Í Flóanum

30.09.2012 07:11

Opinber fjármál

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga var haldinn í síðustu viku. Samband íslenskra sveitarfélaga  stendur árlega fyrir þessari ráðstefnu. Ráðstefnan er jafnan fjölsótt af sveitarstjórnarmönnum og þeim starfsmönnum sveitarfélaganna sem að fjármálum og rekstri standa.

Þau verkefni sem sveitarstjórnarmenn eru að fást við snúast að mestu um fjármál. Að sitja í sveitarstjórn hefur mikið meira með það að gera að hafa vit á rekstri heldur en pólitík. Verkefnið er að nota það skattfé sem til ráðstöfunnar er á sem skynsamlegastan hátt í þau lögbundnu verkefni sem sveitarfélögunum er skylt að sinna. 

Til þess að ná árangri í þeirri vinnu er mikilvægt að gera sér grein fyrir umfangi verkefnanna í upphafi og unnið sé eftir fjárhagsáætlunum. Fjárhagsáætlanir þurfa þá að vera raunhæfar og bókhald þarf að vera með þeim hætti að hægt sé að fylgast með að þær geti staðist. Ef það er ekki að gerast þarf að endurskoða áætlanirnar í tíma áður en í algert óefni er komið.

Það væri æskilegt að menn einbeittu sér að þessu verkefni. Reynslan sýnir að því miður hefur það sumstaðar ekki alveg tekist sem skyldi. Þá hefst oft á tíðum rimma milli stjórnmálamanna við að kenna hvor öðrum um. Þetta á ekki síður við í ríkisrekstrinum  samanber nýtt mannauðs- og fjárhagskerfi fyrir ríkið og fleiri dæmi sanna. Þar stendur nú ekki á því að hver aðilinn reynir að kenna öðrum um jafnt stjórnmálamenn sem embættismenn.

Á fjármálaráðstefnunni í síðustu viku kom fram að flest sveitarfélög eru með sín mál í nokkuð góðu lagi að þessu leiti. Í heild eru sveitarfélögin betur sett en ríkið t.d. miðað við rekstrarniðurstöður og hlutfall skulda af tekjum. Það er samt ekki hægt að neita því að í sumum sveitarfélögum eru veruleg vandamál sem verða ekki leist nema með því að skattgreiðendur utan þessara sveitarfélaga komi með einum eða öðrum hætti að því verkefni.

Það er því full ástæða til að setja sveitarfélögum fjármálareglur eins og verið er að gera. Það er ekki ásættanlegt að sveitarfélög geti ráðist í einhver gæluverkefni og staðið í áhættu rekstri sem aðrir þurfa svo að standa straum að ef illa fer.

Nú er vinna við fjárhagsáætlnir næsta árs að komast á fulla ferð. Í næsta mánuði eru aðalfundir hinna ýmsu stofnanna og byggðasamlaga sem sveitarfélögin á Suðurlandi standa saman að. Fyrir alla þessar stofnanir, hverja fyrir sig, eru unnar áætlanir. Taka þarf svo tillit til þeirra, þegar búið er að afgreiða þær, í fjárhagsáætlunum einstakra sveitarfélaga.   



 
Flettingar í dag: 234
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 1185
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 144057
Samtals gestir: 25668
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 05:31:47
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar