Í Flóanum

14.11.2012 07:28

Fjölbreytt verkefni

Þau geta verið fjölbreytt verkefnin sem maður er að fást við. Bæði  frá degi til dags eða á einstaka dögum. Að vera í búskap og starfa samtímis að sveitarstjórnarmálum gerir það að verkum að maður verður seint verkefnalaus. Ég leyfi mér að líta svo á að fjölbreytt verkefni geri lífið áhugaverðara. Menn geta svo haft skoðanir á því hvort maður er nógu fjölhæfur til þess að valda þessum  verkefnum svo vel sé.

Flestir dagar byrja þó allir eins hjá mér. Ég fer á fætur um kl hálf sex á morgnanna og byrja daginn á morgunmjöltum. Það er ekki fyrr en að þeim loknum að ég fæ mér minn daglega hafragraut , lít kannski yfir moggann og kíki stundum á netið. Hlusta svo gjarnan á fréttir í úvarpinu kl átta. Það sem eftir lifir dagsins er síðan aldrei eins frá einum degi til annars.

Um síðustu helgi var ég hér heima og nýtti m.a. tíman til þess að laga birgðastöðuna í haughúsinu.  Það er ekki áhugavert að fara inn í veturinn með fullt haughúsið. Af langri búskaparsögu er maður búinn að læra að það er ekki alltaf á vísan að róa að þurfa að keyra skít um miðjan vetur. Fyrir utan það að það er afskaplega  léleg nýting á verðmætum bera skítinn á freðna jörð.

Á mánudagsmorgnum er ég á skrifstofu Flóahrepp.  S.l. mánudag byrjaði dagurinn á því að ég og sveitarstjórinn tókum á móti mönnum frá Arionbanka sem vildu kynna okkur starfsemi og þá þjónustu sem eignastýringarsvið bankans er að bjóða. Þetta var áhugaverð kynning en þar sem Flóahreppur er hvorki í mikilli eignaumsýslu eða í þörf fyrir sérstakri fjármögnum  akkúrat þessa stundina höfum við kannski ekki mikið verið að velta þessu fyrir okkur.

Strax að þessum fundi loknum hittum við, ásamt skipulagsfulltúanum og fleirum úr sveitarstjórninni, aðila hér í sveit sem eru að láta vinna deiliskipulag fyrir sig. Ekki eru alltaf allir ánægðir með það sem verið er að fjalla um í skipulagsvinnu. Þegar í deiliskipulagi verið er að fjalla um nýja starfsemi þá hafa nágrannar oft á tíðum athygasemdir við það.

Samráðsferli er tryggt í lögum og mikilvægt er fyrir sveitarstjón að vanda sig í þessari vinnu og vega og meta sjónarmið allra.  Sú skylda hvílir síðan á sveitarstjórn að taka endanlega ákvörðun. Þá þarf að hafa að leiðarljósi að reyna að einhverju leiti að taka tillit til allra sjónarmiða, meta samt raunverulega hagsmuni fram yfir óraunverulega, heildarhagsmuni fram yfir sérhagsmuni og  langtímahagsmuni fram yfir skammtímahagsmuni.

Eftir hádegi á mánudaginn kom ég síðan á skrifstofu Búnaðarsambandsins. Vegna úttektar á jarðarbótum er orðið nauðsynlegt að fyrir liggi túnkort af öllum jörðum sem eru með einhverja ræktun. Nú dugar ekki lengur neitt rassvasabókhald og heimatilbúin exelskjöl yfir tún-, grænfóður- og kornræktina hjá manni.  Þetta er nú svo sem ekki flókið mál í dag og þau hjá búnaðarsambandi vinna þetta fljótt og vel með manni.

Síðdegis var svo fundur á sveitarstjórnarskrifstofunni með fulltrúum  frá meðeigendum sveitarinnar í félagsheimilinu Þjórsárveri ásamt formanni rekstrarstjórnar Félagsheimilanna í Flóahreppi. Verið var að fara yfir breytingar sem nú verða með tilkomu þess að nú er einn húsvörður ráðinn sameiginlega í húsnæðið Flóaskóla og þjórsárver.

Það stóð heima að loknum þessum fundi var komið að seinnimjöltum í fjósinu. Eftir mjaltir kom svo Þorsteinn Logi til að rýja féð.  Kvöldinu vörðum við Kolbrún því  í að draga kindur í rúningsmannin. Það gekk ljómandi vel og var búið að taka af öllum ám, hrútum og lömbum fyrir kl. 11:00.


Meira var nú ekki tekið fyrir þann daginn.

Flettingar í dag: 213
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 1185
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 144036
Samtals gestir: 25655
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 05:05:55
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar