Í Flóanum

Færslur: 2013 Febrúar

20.02.2013 07:23

Samkeppni um land

Ég sat áhugavert málþing í Gunnarsholti í gær. Það var Rótarýklúbbi Rangæinga sem, í samvinnu við Landgræðsluna, stóð að þessu málþingi sem bar yfirskriftina "Samkeppni um land" og fjallaði um landnýtingarstefnu.

Landrími er að mínu mati ein af auðlindum Íslands. Mörg sóknarfæri geta verið í ýmiskonar landnýtingu og spurning hvort og þá með hvaða hætti það sé ástæða til af hafa áhrif á það og stýra hvernig landi er ráðstafað. Á málþinginu var m.a.fjallað um möguleika í kornrækt, nautgriparækt, sauðfjárrækt, hrossarækt, skógrækt, og ferðaþjónustu með tillit til landnotkunnar.

Það er fyrst og fremst í aðalskipulagi sveitarfélaga sem hægt er að hafa áhrif á landnotkun. Þó vissulega skipulagsvaldið sé á hendi sveitarstjórnar er það nú samt ekki svo einfalt að sveitarstjónir á hverju tima geti haft hlutina eftir sínu höfði eða geðþótta. Taka þarf tillit til landskipulagstefnu ríkistjónarinnar og samkvæmt ýmsum lögum, og tillögu að lögum, er ríkisvaldið sífellt meira að seilast inn í þetta skipulagsvald.

Samráð við almenning er tryggt í lögum og til allra athugasemda þarf sveitarstjórn að taka afstöðu og rökstyðja hvernig brugðist er við þeim. Í skipulagsvinnu þarf sveitarstjórn svo að sjálfsögðu að hafa að leiðarljósi bæði rannsóknarreglu, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Bæði gangvart íbúum sveitarfélagsins allment og einnig einstaka landeigendum. 

Það er ekki svo ýkja langt síðan dreyfbýli landsins varð skipulagsskylt. Skipulagsvinna í dreyfbýli hefur að mínu mati svolítið einkennst af því að skilgreina sérstaklega land sem fara á undir sumarhúsasvæði, íbúabyggð, iðnaðarsvæði og þjónustusvæði. Afgangurinn er svo skilgreindur sem landbúnaðarsvæði. Á landbúnaðarsvæðum er síðan heimilt að gera ýmislegt annað en hefðbundinn landbúnað en samt í takmörkuðu magni.

Hér í sveit sýnir reynslan að ýmiskonar starfsemi getur átt heima í dreyfbýli og nauðsynlegt er fyrir samfélagið að tryggja að svo geti verið í framtíðinni. Það er samt íhugunnarefni hvort skynsamlegt er að það leiði til þess að jarðir bútist niður í tóm smábýli eða heilu jarðirnar séu teknar undir sumarhúsabyggð, eða aðra starfsemi, óháð því hvernig land er um að ræða.

Á málþinginu í Gunnarsholti var m.a. bent á hvað gæði lands til ræktunnar er misjafnt. Rök voru færð fyrir því að ástæða sé til þess, og sum sveitarfélög hafa þegar farið í þá vinnu, að flokka land með tillit til ræktunnarskilyrða. Þessi flokkun getur síðan orðið til gagn í skipulagsvinnunni þegar fjallað er um hvaða landnotkunn á að leyfa.

Ég held að þetta sé bæði tímabært og áhugavert að skoða betur. emoticon

17.02.2013 07:36

Folaldasýning

Hrossaræktarfélag Villingaholtshrepps efndi til folaldasýningar í gær. Sýningin var haldin í glæsilegri aðstöðu að Austurási. 35 folöld frá 23 eigendum og 12 bæjum mættu til leiks. Sitt sýndist hverjum um ágæti folaldanna en eins og lagt var upp með var það skoðun dómaranna sem réð úrslitum.


Glæsileg aðstaðan í Austurási.

Samt er það svo að flest þessara folalda verða áfram efnileg og það verða þau sjalfsagt þar til annað kemur í ljós (eða ekki). Tilgangur svona sýningum er nú fyrst og fremst að hittast og hafa gaman af.


Eigendur með verðlaunin: Ragnhildur Austurási, Bjarni Syðri-Gróf, Elin Bjarnveig Egilsstaðakoti, Ólafur Veigar með ömmu sinni, Einar Egilsstaðakoti, Haukur Austurási og Alda Syðri-Gróf.

Verðlaunuð voru þrjú merfolöld og þrjú hestfolöld. Reyndar var það svo að það voru folöld frá þremur sömu bæjunum í hvorum flokki sem fengu verðlaun þ.e. Austurási, Syðri-Gróf og Egilsstaðakoti.


Sigmar Örn, Hrafnkell Hilmar, Aldís Tanja, Sandra Dís og Arnór Leví í Jaðarkoti fylgjast með folöldunum

Eins og stundum áður þegar hestamenn koma saman reyndu menn fyrir sér í hestaviðskiptum. Allavega fjölgaði hér í hesthúsinu eftir sýninguna en það skrifast á fjölskylduna í Jaðarkoti. emoticon

 

11.02.2013 07:18

Bolludagur

Bolludagur er í dag og vona ég að þið getið notið þess að fá ykkur bollur í einhverri mynd í tilefni dagsins. Vafalaust hafa margir tekið forskot á sæluna og gúffað í sig rjómabollum með kaffinu í gær. Það var allavega gert hér á bæ.

Reyndar notuðum við daginn í gær einnig til þess að elda saltkjöt og baunir í tilefni sprengidagsins sem er á morgun. Hér var margmenni í mat eins og stundum áður um helgar. Öll okkar börn, tengdabörn og barnabörn ásamt nokkrum vinum og vandamönum borðuð með okkur. Fyrst saltkjöt og baunir í hádeginu og svo bollukaffi síðdegis. emoticon

Milli matar og kaffi lögðum við Jón á og riðum niður í Jaðarkotsland og litum á hrossin. Sóttum fleiri reiðhross og tóku inn. Hesthúsið er nú að verða fullt og er komin hugur í okkur að stunda útreiðarnar. Með hækkandi sól og vorblíðu flesta daga færast menn allir í aukana að þessu leiti. Stefán Ágúst frændi minn er nú einnig að flytja tímabundið á Selfoss og sér fram á að geta stundað útreiðar meira með okkur á næstu missserum.

Reynslan verður svo að skera úr um það hvort maður finnur tíma til þess að ríða út. Allavega eru áformin skýr og nú reynir á að nota þann tíman vel sem gefst. emoticon 

Hrossaræktarfélögin í Flóahreppi standa í kvöld fyrir fræðslufundi um fóðrun hrossa. Fyrirlesari er Ingimar Sveinsson fyrrverandi kennari á Hvanneyri. Rétt væri að mæta og rifja upp helstu atriðin í fóðurfræðinni og annað sem fram kann að koma.  emoticon

 06.02.2013 07:28

"....Aggaggagg sagði tófan í Koti..."

Hér í Flóahreppi erum við ekki í vandræðum með að komast á Þorrablót. Nánast allar helgar á Þorranum eru haldin þorrablót í sveitinni og eru þau hvert öðru fjölsóttari og skemmtilegri. Stundum hefur maður farið á nokkur sama árið en í flestum tilfellum lætur maður sér nægja að mæta á þorrablótið í Þjorsárveri. Þar hef ég mætt á hverju ári allt frá því maður var rúmlega fermdur.

Það var um síðustu helgi sem blótið í Þjórsárveri var haldið og að vanda var um góða skemmtun að ræða. Þorrablótsnefndin, sem samanstóð af íbúum í vestasta hluta af gamla Villingaholsthreppum, bauð upp á ljúffengan þorramat, frábæra skemmtidagskrá og fjörugan dansleik.

Allt frá því að ég kom fyrst á þessar skemmtanir finnst mér, á hverju ári, skemmtiatriðin toppa allt það sem gert hefur verið áður og þannig var það einnig nú í ár. Dagskráin stóð saman af leikþáttum og söngvum á frumsömdum textum ásamt því að myndband með "fréttaþætti" úr sveitinni var sýnt á tjaldi.  

Ýmislegt var tekið fyrir úr mannlífinu í sveitinni. M.a.var kvartað sáran yfir því að oddvitinn í Flóahreppi tækist aldrei að gera neinn skandal sem nota mætti í efni á þorrablót. Einnig þótti sjálfsagt mál að skjóta á utanlansferð kvennfélagsins og hin geðþekki flóttamaður Matthías Máni birtist ítrekað í hinum ýmsu atriðum án þess að nokkur maður tæki eftir honum.

Ýmislegt annað var tekið fyrir með skírskotun til atburða og fólks í Flóahreppum. Það þótti t.d. við hæfi að yrkja heilan brag ( lag: Siggi var úti.. ) og setja upp leikþátt um hildarleik sem átti sér stað hér í sveit í vor og ég sagði frá hér á síðunni. Lágfóta ()

Um leið og bragurinn var sunginn birtust á sviðinu helstu persónur þessa dramatíska atburðar. Einnig komu þar fram lambær og ýmis kennileiti og gróður sem við átti til þess að túlka framgang sögunnar. Eins og í raunveruleikanum endaði sagan svo með voðveiglegum hætti. 

            "      ................................
            Aggaggagg sagði tófan í Koti
            Á hábjörtum vordegi varð fyrir skoti 
            aumingja tófan hún komst aldrei heim."

  • 1
Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49723
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 03:43:11
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar