Í Flóanum

Færslur: 2015 Október

31.10.2015 21:43

Ungmennafélagið

Þegar ég var að alast hér upp í Flóanum fyrir (þó...) nokkrum árum síðan kom það eins og af sjálfu sér að þegar maður var orðin 12 ára gamall gekk maður í Ungmennafélagið. Ungmennafélagið Vaka var stofnað hér í gamla Villingaholtshreppnum 1936 og hefur síðan þá starfað af miklum þrótti og gerir enn í dag.

Ég minnist þess ekki að það hafi eitthvað vafist fyrir manni hvort eða hvað mikið maður ætlaði að starfa í þessu félagi þegar maður var unglingur. Ungmennafélagið var einfaldlega sjálfsagður hluti af veruleikanum hér og það var sá vettvangur, sem við unglingar sveitarinnar, höfðum, til þess að fá athafnaþrá okkar útrás. 

Þegar ég var svo kominn í þá stöðu, nánast ennþá unglingur, að vera farinn að ala upp mín eigin börn hér í Flóanum, áttaði maður sig á því hvað þessi félagsskapur og þátttaka í honum var í raun mikilvægur þáttur í menntun og þroska manns. Mér fannst mikilvægt að börnin mín hefðu sama tækifæri og maður sjálfur að starfa í virku ungmennafélagi.

Það viðhorf varð svo til þess að ég starfaði í mörg ár á þessum vettfangi og hafði allan tíman mjög gaman af. Eftir að hafa verið almennur félagsmaður í Umf. Vöku og setið í hinum ýmsu nefndum félagsins mörg ár settist ég í stjórn félagsins, fyrst gjaldkeri og síðan formaður. Í framhaldi af því sat ég í stjórn Hérðasambansins (HSK) í nokkur ár og starfaði þar m.a. sem gjaldkeri. Einnig tók ég þátt í stofnun frjálsíþróttaráðs HSK og var þar reyndar fyrsti formaður. 

Þetta var oft á tíðum krefjandi starf en allan tíman skemmtilegt. Ég starfaði með og kynntist fjöldan allan af fólki og þetta gaf manni mikið. Ég er enn þeirra skoðunnar að öflugt ungmennafélag sé hverju samfélagi nauðsyn.

Ég tel að þegar Villingaholtshreppur, Hraungerðishreppur og Gaulverjabæjarhreppur ákváðu að sameina grunnskóla sína í einn skóla, Flóaskóla, árið 2004  og í framhaldi af því sameina sveitarfélögin í eitt sveitarfélag, Flóahrepp 2006 hafi samfélagið hér á margan hátt styrkst. Það gerðist einnig þegar hætt var að keyra elstu árganga grunnskólans á Selfoss og Flóaskóli var gerður að heilstæðum grunnskóla fyrir 1. til 10. bekk.

Eðlilega hafa þessar breytingar haft áhrif inn í ungmennafélögin. Hér eru starfandi þrjú öflug og virk ungmennafélög, eitt í hverjum gömlu hreppanna. Um nokkuð skeið hafa menn velt fyrir sér hvort skynsamlegt væri að sameina þessi félög. Börnin sem nú eru að alast upp hér í Flóanum átta sig varla á því afhverju það á að vera í þessu ungmennafélagi en ekki einhverju hinna. 

Ungmennafélögin öll þrjú hafa tekið mjög skynsamlega á þessari umræðu og leitt hana af mikilli yfirvegun. Á aðalfundum allra félaganna, fyrir tæpu ári síðan, var samþykkt að vinna að stofnun ungmennafélags sem hefði allan Flóahreppinn að félagssvæði. Það var skipuð sameiginleg nefnd allra félaganna til þess að undirbúa og vinna að þessu markmiði.

Á kynningarfundi sem ungmennafélögin boðuðu til um málefnið í síðustu viku, kom fram að fyrirhugað er að boða til stofnun nýs ungmennafélags hér í sveit á næstu vikum. Einnig er fyrirhugað að leggja síðan til á aðalfundum allra gömlu ungmennafélaganna í janúar  n.k að þau leggi allar sínar eigur til nýja félagsins og þau síðan hætti starfsemi. Öllum félagsmönnum gömlu félaganna verður boðið að gerast félagsmenn í hinu nýja ungmennafélagi.

Þetta er niðurstaða af mjög vandaðri umræðu í félögunum og meðal ungs fólks í sveitarfélaginu. Ýmis atriði hafa verið borin upp beint við nemendur Flóaskóla. Ég er ekki í neinum vafa um að niðurstaðan er hin eina rétta. Þegar unnið er málefnalega og hlustað er sérstaklega eftir sjónarmiðum þeirra sem helst eiga hagsmuna að gæta (unga fólkið í sveitinni) er ekki ástæða til að efast.

Ég vil því lýsa yfir fullum stuðningi við þessi áform. Ég hefði að vísu seint trúað því að ég myndi leggja blessun mína yfir að leggja ungmennafélagið Vöku niður, Félag sem ég hef miklar taugar til og hefur gefið mér mikið. Aðalatriði er að sjálfsögðu að hér í sveit sé áfram öflugur félagslegur vettvangur fyrir ungt fólk á öllum aldri. 

Ef þessi áform um eitt öflugt ungmennafélag í Flóahreppnum verður að veruleika nú í vetur skulum við öll sameinast um það og styðja það með ráðum og dáð. Arfleifð ungmennafélaganna þriggja (Umf. Baldur, Umf. Vaka og Umf. Samhygð) sem hér hafa starfað, sum í meira en 100 ár, er gert mest undir höfði og sýndur mestur sómi með því að leggja þau inn í sameinað félag. Ég lít svo á að saga þeirra verði jafnframt hluti af sögu hins nýja félags








19.10.2015 21:01

Rakel Ýr

Hún fékk það gullfallega nafn Rakel Ýr, hún litla sonardóttir mín Sigmarsdóttir. Það var hátíð í Jaðarkoti í gær þegar skýrnarathöfin fór fram. Viðstaddur var hópur fólks af hennar nánasta frændfólki og vina. Einnig fylgdust nokkrir með í beinni útsendingu á netinu norður á Akureyri.



Það var hann séra Sveinn Valgeirsson sem skýrði og skýrnarvottar voru þær frænkur hennar Rakelar Ýr, Kolbrún Katla í Lyngholti og Margrét Ósk Hildur. 


  • 1
Flettingar í dag: 69
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 149
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 131595
Samtals gestir: 24124
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 06:56:25
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar