Í Flóanum

24.04.2010 07:39

Vatnsveitan

 Á því svæði sem nú heitir Flóahreppur hafa verið reknar sameiginlegar dreifiveitur fyrir neysluvatn í hátt í fjörutíu ár. Um gríðalega mikla og stórhuga framkvæmd hefur verið að ræða á sínum tíma fyrir þau þrjú sveitarfélög sem þá voru hér starfandi. Ekki þarf að efast um það að þessi framkvæmd skipti sköpum fyrir allt samfélagið hér á sínum tíma og þær hafa skilað samfélaginu miklu á þessum áratugum sem þær hafa verið starfandi.

Í flestum tilfellum hafa þessar vatnsveitur reynst vel og eru í fullu gildi enn í dag. Töluverð breyting hefur samt orðið meðal neytenda og vatnsnotkun aukist á hvern íbúa hér eins og annarsstaðar. Í upphafi virðast menn þó hafa haft þá framsýni að dreifikerfið hefur í flestum tilfellum getað annað viðbótarnotkunn og nýjum notendum. Ljóst er samt að á ákveðnum stöðum er afkastageta veitunnar að verða of litil.

Þau vandamál sem helst hafa komið upp í rekstri þessara veita eru m.a. bilanir á veitunni. Lekar hafa á sumum svæðum verið þrálátir og kostnaður nokkur við lekaleit og viðgerðir. Vandamál við vatnslindirnar hafa einnig komið upp. Vatnsborð í þeim hefur lækkað í þurrka tíð og einnig hafa jarðskjálftar haft áhrif á lindirnar. Í einhverjum tilfellum hafa óhreinindi greinst í vatninu og í verstu tilfellum hefur gerlafjöldi farið yfir viðmiðunarmörk heilbrigisyfirvalda.. Þegar það hefur komið upp hefur það verið rakið til yfirborðsmengunar í "Urriðafosslind". Sú lind var virkjuð fyrir Stokkseyri á sínum tíma. Eftir að ný aðveita fyrir Stokkseyri frá Selfossi var tekin í gagnið hefur Urriðafosslind eingöngu verið notuð til þess að koma í veg fyrir vatnsleysi í miklum þurrkum.   


Í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga var nokkuð rætt um að úrbætur þyrfti að gera  á vatnsveitunni. Það vandamál sem helst var verið að benda á var þrýstingsleysi á vatnsveitunni í efsta hluta sveitarfélagsins þ.e.í hluta af gamla Hraungerðishreppnum og á efstu bæjum í gamla Villingaholtshreppnum og á sumarhúsasvæðunum í Merkurhrauni, Merkurlaut og í Mörk.  Til þess að bregðast við þessu hefur verið sett upp dæla við "Samúelslind" í Þingdal. Í fyrstu var keyrð þarna dísel rafstöð og komið fyrir bráðabirgða dælu en nú er búið að fá þarna rafmagn með heimtaug frá RARIK og koma fyrir varanlegri dælu með stýribúnaði sem heldur uppi jöfnum þrýsingi á veitunni. Jafnframt því var lindin fóðruð upp og tengingar allar endurnýjaðar.
 

Á síðasta ári var gerð umfangsmikil bilanaleit á veitunni. Það skilaði heilmiklum árangri og hefur viðgerð farið fram á veitunni á ýmsum stöðum. Vatnsveitan hafði í þessari vinnu aðgang að sérstökum rennslismæli sem mælir rennsli í lögnunum með nemum sem settir eru utan á þær. Þessi mælir hefur reynst mjög vel í þessarri bilanaleit þar sem með honum er hægt að mæla rennslið hvar sem er á lögnunum og rekja sig að bilunum.

Jafnframt þessu hefur sveitartjórn Flóahrepps leitað samstarfs við önnur sveitarfélög um vatnsöflun. Markmið sveitarstjórnar í þeirri vinnu er að tryggja að veitan hafi alltaf aðgang að fyrsta flokks neysluvatni á sem öruggastan hátt. Horft hefur verið til þess að geta sótt vatn á öflugri vatnstökusvæði en hægt er að finna hér innansveitar og með vatnsverndarsvæði utan byggðar við rætur hálendis eða fjalla. Hér er um mikið öryggisatriði að ræða og horft hefur verið til framtíðar í allri þessarri vinnu.

 

Flettingar í dag: 272
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 197
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 134697
Samtals gestir: 24611
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 13:17:06
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar