyjum sem lagði heilt byggðalag í rúst um stund og hafði mikil áhrif á líf fjölda fólks. 
 

Eldgosið nú í Eyjafjallajökli er þegar búið að valda miklum skaða. Ég ef hitt nokkra sem voru fyrir austan um helgina m.a. björgunarsveitarmenn og heyrt lýsingar þeirra á aðstæðum og afleiðingum öskufallsins undir Eyjafjöllum. Það er ömurlegt að sjá öskugráar myndir af þessari fallegu sveit sem helst hefur skartað grænum gróðri upp allar hlíðar og glæsilegum túnum og ökrum. Ég get vel ímyndað mér þvílík martröð það er fyrir fólkið sem þarna býr og er að sinna sínum skepnum við þessar aðstæður og vita ekkert hvað ástandið varir lengi.

Um leið og við hugsum til þeirra sem nú þegar hafa orðið fyrir tjóni  er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að við vitum ekki enn hvað öskufallið úr þessu gosi verður mikið og hvert það á eftir að dreifa sér. Það er nauðsynlegt að við hér í Flóanum gerum okkur grein fyrir því að þó að við höfum sloppið enn sem komið er við öskufall úr eldgosum á síðustu áratugum er það ekki gefið að svo verði alltaf.



 

 

15.04.2010 07:38

Framboð

Kynnt hefur verið til sögunnar annað framboð til sveitarstjórnar hér í Flóahreppnum. Hér kom með póstinum í gær einblöðungur þar sem nýr framboðslisti, T listinn, er kynntur. T..ið er sagt vera "tákn um traust" og megin markmið framboðsins eru tíunduð. Það er fagnaðarefni að fólk bjóði sig fram til forustu í sveitarfélaginu.

Mér finnst ljóst að þetta framboð er sett fram gegn því framboði sem ég hef gefið kost á mér að leiða og þykist vita að það er komið fram vegna óánægju þessa fólks með störf núverandi sveitarstjórnar. Það er mjög gott að fá mótframboð og vonandi verður það til þess að skapa hér málefnalega umræðu. Ég treysti því að íbúar allir taki þátt umræðunni og kynni sér málin vandlega og fordómalaust áður en gengið verður til kosninga nú í vor.
 
Ekki stendur á mér að taka þátt í þessari umræðu og á ég bara von á skemmtilegri og málefnalegri kosningabaráttu á næstu vikum.  emoticon

13.04.2010 07:44

Nettengingar

Það hefur ýmislegt gengið brösulega hér í þessu þjóðfélagi á undanförnum árum. Það sjónarmið var hér allsráðandi að hin svo kölluðu markaðslögmál myndu leysa hér öll vandamál. Farið var offari í því að einkavæða hinar ýmsu stofnanir og fyrirtæki sem áður voru í eigu samfélagsins í þeim tilgangi að koma hér á samkeppni sem allir áttu að græða á. Því var að minstakosti haldið fram á þessum tímum og almennigur beið spenntur eftir  öllum þessum ágóða. emoticon 

Í dag er nú komið í ljós að ekki voru allar þessar aðgerðir til fjár fyrir hinn almenna borgara og í sumum tilfellum sitjum við uppi með mjög bregað umhverfi sem allir tapa á. Í gærmorgun hittum við Margrét sveitastjóri, Kristján Möller samgöngu- og sveitastjórnarráðherra m.a. til þess að ræða möguleika á að koma á betri tölvutengingum hér í sveit. Kristján var kominn hér austur fyrir fjall til þess að hitta forsvarsmenn fangelsins á Litla Hrauni en þeim er umhugað að fá betri nettengingar vegna fangelsisins sem verið er að koma á legg í Bitru hér í sveit. Það hefur nefnilega komið í ljós að vegna þess að Bitra er hvorki staðsett í fjölmennu þéttbýli eða lengst inn í afdal þá er ekki hægt að bjóða upp á öflugar nettengingar nema fyrir margfaldann þann kostnað sem aðrir aðilar með svipaða þjónustu þurfa að borga. Þetta er einmitt það hlutskipti sem íbúar í Flóahreppi hafa þurft að búa við.

Vegna samkeppnissjónarmiða telur Síminn sig ekki geta boðið upp á öflugri tölvutengingar eins og ADSL hér í sveit nema þjónustan standi undir sé innan svæðisins. Mér skilst að sem markaðsráðandi fyrirtæki telji þeir sig ekki meiga deila þessum kostnaði á önnur viðskipi sín á öðrum þéttbýlli og arðsamari svæðum vegna þess að þá væru þeir að misnota stöðu sín gagnvart minni fyrirtækjum sem hér bjóða þjónustu. Værum við stödd í einangruðum afdal inni á afrétti þá er til reiðu fjármagn í opinberum sjóði til þess að greiða þennan kostnað vegna þess að þar eru engin önnur fyrirtæki að reyna fyrir sér með viðskipti.

Mér  finnst þessi staða ekki ásættanleg fyrir íbúa Flóahrepps. Það þarf að komast út úr þessu á einhvern hátt þannig að íbúar landsins sitji við sama borð allstaðar. Mér finnst þetta galin hugmyndafræði að íslendingar séu að leggja í kostnað við að reka fjölda dreifikerfa og nettenginga með misjöfnum árangri og verja það með þessum hætti.

Þetta er svo sem ekki eitthvað sem var að koma í ljós í gærmorgun. Sveitastjórn Flóahrepps hefur reynt að beita sér í þessu málum. Þetta hefur verið tekið upp í samtölum við síma- og fjarskiptafyrirtæki. Einnig höfum við bent á þetta við ráðherran áður og við þingmenn kjördæmisins. Nú þegar fangelsisyfirvöld hafa átta sig á þessu óréttlæti og gengið í lið með okkur í þessari baráttu er spurning hverju það breytir.

12.04.2010 07:49

Afreksbikar Búnaðarfélags Villingaholtshrepps

Í gærkvöldi var aðalfundur Búnaðarfélags Villingaholtshrepps haldinn í Þjórsárveri. Á fundinum var afreksbikar félagsins afhentur, en hann er farandbikar sem Búnaðarsamband Suðurlands gaf félaginu á eitt hundrað ára afmæli sínu. Að þessu sinni var bikarinn veittur starfsfólki og nemendum Flóaskóla fyrir frábæran árangur í starfi og leik.  Kristín skólastjóri mætti á fundinn og veitti bikarnum viðtöku. 

Ég á reyndar sæti í úthlutunnarnefnd fyrir þennan bikar sem oddviti sveitarfélagsins. Mér fannst það  vel við hæfi að veita þessum aðilum þessa viðurkenningu nú og samþykkti með ljúfu geði tillögu þar um í nefndinni. Gríðalega öflugt starf er unnið í Flóaskóla og nýtur skólinn mikils trausts hér í samfélaginu. Það eru mikil verðmæti í þvi fyrir þetta samfélag og sjálfsagt mál að vekja athygli á því og þakka fyrir það sem vel er gert.  

Ég óska nemendum og starfsfólki Flóaskóla til hamingu með þess viðurkenningu emoticon

11.04.2010 07:39

Auðhumla

Á föstudagsmorgun flaug ég til Akureyrar til þess að sitja aðalfund Auðhumlu sem annar af tveimur fulltrúum mjólkurframleiðenda í Gaulverjabæjar- Villingaholts- og Stokkseyradeild félagsins. Við erum 22 framleiðendurnir í deildinni og eins og annarsstaðar á landinu hefur okkur fækkað talsvert í gengum tíðina. Þegar ég var að byrja minn búskap fyrir rúmum 30 árum voru framleiðendur í gamla Villingaholtshreppnum yfir 30 talsins en eru í dag orðnir 8. Í þá daga var Mjólkurbú Flóamanna sjálstætt fyrirtæki og starfaði á svæðinu frá Hellisheiði í vestri að Lómagnúp í austri. Reyndar var MBF einnig hluti Mjólkursamsölunnar í  Reykjavík og var bundin af sameiginlegum ákvörðunum sem þar voru teknar í sinni starfsemi. 

Í dag hafa mjólkurframleiðendur á öllu landinu nema í Skagafirði sameinast í einu félagi Auðhumlu sem er samvinnufélag mjólkurframleiðenda. Fjöldi innleggjenda í félaginu öllu var á síðasta ári 641 og hafði fækkað um 22 frá árinu áður Á starfsvæði MBF á þeim tíma sem ég var að byrja minn búskap voru framleiðendur að mig minnir rúmlega 700 talsins. Auðhumla svf. og KS í Skagafirði eiga saman hlutafélagið MS sem annast rekstur 6 starfsstöðva  í mjólkuriðnaði þ.e. í Rvík, Búðardal, Ísafirði,  Akureyri, Egilsstöðum og á Selfossi  

Það er mín skoðun að það sé mikilvægt fyrir mjólkurframleiðsluna í landinu að bændum beri gæfa til þess að standa saman að framleiðslu og sölu á mjólkurvörum. Á undanförnum árum hafa orðið gífurlegar breytingar á úrvinnslu- og söluþættinum með sameiningu afurðastöðva. Það er alltaf spurning hverju má  kosta til við skipulagsbreytingar og hvernig sá kostnaður skilar sér til baka. Það er alveg ljóst að sterk fjárhagsstaða MBF á sínum tíma og Mjólkursamsölunnar, sem var til komin vegna þess að þessi fyrirtæki voru samvinnufélög framleiðenda, hefur skipt sköpum varðandi það að ná vinnslunni í hreint framleiðendafélag eins og Auðhumla svf er.  Þar var til fjármagn sem notað var til þess að kaupa upp og út úr þessu kerfi mjólkurbú sem voru í eigu kaupfélaga vítt og breytt um landið með opinni félagsaðild og starfsemi í ýmsum öðrum rekstri.

Það er áleitin spurning hvort þessum peningum hefur verið skynsamlega ráðstafað. Það er alls ekki víst að við sunnlenskir mjólkurframleiðendur hefðum átt að fara þennan veg og leggja þetta  undir. Ég held samt að nokkuð af því sem að var stefnt með þessu hafi náðst fram. Megnið af mjólkurvinnslunni og sölunni er nú á hendi framleiðenda sjálfra og það á að geta gefið okkur betra tækifæri á að standa þannig að hlutunum að hægt sé að stunda þennan búskap áfram. Spurningin er kannski sú hvort okkur ber gæfa til þess að gera það eða ekki....? 

Annað hefur líka áunnist með fækkun mjólkurbúa og uppstokkun á skipulagi framleiðsunnar er að það hefur tekist að ná niður kostnaði. Það hefur skilað sér bæði í lægra verði til neytenda og í hærra afurðaverði til bænda. Hlutfall vinnslu og dreifingarkostnaðar í verði mjólkurvara hefur lækkað eða eins og það var orðað hér á árum áður þá eru milliliðirnir að taka minna til sín. Þrátt fyrir það hefur ekki tekist að stilla rekstrinum þannig upp að hann standi undir sé nú síðustu ár. Það er verulegt áhyggju efni og getur hæglega gert út um þennan rekstur á nokkrum árum ef ekki tekst að snúa því við.

07.04.2010 07:44

Héraðsnefnd

Samstarf sveitarfélaga á suðurlandi er talsvert og af margvíslegum toga. Sveitarfélögin í Árnessýslu hafa með sér samstarfsvettvang í gegnum Héraðsnefnd Árnesýslu. Þar undir reka sveitarfélögin m.a. stofnanir á sviði menningamála eins og Byggðasafn Árnesinga, Listasafn Árnesinga. Héraðsskjalasafn Árnesinga. Tónlistaskóli Árnesinga og Almannavarnarnefnd Árnesinga eru líka stofnanir sem undir nefndina heyra.

Þetta samstarf er að skila bæði faglegum og fjárhagslegum ávinningi. Það er mikilvægt í öllu samstarfi að aðilar séu virkir í samstarfinu og líti ekki svo á að hlutirnir komi þeim ekki við lengur. Héraðsnefndin er nokkuð virkur samstarfsvettvangur sem byggir í langri hefð og þar gilda fornar hefðir. Nefndin kemur saman tvisvar á ári þ.e. vor og haust. 

Undanfarna daga er verið að undirbúa vorfund nefndarinnar sem er á morgun og föstudaginn. Við sem störfum í fjárhagsnefnd Hérðasnefndar höfum verið að yfirfara ársreikinga nefndarinnar og allra stofnanna hennar. Ársreikningarnir verða síðan til afgreiðslu á vorfundinum. 

Héraðsnefndarfundurinn byrjar reyndar í Alviðru á morgun. Landvernd og Árnessýslu var gefin jörðin Alviðra árið 1973 ásamt þeim byggingum sem þar eru. Fulltrúar Landverndar ætla að taka á móti héraðsnefndinni þar í upphafi fundar og kynna sína  starfsemi þar og ræða við nefndarmenn um þessa sameiginlegu eign. Ég hef á síðasta ári verið fulltrúi sveitarfélaganna í Árnessýslu í stjórn Alviðrustofnunnar. Ég tel nauðsynlegt að auka samskipti þessarra aðila um framtíðar uppbyggingu og skipulag starfseminnar í Alviðru.

02.04.2010 07:53

Kalt í Flóanum

Það er frekar kalt í Flóanum þessa dagana. Vorið liggur samt í loftinu og ekki laust við að maður sé farinn að hlakka til þess að geta farið að taka til við hin hefðbundu vorverk í sveitinni. Daginn er farið verulega að lengja og nú þegar það er orðið nánast fullbjart á morgnanna kl 6 þegar ég fer til morgunmjalta er ástandið að verða nokkuð þolanlegt. Kvöldin eru líka farin að nýtast betur og nær maður orðið góðum reiðtúr í björtu eftir að hefðbundum verkum er lokið. emoticon 

Það má segja að þessa dagana sé mannskapurinn komin á fullt í fyrstu vorverkin en þau felast nú aðalega í að vinna áburðaráætlun, ganga frá áburðar- og fræpöntunum, klára bókhaldið og skila skattskýrslunni. Ekki kannski það allra áhugaverðasta en mikilvægt að vera búinn að öllu slíku þegar hitastigið gefur færi á að hella sér í útiverkin. Yngri bændurnir á bænum voru nú það bjartsýnir um daginn þegar hér var frostlaust í nokkra daga að það var farið að undibúa að vinna flög. Síðan hefur verið kalt og jörð frosin.

30.03.2010 07:45

Málefni Fatlaðra

Um næstu áramót mun stór málaflokkur flytjast frá ríkinu til sveitarfélaganna en það eru málefni fatlaðra. Um er að ræða gríðalegan stóran og mikilvæga málaflokk. Verkefnið er mjög krefjandi fyrir sveitarfélögin en í því felst einnig tækifæri til þess að efla félagsþjónustuna með samþættingu þessarra mála. Til þess að hægt sé að ná þeim markmiðum að efla þjónustu við fatlaðra og ná hámarks nýtingu á því fjármagni sem í málaflokkin fer er nauðsynlegt fyrir sveitarfélög að vinna saman að þessu verkefni. Lög um málefni faltlaðra og þennan verkefnaflutning gera einnig ráð fyrir því að sveitarfélögin myndi þjónustusvæði sem tekur yfir svæði með ekki færri íbúatölu en 8000 manns.

Það hefur verið sameiginlegt álit sveitarfélaganna 5 sem standa að félagsþjónustunni fyrir uppsveitir og Flóahrepp að farsælast og trygging fyrir öflugastri þjónustu við fatlaða á Suðurlandi sé að takist að mynda víðtækt samstarf á Suðurlandi um verkefnið. Á vegum SASS hefur verið unnið töluvert í því núna frá áramótum að reyna að finna með hvaða hætti slíkt samstarf gæti verið þannig að það huggnist sem flestum sveitarfélögum og að þau sjái sér hag í því að  vera með í slíku samstarfi. 

Ljóst er að  nokkur áherslumunur er milli sveitarfélaganna í þessum málum og áhugi á svo víðu samstarfi mismikill. Vinnuhópur allra sveitarfélaganna í SASS um þetta verkefni er starfandi og hefur hann komið nokkrum sinnum saman á síðustu vikum. Nauðsynlegt er að línur fari að skýrast í þessum málum sem fyrst því tíminn er ekki langur þar til verkefnið færist til sveitarfélaganna.  

27.03.2010 07:45

GREASE

Í gærkvöldi var ég á hreint magnaðri sýningu nemenda Flóaskóla á söngleiknum GREASE. Eins og áður á þeim skemmtunum sem Flóaskóli efnir til er mikill metnaður lagður í verkið. Allir nemednur skólans allt frá 6 ára börnum upp í 14 ára unglinga standa saman að dagskránni. Samhent starfslið skólans stýrir og skipuleggur verkefnið af mikilli færni og með ólýkindum hvað dagskráin gekk vel með öllum þessum fjölda barna og unglinga. 

Tónlistin skipar stórt hlutverk í söngleikjum og það var mikið sungið í sýningunni í gær. Krakkarnir gáfu ekkert eftir í söngnum og steig á stokk hver idol stjarnan af annarri. Það er ekki annað hægt en að fyllast mikili bjartsýni á framtíðina með allt þetta efnilega listafólk í þessarri sveit.    Ég vil bæði þakka nemendunum fyrir frábæra sýningu og ekki síður Kristínu skólastjóra og öllu hennar starfsliði fyrir þá miklu og góðu vinnu sem unnin er í Flóaskóla emoticon  



Af því að ég er nú margra barna afi og afar hafa fulla heimild til þess að monta sig af barnabörnum sínum set ég hér mynd af henni Kolbrúnu Kötlu dótturdóttur minni sem hér syngur ásamt henni Sigrúnu í Vorsabæ af mikilli innlifun og krafti lagið "von og þrá" með eftirmynnanlegum hætti.


26.03.2010 07:36

Framboð

Þ og E listi sem buðu fram í sveitarstjórnarkosningunum fyrir 4 árum hafa nú ákveðið að bjóða fram saman í kosningunum vor. Fulltrúar þessarra framboða eru sammála um að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið að á kjörtímabilinu og verja þann árangur sem náðst hefur.

Á þessu kjörtímabili hefur samstarf þessarra framboða verið mjög gott og skilað miklum árangri við mótun og uppbyggingu á nýju sveitarfélagi. Fulltrúar þeirra í sveitastjórn hafa verið samstíga í því að reka hér öflug og framsækið sveitarfélag. Áhersla hefur m.a. verið að sína  ráðdeild í öllum rekstri og hafa kjark til þess að leita nýrra leiða í því að efla hér samfélagið.



Listinn sem boðin verður fram er þannig skipaður:

1.      Aðalsteinn Sveinsson Kolsholti 1

2.      Árni Eiríksson Skúfslæk 2

3.      Elín Höskuldsdóttir Galtastöðum

4.      Hilda Pálmadóttir Stóra-Ármóti

5.      Björgvin Njáll Ingólfsson Tungu

6.      Alma Anna Oddsdóttir Fljótshólum

7.      Heimir Rafn Bjarkason Brandshúsum 4

8.      Ágúst Ingi Ketilsson Brúnastöðum

 9.     Karen Viðarsdóttir Laufhól
10.    Einar H. Haraldsosn Urriðafossi

20.03.2010 07:38

Viðbygging við Flóaskóla

  Vinnuhópur um framkvæmdir við Flóaskóla fundaði í gær með fræðslunefnd og skólaráði Flóaskóla. Þessi fundur var m.a.haldin til þess að upplýsa þessa aðila um hvernig vinna við viðbygginguna gangi og skoða bygginguna. Á fundinn mættu einnig þeir Jón Friðrik  Matthíasson hönnuður og Gestur Þráinsson framkv.stj. Smíðanda sem sér um framkvæmdir við fyrri áfanga byggingarinnar. 

Verkið er nokkurn vegin á áætlun en fyrra áfanga á að vera lokið í maí. Nú er verið að semja við verktaka um seinni áfangann og er vonst til að vinna við þann áfanga geti hafist fljótlega. Stefnt er að því að húsmæðið verði tekið í notkunn þegar skóli hefst næsta haust. 

Mikil áhersla hefur verið á það að nýta vel það fjármagn sem fer í þessa framkvæmd. Hönnun byggingarinnar tók mið að þessu og skipulag allt við framkvæmd verksins. Þrátt fyrir það er ekki verið að spara í neinum liðum sem geta komið niður á endingu eða leitt til hærri  rekstarakostnaðar.  Ekki er heldur verið að spara í neinu sem getur komið niður á notagildi hússins til kennslu. Lögð er áhersla á einfalda byggingu og góða nýtingu á hvern byggðan rúmmetra. 

Þetta virðist vera að ganga nokkuð vel upp. Eins og nú horfir ætti að vera hægt að fullklára þess byggingu fyrir u.þ.b. 160 til 170 millj. sem er allt að því  helmingi minna en nefnt var í upphafi. Flóahreppur mun ekki þurfa að taka nein ný lán vegna þesssarra famkvæmda.  

18.03.2010 07:35

Ársreikningur Flóahrepps

Ársreikningur Flóahrepps fyrir árið 2009 var lagður fram á sveitastjórnarfundi í gærkvöldi og afgreiddur til annarra umræðu. Afkoma sveitasjóðs var betri en áætlað var en hagnaður af heildarrekstrinum var 33,6 millj. Gert var ráð fyrir tæplega 20 millj. hagnaði á fjárhagsáætlun ársins. Athygli vekur að tekjur sveitarfélagsins eru hærri en áætlað var og á það við bæði um útsvarstekjur og framlög úr jöfnunarsjóði. Tekjufall í síðasta ári virðist almennt ekki vera eins mikið og gert var ráð fyrir.

Þrátt fyrir miklar verðlagshækkanir á síðasta ári hefur tekist að halda rekstarakostnaði nokkurn veginn innan áætlanna. Þetta hefur telist með samstilltu átaki stjórnenda og annarra starfsamanna sveitarfélagsins. Þessi árangur er gríðalega mikilvægur til þess að geta varið sterka fjárhagsstöðu hjá Flóahrepp þrátt fyrir töluverðar framkvæmdir og gefur tækifæri á frekari uppbyggingu og framkvæmdum á næsta kjörtímabili.

Mér ekki kunnugt um að ársreikingur 2009 hafi verið lagur fram hjá neinu öðru sveitarfélagi ennþá. Allavega er Flóahreppur með þeim allra fyrstu til þess að klára uppgjör fyrir síðasta ár. Það er að mínu viti mjög mikilvægt að uppgjör liggi sem fyrst fyrir á hverjum tíma. Eftir því sem það er fyrr á ferðinni nýtist það betur við stjórn og skipulagningu á rekstri sveitarfélagsins. Þó að á skrifstofu Flóahrepps séu ekki mörg stöðugildi er það samhent og öflugt lið sem er að skila góðri vinnu.

16.03.2010 22:33

Rammaáætlun um orkunýtingu

Nú þessa dagana er verið að halda kynningarfundi á vegum Verkefnisstjórnar  2. áfanga Rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og  jarðhitasvæði. Á þessum fundum eru kynntar niðurstöður faghópa verkefnisstjórnar sem metið hafa svæði og virkjunarkosti, hver á sínu sérsviði. Skýrslu verkefnisstjórnar um virkjunuarkosti til mats og niðurstöður faghópa, auk ítarefnis, má nálgast á vefsíðu rammaáætlunar, www.rammaáætlun.is,

Ég hef verið að lesa þessar skýrslur og kynna mér efni þeirra. Það hefur verið hlutverk okkar sem í sveitastjórn Flóahrepps hafa starfað á þessu kjörtímabili að reyna að leggja  mat  á það hvaða áhrif fyrihuguð Urriðafossvirkjun geti haft í sambandi við aðalskipulagsgerð okkar í fyrrum Villingaholtrhreppi. Búið er að leggja fram mikið efni varðandi þessa vinnu og rætt hefur verið við fjölda fólks og hlustað á margs konar rök ýmist sem mæla með virkjun eða á móti. Því miður hefur umræðan ekki alltaf verið mjög gáfuleg og oft á tíðum snúist um allt annað en áhrif virkjunarinnar. Nú á síðustu mánuðum virðist baráttan aðalega snúast um það hvort réttlætanlegt sé að eitthvað af hugsanlegum ávinningi af virkjuninni, ef af verður, megi nýtast samfélaginu hér í sveit eða ekki. emoticon 

Mér sýnist í aðalatriðum að í rammaáætluninni sé verið að nálgast þetta viðfangsefni á nokkuð skynsaman máta og það sé verið að fjalla um þau atriði sem skipt geta máli, sérstaklega við það að bera saman virkjanakosti. Ég vil hvetja alla sem vilja og ætla sér að taka þátt í umræðunni um virkjanir til þess að kynna sér þessar skýrslur vel.

15.03.2010 22:45

Heimsókn í Krakkaborg


Á föstudaginn var fóru fulltrúar úr sveitastjórn og fræðslunefnd Flóahrepps í heimsókn í skólana  í sveitarfélaginu en þetta eru Leikskólinn Krakkaborg og Flóaskóli. Atvikinn höguðu því svo að ég varð að fara annað til þess að gæta hagsmuna sveitarfélagsins um tíma þennan dag og missti því af heimsókninni í Flóaskóla að miklu leiti.  Ég kom hins vegar í Krakkaborg og hafði bæði gagn og gaman af. Karen leikskólastjóri tók á móti okkur og fór með okkur um allt húsnæði skólans og útskýrði og sýndi okkur alla starfsemi skólans og aðstöðuna alla.

Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á húsnæði skólans og innra skipulagi á undanförnum missserum og sýndist okkur það vera að koma vel út. Ég er þeirra skoðunnar að mikið og gott starf fer fram í leikskólanum undir öruggri stjórn Karenar. Það er lagður mikill metnaður í það sem verið er að gera og ég er sannfærður um að það er að skila sér í góðu skólastarfi. Leikskólabörnum hefur fjölgað nokkuð stöðugt í sveitarfélaginu á síðustu árum og er nú svo komið að húsnæði skólans tekur ekki öllu fleiri börn að óbreyttu. Það er því tímabært að fara að hugsa fyrir því hvernig bregðast á við því ef hér verður áfram fólksfjölgun.

Sjálfur á ég þrjú barnabörn í þessum leikskóla. Aldís Tanja sem er 5 ára var úti með jafnöldrum sínum þegar við fórum um skólann þannig að ég hitti hana ekki. Afastrákarnir míni þeir Hjalti Geir sem er 3 ára og Arnór Leví sem er 2 ára eru báðir á Strumpadeild í leikskólanum. Þegar þeir sáu Afa sinn í hópi gesta voru þeir ekki lengi að smegja sér til mín og settust hjá mér á meðan við stoppuðum inn á deildinni hjá þeim. Þeim hefur þótt tilhlíðilegt að sinna þessum gesti sem þeir þekktu svo vel úr hópi af ókunnu fólki sem barst þarna um skólann þeirra.

14.03.2010 20:24

Héraðsþing

Héraðsþing HSK var haldið í Þingborg í gær. Það var Flóahreppur sem bauð til þings og þáði ég boð HSK manna um að sitja þingið sem gestur. Hafði ég mjög gaman af því, en sjálfur starfaði ég á þessum vettvangi í fjölda ára. Ég mun hafa fyrst setið HSK þing í Tryggvaskála 1978 og aftur árið eftir á Hvolsvelli 1979. Næst kom ég á HSK þing á Selfossi 1986 og var á öllum Skarphéðinsþingum á hverju ári til ársins 2000. Árið 2003 var þingið haldið í Þjórsárveri og var ég þar sem þingforseti. Síðan hef ég ekki komið á héraðsþing. Það er alltaf hressandi og ég fyllist alltaf meiri bjartsýni á framtíðina að fylgjast með þróttmiklu starfi ungmennfélagshreyfingarinnar. Þingið í gær var vel sótt og umræður líllegar og miklar.

Það var vel við hæfi að Flóahreppur skyldi bjóða til þings í ár. Héraðssambandið er 100 ára á þessu ári en það var einmitt stofnað hér í sveit, nánar til tekið í Hjálmholti í gamla Hraugerðishreppum, 14. maí 1910. Sveitastjórn Flóahrepps ákvað því í tilefni þessarra tímamóta að bjóða aðstöðuna í Þingborg til þess að halda þingið auk þess sem þingfulltrúum og gestum var boðið til hádegisverðar.

Þinghaldið gekk mjög vel og ég held að HSK menn hafi verið ánægir með daginn . Inga húsvörður í Þingborg er snillingur í að taka á móti svona viðburðum og leysir yfirleitt öll vandamál áður en þau koma upp. Hún var með kvenfélagið í Hraungerðishreppnum í veitingunum og var það gert með miklum myndarbrag. Starfsmenn þingsins voru heimamenn hér úr Flóanum en við eigum mikið af öflugu félagsmálafólki á öllum aldri. Þingforsetar voru þeir Einar H Haraldsson á Urriðafossi og Stefán Geirsson í Gerðum. Þingritarar voru þær Hallfríður Ósk Aðalsteindóttir í Lyngholti og Svanhvít Hermansdóttir á Lambastöðum. Fanney Ólafsdóttir á Hurðarbaki stjórnarmaður í HSK var formaður kjörbréfanefndar og vann heilmikið við skipulag þingsins. Í upphafi þingsins í gærmorgun var sýndur stuttur leikþáttur af leikdeild Umf. Vöku. Það vorun þau Guðmunda Ólafsdóttir á Hurðarbaki og Tómas Karl Guðsteinsson á Egilsstöðum sem fóru á kostum í leikþættinum "Ýsa var það heillin." 
Flettingar í dag: 61
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 281
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 133761
Samtals gestir: 24454
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 08:27:59
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar