Í Flóanum

Færslur: 2012 Desember

30.12.2012 07:14

Hrossasmölun, tíðarfarið og minnarbrot

Það er ágæt ráðstöfun á tíma að taka hluta af jóladögunum í að gera eitthvað sem kemur blóðinu á hreyfingu og brenna eitthvað af þeim fóðureiningum sem maður hefur innbyrt. Þess vegna var það bara hressandi að smala saman hrossunum um miðjan jóladag.

Okkur þótti tímabært að taka tryppin úr stóðinu og koma þeim annað þar sem hægt er að gefa þeim betur. Á miðvikudaginn s.l. voru svo folaldsmerarnar í Lyngholti reknar inn í gerði og folöldin tekinn undan og hingað inn. Það gerir gegningarna bara skemmtilegri að vera með folöld inni.

Hér hefur tíðarfarið verið með ágætum það sem af er vetri. Þrátt fyrir fréttir af illviðrum og erfiðleikum vegna veðurs og færðar víða um land höfum við hér í Flóanum blessunarlega allveg sloppið við það fram að þessu. Ég vona að svo verði áfram og að ótíðin annarstaðar á landinu fari nú ljúka. Annar er aldrei á vísan að róa með veðurfarið og nokkuð víst að svoleiðis verður það áfram.

Fyrr á þessu ári setti ég tengil hér á síðuna þar sem ég hef safnað saman ýmsum heimildum um æfi og störf afa míns og ömmu, Þórarins Auðunssonar og Elínar G. Sveinsdóttur. Safn heimilda um ævi og störf ÞA og EGS

Niðjar þeirra hafa hist á ættarmótum nokkru sinnum og í tilefni þess hefur verið tekið saman, af ýmsum, ýmislegt efni um þeirra æfi. Þegar við hittumst hér í Flóanum í vor ( Skemmtilegt ættarmót () ) safnaði ég saman því efni sem ég komst yfir og setti hér á heimasíðuna. Tilgangurinn var að gera þetta efni aðgegilegra fyrir þá sem áhuga hafa.

Nú um daginn bætti ég svo við grein sem frænka mín, hún Ólöf Þórarinsdóttir tók saman og eru hennar minningar og frásögn af lífshlaupi sínu. \files\Minningarbrot frá Ólöfu.pdf  Mér finnst bæði skemmtilegt  og mikilsvirði að eiga þetta efni um lífshlaup afa míns og ömmu. Vona að öðrum finnist það líka.  emoticon 
 

 

22.12.2012 07:21

Brandajól... eða ekki.

Nú er sól tekin að hækka á lofti þennan veturinn, en vetrarsólhvörf munu hafa verið í gær. Nánar tiltekið rétt undir hádegi. Dagurinn í dag er því örlítið lengri en í gær. Það munar nú kannski ekki miklu fyrstu dagana, aðeins nokkrum sekúndum, en aðalatriðið er að það er í rétta átt.

Nú fara að koma jól og þannig stendur á þetta árið að það eru afskaplega fáið virkir dagar síðustu 10 daga ársins. Fara menn þá gjarnan að tala um hvort um sé að ræða "Brandajól". Ég held nú reyndar að svo sé ekki í ár. Eftir mínum heimildum var fyrst og fremst talað um brandajól þegar jóladag bar upp á mánudag.

Þegar þannig stóð á var aðfangadagur helgur dagur þar sem hann bar upp á sunnudag. Þannig voru komnir þrír helgir dagar í röð um jólin. (aðfangadagur, jóladagur og annar í jólum). Um áramót féll þá einnig helgur dagur (gamlársdagur) næst við nýársdag og fyrsti dagur eftir þrettándann var svo næsti sunnudagur þar á eftir. 

Árið 1770 mun jólahelgin hafa verið stytt og þá hætt að halda þriðja jóladag heilagan og eins þrettándann. Fyrir þann tíma var því talað um fjórheilagt um jólin þegar brandajól voru. 

Eftir 1770 var farið að tala um "Brandajól" einnig þegar jóladag bar upp á föstudag því þá fóru einnig saman þrír helgir dagar um jólin. Var þá gjarna talað um "litlu brandajól" þar sem helgidagar fóru þá ekki saman um áramót eins og um "stóru brandajól".

Annars er mér slétt sama hvað helgidagarnir eru margir um jólin og það breytir engu um mitt jólahald. Ég ætla þessi jól sem önnur fyrst og fremst að njóta þess að vera með mínu fólki. Hér er oft fjölment um jóladagana og ég hlakka bara til. Hefðbundin bústörf eru hinsvegar allaf eins hvort sem um helgidag sé að ræða eða ekki.

Gleðileg Jól.  emoticon


15.12.2012 07:15

Litbrigði himinsins

Á þessum árstíma er dagsbirtan mjög af skornum skammti. Ég játa það hreint út að ég sakna þess og hlakka alltaf til þegar sól fer aftur að hækka á lofti. Litbrigði himinsins geta aftur á móti verið mikil þennan stutta tíma sem sólin setur mark sitt á daginn í skammdeginu



Hver  árstími hefur sín verkefni og það er nú þannig í Flóanum að alltaf er eitthvað áhugavert um að vera. Þessa dagana er ég að láta sæða þær ær sem ganga. Maður reynir af kostgæfni að velja álitlega hrúta úr hrútastofni sæðingarstöðvarinnar. Aftur á móti hefur maður enga stjórn á því hvaða ær eru að ganga þessa daga. Þannig stundum við saman sauðfjárrækt, forsjónin og ég, þessa dagana.

Eftir helgi er svo fyrirhugð að hleypa hrútinum í verkið. emoticon

 

09.12.2012 07:31

Gömul tillaga

Það rifjaðist upp fyrir mér nú um daginn þegar ég sat fulltrúaráðsfund Auðhumlu (félag mjólkurframleiðenda sem á meirihluta í MS) að fyrir 15 árum síðan flutti ég tilllögu á aðalfundi Félags Kúabænda á Suðurlandi. Tilefni þess að þetta fór að rifjast upp fyrir mér var að nokkuð var rætt á fundinum um hátt kvótaverð.

Það kom fram í máli manna m.a. hjá stjórnarformanni Auðhumlu að verðið á mjólkurkvótanum er einn af stóru kostnaðarliðunum í framleiðslukostnaði mjókurinnar. Sumir mjólkurframleiðendur, og það kom fram á fulltrúaráðsfundinum, hafa sett fram þá skoðun að eina úrræðið við þessu er að brjótast út úr kvótakerfinu með stóraukinni framleiðslu til útflutnings.

Það má vel vera að það sé eina leiðin til að losna undan kostnaði við hátt kvótaverð. Mikilvægt er samt gera sér grein fyrir því að ef farin er sú leið er verið að grafa undan þeim stuðingi sem veittur er og því verði sem fengist hefur fyrir mjólkina á innanlandsmarkaði.

Það þarf nú engum að koma á óvart að kvótaverðið er beinn kostnaðarauki við mjólkurframleiðsluna. Á það var bent, og við því var varað, þegar frjáls viðskipti með framleiðsluréttinn voru heimiluð. Þrátt fyrir það voru það forsvarsmenn kúabænda sem helst börðust fyrir því að þessi heimild fengist. Enda töldu menn þá að það væri vænlegast til þess að brjótast undan algerri stöðnun sem þá ríkti í framleiðslumálum mjókurinnar.

Þegar ég flutti áðurnefnda tillögu, fyrir 15 árum, voru rekstraraskilyrði  í mjólkurframleiðslunni mjög erfið. Bændur höfðu árin á undan tekið á sig hagræðingakröfu með beinni verðlækkun á mjólkina. Það bættist við að offramboð var á nautakjöti sem bæði leiddi til verðlækkunnar á öllu nautgripakjöti og margra mánaða bið eftir slátrun. Á þessum tíma voru skagfirskir kúabændur stórtækir í kvótakaupum með Kaupfélag Skagfirðinga sem bakhjarl við fjármögnun.  

Tillagan var svohljóðandi:

    Aðalfundur Félags Kúabænda á Suðurlandi, haldinn í Þingborg 2. apríl 1997 krefst leiðréttingar á kjörum mjólkurframleiðenda strax. Mjög brýnt er að bæta rekstrarsilyrði mjólkurframleiðslunnar ef afstýra á hruni í stéttinni.
    Fundurinn felur stjórn félagsins að beita sér af alefli fyrir bættum kjörum og bendir á eftir farandi í því sambandi:
    1)     Mjólkurverð til bænda verður að hækka. Það er langt frá að verð til bænda hafi fylgt verðhækkunum. Sú krafa um hagræðingu sem gerð hefur verið til bænda með lækkuðu verði er með öllu óraunhæf við núverandi rekstrarskilyrði. Of lágt verð á undanförnum árum hefur ekki aðeins leitt til þess að tekjur bænda hafa minnkað heldur einnig að gengið hefur verið á eignir á búunum. Slíkt leiðir aðeins  af sér kostnaðarauka og verri samkeppnisaðstöðu í náinni framtíð.
    2)    Framleiðslustýringarkerfi með takmarkalausri verslun með framleiðslurétt þarf að leggja niður. Það hefur sýnt sig að frjálst framsal á framleiðsurétti er ekki sú leið sem gerir bændum kleift að hagræða í sínum rekstri eins og stefnt hefur verið að. Útilokað er að ná fram betri nýtingu á fjárfestingum og vinnuafli sem fyrir er á búunum ef ekki er hægt að auka framleiðslu nema með því að kaupa framleiðslurétt. Það leiðir aðeins af sér aukningu á því fjármagni sem bundið er í hverju búi og minni arðsemi. Það eru allt aðrir hagsmunir sem ráða verði á framleiðslurétti enda hafa bæði mjólkursamlög og sveitarfélög skipt sér að þessum viðskiptum með þeim afleiðingum að verð hefur farið upp úr öllu valdi, Í raun er hér um "eyðibýlastefnu"  að ræða þar sem byggðir landsins reyna að verja sína sveitir. Kostnaður af þvi lendir fyrst og fremst á bændum.
    3)    Efla þarf félagsvitund bænda og samstöðu þeirra til að ná fram betri kjörum. Ljóst er að vegna samstöðuleysis hefur t.d. ekki verið hægt að halda uppi lágmarks verði á nautakjöti. Þrátt fyrir viðamikð og dýrt félagskerfi sem gæta á hagsmuna bænda hefur sú barátta mistekist í mörgum tilfellum og samstöðuleysi einkennt margar ákvarðanir þegar til kastana kemur. Mikilvægt er því að efla umræður meðal bænda og tengsl forustunnar við þá. Stjórnir samtaka og stofnanna bænda þurfa í ríkari mæli að leggja sig niður við að ræða við bændur og rökstyðja sínar skoðanir. Stefnu og stefnubreytingar þarf að ræða fyrst meðal bænda áður en ákvarðanir eru teknar en ekki öfugt eins og oft vill verða. Þetta á við um allar ákvarðanir, hvort sem um er að ræða framleiðslustjórnun, innflutning á nýju kúakyni eða einhverjar aðrar ákvarðanir.

Ef ég man rétt þá urði nokkrar umræður um þessa tilögu á fundinum á sínum tíma. Það kom strax fram að stjórnarmenn félagsins vildu ekki styðja þann kafla sem fjallaði um kvótakerfið (lið 2). Fundastjóri fékk mitt leyfi til þess að bera tillöguna upp í þremur liðum. Mig minnir að liðir 1 og 3 hafi verið samþykktir með þorra atkvæða. Liður 2 fékk einhver mótatkvæði en var samþykktur samt  með meirihluta atkvæða. Fundurinn var fjölsóttur.

Ekki var ég var við hvað stjórn FKS gerði síðan með þessa aðalfundarsamþykkt. Þau muna það kannski þau sem sátu í stjórn á þessum tima.

 

  • 1
Flettingar í dag: 29
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 94
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 131205
Samtals gestir: 24011
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 02:13:28
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar