Í Flóanum

Færslur: 2016 Júní

12.06.2016 14:09

Flóahreppur 10 ára

Í dag er Flóahrepppur 10 ára. Þennan dag 12. júní 2006 fékk, þá nýkjörin sveitarstjórn í nýju sameinuðu sveitarfélagi hér í Flóanum, umboð sitt. Hún kom saman til fyrsta fundar þennan dag fyrir 10 árum. Meðal verkefna þess fundar var að ákveða nafn á þessu nýja sveitarfélagi og kjósa oddvita sveitarstjórnar. Einng samþykkti þessi fundur m.a.að auglýsa til umsóknar stöðu sveitarstjóra hjá sveitarfélaginu.

Samþykkt var samhljóða að sveitarfélagið ætti að heita Flóahreppur. Samhliða sveitarstjórnar kosningunum, hálfum mánuði fyrr, fór fram skoðannakönnun meðal íbúa í sveitinni um nafn á þetta nýja sveitarfélag. Nokkur meirihluti, þeirra sem þátttóku, völdu nafnið Flóahreppur.

Á þessum fyrsta fundi var ég kosinn oddviti sveitarstjórnar Flóahrepps. Það hafði eins og gefur að skilja nokkrar breytingar á mínum daglegu störfum. Ég ákvað með litlum fyrirvara fyrir kosningarnar að gefa kost á mér í þetta. 

Ég var að vísu búinn að starfa með hópi fólks í sveitinni í nokkrar vikur að undirbúa framboð til sveitarstjórnar. Þessi hópur hafði það fyrst og fremst að leiðarljósi og virkja fólk almennt í sveitinni til þátttöku  í stjórnun og rekstur nýs sveitarfélags. Þetta var hópur sem fannst það ekki vænlegur kostur að aðeins einn framboðslisti  væri í kjöri sem yrði þá sjálfkjörinn.

Vitað var að fráfarandi sveitarstjórnir gömlu sveitarfélaganna hyggðust leggja fram sameiginlegan lista. Það fylgdi einnig sögunni að í þeim hópi var það talið vænlegast að sameinast um einn lista fyrir kosningar til að forðast einhverja flokkadrætti og sundrung í nýju sveitarfélagi áður en það yrði í raun til.

Þessu voru ekki allir sammála og því var farið í þá vinnu að kanna og undirbúa annað framboð. Kjósendur hefðu þá allavega einhvert val í kosningunum. Þau sem komu fyrst að máli við mig um að taka þátt í þessum undirbúningi voru þau hjón á Læk, Guðbjörg og Gauti heitinn. Þau komu hér til mín einn morguninn til að ræða þetta.

Í framhaldi af því fór ég að taka þátt í þessari vinnu sem aðalega gekk út á að skilgreina stefnu og markmið væntanlegs framboðs. Þetta varð fljótlega nokkuð álitlega stór hópur af áhugasömu fólki um málefni sveitarfélagsins. Ekki vorum við mjög upptekin af því framanaf, hvaða einstaklingar myndu skipa þennan lista.

Svo þegar fór að nálgast þann dag að skila þyrfti inn framboði til kjörstjórnar var ekki hjá því komist að fara að velta því fyrir sér. Búið var að vinna vel í málefnagrundvelli og mér fannst allt þetta fólk finna sameiginlegan grundvöll fyrir framboðinu. Ágætlega gekk að fá fólk til þess að taka sæti á framboðslistanum. 

Aðeins átti nú eftir að taka ákvörðun um hver myndi leiða listann og vera tilbúinn til þess að taka að sér stöðu oddvita ef listinn fengi meirihluta atkvæða. Þegar þarna var komið sögu var ég búinn að gefa kost á mér í eitthvað af efstu sætunum og taka þá sæti í nýrri sveitarstjórn ef listinn fengi fylgi. Á þeirri stundu hvarlaði ekki að mér að ég yrði oddvitaefni listans.

En það reyndist aðeins snúnara en ég reiknaði með að taka ákvörðun um hver ætti að leiða listann. Þegar á reyndi sýndist sitt hverjum í því efni og niðurstaða ekki augljós. Enginn í hópnum gerði tilkall til þess en vafalítið hefðu einhverjir fleiri en ég fengist til þess ef eftir því hefði verið leitað og samstað verið um.

Mér fannst ég hinsvegar nú verða þess áskynja að margir í hópnum höfðu af þessu aðeins áhyggur.  Nú var farið að nefna mitt nafn í þessu samhengi og eftir að hafa metið stöðuna svolítið í hópnum fór ég að taka alvarlega að skoða það. Mér fannst þessi vinna sem búin var að fara fram frábær og nú yrðu menn að axla ábyrð sína til að koma þessu í framkvæmd þ.e. leggja fram framboðslista.

Ég ræddi því þessa stöðu við mitt fólk hér heima. Ekki kom til greina að gefa kost á sér í þetta nema hafa fjölskylduna alla með sér. Þar skipti máli bæði búrreksturinn sem við stöndum saman að og svo bara fjölskyldan sjálf. Það var einnig alveg skýrt að minni hálfu að gera fyrirfram ráð fyrir þeim möguleika að framboðið gæti fengi meirihlutafylgi 

Ekki þurfti ég að ræða þetta lengi við mitt fólk. Öll sem eitt kvöttu þau mig til þess að gefa kost á mér í þetta ef ég hefði áhuga á og treysti mér til þess. Það varð því úr að ég gaf færi á því að ég tæki forystu sætið á listanum. Strax og ég hafði svarað þessu varð ég ekki var við annað í hópnum en einhugur væri um þá niðurstöðu.

Þegar kosningaúrslit lágu svo fyrir að kvöldi kjördags kom í ljós þetta framboð fékk 4 fulltrúa af 7 í sveitarstjórn en framboð  gömlu sveitarstjórnanna fékk 3 fulltrúa kjörna. Þessi 7 manna sveitarstjórn starfaði svo næstu 4 árin. 

Það er mitt mat að þetta var farsæl sveitarstjórn sem var nokkuð samheldin og samstíga í mörgum málum. Hún var málefnaleg í allri sinni vinnu og þó hún hafi þurft að fást við erfið og krefjandi verkefni og alls ekki alltaf sammála var ávalt unnið af heilindum af öllum sveitarstjórnarmönnum.


Fyrsta sveitarstjórnar Flóahrepps 2006-2010 . F.v. Björgvin Njáll Ingólfsson, Einar Helgi Haraldsson Guðmundur Stefánsson, Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri, Aðalsteinn Sveinsson, Jóhannes Hreiðar Símonarson, Guðbjörg Jónsdóttir og Valdimar Guðjónsson.05.06.2016 21:37

Íris Harpa

Það var hátíð í Gamla bænum í austurbænum í Kolsholti  í gær. Séra Sveinn Valgeirsson var hér mættur til að skíra litlu dótturdóttur mína. Allt hennar nánasta fólk var viðstatt þessa athöfn og allir í hátíðarskapi. Skýrnarvottar voru, Kolbrún amma litlu stúlkunnar og Jón Valgeir í Lyngholti. 

Íris Harpa Kristinsdóttir er hennar fallega nafn.Þetta er nú reyndar ekki í fyrst skipti sem séra Sveinn kemur hér í þessum embættisverkum. Hann hefur nú skírt fimm barnabörn mín á rúmlega fimm árum. Rakel Ýr () Steinunn Lilja () Ásta Björg og Hrafnkell Hilmar ()Þau settust öll örskots stund niður með prestinum í gær þegar búið var að skíra og ræddu málin eins og fólk gerir í góðum veislum.
  • 1
Flettingar í dag: 222
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49878
Samtals gestir: 5989
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 05:07:37
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar