Í Flóanum

Safn heimilda um æfi og störf Þórarins Auðunssonar

Tekið saman í tilefni af því að 15. maí  2002

voru liðin 110 ár frá fæðingu Þórarins.

Þórarinn Auðunsson fæddist í Eystri-Dalbæ í Landbroti, Vestur-Skaftafellssýslu 15. maí 1892.  Foreldrar hans voru Auðunn Þórarinsson f. í Eystra-Hrauni 11. maí 1858, d. 13. mars 1938 í Eystri-Dalbæ og Sigríður Sigurðardóttir f. í Nýabæ, Meðallandi, 11.ágúst 1861 d. 26.  apríl 1901 í Eystri-Dalbæ.  Þau giftu sig 19.október 1883 og bjuggu í Þykkvabæ 1883 -1885; síðan í Eystri-Dalbæ til æviloka.

 

Þórarinn var 6. barn þeirra hjóna en þau voru:

Magnús, f. 6. september 1882 d. 4. apríl 1977, hjá foreldrum sínum til 1900, vinnumaður í Þykkvabæ 1900-1912, húsmaður í Fagurhlíð 1912-1913, bóndi og eigandi þar 1913-1919. Eigandi jarðarinnar Fagurhlíðar og ½ Uppsala en leigði jörðina 1919-1922, seldi Þórarni jarðirnar 1922 en hélt afnotarétti af Uppsölum meðan hann vildi. Er heimilisfastur í Fagurhlíð til 1924. Mun hann hafa búið í elsta bæjarhúsinu og átt fjárhús út í Hólum frá 1919-1924. Hann fer að Hraunkoti 1924-1928 síðan að Seglbúðum til 1942 þá flytur hann aftur að Fagurhlíð og á þar athvarf til æviloka.

Sigurður, f. 14.ágúst 1884 d. 16. júlí 1956, hjá foreldrum sínum til 1898, léttadrengur í Eystri-Tungu 1898-1900, hjá foreldrum sínum 1900-1910, þá bóndi í Eystri-Tungu 1910-1953 í Ytri-Tungu 1953 til æviloka.

Guðríður, f. 31. ágúst 1887 d. 31. janúar 1975, hjá foreldrum sínum til 1905, vinnukona í Þykkvabæ 1905-1910, í Múlakoti 1910-1918, Kálfafelli 1918-1921, Teygingalæk 1921-1922, Ásgarði 1922-1923, Breiðabólsstað 1923-1924, Múlakoti 1924-1926. Húsmóðir á Teygingalæk 1926-1952, hjá syni sínum þar til æviloka.

Valgerður, f. 12. mars 1889 d. 4. júlí 1921, hjá foreldrum sínum til 1915, bústýra hjá bróðir sínum í Fagurhlíð 1915-1919, í Eystri-Tungu 1919-1920. Húsmóðir í Ásgarði 1920 til æviloka.

Þórarinn, f. 27. desember 1890 d. 17.apríl 1891.

Þórarinn, f. 15. maí 1892 d. 24. júní 1957.

Magnús yngri, f. 1. desember 1893 d. 5. mars 1966, hjá foreldrum sínum til 1909, vinnumaður í Þykkvabæ 1909-1914, í Seglbúðum 1914-1919 í Þykkvabæ 1919-1921, í Arnardrangi 1921-1933, í Reykjavík 1933-1934. Byggði nýbýlið Sólheima í Landbroti 1934, bóndi þar til æviloka.

Guðrún, f. 9. ágúst 1895 d. 3. júní 1973, hjá foreldrum sínum til 1901, fósturbarn á Prestbakka 1901-1916, Hunkubökkum 1916-1918, Breiðabólstað 1918-1920, Kirkjubæjarklaustri 1920-1923, Breiðabólsstað 1923-1928.  Húsmóðir í Hátúnum 1928-1931 og Prestbakka 1931-1947, í Reykjavík 1947  til æviloka.

Guðríður yngri, f. 9. ágúst 1895 d. 4. janúar 1941, hjá foreldrum sínum til 1898, fósturbarn í Þykkvabæ 1898-1916. Í Reykjavík 1916-1923, Fagurhlíð 1923-1925, í Hólmi 1925 til æviloka. 

 

Þegar Sigríður dó var Þórarinn tæpra 9 ára og elsta barnið 19 ára og yngst tvíburar 5 ára.  Sigríður átti við mikla vanheilsu að stríða og hafði tæplega fótavist eftir að hún eignaðist tvíburana, Guðríði og Guðrúnu, 1895.  Guðríður var tekin í fóstur að Þykkvabæ til föðurbróður síns Helga, f. 1861 og konu hans Höllu Einarsdóttur, f. 1871, tveggja ára gömul en Guðrún að Prestbakka, til séra Magnúsar Björnssonar, f. 1861, og konu hans Ingibjargar Brynjólfsdóttur, f. 1871, þegar móðir hennar lést, þá 5 ára gömul.  Auðunn bjó síðar með Agnesi Þorláksdóttur f. í Þykkvabæ 21. mars 1875 d. 25. janúar 1964 í Reykjavík. Eignuðust þau 4 börn.

Auðunn, f. 13. nóvember 1895 d. 22. júlí 1990, hjá föður sínum til 1899 og síðan hjá foreldrum sinum 1899-1923, bóndi í Ásgarði 1923 til æviloka.

Steinunn, f. 24. mars 1902 d. 29. júní 1991, hjá foreldrum sínum til 1923, húsmóðir í Reykjavík 1923-1936, ekkja í Reykjavík 1936 til æviloka.

Margrét, f. 20. júní 1906, hjá foreldrum sínum til 1928 í Borgarnesi, Hafnarfirði, Laugarvatni og Reykjavík frá 1928. Agnes móðir hennar átti athvarf hjá henni í Reykjavík frá 1947 til æviloka.

Sigurður, yngri, f. 21. desember 1912, d. 13. desember 1999. Hjá foreldrum sínum til 1929, í Ásgarði 1929-1934, Reykjavík 1934-1942 vinnumaður og ráðsmaður í Auðsholti, Gljúfurárholti og Gufudal í Ölfusi 1942-1960, í Hveragerði frá 1960 með sauðfé og hesta til æviloka.

 

Mörg systkinin fóru fyrst að heiman til föðurbróður síns að Þykkvabæ sem hafði þar mikil umsvif. (Þórarinn Helgason. 1971). Fyrst fór Magnús eldri 18 ára gamall og var 12 ár. Þá Guðríður eldri 18 ára og var í 5 ár,   Þórarinn  14 ára og var í 3 ár og Magnús yngri 16 ára og var í 5 ár.  Valgerður fer sem bústýra til bróður síns Magnúsar í Fagurhlíð 26 ára gömul og er hjá honum í 4 ár. Fer þá til Sigurðar í Eystri-Tungu í eitt ár, giftist Eyþóri Þorkelssyni 11. júní 1920 og bjó með honum í Ásgarði til dánardags. Hún lést úr lungnabólgu 4. júlí 1921. Þau eignuðust einn son, 10. júní 1921, Guðlaug, en hann lést 17. mars 1939 eftir áralanga baráttu við sykursýki.

 

Þegar Þórarinn fór 1906 14 ára að Þykkvabæ eru þrjú systkini hans þar fyrir. Guðríðarnar báðar og Magnús eldri. Var hann þar í þrjú ár.  Árið áður en hann kom þangað hafði Helgi byggt íbúðarhús. Þórarinn Helgason segir í bókinni Frá heiði til hafs "þótti það á þeirri tíð geysimikið hús og sennilega, svo að ekki sé meira fullyrt, hefur það verið hið stærsta í allri sýslunni að fráskildu húsi Halldórs Jónssonar kaupmanns í Vík"  og ennfremur..  "Húsið er allt járnvarið að utan, í því öllu er millipappi og einnig er pappi lagður á það allt undir járnið.  Pappinn er því þrísettur. Undir hálfu húsinu er kjallari." Hann er þar þegar Helgi fær fyrstu hestasláttuvélina 1906 og 1907 þegar hann fékk fyrstu hestakerruna. 

 

Vorið 1909 hóf Þorlákur Vigfússon, f. 27. 10. 1879, búskap í Múlakoti í Hörglandshreppi.  Þorlákur var búfræðingur frá 1905 og kennari frá 1907. Segir frá kennslumálum í Hörgslands- og Kirkjubæjarhreppi í bókinni Sunnlenskar byggðir VI (Sigurjón Einarsson.1985; bls.124-129). Eftir þeim heimildum eru líkur á að Þorlákur hafi kennt Þórarni að minnsta kosti fermingarárið hans 1906. Þegar Þorlákur hóf búskap 1909 fór Þórarinn til hans sem vinnumaður og er þar, þar til hann fer til náms í unglingaskólann í Vík veturinn 1912-1913. Var það þriðja starfsár skólans.  (Björgvin Samúelsson, 1985; bls.463-465).  Fyrsta árið voru 4 nemendur úr Vík, 7 úr Mýrdal og 2 úr Álftaveri. Annað skólaárið 5 úr Vík, 2 úr Mýrdalnum, 1 úr Meðallandi, 1 úr Hörgslandshreppi, 1 úr Álftaveri, 1 undan Eyjafjöllum og þriðja veturinn voru 4 úr Vík, 6 úr Mýrdal, 1 úr Álftaveri, 1 undan Eyjafjöllum, 1 úr Meðallandi. 1 úr Landbroti (Dynskógar IV bls.136).  Eftir því hefur Þórarinn verið fyrsti nemandi skólans úr Landbrotinu og er hann þá 20 ára en nemendur voru þessi ár á aldrinum 13 - 22 ára.  Þarf varla að efa að hvatning frá Þorláki hefur valdið því að hann dreif sig í skólann.  Vitnaði Þórarinn oft í það sem hann lærði í skólanum og heima í Múlakoti.  Meðan Þórarinn er í Múlakoti var stofnað UMF Óðinn 21.apríl 1910 (Ólafur J. Jónsson.1985; bls.26-27). Má telja víst að hann hafi verið einn af 18 stofnendum þess.  Síðar starfaði hann í UMF Ármanni í Landbroti sem stofnað var 9. mars 1910. Meðal annars lagði hann til að ungmennafélagið stofnaði til heyforðabúrs -1917- þegar hreppurinn hafði samþykkt að leggja það niður (Þórarinn Helgason.1957; bls.126). Þá tók hann þátt í glímu- og sundkeppnum.  Átti hann verðlaunapening, 2 verðlaun fyrir sund frá þessu tímabili. Þórarinn var alla tíð trú ungmennafélagshugsjóninni. "Heilbrigð sál í hraustum líkama".

 

Þegar Þórarinn kom úr unglingaskólanum vorið 1913 fór hann vinnumaður að Þykkvabæ og var þar í 3 ár eða til 1916  Hann er þar þegar Halldór Guðmundsson frá Eyjarhólum, f. 1874 d. 1924, setti þar upp næst-fyrstu rafstöðina á sveitabæ (Þórarinn Helgason.1957; bls.133-137) og þegar Eiríkur Ormsson var þar 1914 að byggja skólahúsið (Þórarinn Helgason.1957; bls.137-141). Mun hann þar hafa kynnst Eiríki Ormssyni (f. 1887 d. 1983) fyrst, en vinátta þeirra endist meðan báðir lifðu og við afkomendur Þórarins nutum þess meðan Eiríkur lifði. 

 

Magnús Auðunsson eldri, giftist 13. júlí 1912 Ragnhildi Jónsdóttur, f. 24.maí 1886, frá Kaldrananesi og flyst sem húsmaður að Fagurhlíð. Er bóndi þar og eigandi 1913 -1919. Leigir þá jörðina Páli Guðbrandssyni.   Ragnhildur dó 25. júlí 1914. Höfðu þau þá tekið í fóstur Magnús Dagbjartsson, f. 5. janúar 1906 í Syðri-Vík, og er hann hjá nafna sínum til 1922 er hann fer sem vinnumaður að Hraunkoti. Valgerður, systir Magnúsar Auðunssonar, er bústýra hjá honum 1915 - 1919.  Þórarinn fer vinnumaður til hans 1916 og er þar til 1919. Á þeim tíma gerði Magnús áveitur í Fagurhlíð. Stíflaði ána út í Botni og gróf aðalskurð austur með hæðinni og hlóð áveitugarða fyrir norðan Flóðið. Man Margrét systir þeirra eftir því þegar hún var að færa bræðrum sínum mat þar sem þeir voru við gerð áveitunnar (viðtal 3.okt.1998).  Þórarinn er í Fagurhlíð þegar Katla gaus 12. október 1918 og var við Skafárós þegar vörum var varpað fyrir borð og látnar reka til lands (Þórarinn Auðunsson. 1952). Þórarinn fer til Reykjavíkur 1919 að vinna hjá Halldóri Guðmundssyni rafvirkjameistara frá Eyjarhólum, f. 1874 d. 1924, en hann var þá meðal annars að setja upp rafstöðvar víða um land. Sagði hann síðar hafa komið í allar sveitir landsins á þeim 3 árum sem hann vann hjá honum nema í Öræfin. Þar hitti hann fyrir Eirík Ormsson sem vann þá hjá Halldóri. Eiríkur flutti heimilið frá Vík 1918 til Reykjavíkur. Mun Þórarinn hafa haldið til hjá honum þegar hann var í Reykjavík.

 

Þórarinn kynntist þar Elínu Guðbjörgu Sveinsdóttur, f. 7. júlí 1898 á Reyni. Foreldrar hennar voru Sveinn Sigurðsson, f. 24. apríl 1855 í Nýjabæ í Landbroti d. 28. júní 1910 á Reyni og Gróa Guðmundsdóttir f. 19. ágúst 1859 á Felli, Mýrdal, d. 4.júní 1905 á Reyni. Sveinn var sonur Sigurðar Sigurðssonar f. 31. janúar 1813 d. 18.febrúar 1865 bónda í Nýjabæ (á Hæðinni) frá 1841 til dauðadags og konu hans Guðríðar Runólfsdóttur f. 4. febrúar 1813, d. 7. júní 1870.  Föðurafi Sigurðar var Hálfdán Guðbjörnsson f. 1753 í Suðursveit d. 9. maí 1837 á Núpum. Hann var líka móður afi Guðríðar.  Kona Hálfdáns var Guðrún Einarsdóttir, f. 1753 í Suðursveit, d. 25. júní 1811. Þau voru hjón á Rauðabergi 1782-1783, koma þá í Landbrotið og bjuggu á ýmsum jörðum.   Sveinn átti 5 systkini er upp komust. Runólfur bróðir hans, f. 24. september 1843, var faðir Sigurðar f. 14. maí 1875 d. 31. ágúst 1953, bónda í Hraunkoti, afa Kjartans bónda í Fagurhlíð frá 1978 og þeirra systkina.

 

Móðir Elínar, Gróa, var dóttir Guðmundar Ólafssonar, f. 1835, d. 1886 og Ólafar Einarsdóttur, f. 11.október 1823, d. 29. desember 1900. Kom Guðmundur frá Nýjabæ undir Eyjafjöllum í Mýrdalinn 1857, bóndi á Brekkum 1868 til dauðadags. Foreldrar Ólafar bjuggu lengst á Þverá, 1843-1861. Ólöf var alla ævi vinnukona bæði austan og vestan sands en dó hjá einu dóttir sinni er upp komst, á Reyni. Hún eignaðist tvö önnur börn, stúlku f. 12. júlí 1855, d. 7. júní 1860 og dreng, f. 13. ágúst 1860, d. 22. nóvember sama ár.

Elín var aðeins 6 ára þegar móðir hennar dó en eldri systir hennar, Guðríður 1886-1969, sá um heimilið með föður þeirra til 1908. Þá fór hún vinnukona í Norður-Vík til 1914. Hún giftist 14. janúar 1911 Árna Gíslasyni og þau byggðu húsið Vegamót í Vík 1914 (Eiríkur E. Sverrisson.1988; bls.91 - 94).  Dætur þeirra voru Gróa,  f. 15. janúar 1914 og Margrét, f. 15. ágúst 1916.  Ólöf systir Elínar, f. 20.október 1891, dó 1907 aðeins 16 ára. Guðmundur bróðir hennar var elstur f. 20. júní 1884 og dó níu daga gamall. Ásgeir eldri, f. 21.september 1889 og d. 27. desember sama ár.  Tvíburarnir, bræður hennar, Ásgeir og Ágúst f. 8. ágúst 1895 fara að heiman sem léttadrengir.  Ásgeir 1907 að Görðum og Neðri-Dal en hann drukknaði 1913.  Ágúst 1908 að Kerlingadal, Prestshúsum, Suður-Götum til 1917 er hann fer suður með sjó, d. í Keflavík 15. október 1981.  Elín er ein eftir af systkinum sínum hjá föður sínum á Reyni þegar hann dó 1910.  Þá er hún 12 ára gömul og er tekin í fóstur af Einari Brandsyni f. 1858 og Sigríði Brynjólfsdóttur f. 1857 er bjuggu í norðurbænum á Reyni frá 1890.  Áttu þau 8 börn fædd á árunum 1887 - 1901. Var mjög kært með þeim uppeldissystkinunum og dáði Elín fósturforeldra sína alla tíð. Elín var hjá þeim til 1914 en þá fer hún 16 ára til systur sinnar í Vík og sem vinnukona að Suður-Vík 1916-1918. Fer þá til Reykjavíkur en var í kaupavinnu á sumrin. Meðal annars norður í Hrútafirði og í Árnessýslu.  Í Reykjavík er hún fyrst hjá Guðbjörgu Guðmundsdóttur, f. 15. apríl 1873, hálfsystur móður sinnar, sem rak straustofu í Reykjavík frá 1910. Er í vist meðal annars hjá Eiríki Ormssyni og Rannveigu Jónsdóttur, en þau þekkti hún frá því að þau voru búsett í Vík 1913 - 1918.   Elín og Þórarinn giftu sig 12. október 1921.

Árið 1921 mun Magnús í Fagurhlíð hafa sagt Páli Guðbrandssyni upp ábúð á Fagurhlíð og boðið Þórarni, bróðir sínum, jörðina til kaups.  Páll var f. 11.apríl 1887 á Hraunbóli, d. 4. október 1964, bjó í Fagurhlíð 1919-1922, í Hæðagarði 1922 - 1936, flutti þá að Ósgerði í Ölfusi og bjó þar til dauðadags. Kona hans var Gyðríður Einarsdóttir, f. 29. maí 1894 á Kársstöðum, d. 27. september 1962.  Voru þau ófús að flytja frá Fagurhlíð. Líklegt má telja að þau hafi átt einhver hús á jörðinni.   Sigurður yngri Auðunsson, sagði að Páll hefði rifið bæinn, þegar Þórarinn bróðir hans keypti Fagurhlíðina (munnleg heimild). Þórarinn hefði því byrjað á að byggja og flutt bæinn niður af hátúninu. Sigurður mundi eftir þegar verið var að hræra steypu á palli og sementið var í trétunnum sem hann fékk tunnustafi úr til að leika sér með. Margrét systir þeirra man eftir að þegar Páll leigði Fagurhlíð hafi hann byggt bæ fyrir sig en Magnús búið áfram í gamla bænum. Hún man líka eftir umtalinu þegar Þórarinn flutti bæinn. "Vitleysan sem honum Þórarni getur dottið í hug", og líka þegar hann var að flytja reykháf af strönduðu skipi upp að Fagurhlíð.  Þá er henni minnisstætt þegar frumburður þeirra Elínar og Þórarins fæddist 18. júlí 1922. Var Elín ein heima með Gróu Árnadóttur, 8 ára systurdóttur sína hjá sér, annað heimilisfólk var við heyskap á engjum. Hljóp Gróa upp að Eystri-Dalbæ en Margrét þaðan upp að Eystri-Tungu að sækja ljósmóðurina (viðtal við systkinin, Margréti og Sigurð yngri Auðunsbörn, 3. okt. 1998). Þá segir Valgerður Magnúsdóttir, Hátúnum, f. 15.febrúar 1905 (viðtal 1998),  - að Elín og Þórarinn hefðu aðeins verið nokkrar vikur í Eystri-Tungu meðan þau byggðu í Fagurhlíð. Veturinn 1921 - 1922 voru þau til heimilis í Eystri-Tungu hjá Sigurði Auðunssyni eldri,  bróður Þórarins, og Guðríði Jónsdóttur. Hefur Þórarinn vafalítið notað veturinn til þess að undirbúa byggingu íbúðarhússins. Mun rafvæðingin strax hafa verið undirbúin, reykháfur af skipi var settur undir kjallaragólfið og þverskurður, frá aðal áveituskurðinum sem lá austur meðfram hæðinni, grafinn að húsinu og leiddur í tréstokk síðustu metrana að húshliðinni þar sem túrbínan var staðsett.  Affallið fór eftir reykháfnum undir húsið aftur út í ána.  Rafallinn var síðan í kjallaranum en það var jafnstraums rafall 110 V 6 kWh ættaður úr strandi. Túrbínan var sennilega innflutt.  En ekki skilaði hún fullri orku því 13 árum seinna þegar Magnús yngri hafði byggt á Sólheimum var smíðuð ný túrbína á smíðaverkstæðinu í Hólmi 1935 og tréstokkurinn lengdur um helming. Fékkst þá aukin orka svo að Magnús fékk rafmagn upp að Sólheimum til ljósa og eldunar.  Eftir þeim heimildum sem ég hef getað fundið er rafvæðingin í Fagurhlíð því fimmta rafstöðin í Vestur-Skaftafellssýslu og byggð sama ár og rafstöðin á Kirkjubæjarklaustri (Þórarinn Helgason 1957; bls.81) og líklega fyrsti rafall sem notaður er úr strandi  (ef til vill í Hólmi 1921). Þá er stærð virkjunarinnar allmikil en stöðvarnar í Vík 10 kWh og Þykkvabæ tæp 2 kWh er reistar voru 1913, í Hólmi tæp 2 kWh og Klaustri 8 kWh reistar 1921 og 1922 (Þórólfur Árnason.1983).  Eitt er víst að enginn eldstæði voru í bænum er Þórarinn byggði en rafmagn notað til ljósa, eldunar og upphitunar frá upphafi.  Eldavél og bökunarofn voru úr strandskipi og einnig raflagna efni. Húsið var steinsteypt, kjallari hæð og ris með timburloftum og klætt innan með timbri, 38,5 m². Við austurstafn þess var byggð heyhlaða 44 m²  með norðurvegg steyptan en suðurveggur og þak járnklætt timbur. Þar austur af fjós, u.þ.b. 20 m² úr torfi og grjóti með sömu þakhæð og hlaðan en gólfhæð 1,50 m hærra en hlöðugólfið.  Suður af fjósinu, 3 - 4 m, var safnþró steypt í hólf og gólf; ofan á henni var útikamar og steypt haugstæði við hlið hennar með járnklæddu þaki.  Fyrir austan safnþróna var hesthús fyrir 2 hesta að hluta steypt og að hluta úr timbri. Þar suður af var hesthús hlaðið úr torfi og grjóti fyrir 2 hesta. Um það bil 4-5 m austur af hesthúsunum var síðan skemma hlaðin úr torfi og grjóti með timburstafni í vestur og smiðja austast, úr sama efni. Suðaustur af þessum byggingum, u.þ.b. -20-30 m.- var síðan votheysgryfja 24m³, steinsteypt, grafin niður að mestu. Þessar byggingar byggði Þórarinn allar á fyrstu árum sínum í Fagurhlíð. Uppi á túni var síðan fjárhús með hlöðu og beitarhús út í Þrídyrahólum með hlöðu við. Með flutningi á bæjarhúsunum niður af túninu og staðsetningu á rafstöð í kjallara vannst það að rafmagnstap (spennufall) var í algjöru lágmarki sem var ennþá þýðingar meira þar sem spennan var aðeins 110 V og línulögn sparaðist. Þá fékk hann jafnframt sjálf rennandi vatn í húsin sem ekki var algengt þá. Í viðtali Ólafs H.Óskarssonar við Eirík Ormsson er birtist í Dynskógum IV árið 1988, segir Eiríkur að virkjunin í Vík hafi kostað nálægt kr. 10.000,- árið 1913. En Eiríkur byggði rafstöðvarhúsið á eigin reikning og leigði hreppnum hluta af kjallaranum fyrir rafalinn. Þórarinn þekkti það fyrirkomulag vel þegar hann byggði í Fagurhlíð.  Voru rafstöðvarnar, í Þykkvabæ kr. 2.230.- árið 1913 og rafstöðin á Klaustri kr. 18.000.- árið 1922, mjög dýrar enda efnið fengið - "úr rafmagnsverslun í Reykjavík"- (Þórólfur Árnason.1983; bls.46-50). Kristinn Helgason (2001; bls 97) segir í grein um Skipströnd í Vestur-Skaftafellssýslu 1898 - 1982, frá strandi Privall frá Lübeck 28. janúar 1922. Þar er eftirfarandi í bréfi frá sýslumanni í Skaftafellssýslu til stjórnarráðsins: 

- "að sýslumanni hafi borist til eyrna að skipstjórinn á Privall hafi á eigin ábyrgð selt rafvél úr skipinu Lárusi Helgasyni á Kirkjubæjarklaustri. Um verð á henni, eða öðru sem að sölunni snýr var ábyrgðarfélaginu Trolle og Rothe tilkynnt um, en út af því hefur ekkert frekar viðgert."  

Í sömu grein (bls.122-123) segir frá strandi Hermann Löns 18. janúar 1929:

-       "Snemma morgun þennan dag kom Helgi bóndi Jónsson Seglbúðum við annan mann til þess að gera tilraun til að bjarga rafvél skipsins samkvæmt leyfi lögreglustjóra. Heppnaðist það á 2 næstu lágfjörum." 

Einnig segir þar í frásögn frá strandi Kingston Jasper frá Hull 16. febrúar 1929 (bls.124-125):

-       "Bjarni Runólfsson í Hólmi hafði fengið leyfi lögreglustjóra til að bjarga raftækjum úr skipinu. Björgun þessara tækja stóð yfir frá 23. febrúar til 1. mars." -

 

Ekki veit ég um neinar heimildir fyrir því hvort rafvél sú sem Lárus keypti 1922 hafi verið notuð á Klaustri eða hvort það geti verið rafallinn sem Þórarinn fékk að Fagurhlíð eða hvar hann hefur þá fengið hann. En vissum takmörkunum var háð að vera með 110 V spennu og tel ég óvíst að Lárus hafi talið það hagkvæmt fyrir sín miklu umsvif.  Þórarinn er á þessum árum, 1921-1925, eini maðurinn austan sands sem hafði unnið við rafvirkjun.  Bjarni í Hólmi, f. 10. apríl 1891, hóf feril sinn sem túrbínusmiður 1925 þegar hann ræðst í að virkja í Svínadal (Þórólfur Árnason 1983; bls.51). Þórarinn var einu ári yngri en Bjarni og voru þeir mjög nánir vinir. Eftir að Bjarni kom upp járnsmíðaverkstæði sínu í Hólmi fékk Þórarinn oft aðstöðu hjá honum við margs konar smíðar, t.d. smíðaði hann þar vagnhjól (hestvagn) alfarið úr járni og suðu þeir á verkstæðinu fyrir hann pílárana úr ¾? teinum við gjörðina og náið. Þá smíðaði hann fótstiginn smiðjublásara o.m.fl.  Veit ég ekki til annars en að rafallinn sem upphaflega var í Fagurhlíð hafi enst þar til stöðin var lögð niður 1973 þegar rafmagn frá samveitum var lagt um Landbrotið.

Sigfús á Geirlandi, f. 24. janúar 1902, var 10 árum yngri en Þórarinn. Hann var hjá Eiríki Ormsyni veturinn 1926 og hefur feril sinn sem rafvirki uppúr því fyrir austan.  Það sem einkenndi samfélagið í Landbrotinu á þessum tímum rafvæðingarinnar var samvinna og samhjálp manna en ekki samkeppni. Þar sem einn hætti tók annar við auk þess voru allir skyldir eða tengdir.

 

Í bókinni Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar 1930, segir Páll Sigurðsson, fyrrverandi bóndi í Þykkvabæ um Landbrotið:

- "Í sveitinni eru 19 býli og á þeim eru þrír húsmenn að auki sem hafa sérstök húsakynni.  Árið 1886 voru býlin 25 og þá jafnframt nokkrir húsmenn" - "Laust fyrir síðustu aldamót var fyrsta timburhúsið reist hér, og í það kom þá fyrsta eldavélin. Á 6  af þessum 19 býlum hafa nú verið reist vönduð íbúðarhús með góðri herbergjaskipun. Eitt af þeim er timburhús með steinsteyptum kjallara, en hin 5 eru með steinsteyptum veggjum, klædd innan með timbri. Á 4 býlum eru 2 samstæð hús (rennuhús), er annað fjósbaðstofa, en í hinu eldhús og gestastofa. Á hinum býlunum er aðalíbúðin í sérstökum baðstofum, sem eru þiljaðar innan og flestar með fleiri en einu herbergi.  Á því nær öllum heimilunum er sérstætt hús áfast við baðstofuna og gang úr henni, er í húsum þessum þiljað eldhús og gestastofa, með lofti fyrir geymslu. Við eina af þessum stofum eru tvö gestasvefnherbergi. Raflýsing er á 5 heimilm og vatnsleiðsla á nokkrum stöðum. Eldavél og skilvinda er á hverju heimili og orgel (harmoníum) á 5 eða 6 heimilum. Barnaskóli er í sveitinni; eru veggir hans úr steinsteypu, að innan klætt þiljum." - 

 

Samkvæmt fasteignamati, gefnu út 1932, er raflýsing í Ytri-Tungu, Fagurhlíð, Þykkvabæ, Seglbúðum og Hólmi. Vatnsveita í Ásgarði, Hátúni, Efri-Vík, Eystri-Dalbæ, Fagurhlíð, Hraunkoti, Þykkvabæ I og II, Seglbúðum, Hrauni og Hólmi II .

Steinhús eru í Efri-Vík, Fagurhlíð, Hraunkoti,  Þykkvabæ I og II og Hólmi II.  

Votheysgeymslur, samkvæmt fasteignamati 1940, í Ásgarði, Efri-Vík, Fagurhlíð, Hólmi II, Seglbúðum og Þykkvabæ I og II.

Bústofn í Fagurhlíð 1931: 2 kýr, 100 kindur, 3 hestar, taða 60 he, úthey 170 he, tún 2,2 ha, matj.10 t.  1940 5 ára meðaltal:  2 kýr,  85 kindur, 3 hestar, taða 90 he, úthey 114 he, matj.11 t.

 

Fasteignamat á húsum, bústofn og raflýsing á býlum í

Landbroti 1932

 

 

 

 

 

Býli

1922

1932

1942

Raflýst

kýr

ær

hross

Hæðagarður

        300    

 

       1.500    

1938

1

60

2

Ytri-Tunga

        300    

       1.100    

       2.200    

1927

1

100

3

Eystri-Tunga

     1.000    

       1.300    

       1.200     

1960

2

80

3

Ásgarður

        300    

       2.000    

       3.000    

1947

3

180

7

Hátún

     1.000    

       1.300    

       1.500    

1947

2

70

5

Efri-Vík

     1.000    

       5.200    

       4.700    

1947

3

170

6

Syðri-Vík

        300    

          900    

       1.400    

1947

1,5

100

4

Eystri-Dalbær

        500    

          700    

       1.400    

1947

2

80

4

Fagurhlíð

        600    

       3.300    

       3.000    

1922

2

100

3

Hraunkot

     1.200    

       3.900    

       3.600    

1954

3

165

7

Þykkvibær I

   14.000    

     12.100    

     11.000    

1913

4,5

350

12

Þykkvibær II

     3.400    

       9.000    

       8.900    

1938

3,5

225

9

Seglbúðir

   12.600    

       6.600    

       6.400     

1926

4

330

15

Arnardrangur

     1.600    

       3.700    

       3.200    

1952

5

380

14

Ytra-Hraun

        600    

       3.100    

       4.600    

1953

2

300

12

Nýibær

        200    

       1.900    

       2.800    

1934

1

80

4

Hólmur I

     1.200    

       1.100    

       1.500    

1921

1

42

2

Hólmur II

        300    

     13.100    

     20.400    

 

3,5

150

7

Ytri-Dalbær

        300    

          600    

       1.200    

 

1

50

3

 

 

 

 

 

 

 

 

Þórarinn hefur eftir þessu framkvæmt mest á fyrstu 10 árum sínum í Fagurhlíð. Mat á húsum fer úr kr. 600.- árið 1922 í kr. 3.300.- árið 1932 en lækkar síðan í kr. 3.000.- árið 1940.   Bústofn er svipaður 1931 og 1940 taða eykst um 1/3 en úthey minnkar.  Fjárhagur hans var alltaf takmarkandi fyrir framkvæmdum.  Hestasláttuvél mun hann hafa keypt mjög fljótlega og vagnhjól. Síðan var hann alltaf að smíða sér verkfæri.  Smiðju hafði hann alltaf með handknúðum blásara. Þar smíðaði hann meðal annars skeifur fyrir sig og aðra auk margs annars.  Man ég eftir að hann gerði við vagnhjól úr timbri, smíðaði náið og pírálana með handsög, hefli, exi og sporjárni. Áður hef ég sagt frá járnhjólum.  Þá smíðaði hann öll handverkfæri s.s. hrífur og orf.  Meðal annars smíðaði hann handa mér orf og ljá þegar ég var 3ja ára.  Þá gerði hann upp aktygi, smíðaði klafa á þau og setti keðju í stað aðalátaksóla, rakaði gærur og sútaði í skæði (skó) fléttaði reipi úr hrosshári og m.fl.  Hann smíðaði 12 þráða spunavél fyrir lopa og m.fl.  Þá átti hann grænt kofort þar sem hann geymdi rafmagnsdót: - kol í rafala, hitavír í hitavafninga, einangrunarefni, postulínskúlur sem þræddar voru á hitavírinn til einangrunar, smergelpappír og m.fl.  Var hann oft að yfirfara rafmagnsvörur, hreinsa kol og anker rafalsins, smíða rafmagnsofna, gera við hitaelemennt o.fl. Inga Þórarinsdóttir, f. 8. júlí 1927 í Þykkvabæ man eftir því að það var leitað til Þórarins ef eitthvað bilaði viðvíkjandi rafmagn (viðtal 1998).

 

Þórarinn átti við vanheilsu að stríða.  Hann var magaveikur og kvaðst hafa fundið fyrir því frá fermingaraldri.  Hann var mjög vangæfur fyrir mat, þoldi sumt illa og eins óreglulegan matartíma, vosbúð og svefnleysi. Hann veiktist hastarlega vorið 1934 og var fluttur á sjúkrahúsið Hvítabandið í Reykjavík með blæðandi magasár. Þar lá hann síðan í 2 mánuði um há sláttinn.  Fékk hann allgóða heilsu upp úr því en var háður meðulum og sérstöku mataræði upp frá því. Mun veikindin hafa lamað framkvæmdavilja hans um tíma.

 

Móðir mín festi aldrei rætur í Fagurhlíð. Hún sagði við mig (1987) að sér hefði fundist hún vera grafin lifandi í Fagurhlíð, var vön að sjá til sjávar. Hún ólst upp við erfiðar aðstæður og setti það í visst samband við sveitabúskap, taldi alla erfiðleika minni í þéttbýli.  Þá gat hún ekki hugsað sér að verða að þiggja eitthvað af öðrum. Sjálf vildi hún öllum vel og vildi geta veitt öðrum.  Það kom best í ljós þegar Þórarinn veiktist að í Landbrotinu var fólkið ein fjölskylda og fékk móðir mín hjálp við heyskapinn frá mörgum svo aðstæður um haustið voru ekki verri en endranær. 

 

Veikindin urðu þó til þess að móðir mín setti fram þær kröfur að þau flyttu frá Fagurhlíð. Það varð því að samkomulagi að Þórarinn réð sig sem rafmagnseftirlitsmann að Laugarvatni veturinn 1939 - 1940. Var hugmyndin að fá land þar og byggja en ekki gekk það eftir.  Eiríkur Ormsson keypti Skeggjastaði í Mosfellssveit vorið 1940 til þess að nota fyrir fjölskyldu sína sem sumardvalastað. Bauð hann þeim, Þórarni og Elínu, jörðina til leigu en alltaf hafði haldist samband og vinátta milli þeirra. Varð það úr að þau þáðu það til bráðabirgða. þar sem ekki var aftur snúið. Fagurhlíð keypti þá Magnús Dagbjartsson, uppeldissonur Magnúsar Auðunssonar og (Jónína) Kristín Sigurðardóttur, f. 7.október 1912 í Hraunkoti.  Magnús Auðunsson fluttist svo til þeirra tveimur árum seinna og átti þar sitt athvarf til æviloka.  Eftir því sem faðir minn sagði mér (1943) var söluverð Fagurhlíðar kr. 10.000.- en skuldir sem hvíldu á jörðinni voru kr. 7.000.- Ekki veit ég hverjum hann skuldaði en ekki er ótrúlegt að Magnús Auðunsson hafi átt þar hlut að máli.
 

Það var svo 8. júní 1940 sem lagt var af stað frá Fagurhlíð. Klukkan 5 um morguninn var allri búslóðinni hlaðið á einn vörubíl sem Júlíus á Klaustri átti. Þar á meðal var 1½ árs kvíga. Þegar farið var frá bænum, meðfram rafstöðvarlæknum og á brú (stíflu) yfir áveituskurðinn, sem var jarðbrú með tunnum, brotnaði tunna undan öðru afturhjóli bílsins. Varð þá að taka allt af bílnum aftur og vega hann upp.  Síðan var byrjað að hlaða hann aftur en nú var vetrungnum ætlað meira pláss svo að hægt var að bæta við 6 mánaða kálfi. Síðan var keyrt upp brekkuna upp á hátúnið, þar sem enn var blautt á eftir næturáfallið, - nýgræðingurinn var hvanngrænn í glampandi sólskininu, - og varð bílstjórinn að gera nokkrar atrennur upp þar sem bíllinn spólaði en að lokum tókst það. Var nú keyrt upp að Klaustri þar sem áætlunarbíllinn beið vegna þessara tafa. Fór mamma með okkur systkinin, Valgerði 17 ára, Ólöfu 11 ára og mig 8 ára í hann en Guðlaug 14 ára var með pabbi í vörubílnum.  Þannig var haldið til Reykjavíkur en við Elliðaárnar fórum við öll aftur í vörubílinn sem hélt upp að Skeggjastöðum. Þangað var síðan komið eftir miðnætti.  Skeggjastaðir eru heiðarbýli. Gróður þar er ½ mánuði eða meira á eftir gróðri í lágsveitum og annað eins á eftir gróðri í Landbrotinu. Jörð var því ekkert farin að gróa þegar við komum þangað, viðbrigðin voru því mikil.

 

Sumarið var fremur kalt og man ég eftir að settur var niður 1 poki af kartöflum og uppskeran um haustið var ekki nema 1 poki af smælki.  Dætur Eiríks Ormssonar og Rannveigar voru þá fluttar að Skeggjastöðum með börnin sín til sumardvalar þegar við komum þangað. Sigrún með þrjár dætur og Sigurveig með tvær. Auk þess var sonur þeirra, Karl 13 ára, að miklu leyti þar um sumarið. Verið var að virkja lækinn sem kom úr Leirtjörn þar sem honum var veitt til norð-austur, suður af bænum í uppistöðulón og þaðan í rörum niður undir Leirvogsá, þar sem rafstöðvarskúrinn var.  Rafmagnið sem fékkst var nóg til ljósa og eldunar en kolakynt miðstöð var til upphitunar. Árið 1945 virkjaði Eiríkur í Leirvogsá. Tún voru nokkur á Skeggjastöðum og talin gefa af sér 9 kýrfóður. Þar með talin voru brekkur sem slá varð með orfi. Engjar voru engar en útheyja aflað með því að slá með orfi og ljá þýfð mýrarsund. Björgvin Ólafsson, f. 3.júní 1922, Efri-Steinsmýri, kom ríðandi, á 3 hestum er pabbi átti, austan úr Landbroti að Skeggjastöðum viku seinna og vann hann síðan hjá okkur um sumarið. Keyptar voru að minnsta kosti 3 kýr um vorið, tvær í Kollafirði og ein á Minna-Mosfelli. Var fjölskyldum Eiríks seld neyslumjólk á sumrin en á veturna var mjólkin unnin í smjör og osta sem þau keyptu.

 

Sumarið 1941 var byggt nýtt fjós, hlaða, haughús, safnþró og hesthús á Skeggjastöðum.  Vann pabbi við það meðfram búskapnum.  Eitt vorið var unnið í vegavinnu við að bera ofaní afleggjarann upp að Skeggjastöðum sem þá lá frá Laxnesi, með 2 hestvögnum.   Skeggjastaðir voru frekast fjárjörð en þegar við fluttum þangað var mæðuveikin í hámarki og ekki tókst að koma upp fjárstofni til verulegra nytja. Fór pabbi þá í að framleiða nautakjöt og var hann síðar með 3 uxa um tíma og lét hann súta húðina af einum þeirra í leður sem hann notaði til viðgerðar á aktygjum og beislum og m.fl.

 

Á þessum árum síðari heimstyrjaldarinnar var mjög erfitt að fá nauðsynjar og efni. Þórarinn hafði um veturinn sem hann var á Laugarvatni meðal annars kynnst nafna sínum Stefánssyni smíðakennara. Fylgdist hann mjög vel með smíðakennslu hans og smíðaði sér meðal annars skíði undir hans leiðsögn. Þegar hann síðar hafði stundir á Skeggjastöðum frá skepnuhirðingu á veturna tók hann til að smíða ýmsa gripi úr takmörkuðu efni s.s. kassafjölum og krossviði. Til dæmis smíðaði hann tvö náttborð, skáp með einni skúffu og tveimur hillum, útvarpsborð sem enn eru til o.m.fl. Hann smíðaði ferðatöskur úr timbri og krossvið sem lengi voru notaðar.  Verkfærin sem ég man eftir að hann átti voru 2 sagir, bútsög og ristisög sem hann var oft að skerpa, 2 sporjárn og 2 tréhefla; annan 25 cm hinn 60 cm langa. Þá átti hann litla hefla til þess að hefla nót og tappa í borðvið (panil).  Með þessum verkfærum sínum smíðaði hann skúffur og töskur með geirneglingu sem hann límdi síðan með heitu trélími.  Þá man ég eftir því að ég fékk að fara með pabba þegar hann fór og mældi vatnsrennsli og fallhæð í læknum sunnan við Seljabrekku til að meta lækinn til virkjunar í samráði við Eirík.

 

Þegar umræður komu fram um að Mosfellssveit nýtti sér forkaupsrétt á eigum Thor Jensen á Varmá, Lágafelli, Lambhaga og Korpúlfsstöðum sem hann hafði selt Reykjavík og stofnað yrði til nýbýla á jarðeignunum, sótti pabbi um land undir nýbýli að Varmá. Þá var raflýst í Leirvogstungu í Köldukvísl og taldi hann möguleika á því að fá rafmagn þaðan en þá var ekki búið að leggja rafmagn um sveitina almennt. Sagði hann því upp ábúð á Skeggjastöðum frá fardögum 1944. Eiríkur Ormsson ákvað þá að reka sjálfur búskap og réð til sín ráðsmann og keypti bústofn.  Þegar veturinn leið án þess að Mosfellshreppur fengi endalega yfirráð yfir landinu, stóð pabbi uppi landlaus með bústofn sinn.  Var þá mikið til umræðu að hætta öllum búskap og flytja til Keflavíkur en bróðir mömmu, Ágúst Sveinsson, átti lítið hús við Vatnsnes í Keflavík sem hann bauð þeim til bráðabirgða og að útvega þeim vinnu.  Þá bauðst þeim að fá Úlfarsá í Mosfellssveit að hluta til á leigu og sjá um rekstur á búi fyrir Niels Tyberg. Hann keypti jörðina og bústofn um veturinn og var þar með kýr og varphænur.  Varð það að ráði og fluttum við þangað vorið 1944 og vorum þar í eitt ár. Þar var ekki rafmagn. Á þeim tíma var gengið frá kaupum Mosfellshrepps á eign Thors á Varmá og Lágafelli en Reykjavík fékk Lambhaga og Korpúlfsstaði. Lögsagnarumdæmi Reykjavíkur var þar með fært út upp að Úlfarsánni.  Var ákveðið að stofna 8 nýbýli úr landi hreppsins og leigja þau með erfðafestuábúð. Átti hvert land að vera um það bil 30 ha.  Sótti pabbi um land númer 1 við Varmá en að öðrum kosti land númer 5 en þar var 5 ha tún og land að mestu þurrkað. Var pabba úthlutað landi númer 5 en varaoddviti hreppsins fékk Varmána.  Fluttum við vorið 1945 í bragga sem pabbi standsetti fyrir okkur í braggahverfi fyrir ofan Brúarland þar sem nú er Markholtshverfið í Mosfellsbæ.  Annar braggi var standsettur fyrir kýrnar og hey.  Fengum við heitt vatn í braggann en ekki rafmagn.

 

Var svo hafist handa við að byggja upp í Láguhlíð en það nafn fékk býlið þar sem pabbi fékk ekki að láta það heita Hlíð vegna samnefnis á jörðinni Hlíð á Álftanesi.  Settur var upp braggi fyrir hey, hesta og kindur niður á mel u.þ.b. 150 m frá þar sem byggt var.  Um haustið var kjallari íbúðarhússins byggður.  Pabbi vann allt við bygginguna með okkur systkinunum og mömmu. Auk þess kom Ingvar Sigurðsson, f. 18. júlí 1919, maður Guðlaugar systur minnar, oft í steypuvinnu þegar mest var og stundum fékk hann bróður sinn með sér.  Steypan var hrærð í tunnu sem hestur sneri. Man ég að pabba fannst það mikil framför frá því að hræra steypu á palli með skóflu.  Tunnan var 220 lítra olíutunna með öxul í gegnum sig er lék í legum á búkkum við endana u.þ.b. 60 cm frá jörð, undir henni var síðan pallur. Lok var á belg tunnunnar u.þ.b. 40x30 cm með festanlegu loki. Var síðan sett í tunnuna möl, sandur, sement og vatn, allt mælt í fötum; u.þ.b. 2½ fata af sementi. Á öðrum enda tunnunnar var síðan vafinn kaðall sem var u.þ.b. 40 m langur. Var hann síðan festur í aktygi á hesti sem teymdur var síðan löturhægt meðan kaðallinn vafðist af tunnunni og snéri henni. Annar kaðall vafðist upp á hinn endann á tunnunni á meðan, svo koll af kolli.  Síðan var helt úr tunnunni á pallinn og steypunni mokað upp í fötur og þær bornar að mótunum, þar var helt úr þeim en mótin voru aldrei höfð dýpri en u.þ.b. 25-30 cm því steinum var raðað í steypuna eins og hægt var en þess gætt að þeir næðu hvergi út í mótin eða saman.  Steypan var síðan jöfnuð og þjöppuð með spýtu.  Steypan var mjög lítið járnbent en reynt að setja tein yfir dyr og glugga.  Pabbi var ekki vanur að járnabinda loftaplötur.  Man ég eftir að Magnús Sveinsson, oddviti í Leirvogstungu, hjálpaði pabba að járnbinda plötuna yfir kjallarann í vinnuskiptum.  Pabbi hafði hjálpað honum um vorið við að koma upp sýgþurrkun í Leirvogstungu.  Um haustið tók pabbi síðan að sér að leggja rafmagn í íbúðarhúsin á Úlfarsá og Reynisvatni þar sem Tyberg og Ólafur Jónsson, múrarameistari á Reynisvatni, fengu sér litlar díselrafstööðvar.  Ráðsmaður Tybergs hjálpaði síðan pabba að pússa kjallarann að innan og Ólafur pússaði íbúðarhúsið, fjósið og hlöðuna að utan vorið 1947.  Aðrir komu ekki að byggingunum í Láguhlíð.  Hvorki fagmenn né aðrir.  Útlitsteikningar voru frá Teiknistofu landbúnaðarins en enga verkteikningar voru gerðar.

 

Vorið 1946 var síðan flutt í kjallarann og hafist handa við að byggja hæðina á íbúðarhúsinu, hlöðuna og fjósið með haughúsi.  Tókst að gera það allt fokhelt um sumarið. Var síðan unnið við að einangra og innrétta hæðina um veturinn.  Heitt vatn fengum við um haustið úr hitaveitulögninni til Reykjavíkur með því að leggja einangraða lögn frá Hulduhólum, u.þ.b. 300 m leið, á eigin kostnað.  Rafmagn fengum við frá spennistöð í Blikastaðalandi með því að kosta lagningu á línu þaðan u.þ.b. 1 km auk inntökugjalds.  Stóð lengi á því að fá staura í lögnina og man ég eftir að Stefán Þorláksson  í Reykjahlíð, útvegaði pabba þá að lokum en Stefán var pabba ákaflega hjálplegur eins og fleirum.

Kýrnar voru fyrsta veturinn í haughúsinu, var síðan fjósið einangrað og innréttað sumarið og haustið 1947.  Einangrun var þannig að settur var tjörupappi innan á steinvegginn, síðan listar ca. 25 x 30 mm með 50-60 cm  bili, þá aftur tjörupappi og aðrir listar á þá og 3ja pappalagið.  Ef átti að múrhúða, var klætt með kassafjölum eða lélegu timbri og á það strengt hænsnanet sem síðan var múrhúðað í.  Ef klætt var með timbri, eins og gert var á íbúðarhúshæðinni, var masonit, tex eða krossviður klæddur beint á 3ja pappalagið.

 

Súgþurrkun var strax sett í hlöðuna vorið 1947 og var lögð hitalögn í aðalstokkinn þar sem afrennslið fór um og allt vatnið á nóttunni. Gaf það mjög góða raun en með tímanum kom heitaveitan sér upp fleiri geymum í Öskjuhlíðinni og dró þá úr dælingu á nóttinni yfir sumartímann. En þar sem vatnið var skammtað með innsigluðum loka var mjög takmarkað rennsli á nóttunni svo að lokum var mjög lítil not að hitanum.  Pabbi keypti mjaltavél strax í fjósið haustið 1947 og var hún með fastri loftlögn og fötum.  Fram að þeim tíma voru mjaltavélarnar í flestum tilfellum á vagni sem keyrður var um fjósin við mjaltir.

 

Sumarið 1948 var síðan byggt hænsnahús 79m² á tveimur hæðum. Vélageymsla og haughús niðri en hænsnastíur uppi.  Sumarið 1953 var síðan fjárhúsið byggt, hlaðið úr vikurholsteini með 90 cm steinsteyptum kjallara. Yfir honum voru lausar trégrindur og jötur meðfram veggjum.  Bústofninn var nú orðinn 10 kýr, 30 kindur og 390 varphænur og fjárhagsafkoman allgóð. En nú fór heilsan og þreytan að segja til sín.  Pabbi var orðin mjög oft þjáður af sínu gamla meini og þrótturinn fór dvínandi.  Mamma var alltaf mjög hraust og sívinnandi af eldmóði en það hafði þó háð henni lengi að hún var oft mjög slæm í hægri handlegg svo hún átti erfitt með að beita honum.  Mjaltir, sem hún hafði allan þeirra búskap séð um, voru henni oft erfiðar.  Á þessum síðustu búskaparárum þeirra í Láguhlíð, voru þau ekki fær um að vera ein með búið en tekjurnar leyfðu ekki heldur að kaupa að vinnuafl.

 

Þá komu í ljós hinar rótgrónu skoðanir Þórarins á braski með bújarðir. Hann dáðist að framsýni Helga Þórarinssonar, föðurbróður síns og fóstra í Þykkvabæ, þegar hann gaf hreppnum Þykkvabæinn (Þórarinn Helgason, 1971; bls. 254-262) og hann hafði verið mjög sáttur við að Lágahlíð var ekki eignarland heldur leigt með erfðafestu.  Þó að ýmislegt hafi ekki verið eins og samið var um með framkvæmdir við nýbýlin gagnvart hreppnum varðandi byggingar, ræktun og búrekstur, þá var þó rekinn búskapur á 6 af þessum 8 nýbýlum. Hann hafði staðið í því að byggja upp með eigin höndum frá grunni tvær bújarðir og ætlaði ekki að selja þær hæstbjóðanda til þess eins að þeir gætu leikið sér með þær og lagt niður matvælaframleiðslu og gert að engu það sem hann var búin að leggja ævistarf sitt í - að gera landið betra fyrir komandi kynslóðir.

 

Hann lagði sig því fram um að selja mér eignir sínar í Lágahlíð á því verði sem möguleikar væru á að búskapur stæði undir, og samþykkti mamma það að lokum. Frá 1. janúar 1957, seldi hann mér öll hús, ræktun, girðingar, vélar, verkfæri og nautgripi á kr. 302.381,24.  Ákvílandi lán voru kr. 62.381,24.  Sjálfur hélt hann eftir varphænunum. Helmingur þeirra var eins árs en hinn tveggja ára og voru því komnar á aldur því venjan var sú að kaupa daggamla unga árlega og endurnýja helming stofnsins.  Þar sem veikindi hans voru orðin það alvarlega var ákveðið að hann færi í uppskurð um vorið og  því slegið á ferst að endurnýja hænurnar.

 

Þórarinn varð 65 ára 15. maí 1957.  Heimsóttu þá nokkrir sveitungar hans hann og heiðruðu með því að færa honum borð með lampa og bókagjöf.  Hann fór síðan á Landakotsspítala í maílok og gekkst þar undir uppskurð en komst aldrei til heilsu aftur og andaðist 24. júní 1957.

 

Elín flutti til Reykjavíkur 1. janúar 1957 til Ólafar dóttur sinnar. Hún stundaði ýmsa vinnu fyrstu árin og sá um heimilishald með Ólöfu sem var útivinnandi húsmóðir með 4 börn.  Átti hún síðan athvarf hjá Ólöfu til æviloka.  Elínu var haldið samsæti á 95 ára afmæli hennar 7. júlí 1993. Þangað kom fjöldi fólks meðal annarra Þorgerður Einarsdóttir uppeldissystir hennar og naut hún dagsins. Elín hélt sér, andlega og líkamlega mjög vel til æviloka.  Hún lést 29. desember 1993 eftir viku veikindi.

 

Kolsholti I,  28. október 2003

Sveinn Þórarinsson

Heimildarit:

Björn Magnússon. 1970 - 1973. Vestur Skaftfellingar 1703-1966. [Reykjavík.]   Prentsmiðjan Leiftur,

Eiríkur E. Sverrisson. 1988. Víkurkauptún 1890-1930. Dynskógar 4. Sögufélag Vestur-Skaftfellinga

  [Reykjavík.] Prentstofa G.Benediktssonar.

Kristinn Helgason. 2001. Skipströnd í Vestur-Skaftafellssýslu 1898 - 1982 Dynskógar 8. Sögufélag

         Vestur Skaftfellinga. (vantar útgáfustað)

Páll Sigurðsson frá Þykkvabæ. 1938 eða 1939. Bernskuminningar fluttar í RÚV, um húsaskipan í 

        sveitum um aldamótin 1900

Páll Sigurðsson frá Þykkvabæ. 1930. Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar 1930. Ritstjóri Björn Ó.

Björnsson. [Reykjavík], Kornið.

Sunnlenskar byggðir VI  1985 Skaftárþing. Ritnefnd Oddgeir Guðjónsson, Jón Guðmundsson, Júlíus

       Jónsson. Búnaðarsamband Suðurlands. [Reykjavík], Prentsmiðjan Oddi.

Þórarinn Auðunsson. 1952. Grein í jólablaði Tímans. Helgi Þórarinsson, Þykkvabæ.(vantar tbl.+dags.)

Þórarinn Helgason. 1957. Lárus á Klaustri. Ævi hans og störf. Skaftfellingafélagið. [Reykjavík],

Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar.

Þórarinn Helgason.  1971. Frá heiði til hafs. Ævisaga Helga Þórarinssonar. [Selfossi],

Goðasteinsútgáfan. Prentsmiðja Suðurlands.

Þórólfur Árnason.1983 Rafvæðing í Vestur-Skaftafellssýslu. Dynskógar 2. Sögufélag Vestur-

       Skaftfellinga. (vantar útgáfustað)

 

Munnlegar heimildir:

Margrét Auðunsdóttir,  f. 20. júní 1906

Sigurður Auðunsson yngri, f. 21. des 1912

Valgerður Magnúsdóttir,  f. 15. febrúar 1905

 

Inga Þórarinsdóttir, f. 8. júlí 1927

 

 

Flettingar í dag: 1361
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 697
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 137454
Samtals gestir: 25176
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 19:15:51
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar