Í Flóanum |
||
Fyrstu minningar úr HlíðÉg ólst upp í Hlíð hjá afa og ömmu og mömmu en mamma flutti burt þegar ég var 9 ára. Afi dó svo þegar þegar ég var 12 ára og þá fluttum við amma til Gullu og Ólafar og hennar fjölskyldu í Drápuhlíð 17 í Reykjavík. Ég var svo hjá ömmu og Ólöfu í Álfheimum 8 þar til ég var 24 ára og fór að búa sjálf. Ég man aðeins eftir að hafa sofið í kjallaranum í Hlíð en afi og amma sváfu í austurherbergi sem kallað var almenningurinn en við mamma í miðherberginu sem síðar varð baðherbergi.
Þá man ég eftir mér þegar var verið að hræra steypu með tunnu og ég fékk að sitja ofan á aktygjunum á rauðleitum hesti sem hét Börkur. Hinn hesturinn sem ég man eftir var dökkur og hét Stórólfur.
Síðan kom rauði Farmallinn. Bæirnir Hlíð og Hamrafell fengu traktora snemma en Hulduhólar og Bjargastaðir ekki fyrr en nokkrum árum síðar og voru þeir gráir og hétu Ferguson.
Fyrst fékk ég að sitja hjá afa á traktornum, síðan að standa á fjölinni aftan við bremsuna, svo sitja á mjólkurbrúsa þegar farið var með mjólkina upp afleggjarann í veg fyrir mjólkurbílstjórann hann Halla og loks fékk ég að keyra sjálf þegar ég var 7 ára. Þá var ég látin keyra örhægt milli tveggja heymúga en Sveinn og einhver annar stundum einhver Efstadalsbræðra mokuðu heyinu upp á vagninn á ferð. Var þá oft fjör og kátína enda þeir kappsamir menn.
Aðaltilhlökkunin í Hlíð voru gestakomur og bakaði amma mikið í því skyni. Oftast komu Gulla og Ingvar á sínum bíl yfirleitt færandi hendi og þá ævinlega til að gera eitthvað eins og hamast í heyskap eða taka upp kartöfflur og rófur. Lengi var beðið eftir að Ólöf kæmi heim og þá einhvers staðar langt að eins og frá Laugarvatni, úr kaupavinnu að norðan eða úr Handíðaskólaferðinni til útlanda.
Á sumrin fóru konurnar úr nælonsokkunum og geymdu þá í umslagi yfir daginn en drifu sig út á tún að raka dreifar, en allt var hreinrakað eftir rakstrarvélina. Þær sögðu það svo gott að stíga á gras.
Hversdagurinn var í föstum skorðum. Úti og inniverk alltaf unnin á reglulegum tímum. Annar hvor mánudagur var þvottadagur. Þvotturinn var verk mömmu. Þá var lagt í bleyti kvöldinu áður en þvotturinn síðan þveginn í þvottavélinni frá Skeggjastaðafólkinu eftir að hún kom og soðinn í potti og hengdur upp úti eða inni. Stundum tók tvo daga að þurrka hann. Svo var straujað næsta dag og sumt stífað og straujað eins og gardínurnar með venesíanska mynstrinu. Annað verk mömmu var að skúra, en farið var yfir gólfin á hverjum degi og meira að segja strokið niður steinstigann ofan í kjallara með sérstakri tusku því ekki hefur mátt slíta þeirri venjulegu á steininum. Ég skil ekki hvernig amma hefur komist yfir öll þessi verk ásamt fjósverkum eftir að mamma fór.
Mikið var hlustað á útvarpið, allar fréttir og veðurfréttir og svo búnaðarþætti og óskalagaþætti amma stundum að syngja með, eftir hádegið. Síðan var hlé tvisvar yfir daginn en samfelld dagskrá á kvöldin. Þá var setið í eldhúsinu og hlustað á framhaldssöguna, leikrit eða Benedikt frá Hofteigi tala um daginn og veginn. Amma var alltaf að stoppa í sokka eða bæta galla meðan hún hlustaði og afi stundum með eitthvað milli handanna. Annars man ég að hann var oft að skrifa eitthvað, hafði þá skáphillu á hnjánum fyrir skrifborð og skrifaði með grænum sjálfblekungi. Eitt var æviágrip Helga í Þykkvabæ.
Annars er það sem ég man helst í sambandi við hann afa hvað hann hafði hlýjar hendur þegar hann leiddi mig við hönd sér þegar farið var í girðingu eða í langferð niður að bragga að sækja eitthvað en þar var geymt ýmislegt nýtilegt úr bransanum sem kallað var, þ.e. hlutir sem ameríski herinn skildi eftir.
Elín Sigurðardóttir Flettingar í dag: 56 Gestir í dag: 11 Flettingar í gær: 328 Gestir í gær: 55 Samtals flettingar: 190696 Samtals gestir: 33862 Tölur uppfærðar: 3.4.2025 08:14:35 |
clockhere Í Flóanum Nafn: Aðalsteinn SveinssonFarsími: 8607714Tölvupóstfang: kolsholt@islandia.isHeimilisfang: Kolsholti IStaðsetning: FlóahreppurHeimasími: 4863304Tenglar |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is