Í Flóanum |
||
Bernskuminningar Páls Sigurðssonar í ÞykkvabæÞegar ég fór að safna upplýsingum um ævi og störf föður míns, skorti mig þekkingu á þeirri aðstöðu sem hann ólst upp við. Þá vildi mér það til happs að Jón Helgason í Seglbúðum sendi mér afrit af erindi sem afi hans flutti í ríkisútvarpið 1938 eða 1939 um bernskuminningar sínar. Þar lýsir Páll húsaskipan og kjörum fólks í Landbrotinu og víðar um og fyrir 1900 af einstöku innsæi. Með samþykki Jóns birtist hér brot af umræddum minningum er varpa nokkru ljósi á kjör fólks um aldamótin 1900. (SÞ 2002)
Páll Sigurðsson frá Þykkvabæ var f. 11. janúar 1870 í Eystri-Dalbæ, d. 22.september 1939. Hann var bróðir Sigríðar móður Þórarins Auðunssonar. Hann segir í bernskuminningum sínum (fluttar í útv. 1938/1939): - "Á þessu heimili mínu voru bæjarhúsin fjögur. Þrjú af þeim fylgdu jörðinni, og voru ýmist nefnd jarðarhús eða leiguhús, en þau voru eldhús, fjós, og bæjardyr. Lengd þessara húsa var 3 stafgólf (9 al.) en víddin nokkuð mismundandi. Rúmbesta húsið var fjósið og var íbúðarhús heimilisfólksins yfir veturinn, var þetta hin svonefnda fjósbaðstofa. Voru klampar negldir á stoðirnar rúmri alin fyrir neðan veggbrún og þá lagðir lausabita. Voru þeir nefndir Palltrje. Á þá voru lögð óplægð borð. Var þá loptið komið og nefnt pallur. Borðin átti ábúandi og mátti flytja burt með sér, ef sá sem að jörðinni kom vildi ekki kaupa þau. Palltrjen fylgdu húsinu.
Oft var þröngt í þessum baðstofum, a.m.k. þegar næturgestir voru og var ekki hægt að segja að loptgott væri í þeim. Enginn gluggi var á hjörum en smástrompur, svokölluð "túða" var uppúr mæni hverrar íbúðar. Eini kostur þessarar íbúðar var sá að þar var alltaf nógur hiti, hverju sem viðraði. Í eldhúsinu, sem stóð austast þessara bæjarhúsa, fór öll eldamennska fram og voru matvæli borin þaðan í baðstofu, þar var skammtað. Matarílát stóðu þar á hillum og borðaði hver í sínu sæti, sem hjá sumum var ekki annað en rúmin. Aðrir höfðu stóla. Borð var ekkert, fyrir það var ekki rúm, þó til hefði verið. Vefstóll stóð þar alla tíma ársins.
Vestanvið fjósið voru bæjardyrnar, sem voru þrengsta húsið af þessum þremur. Innsta stafgólfið var afþiljað, og var það búrið. Þar var geymt slátur og allur mjólkurmatur. Fyrir framan það þil stóð mölunarkvörnin. Þar vestur af stóð fjórða bæjarhúsið og var eign ábúandans. Var það rúmbesta húsið og gengið inn í það úr bæjardyrum framanvið búrþilið. Þetta hús, sem svaraði til stofuhúss, var hjá okkur í daglegu tali ekki nefnt annað en "Húsið". Vestur í hús. Ekki var hurð í göngum þessa húss og var það óþiljað, að öðru leyti en því, að loft var á bitum þess og var þar geymsla árið um kring, fyrir það sem ekki þurfti sjerstaklega að verja fyrir frosti. Niðri í þessu húsi var íbúð fólksins yfir sumartímann. Skipti það því um íbúð við hver misseraskipti. Í þessu húsi var borð, en sæti voru rúmin og kistur, sem stóðu þar vetur og sumar. Þangað var ekki borin matur úr eldhúsi heldur skammtað fram í búri. Þarna var björt og loptgóð íbúð og að þeirra tíma hætti ekki óvistleg. Borð voru negld á stoðirnar, svo rúmfatnaður gæti ekki snert veggi, en þeir voru hlaðnir úr óhöggnu grjóti. Þetta hús stóð að miklu leyti ónotað yfir veturinn að öðru en geymsluloptinu. Þó var innri endinn nokkuð notaður til geymslu t.d. garðaávöxtur, helst rófur og þakið yfir með reiðingi. Kartöflur voru tíðast grafnar niður í gólf. Í ytri endanum stóð ávalt borð og kistur með ýmsum munum, þar með talin sparifatnaður heimafólks. Þangað var boðið inn gestum sem komu og fóru eftir litla viðdvöl og þá helst kalmönnum. Kvenfólk fór oftast til fjósbaðstofu og næturgestir ávallt, hvort heldur var karl eður kona. Í eldhúsinu var sauðakjötið reykt og geymt, sömuleiðis húðir og skinn og ýmislegt fleira, að ógleymdu keldusvíninu, sem vetur og sumar hékk harðreykt nálægt eldstæðinu og þótti mikilsverð eign í eldhúsi. Því var nefnilega trúað að það eldhús brynni ekki. En það var ekki alltaf svo auðvelt að eignast þennan verndargrip. Til þess að hann hefði þennan mátt varð að höndla keldusvínið lifandi. Að taka það upp dautt, þótti lítilsvirðing. Öll voru þessi hús með raftvið, en þakið yfir með melstöngum undir torfið. Ris á þökunum var bratt, aldrei minna en krossreist og stundum yfir það. Hús þessu lík stóðu stundum svo tugum ára skipti, ef vel hafði einu sinni verið gegnið frá þeim. Var torfþakið á þessum gömlu húsum orðið mjög þykkt, allt að hálfri alin, því oft hafði verið bætt nýju torfi utaná þegar, þökin fóru að rotna og þá jafnframt að leka, en það vildu þau gera í stórrigningum ef þakinu var illa viðhaldið. Mikið var ending þessara húsþaka komin undir því hve ríflega til þeirra hafði verið lagt af mel undir torfið. Talað heyrið jeg um það, að þeir sem byrgir voru af melnum og vildu vanda þökin, hafi ekki þótt vel þakið ef mellagið náði ekki upp í olnbogabót, þegar hendi var stungið niður í það áður en tofið var lagt á. Svo frágengin þök voru talin að verða vatnsheld árum saman. En hjá fjöldanum var melþakið ekki svipað þessu, hjá sumum aðeins þunnt lag. Þau hús láku hvenær sem verulega rigndi og varð þá ekki skemmtileg vistarvera.
Þessi húsaskipun, sem hjer hefur verið lýst, var hin algengasta á meðalfjölmennum heimilum sem ég kom á austan Mýrdalssands fram á 9.tug síðustu aldar. Stærð og tala jarðarhúsa var fastákveðin á hverri jörð og þó að þau væru að mörgu leyti léleg til íbúðar, þá var við þau sá kostur, að sá sem að jörðinni kom gat borið sig inn í þau. Við hver ábúandaskifti fór fram úttekt á þeim ásamt görðum og öðrum mannvirkjum. Opt vildi það verða að þetta var ekki í því standi sem áskilið var og varð fráfarandi að greiða ofanálag samkvæmt mati. Fór það opt svo, að í þetta álag varð fráfarandi að láta meira eður minna af þeim húsum, sem hann átti sjálfur á jörðinni, svo aðkomandi fékk þau hús sem hann gat bjargast við í svipinn sér að kostnaðarlitlu. Þetta atriði var eitt af þeim sem gjörði mörgum frumbýling kleyft að reisa bú ef þeir áttu bústofn sem von var til að þeir gætu bjargast við. Það fór svo eftir atorku og getu hvers einstaklings hver húsakynni hann skapaði sjer. Með öðrum orðum, hvort hann bætti húsakynnin eða lét þau níðast niður. Til voru heimili sem ekki höfðu önnur bæjarhús en jarðarhúsin en þau voru fá. Á langflestum heimilum voru stofuhús í líkingu við það, sem var á mínu heimili, sums staðar með öllu óþiljuð, en á öðrum stöðum voru veggir þiljaðir en optast var smíði og efni óvandað. Á fólksmörgum heimilum svaf vinnufólk á húsloftum þessum þar sem rúm allra komust ekki fyrir í baðstofum, en yfir kvöldvökuna sátu þar allir til háttutíma. Þessi útisvefnloft voru á flestum stöðum með skarsúð, svo voru líka einstaka fjósbaðstofur, þó fleiri væru með raftvið. Í stofu með timburgólfi kem jeg ekki fyrir 1889 nema á Kirkjubæjarklaustri og Prestsbakka, sem voru sýslumanns- og prestssetur. Vera kann að það hafi verið víðar, því þá hafði jeg ekki komið á öll heimili sveitarinnar. Geymsluskemmur voru á nokkrum stöðum. Smiðja var aðeins hjá smiðum. Áður voru þær á hverju heimili en lögðust víða niður þegar skosku ljáirnir komu til sögunnar, svo ekki þurfti lengur að dengja íslensku ljáina. Þegar leið á 9.tug síðustu aldar fór húsaskipun að taka nokkrum breytinum, að sumu leyti til bóta, en að öðru leyti til hins verra. Þá voru jarðasölulögin gengin í gildi og margir höfðu fest kaup á jörðum sínum. Þá voru þeir ekki lengur bundnir viðhaldi jarðarhúsanna. Varð þá mörgum fyrst fyrir að rífa niður og endurbæta fjósbaðstofurnar. Þær voru stækkaðar og þökin lögð skarsúð í stað raftanna. En þessum endurbótum fylgdi það hjá of mörgum að þeir lögðu niður gömlu stofuhúsin. Þeim hefur líklega fundist að ekki væri neinum inn í þau bjóðandi, með lélegum eða engum þiljum, á móts við nýju baðstofuna. Þar sem jeg kom og sá að þessi hús voru ekki lengur til, þá saknaði jeg þeirra. Jeg fann að jeg hefði heldur kosið að setjast þar inn og fá sæti á kistu þó laklega væri þiljað, heldur en í nýju baðstofuna og hafa í mörgum tilfellum ekki annað sæti en rúmin.
Frá síðustu aldamótum og fram að þessum tíma hefur mátt heita óslitin byggingaöld, sem ekki þarf að lýsa. Sjálfsagt er óhætt að telja að um framfarir sé að ræða, þó það orki tvímælis í margra augum hvort hyggilega hefur verið að þeim staðið." -
Á öðrum stað í þessum bernskuminningum minnist Páll á kaup verkafólks og talar um tímabilið 1880 til aldamóta. - "Flest var það fólk í ársvistum. Kaup kvenna um árið mun hafa verið frá 15 - 25 komist allra hæðst upp í 30 krónur. Árskaup karlmanna frá 50 til 60 krónur. Auk þessa fékk þetta fólk hversdagsklæðnað, svo það mun lítið hafa þurft sjálft til hans að kosta. Í flestum tilfellum var kaup þetta goldið í kindafóðrum. Var fóðurmeðgjöf með fullorðinni kind 1 króna en með lömbum 3 krónur. Opt ljet þetta fólk húsbóndann færa frá ánum. Kom þá sumarmjólk ærinnar upp í fóður hennar og var það látið mætast. Þeir karlmenn sem voru í vinumennsku nokkur ár, eignuðust margir álitlegan fjárstofn. Þegar það fje fór að verða fleira en svo að þeir gætu haft það á kaupi sínu, fóru þeir að koma því, einkum lömbum, í fóður hjá öðrum. Þeir höfðu á boðstólum í meðgjöf það sem efnalitlum bændum kom vel, peninga, kaffi o.s.frv. Ekki kom það sjaldan fyrir að þeir ljetu lamb fyrir fóður á öðru og var kallað að gefa lamb með lambi. Í mörgum tilfellum varð þetta báðum aðilum að tjóni því þetta fóður tóku oftar þeir sem minnsta fyrirhyggju höfðu með fóðurbirgðir. En í góðum árum, þegar allt gekk sæmilega, gat þetta orðið til þess að fjölga svo fje hjá þessum vinnumönnum að það varð fleira en svo að þeir gætu ráðið við að koma því í fóður. Þeir sem ekki áttu kost á eða höfðu ekki hug á að reisa bú, fóru þá að selja bændum fjenað á leigu. Nafnkunnastur varð fyrir þetta maður sem látinn er aldraður fyrir fáum árum og alla æfi var vinnumaður. Það heyrði ég sagt að hann hafi um eitt skeið átt leigufénað, hross, kýr og sauðfénað í 4 sýslum landsins. Það er í báðum Skaftafellssýslum, Rangárvalla- og Árnessýslum. Enda bar hann um langan tíma auknefnið "hinn ríki". Þessi maður vann víst alla tíð fyrir lágu kaupi en kunni að halda utanum sitt. Kaup daglaunafólks sem varla var annað en kaupafólk um sláttinn, var fyrst þegar jeg man eftir greitt í landaurum og var vikukaup karla 20 álnir, og venjulegast greitt í smjöri og tólg. Stundum var það greitt í fjenaði. Var þá viku kaupið fullorðinn meðalvænn sauður eður annar fjénaður jafngildi hans. Á móti þessu kaupi varð hann að taka á staðnum, húsbónda að kostnaðarlausu. Vikukaup kvenna var a.m.k. helmingi lægra en karlmanna. Nokkru fyrir aldamót var farið að greiða þetta kaup í peningum og var lágmarksupphæðin fyrir karla 10 kr. á viku. Nokkur árin af síðasta tug 19.aldarinnar voru eftirsóttum karlmönnum greiddar 15 - 18 krónur á viku. Á því varð ekki mikil breyting til ársins 1914." - Flettingar í dag: 56 Gestir í dag: 11 Flettingar í gær: 328 Gestir í gær: 55 Samtals flettingar: 190696 Samtals gestir: 33862 Tölur uppfærðar: 3.4.2025 08:14:35 |
clockhere Í Flóanum Nafn: Aðalsteinn SveinssonFarsími: 8607714Tölvupóstfang: kolsholt@islandia.isHeimilisfang: Kolsholti IStaðsetning: FlóahreppurHeimasími: 4863304Tenglar |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is