Í Flóanum

30.11.2012 07:26

Litla gula hænan

Sorpstöð Suðurlands tekur nú þátt í sameiginlegri leit að framtíðar urðunarstað fyrir sorp með Sorpu á höfuðborgarsvæðinu, Kölku - sorpeyðingarstöð Suðurnesja og Sorpurðun Vesturlands.  Allt frá því að sorpurðun var hætt á Kirkjuferjuhjáleigu  1. des. 2009 hafa þessi mál verið í nokkru uppnámi hér á Suðurlandi.

Málin hafa verið leyst með samningi við Sorpu um að urða í Álfsnesi það sorp sem til fellur til urðunnar.  Þessu fylgdi auðvita stóraukinn kostnaður sem varð til þess að sveitarfélögin á Suðurlandi hafa tekið upp stórbætt vinnubrögð við að ná verðmætum úr ruslinu áður en það fer til urðunar.  Sorp til urðunnar hefur nánast minnkað um helming á örfáum árum vegna þessa.

Það virtist koma mörgum á óvart hvað mikill árangur náðist fljótt í því að minnka sorp til urðunnar. Það hefur hinsvegar leitt til þess að kostnaður á hvert kíló sem fer til urðunnar er talsvert meiri en áður var.  Stæðsti kostnaðarliðurinn í sorpurðun er stofnkostnaður ýmisskonar en sorpurðunarstaðir þurfa að uppfylli ströng skilyrði vegna umhverfisþátta. Það er dýrt að opna nýjan urðunnnarstað.

Ljóst er að það er hægt að ná enn betri árangri í flokkun á rusli og í raun er ekki ásættanlegt annað enn að aðeins óvirk efni eins steypubrot, jarðefni, gler og annað slíkt verði urðað. Urðunnarstaður sá sem nú er verið að leita að er því allt annars eðlis en sú sorpurðun sem þekkst hefur fram að þessu.

Sorpstöð Suðurlands metur stöðuna þannig að hagkvæmara er að vinna áfram með Sorpu  frekar en að ætla sér að opna nýjan urðunnarstað fyrir suðurland.  Það er ósennilegt að það verði urðað í Álfsnesi um aldur og æfi og því er nú leitað að nýjum sameiginlegun urðunnarstað til framtíðar.

Sveitarfélögin á suður- og vesturlandi eru nú með til meðferðar erindi þess eðlis að benda á hugsanlegan stað til sorpurðunnar. Mikilvægt er að menn átti sig á þeim breytingum sem hafa orðið eins og ég lýsti hér áðan. Einnig að áfram verði unnið markvisst að meiri flokkun á sorpi og ekki síður að minnka framleiðslu á sorpi.

Annars hefur leit að urðunnarstað ekki alltaf gengið vel.  Þó allir vilji losna við sitt rusl á einfaldan og ódýran hátt vill enginn hafa ruslahaug í garðinum hjá sér. Þetta hefur gjarna viljað vera eins og í sögunni um  Litlu gulu hænuna.

....... "hundurinn sagði ekki ég, kötturinn sagði ekki ég og svínið sagði ekki ég..... o.s.fr.".........

21.11.2012 07:54

Tveggja ára

Í dag eru tvö ár liðin frá því að hún Ásta Björg Jónsdóttir í Lyngholti kom í heiminn.( Nýr afkomandi () )  Eins og ég spáði til um þá höfum við töluvert bjástrað saman í þessi tvö ár. Ásta er mikill orkubolti og heldur honum afa sínum alveg við efnið þegar það fellur í hans hlut að líta eftir henni. Hún er síkát og brosandi. Við skemmtum okkur oft vel saman.


Þessi mynd var tekinn á sunnudaginn var þegar haldið var upp á afmæli heimasætunnar. Með á myndinni eru systkinin hennar Hjalti Geir og Kolbrún Katla

Frændi hennar, hann Hrafnkell Hilmar í Jaðarkoti er aðeins 18 dögum yngri en hún.( 6. barnabarnið () ) Þó hann fari kannski ekki alveg eins hratt yfir og hún frænka sín er hann engu að síður athafnasamur. Þegar þau hittast er oft mikið fjör og skemmtilegt að vera til.


Þegar mikið er verið að bjástra er nauðsynlegt að fá sér eitthvað orkuríkt að borða.




Ástu fannst hún ekki sjá kýrnar nógu vel standandi á jörðinni. Hún hljóp því viðstöðulaust upp í hliðgrindina. Þegar Hrafnkell sá til hennar fannst honum rétt að kanna málið og sjá hverju það breytti að príla þarna uppemoticon

Við þrjú á góðri stund í sumar

14.11.2012 07:28

Fjölbreytt verkefni

Þau geta verið fjölbreytt verkefnin sem maður er að fást við. Bæði  frá degi til dags eða á einstaka dögum. Að vera í búskap og starfa samtímis að sveitarstjórnarmálum gerir það að verkum að maður verður seint verkefnalaus. Ég leyfi mér að líta svo á að fjölbreytt verkefni geri lífið áhugaverðara. Menn geta svo haft skoðanir á því hvort maður er nógu fjölhæfur til þess að valda þessum  verkefnum svo vel sé.

Flestir dagar byrja þó allir eins hjá mér. Ég fer á fætur um kl hálf sex á morgnanna og byrja daginn á morgunmjöltum. Það er ekki fyrr en að þeim loknum að ég fæ mér minn daglega hafragraut , lít kannski yfir moggann og kíki stundum á netið. Hlusta svo gjarnan á fréttir í úvarpinu kl átta. Það sem eftir lifir dagsins er síðan aldrei eins frá einum degi til annars.

Um síðustu helgi var ég hér heima og nýtti m.a. tíman til þess að laga birgðastöðuna í haughúsinu.  Það er ekki áhugavert að fara inn í veturinn með fullt haughúsið. Af langri búskaparsögu er maður búinn að læra að það er ekki alltaf á vísan að róa að þurfa að keyra skít um miðjan vetur. Fyrir utan það að það er afskaplega  léleg nýting á verðmætum bera skítinn á freðna jörð.

Á mánudagsmorgnum er ég á skrifstofu Flóahrepp.  S.l. mánudag byrjaði dagurinn á því að ég og sveitarstjórinn tókum á móti mönnum frá Arionbanka sem vildu kynna okkur starfsemi og þá þjónustu sem eignastýringarsvið bankans er að bjóða. Þetta var áhugaverð kynning en þar sem Flóahreppur er hvorki í mikilli eignaumsýslu eða í þörf fyrir sérstakri fjármögnum  akkúrat þessa stundina höfum við kannski ekki mikið verið að velta þessu fyrir okkur.

Strax að þessum fundi loknum hittum við, ásamt skipulagsfulltúanum og fleirum úr sveitarstjórninni, aðila hér í sveit sem eru að láta vinna deiliskipulag fyrir sig. Ekki eru alltaf allir ánægðir með það sem verið er að fjalla um í skipulagsvinnu. Þegar í deiliskipulagi verið er að fjalla um nýja starfsemi þá hafa nágrannar oft á tíðum athygasemdir við það.

Samráðsferli er tryggt í lögum og mikilvægt er fyrir sveitarstjón að vanda sig í þessari vinnu og vega og meta sjónarmið allra.  Sú skylda hvílir síðan á sveitarstjórn að taka endanlega ákvörðun. Þá þarf að hafa að leiðarljósi að reyna að einhverju leiti að taka tillit til allra sjónarmiða, meta samt raunverulega hagsmuni fram yfir óraunverulega, heildarhagsmuni fram yfir sérhagsmuni og  langtímahagsmuni fram yfir skammtímahagsmuni.

Eftir hádegi á mánudaginn kom ég síðan á skrifstofu Búnaðarsambandsins. Vegna úttektar á jarðarbótum er orðið nauðsynlegt að fyrir liggi túnkort af öllum jörðum sem eru með einhverja ræktun. Nú dugar ekki lengur neitt rassvasabókhald og heimatilbúin exelskjöl yfir tún-, grænfóður- og kornræktina hjá manni.  Þetta er nú svo sem ekki flókið mál í dag og þau hjá búnaðarsambandi vinna þetta fljótt og vel með manni.

Síðdegis var svo fundur á sveitarstjórnarskrifstofunni með fulltrúum  frá meðeigendum sveitarinnar í félagsheimilinu Þjórsárveri ásamt formanni rekstrarstjórnar Félagsheimilanna í Flóahreppi. Verið var að fara yfir breytingar sem nú verða með tilkomu þess að nú er einn húsvörður ráðinn sameiginlega í húsnæðið Flóaskóla og þjórsárver.

Það stóð heima að loknum þessum fundi var komið að seinnimjöltum í fjósinu. Eftir mjaltir kom svo Þorsteinn Logi til að rýja féð.  Kvöldinu vörðum við Kolbrún því  í að draga kindur í rúningsmannin. Það gekk ljómandi vel og var búið að taka af öllum ám, hrútum og lömbum fyrir kl. 11:00.


Meira var nú ekki tekið fyrir þann daginn.

05.11.2012 07:17

Bræðurnir í Jaðarkoti

Þeir bræður í Jaðarkoti Arnór Leví (5ára) og Hrafnkell Hilmar (bráðum 2 ára) sonarsynir mínir eru atorkusamir piltar. Þeir fylgdu mér í mínum verkum, eins og svo oft áður, um helgina. Engum okkar leiddist það. Foreldrar þeirra og systir eyddu helgini í höfuðstaðnum en þeir bræður voru í góðu yfirlæti hér í Flóanum og lágu ekki á liði sínu.

Það er ekki þeirra stíll að vera með fyrirgang, hávaða eða læti. En báðir hafa þeir brennandi áhuga á að taka til hendinu með manni. Þeir eiga það sammerkt að vera einbeittir í því sem þeir taka sér fyrir hendur.



Sá eldri er nú orðin töluvert sjóaður í hinum ýmsu verkum enda búinn að ávinna sér heilmikla reynslu í gegnum árin. Sá yngri vill nú lítið gefa honum eftir og leggur sig allan fram. Hann tekur stóra bróður sinn til fyrirmyndar og tileinkar sér öll þau vinnubrögð sem hann sér hann taka sér fyrir hendur.



Þeir tóku sig til í gærmorgun og stunduðu vegabætur að krafti. Eftir rokið undanfarna daga var gott að geta verið úti og puða um stund.


28.10.2012 07:10

Í steypuvinnu með forsetanum

Á föstudaginn var hornsteinn Búðarhálsvirkjunnar lagður. Ég þáði boð ásamt fleiri sveitarstjórnarmönnum í sveitarfélögunum við þjórsá að vera viðstaddur. Eins og hefð er um virkjanir Landsvirkjunnar þá sá forseti Ísland um verkið. Fjölmennni var við athöfnina og ávörp voru flutt af ráðherrum ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunnar fólki.

Almenn ánægja og sátt er um þassa virkjun. Ekki þarf að efast um að þessi framkvæmd hefur tölverð jákvæð áhrif á atvinnuástand í þjóðfélaginu í dag. Þarna eru við störf u.þ.b. 300 manns og er þetta stæðsta einstaka framkvæmdin sem í gangi er um þessa mundir í þjóðfélaginu.

Verkinu á að ljúka árið 2014. Um hagkvæman virkjanakost er að ræða, sem mun skila þessari þjóð arði á komandi árum. Til þess er tekið að fjármögnun gekk, til þess að gera, vel þrátt fyrir þá kreppu sem hér er og gríðalegar skuldir sem á þjóðinni hvílir. Það er einmitt sönnun þess hvernig nýting á þeim miklu auðlindum sem við eigum getur verið og er lykill að því að því að við vinnum okkur út úr kreppunni.

Raforkuframleiðsla úr fallvötnum og háhitasvæðum er einn af þeim möguleikum sem við höfum. Mikilvægt er samt að skynsamlega sé unnið úr þeim kostum sem þar eru og menn gái vel að sér í þessum efnum. Vinna við rammaáætlun um nýtingu jarðvarma og fallvatna í landinu hefur verið í gangi á annan áratug. Núverandi ríkisstjórn tók þá ákvörðun, í upphafi kjörtímabilsins, að flýta vinnu við gerð áætlunnar og miða ákvarðnir um virkjanir við niðurstöður úr þeirri vinnu.

Því miður hefur ríkisstjórni ekki staðið við þau fyrirheit. Allt frá því að verkefnastjórn rammáætlunnar skilaði af sér í júní 2011 hefur markvisst verði unnið þannig að upphafleg markmið áætlunnnar, um að skapa einhverja sátt um nýtingu og vernd, eru að engu gerð.

Ráðuneyti ríkisstjórnarinnar færa sífellt fleiri virkjanakosti í s.k. biðflokk. Reynt er að fresta ákvörðun sem mest. Finnst mér það skjóta nokkuð skökku við að þeir virkjanakostir sem mest er vitað um og mesta upplýsingar liggja fyrir um eru settar í biðflokk. Aðrir virkjanakostir sem nánast lítið eru kannaðir en hafa síður verið í umfjöllum eru aftur á móti hiklaust látir standa eftir í nýtingaflokk.

Alþingi er nú með til meðferðar tillögu Umhverfis- og auðlindaráðherra um rammaáætlunina. Þar hafa einstaka þingmenn stjónarflokkanna beitt sér með þeim hætti að þeir virðast lítinn áhuga hafa á að velta fyrir sér áhrifum þeirra virkjanakosta sem verið er að fjalla um hverju sinni. Þess í stað ala þeir á tortryggni gagnvart ýmsum öðrum sem að þessari vinnu hafa komið og reyna að fremsta megni að drepa málinu enn frekar á dreif.

Ég hef það orðið á tilfinningunni að hjá sumum innan ríkistjórnarflokkanna hafi aldrei verið nein meining að freista þess að ná sátt um vernd og orkunýtingu landsvæða. Sú ókvörðun að fallast á að bíða eftir vinnu við rammáætlunina hafi aðeins verið leið til þess að fresta ákvörðun um einstaka  virkjanakosti.

Þetta er ekki trúverðugt og mun gera alla þessa vinnu að engu. Við verðum í nákvæmlega sömu sporum áfram og munum sjálfsagt halda áfram að takast á um hvern virkjanakost fyrir sig. Öllum sem taka þátt í umræðunni verður umsvifalaust skipað í flokk virkjanasinna eða virkjanaandstæðinga. Uppbygging raforkuvera verður áfram ómarkviss og tilviljanakend.

Varðandi athöfina á föstudaginn í Búðahálsvirkjun þá er lagning svona hornsteins í stöðvarhús virkjuninnar svo sem bara einföld steypuvinna og forsetanum tókst bara nokkuð vel til við verkið. Eins og stundum hér áður fyrr, í steypuvinnu, þá var mannskapurinn auðvita yfirdrifinn og því komust ekki nærri allir að verkinu. Ég segi þá bara eins og sveitungi minn einn sagði hér áður fyrr við slíkar aðstæður; " það er ekki aðalatriðið að vinna, heldur bara að vera með" emoticon

17.10.2012 07:34

Fréttir úr fjósinu

Vinna við gegningar hefur breyst mikið frá því ég fór að búa fyrir u.þ.b. 35 árum. Vinnudagurinn yfir vetrarmánuðina fór, hér áður fyrr, meira og minna í það að leysa hey og gefa. Daglega voru allir fóðurgangar og garðar sópaðir og gefið fóðurbæti. Vothey og þurhey var gefið til skipis í fjósið á hverjum degi. Gefið var í fjárhúsin bæði á kvöldin og morgnana

Þegar við byggðum flatgryfurnar 1977, og fórum að verka vothey í stór auknum stíl, varð sú breyting að meirihluti af dagsgjöfinnni var nú gefin  einu sinni á dag í fjósið. Eftir að fjósið var byggt líka var farið að gefa votheyið eftir morgunmjaltir og dugði sú gjöf fram á næsta morgun en þá var svolítið þurrheyið gefið fyrir morgunmjaltirnar. 

Ég man eftir að sumum hér í sveit þótti þetta óráð að láta kýrnar standa yfir sömu gjöfinn nánast allan sólahringinn. emoticon

Nú er öldin önnur.  Það er gefið í heilum rúllum fyrir marga daga í einu. Öllum gerðum af heyi bæði af fyrsta slætti og einnig há er raðað í fóðurganginn.  Eins og staðan er nú hjá okkur í fjósinu dugar gjöfin í fimm daga. Nú finnst manni dagurinn hálf ónýtur til annara verka þá daga sem þarf að gefa í fjósið.

Við lukum við að skipta um átgrindur við fóðurganginn í síðustu viku. Gömlu bogarir við fóðurganginn, sem við smíðuðum á sínu tíma þegar fjósið var byggt fyrir tæpum 30 árum, voru orðir ónýtir.  Þeir höfðu riðgað í árana rás og voru meira og minna að detta í sundur. 

Töluvert hefur fæðst af kálfum hér á undanförnum vikum . Þó það sé nú ekki lengur markmið að vara með mikinn burð á haustin hefur það æxlast þannig að nú hafa 19 kvígur og kýr borið síðan í september byrjun.  Þokkalega hefur gengið og meirihlutinn af þeim kálfum sem við höfum fengið núna lifandi eru kvígur.

Burðurinn hefur gengið yfir í skorpum. T.d báru fimm þá fjóra daga sem ég  var á fjalli í haust. Í síðustu viku báru 4 á einum sólarhring þar af 3 fyrstakálfs kvígur.

Það er svo sem enginn lognmolla yfir hlutunum í Flóanum. emoticon  

11.10.2012 07:38

Haförn

Þó fuglalíf í Flóanum sé nokkuð fjölskrúðugt og mikið er haförn er ekki algengur fugl í hér. Enda hef ég aldrei séð hann hér. Einstaka ernir eru samt ekki langt hér frá og var t.d. einn særður örn handsamaður um daginn upp í Grafningi.



Þennan örn sá ég hinsvegar í sumar vestur í Breiðafirði. Myndina tók Kolbrún þegar við fórum í siglingu með Ástu og Guðjóni út í Brokey í ágúst s.l. Mér Flóamanninum fannst mikið til koma að sjá þenna stóra fugn þarna á flugi. emoticon


05.10.2012 07:26

Minnisblað um leikskóla

Eftirfarandi minnisblað tók ég saman mér og öðrum til upprifjunnar um hvað og hvernig unnið hefur verið að athugun á því með hvaða hætti best er að standa að stækkun á húsnæði leiksksólans hér í sveit. Í þessu minnisblaði er einnig teknar saman þær upplýsingar sem nú liggja fyrir í þessari vinnu.

Minnisblað

Húsnæðismál leikskólans í Flóahreppi hafa verið til skoðunnar að undanförnu og í minnisblaði þessu geri ég grein fyrir þeirri vinnu sem unnin hefur verið.

Í byrjun árs 2011 var ljóst að húsnæði leikskólans var fullnýtt og ekki víst að hægt yrði að tryggja öllum börnum sem þess óska leikskólavist ef börnum fjölgaði áfram í sveitarfélaginu. Hugmyndir voru þá uppi um að setja á stofn vinnuhóp til að kanna með hvaða hætti sveitarfélagið ætti að bregast við.


Horfið var frá því og fræðslunefnd var falið að halda íbúafund um málefnið á fundi sveitarstjórnar 2. febr. 2011. Íbúafundurinn  var haldinn 17. febr. 2011. Fundurinn var boðaður til að fá hugmyndir og álit þeirra sem byggja samfélagið á því hvernig húsnæðismálum leikskólans er best hagað til framtíðar.


Á fundinum var leitast við að svara ákveðnum spurningum um leiðir til að bregðast við húsnæðisvanda skólans. M.a. að hækka aldur inn í skólann, nýta annað húsnæði  í eigu sveitarfélagsins fyrir hluta leikskólans eða setja upp bráðabirgðahúsnæði við leikskólann.


Í samtekt fræðslunefndar (fylgisk.1) um niðurstöður þessa fundar kemur fram að nefndin telur fundinn vart marktækann þar sem fáir almennir íbúar mættu á hann. Taldi fræðslunefnd  tæplega  fært að  færa 5 ára börnin  í Flóaskóla vegna eindreginnar andstöðu starfsfólks leikskólans. Nefndin taldi að svo komnu máli ekki þörf á að stofna vinnuhóp varðandi málefni leikskólans.   


Í kjölfarið var haldinn vinnufundur með fræðslunefnd og sveitarstjórn 22. mars 2011. Þar var ákveðið að skipa vinnuhóp með fulltrúm sveitarstjórnar og fræðslunefndar ásamt leikskólastjóra og umsjónamanni fasteigna til þess að meta viðhaldsþarfir og notkunnargildi húsnæðis leikskólans. Hópurinn hélt 10 fundi á tímabilinu 19. apríl til 30. nóv. 2011.


Verkfræðistofan Mannvit var fengin til þess að leggja mat á viðhalds- og framkvæmdaþörf við endurbætur á núverandi húsnæði skólans. Mannvit var jafnframt falið að leggja mat á mögulega stækkun húsnæðisins og hugsanlegann kostnað við það (fylgisk. 2)


Vegna þess að núverandi húsnæði var þegar svo til fullnýtt reyndi vinnuhópurinn að meta líkur á fjölda leikskólabarna á næstu árum. Horft var til íbúaþróunnar á síðustu árum og hlutfall leikskólabarna á síðustu áratugum. (fylgisk.3) Það var álit  hópsins að miðað við núverandi íbúatölu mætti búast við fjölda leikskólabarna á bilinu 30 til 60. Vinnuhópnum var á fundi sveitarstjórnar 1. júni 2011 sérstaklega falið að skoða framkvæmdamöguleika með tillit til stækkunar húsnæðis leikskólans.


Vinnuhópurinn velti fyrir sér mögulegum ávinningi að því að færa leikskólann frá Þingborg að Flóaskóla. Hópurinn taldi nauðsynlegt að ræða þennan möguleika betur í samfélaginu áður en lengra yrði haldið og lagði til að haldinn yrði íbúfundur um málefnið.


Íbúafundur var haldinn 3. nóv. Vinnuhópurinn tók saman niðurstöður eftir þennan fund (fylgisk. 4) og skilaði síðan af sér með eftirfarandi ályktun:


"Vinnuhópurinn  lítur svo á að hans  vinnu sé lokið.  Það er mat hópsins að kostirnir fyrir Flóahrepp til að stækka húsnæði leikskólans séu tveir. Annarsvegar að gera nauðsynlegar lagfæringar og viðgerðir á núverandi húsnæði skólans ásamt u.þ.b. 80 m2 viðbyggingu (skv. útfærslu 2 í minnisbl. frá Mannvit dags. 25. maí 2011) eða vegna hugsanlegra hagræðingar í rekstrir og möguleika á öflugra skólastarfi að byggja leikskólann upp við Flóaskóla. Til þess að meta hvor kosturinn sé vænlegri  er nauðsynlegt að gera úttekt á aðstöðunni við og í Flóaskóla með tillit til þess að hafa leikskólann þar í framtíðinni."


Í framhaldi af þessu var M2 teiknistofa fengin til þess meta aðsöðuna í og við Flóaskóla með tillit til þessa. (fylgisk.5) Í stuttu máli var niðurstaða sú í þeirri athugun að í og við Flóaskóla væri nægt húsnæði í fermetrum talið fyrir leikskólann jafnvel þó nemendum beggja skólanna fjölgaði á næstu árum.


Samt sem áður er nauðsynlegt að ráðast í einhverjar framkvæmdir við breytingar á húsnæði og gerð leikssvæðis ef farin verði þessi leið. Samkvæmt beiðni sveitarstjórnar gerði M2 teiknistofa  gróft kostaðarmat á ákveðnum útfærslum í því sambandi. (fylgisk.6)


Á vinnufundi sveitarstjórnar með fræðslunefnd 23. maí 2012 var samþykkt samhljóða að leita eftir faglegri og kostnaðarlegri úttekt á leiskólastarfinu miðað við að flytja leikskólann í Flóaskóla eða hafa leikskólann áfrarm í þingborg.


Þeir möguleikar sem kostnaðarmetnir hafa verið með tillit til framkvæmda í þessari vinnu eru eftirfarandi:

  1. Viðgerð og endurbætur á núverandi húsnæði miðað við að stækka skólann ekki og reka bara leikskóla fyrir 40 börn. Áætlaður kostnaður 17,8 millj, (Mannvit maí 2011)
  2. Viðgerð og endurbætur á núverandi húsnæði ásamt því að byggja við 80m3 viðbyggingu. Leikskóli fyrir 55 börn. Áætlaður kostnaður 46,4 millj. (Mannvit maí 2011)
  3. Ný leikskólabygging 440 m2 og 5000 m2 lóð. Núveraðndi húsnæði selt. Leikskóli fyrir 55 börn. Áætlaður kostnaður 138 til 168 millj. (Mannvit maí 2011)
  4. Leikskóla komið fyrir í húsnæði Flóaskóla ásamt því að íbúðarhús við Flóaskóla verði nýtt fyrir skólastarfsemina. Núverandi húsnæði selt (Mannvit maí 2011) Áætlaður kostnaður 7,8 millj. (M2 maí  2012)
  5. Sama og 4 auk þess stækkun á Flóaskóla um 4 kennslustofur. Núverandi húsnæði selt (Mannvit maí 2011) Áætlaður kostnaður 50,9 millj. (M2 maí  2012)
  6. Sama og 4 auk þess stækkun á Flóaskóla um 2 kennslustofur og bygging á íþróttahúsi 1350 m2. Núverandi húsnæði selt (Mannvit maí 2011) Áætlaður kostnaður 409,9 millj. (M2 maí  2012)
  7. Sama og 4 auk þess stækkun á Flóaskóla um 2 kennslustofur og bygging á íþróttahúsi 850 m2. Núverandi húsnæði selt (Mannvit maí 2011) Áætlaður kostnaður 271 millj. (M2 maí  2012)

Það skal tekið fram að um gróft kostnaðarmat er um að ræða. Í aðalatriðum skiptist hann í eftirfarandi þætti í millj. króna.


1 2 3a 3b 4 5 6 7
viðgerð á núv. húsnæði 17,8 14,3 Mannvit 05.11
viðbygging v/Þingborg 32,1 Mannvit 05.11
nýr leikskóli f/grunni 158 Mannvit 05.11
nýr leikskóli f/gr. ódýr 128 Mannvit 05.11
ný leikskólalóð 5000 m2 40 40 Mannvit 05.11
breyting Flóaskóla 10,4 10,4 10,4 10,4 M2 05.12
breyting íb.h v/Flóaskóla 10 10 10 10 M2 05.12
leikskólalóð v/ Flóask. 17,4 17,4 17,4 17,4 M2 05.12
stækkun Flóaskóla 4 st. 43,1 M2 05.12
stækkun 2 st. (m/íþr.h.) 21,5 21,5 M2 05.12
1350m2 íþróttahús  380,6 M2 05.12
850 m2 íþrottahús  241,7 M2 05.12
núverandi leiksk. seldur. -30 -30 -30 -30 -30 -30 Mannvit 05.11
samtals: 17,8 46,4 168 138 7,8 50,9 409,9 271







                                                                                              Þingborg 1. okt 2012

                                                                                              Aðalsteinn Sveinsson

30.09.2012 07:11

Opinber fjármál

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga var haldinn í síðustu viku. Samband íslenskra sveitarfélaga  stendur árlega fyrir þessari ráðstefnu. Ráðstefnan er jafnan fjölsótt af sveitarstjórnarmönnum og þeim starfsmönnum sveitarfélaganna sem að fjármálum og rekstri standa.

Þau verkefni sem sveitarstjórnarmenn eru að fást við snúast að mestu um fjármál. Að sitja í sveitarstjórn hefur mikið meira með það að gera að hafa vit á rekstri heldur en pólitík. Verkefnið er að nota það skattfé sem til ráðstöfunnar er á sem skynsamlegastan hátt í þau lögbundnu verkefni sem sveitarfélögunum er skylt að sinna. 

Til þess að ná árangri í þeirri vinnu er mikilvægt að gera sér grein fyrir umfangi verkefnanna í upphafi og unnið sé eftir fjárhagsáætlunum. Fjárhagsáætlanir þurfa þá að vera raunhæfar og bókhald þarf að vera með þeim hætti að hægt sé að fylgast með að þær geti staðist. Ef það er ekki að gerast þarf að endurskoða áætlanirnar í tíma áður en í algert óefni er komið.

Það væri æskilegt að menn einbeittu sér að þessu verkefni. Reynslan sýnir að því miður hefur það sumstaðar ekki alveg tekist sem skyldi. Þá hefst oft á tíðum rimma milli stjórnmálamanna við að kenna hvor öðrum um. Þetta á ekki síður við í ríkisrekstrinum  samanber nýtt mannauðs- og fjárhagskerfi fyrir ríkið og fleiri dæmi sanna. Þar stendur nú ekki á því að hver aðilinn reynir að kenna öðrum um jafnt stjórnmálamenn sem embættismenn.

Á fjármálaráðstefnunni í síðustu viku kom fram að flest sveitarfélög eru með sín mál í nokkuð góðu lagi að þessu leiti. Í heild eru sveitarfélögin betur sett en ríkið t.d. miðað við rekstrarniðurstöður og hlutfall skulda af tekjum. Það er samt ekki hægt að neita því að í sumum sveitarfélögum eru veruleg vandamál sem verða ekki leist nema með því að skattgreiðendur utan þessara sveitarfélaga komi með einum eða öðrum hætti að því verkefni.

Það er því full ástæða til að setja sveitarfélögum fjármálareglur eins og verið er að gera. Það er ekki ásættanlegt að sveitarfélög geti ráðist í einhver gæluverkefni og staðið í áhættu rekstri sem aðrir þurfa svo að standa straum að ef illa fer.

Nú er vinna við fjárhagsáætlnir næsta árs að komast á fulla ferð. Í næsta mánuði eru aðalfundir hinna ýmsu stofnanna og byggðasamlaga sem sveitarfélögin á Suðurlandi standa saman að. Fyrir alla þessar stofnanir, hverja fyrir sig, eru unnar áætlanir. Taka þarf svo tillit til þeirra, þegar búið er að afgreiða þær, í fjárhagsáætlunum einstakra sveitarfélaga.   



 

26.09.2012 21:06

Að slá í gegn í Ameríku

Haustið 2007 kom ég til Ameríku. Við Kolbrún heimsóttum þá Önnu mágkonu mína og fjölskyldu hennar. Anna hefur verið búsett í Bandaríkunum  í rúmlega 50 ár.

Við dvöldum hjá henni í hálfan mánuð og tókum okkur ýmislegt fyrir hendur á meðan dvölinni stóð.  Hún bjó á þessum tíma norðanlega í New York fylki u.þ.b. 50 km sunnan vð borgina Rochester.  Við keyrðum töluvert þarna um og sáum ýmislegt áhugavert.

Einn daginn komum við á heilmikla handverkssýningu sem haldinn var þarna skammt frá. Á þessari sýningu var aðallega verið að kynna ull ýmiskonar, prónaskap og vefnað. Við fórum að sjálfsögðu að spyrjast fyrir og leita að því hvort þarna væri eitthvað um íslensku ullina.

Margir virtust vita hvað við vorum að tala um en voru ekki vissir um að hana væri að finna á þessari sýningu þar sem um fágæta vöru væru um að ræða. Þó hafði einhver grun um að á svæðinu væri einhver að kynna þessa undraull.

Eftir stutta leit á svæðinu sem tók yfir einhverja hektara fundum við í litum sýningabás konu eina sem var að sýna gestum islenska ull. Þegar við fórum að ræða við hana komumst við að því að hún átti sjálf nokkra íslenskar kindur. Hún sagist vera virk í félagsskap um íslensku kindina í Ameríku. Félagsmenn skildist mér að væru þó nokkrir bæði í USA og Kanada.

Það sem kom þó kannski mest skemmtilaga á óvart að þegar við vorum að spyrja út í ræktunina hjá þeim var okkur sagt að þessir aðilar kaupa sæði á hverju ári héðan af sæðingastöðvunum.  Uppáhalds kindin hennar var meðal annars undan Rektor 00-889 frá Kolsholti í Flóa. emoticon

Þegar við svo upplýstum að umræddur hrútur Rektor væri okkur fæddur og hefði komið frá okkur á sæðingastöðina á sínum tíma varð konunni eins við og hún væri að hitta í eigin persónu sitt helsta idol.  Hún bauð okkur að koma til sín og sjá kindurnar og létum við verða af því nokkrum dögum seinna.


Þessi svarta ær í Ameríku  er undan Rektor 00-889 frá Kolsholti. (mynd sept 2007)


Það þykir heppilegt í Ameríku að vera með Lamadýr með kindunum. Þær verða síður fyrir árás villtra rándýra. (mynd sept 2007)


Þetta var rúmlega klukkutíma akstur á bíl heim til hennar. Okkur gekk greiðlega að finna staðin eftir korti. Þarna stoppuðum við dagpart og ræddum um hrúta og sauðfjárrækt við tvær amerískar konur .  Það var magnað að hitta þarna fyrir í henni stóru Ameríku kindur sem allt eins gætu hafa verið úr fjárhúsinu heima.

Nú er víða verið að spá og spekúlera í ásetningi lamba og útkomu í mati og vigt á sláturlömbum.  Á mánudaginn  voru mæld og stiguð hér 23 gimbrar og 11 lambhrútar. Af þessum lömbum völdum við 12 gimbrar og 2 lambhrúta til ásetnings.  Sláturlömbin fóru svo á bíl héðan áðan. Það verður spennandi að sjá hvernig þau koma út á morgun.  emoticon

21.09.2012 07:21

Veðurfarið

Það hefur löngum verið þannig að stæðsta og áhrifamesta breytan í afkomu bæði manna og dýra er veðurfarið.  Þannig hefur það verið frá örófi alda og er enn. Ekki er allveg víst, að með nútíma lifnaðarháttum, átti sig allir á því.

Sú stétt manna sem einna mest er með þetta samhengi á hreinu eru bændur. Nú um miðjan þennan mánuð skall á vetrarveður með fannfergi og ísingu víða norðanlands. Þessi bilur náði þegar verst lét hér aðeins suður fyrir jökla og truflaði smalamensku á afréttum í einn dag.

Norðlendingar urðu hinsvegra fyrir töluverðu tjóni. Fjárskaði varð talsverður. Fé fennti og fjöld fólks stóð í stöngu dögum saman við að leita og grafa fé úr fönn og koma því síðan heim. Ég átta mig vel á því hversu erfitt þetta hefur verið og í raun þrekvirki unnið.

Tjón varð víða m.a. á raflínum, girðingum og ýmsu öðru. Hjá bændum norðanlands bætist  það við að víða, vegna þurrka  í sumar, eru heyfengur lítill. 

Hér í Flóanum hefur tíðarfarið það sem af er þessu hausti verið gott. Þó ekki hafi verið hægt að smala einn daginn í norðurleitini vegna snjóbils var að öðru leiti þokkalegt veður á fjalli. Þegar ég reið innúr á þriðjudaginn í fjallvikunni var ágætis veður og fínt veður framan af miðvikudeginum.

Við lentum að vísu í slagviðri í lok dagsins og smalað var í rigningu allan fimmtudaginn. Skyggni var samt þokkalegt á þeim slóðum sem ég fór um. Það var reyndar nokkur þoka austar á afréttinum.

Síðustu dagar hafa verið þurrir og hefur  kornsláttur gengið vel. Unnið hefur verið dag og nótt við að slá þá akra sem eftir eru í Flóanum og sér nú fyrir endan á því þetta haustið. Hér á bæ er búið að binda rúmlega hundrað rúllur af þurrum hálmi. Við ættum ekki að verða hálmlausið í vetur eins og í fyrra. emoticon

10.09.2012 07:31

Haust

Seinnipartinn í dag er ráðgert að leggja af stað héðan ríðandi á fjall. Við ætlum að ríða upp í réttir. en þaðan verður svo farið í fyrramálið inn á afrétt.

Eins og í fyrra fer ég á Tangann sem er styðsta leitin í vesturleitinni á Flóamannaafrétti. Við komum á móts við aðra fjallmenn á miðvikudaginn og smölum með þeim fram afréttinn og á fimmtudaginn. Á föstudaginn er svo safnið rekið niður í réttir. Reykjaréttir eru svo á laugardaginn.



Kornakranir hér á bæ voru slegnir um helgina. Metuppskera var um að ræða og áætla ég að u.þ.b. 65 til 70 tonn af þokkalega þroskuðu korni sé hér komið í hús. Kornið var valsað og súrsað í stíu í hlöðunni.

Á föstudaginn tók sveitarstjórn Flóahrepps á móti sveitarstjórnarmönnum í uppsveitum Árnessýslu og mökum þeirra. Mikil og góð samvinna er  með þessum sveitarfélögum á fjölmörgum sviðum. Áttum við góðan dag með þessu fólki.



Fórum með þeim um sveitina í rútu. Stoppuðum m.a. í listasafninu "Tré og list" í Forsæti  þar sem þessi mynd var tekinn af hópnum. Einnig var farið að flóðgátt Flóaáveitunnar á Brúnastaðaflötum. Við enduðum daginn svo með kvöldverði í Vatnsholti.  

Vil ég þakka öllum sem heimsóttum okkur og tóku þátt í þessari ferð fyrir komuna og frábæran dag.

30.08.2012 07:15

Háin og byggið

Í þessari viku hefur veðrið verið þurrt en kalt. Það er norðanátt. Þó hér hafi varla frosið sem heitið getur er jörð loðhrímuð núna í morgunsárið. Höfuðdagur var í gær og nokkuð ljóst að nú fer að hausta.

Hér á bæ höfum við verið að keppast við að ná hánni. Þó heymagnið sé kannski ekki mikið af seinni slætti í ár er þetta nokkurn vegin jafn mikil vinna og áður. Á þriðjudag var full hvasst og lítð hægt að hreyfa hey. Eitthvað fauk út í veður og vind eftir þvi sem heyið þornaði meira en það reyndar slapp nú að mestu.

Ég var svo megnið af deginum í gær að raka saman. Það flýtti ekki fyrir að það sprakk á rakstaravélinni í miðgum klíðum. emoticon Þegar klukkan var farin að ganga 11 í gærkvöldi var mykrið orðið það mikið að ég varð frá að hverfa. Ég var hættur að greina í ljósunum frá traktornum hvar búið var að raka og hvar ekki.

Þetta er nú reyndar bara smá blettur sem eftir er og sýnist mér að það ætti að nást núna þegar tekur af undir hádegi. Verður þá lokið heyskap á þessu sumri hér á bæ. Í kvöld er svo spáð að hann fari í austan átt og rigningu.

Kornsláttur er hafinn í Flóanum á fullu. Búið er að þreska á nokkrum bæjum og skilst mér að uppskera sé yfirleitt góð. Sigmar og Kristinn tóku þreskivélina í heilmikla yfirhalningu áður en byrjað var. Skipt var um flesta legur í vélinni og hún yfirfarin að öllu leiti. En miklu máli skiptir að þessar vélar séu í lagi þá fáu daga á ári sem verið er að nota þær. emoticon

24.08.2012 20:35

Myndband

Jón Magnús á Reykjum í Mosfellsbæ hringdi í mig í morgun. Hann benti mér á og sendi mér síðan link á skemmtilegt myndband á YouTube. MYNDBAND  Á þessu myndbandi er kvikmynd sem Kristófer Grímsson þáverandi framkvæmdastjóri Ræktunarsamband Kjalarnesþings lét taka fyrir rúmlega 60 árum.

Þetta eru svipmyndir frá búskaparháttum og ræktunnarvinnu á þessum tíma á félagssvæði Ræktunnarsambandsins. Myndin er sennilega tekin árið 1951. Á þessum árum er mikill uppgangtími í ræktun og vélavinna er að riðja sér til rúms.

Það sem mér þótti ekki síst gaman að sjá er örstutt svipmynd (tími:20,05 - 20,36) frá heyskap hjá afa mínum í Láguhlíð. Það er pabbi þá ekki orðin tvítugur sem keyrir traktorinn með vagninn. Afi kemur svo og handstýrir vagninum þegar honum er ýtt afturábak inn á hlöðupallinn. Ég reikna með því að það sé svo frænka mín hún Ella sem nú býr í Sölvanesi í Skagafirði sem stendur í vagninum á meðan, þá sex ára gömul.

Í vor þegar ættarmótið var haldið hér var einmitt heilmikið verið að rifja upp búskaparhætti og vinnuaðstöðu í búskap afa og ömmu. Skemmtilegt ættarmót ()  Þetta kvikmyndarbrot er skemmtileg viðbót við það.

22.08.2012 07:12

Á söguslóðum Eyrbyggju

Ég gekk Berserkjagötu í Berserkjahrauni í Helgafellssveit á sunnudaginn með góðu fólki. Við Kolbrún skruppum vestur á Snæfellsnes núna um síðustu helgi og það var eitt af mörgu sem við tókum okkur fyrir hendur að fara þessa götu. Við nutum leiðsagnar Eybergs og Laugu á Hraunhálsi.



Þetta er sögusvið Eyrbyggju og vorum við uppfrædd um það og bent á þau örnefni sem sögunni tengast á leiðinni.

Berserkir voru tveir ofstopa Svíar sem virðast þrátt fyrir afl og hreysti víða hafa verið til vandræða. Allavega sá Noregskonungur sér leik á borði og sendi þá með Vermundi hinum mjóva þegar hann fór til Ísland. Vermundur bjó í Bjarnarhöfn en bróðir hans Viga-Styrr bjó á Hrauni. Hraunið sem nú heitir Berserkjahaun er þar á milli bæjanna.

Það fór þannig að þegar Vermundur hafði ekki orðið nóg fyrir berserkina, en þeir hétu Halli og Leikni, að gera voru þeir ævinlega til einhverra vandræða og fékk hann þá bróðir sinn á Hrauni til að taka við þeim. Víga-Styrr tók við þeim óviljugur en hafði þá þó til aðstoðar við að vega menn.

En þegar Halli fer síðan að fá áhuga á Ásdísi dóttur Styrrs og og fer fram á að fá hana fyrir konu líst Víga-Styrr nú ekki á blikuna. Eftir að hafa ráðfært sig við Snorra goða á Helgafelli lofar hann honum samt að gefa honum Ásdísi en fyrst verða þeir Halli og Leikni að leysa þrjár þrautir.

Þeir áttu að leggja veg yfir úfið hraunir á milli bæjanna Bjarnarhöfn og Hrauns en það var einmitt gatan sem við gengum á sunnudaginn.



Þeir áttu einnig að hlaða garð í hrauninun á milli bæjanna. Þessi garður stendur þarna enn og gengur í sjó fram. Þriðja þrautin sem þeir áttu að framkvæma var að hlaða fjárrétt. 

 

Þessa rétt sem heitir Krossrétt  sáum við einnig þegar við gengum hraunkantinn upp að eyðibýlinu Berserkjahrauni (Hraun) þegar við komum til baka af Berserkjagötunni. Það mun hafa runnið á þá Halla og Leikni berserksgangur og luku þeir við gerð þessa mannvirkja á skömmum tíma.

En á meðan hafði Styrr látið grafa baðhús í jörð og bauð nú berserkjunum að ganga þangað að loknu verki enda móðir og þreyttir. Þá lét Styrr bera grjót á hlemmin yfir innganginn og helti síðan sjóðandi vatni inn á þá. Þó mikið væri nú af berserkunum dregið tókst þeim samt að brjóta hlemmin yfir útgönguleiðinni en detta þá á blautri nautshúð sem Styrr hafði komið þar fyrir og voru þeir þar drepnir.

Þeir voru síðan dysjaðir við Berserkjagötuna og það er einmitt við dysina sem við stöndum hér á fyrstu myndinni. Snorri á Helgafelli fær síðan Ásdísi fyrir konu.

Það er ótrúlega skemmtilegt að fara um með kunnugum í svona gönguferðum. Auk þess að fræða okkur um þessa sögu úr Eyrbyggju sagði Eyberg okkur frá ýmsu öðru úr seinni tíma sögu staðháttum og landslagi á þessu svæði.

Þetta var ekki eina áhugaveðra sem við gerðum á meðan við vorum fyrir vestan. M.a. fórum við í magnaða siglingu með Ástu og Guðjóni á Borgarlandi út í Brokey. Ég segi ykkur kannski frá því seinna en það var ekki síður skemmtilegt. Einmitt ekki síst vegna þess að við vorum í för með fólki sem þekkti vel til og sagði okkur vel frá.
 



Flettingar í dag: 52
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 281
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 133752
Samtals gestir: 24453
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 06:53:45
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar