Vegna mikilla umræðu og skrifa um samninginn um neysluvatnið sem sveitarfélögin Árborg og Flóahreppur gerðu sín á milli fyrir nokkru ritaði ég eftirfarandi grein í héraðsblöðin í þessari viku:
Í síðasta mánuði var undirritaður samningur um öflun og sölu neysluvatns milli sveitarfélagsins Árborgar og Flóahrepps. Með þessum samningi er mikilvægu skrefi náð í neysluvatnsmálum í Flóahreppi. Samningurinn tryggir vatnsveitu Flóahrepps aðgang að fyrsta flokks neysluvatni hvenær sem er og í því magni sem á þarf að halda hverju sinni, allt að 20 lítum á sekúndu. Hér er um mikið öryggisatriði að ræða fyrir vatnsveitu Flóahrepps en sem kunnugt er hafa verið vandræði með vatn í sveitarfélaginu í þurrkum á liðum sumrum.
Samkvæmt samningi sem Flóahreppur gerði við Landsvirkjun sumarið 2007 mun fyrirtækið fjármagna þær framkvæmdir sem ráðast þarf í vegna þessa samnings. Allar framkvæmdir innan sveitarfélagsmarka Flóahrepps verða eign og hluti af veitukerfi sveitarfélagsins. Þær framkvæmdir sem ráðast þarf í innan bæjarmarka Árborgar mun Árborg endurgreiða Flóahrepp að fullu í formi vatns á næstu árum eða áratug. Viðskipi með vatnið fara fram á sveitarfélagsmörkum samkvæmt mæli á sanngjörnu verði fyrir bæði sveitafélögin.
Sú staðreynd að Flóahreppur gerði samning við Landsvirkjun um þennan stofnkostnað í tengslum við gerð aðalskipulags hefur orðið tilefni þess að ýmsir hafa reynt að gera vatnssamninginn í heild tortryggilegan. Fullyrt hefur verið að einhver önnur sjónarmið en hagsmunir íbúa Flóahrepps hafi verið hafðir að leiðarljósi við samninsgerðina. Svo er alls ekki. Landsvirkjun hafði engan sérstakan áhuga á að fara í þetta verkefni nú. Það er ekki von til þess að ráðist verði í virkjun Urriðafoss á þessu ári og Umhverfisráðherra var búinn að setja aðalskipulagsmálið í ferkari tafir. Það er eingöngu vegna þess að fyritækið er samningbundið Flóahrepp að þeir koma að málinu nú.
Það er einnig eingöngu vegna hagsmuna vatnsnotenda í Flóahreppi að ekki er beðið með að fara í framkvæmdir þegar samningsniðurstaða loks er fengin. Það er mikilvægt að koma sem fyrst á öflugum tengingum milli sveitarfélaga þannig að einhver not gæti verið af framkvæmdinni strax í sumar. Samningurinn er óuppsegjanlegur til þess að tryggja að Flóahreppur hafi not af framkvæmdinni til framtíðar en hér er vissulega verið að ráðstafa miklum fjármunum í framkvæmdir.
Bent hefur verið á að hagstæðara gæti hafa verið að sækja vatnið í grunnvatnsstraum sem líkur eru á að sé undir hrauninu í landi Hjálmholts noðran við Bitru. Afhverju menn halda að hagstæðara sé að fara í vatnsölfun á nýju svæði þar sem eftir er að gera nauðsynlegar rannsóknir, semja um vatnsréttindi, bora og virkja neysluvatnsholu sem gefi allt að 20 lítra á sekúndu og leggja stofnlögn úr Hjálmholtshrauni í miðlunartanka veitunnar veit ég ekki. Hinsvegar er nauðsynlegt að benda á að vatnstaka í hrauni á láglendi með landbúnað og sumarhúsabyggð allt í kring finnst mér ekki spennandi kostur. Sú vatnsvernd sem er vissulega þarna er takmörkuð og nær aðeins að sveitarfélagsmörkum. Þar fyrir ofan er skipulagt sumarhúsahverfi með tugi rotþróa.
Ef Flóahreppur ætlar að hafa það áfram að markmiði að bjóða öllum vatnsnotendum í sveitarfélaginu, sem þess óska, að tengjast vatnsveitu sveitarfélagsins með gæða neysluvatni er ekki komist hjá kostnaðarsömum úrbótum. Hvort næsta sveitarstjórn vill falla frá samkomulaginu við Landsvirkun frá 2007 eða ekki breytir þar engu um. Ef það á að fall frá þessu samkomulagi bið ég menn samt að hafa þann metnað að takast á við þau verkefni sem nauðsynleg eru á raunhæfan hátt.