Í Flóanum

Færslur: 2012 Mars

30.03.2012 07:20

Björt framtíð

Ég hef áður sagt frá því hér á síðunni að fátt finnst mér  meira gefandi en fylgjast með unga fólkinu hér í sveit standa sig vel.  Það er nefnilega bráð nausynlegt fyrir geðheilsuna að hafa trú á framtíðinni. Að hafa trú á framtíðinni gefur þessu lífi fyrst og fremst gildi. emoticon

Nemendur 1. til 7. bekkjar Flóaskóla héldu árshátíð sína á miðvikudaginn.  Eins og fyrri daginn var ekki ráðist á garðin þar sem hann er lægstur. Söngleikurinn Ávaxtakarfan var tekinn til sýningar. Útkoman var stórglæsileg.  Allir nemendur skólans í þessum bekkjum tóku þátt í verkefninu.  Það er magnað að koma á hverju ári á þessar skólaskemmtanir og sjá þau leika og syngja heilu söngleikina.

Ég vil þakka bæði nemendum og starfsfólki skólans fyrir frábæra skemmtun. emoticon 

En það er á fleiri sviðum sem ungafólkið í Flóanum er að standa sig vel. Fyrr í þessum mánuði var haldin upplestrarkeppni meðal nemenda í 7 bekk í grunnskólunum í uppsveitum Árnessýslu og Flóahrepps. Nemendur úr fimm grunnskólum tóku þátt.

Það voru þau Eyrún Gautadóttir og Þórarinn Guðni Helgason bæði nemendur úr Flóaskóla sem urðu í fyrsta og öðru sæti í þessari keppni. Það er ástæða til að klappa fyrir því líka. emoticon26.03.2012 21:51

Lýðræðishalli...?

Landsþing Sambands Íslenskra sveitarfélaga var haldið í Reykjavík á föstudaginn var. Þar var til umræðu það sem efst er á baugi hjá sveitarfélögunum um þessar mundir. M.a. var sérstaklega tekið til umfjöllunar hvernig sveitarstjórnir geta unnið betur með íbúum í sveitarfélaginu og hvernig hægt væri að efla sveitarstjórnarstigið frá því sem nú er.

Ýmislegt í þessari umræðu finnst mér þversagnakennt. Margt af því sem nefnt er í þessu sambandi vill nefnilega bíta illilega í skottið á sér.  Lýðræðið er nefnilega engan vegin einfalt í framkvæmd.

Það er stefna sveitarfélaganna og ríkisvaldsins almennt að efla sveitarstjórnarstigið með flutningi verkefna frá ríki  til sveitarfélaga. Með því móti er verið að færa ákvarðanatöku nær fólkinu. En til þess að sveitarfélögin hafi bolmagn til þess að taka við þessum verkefnum eru þau flest of lítil þannig að það þarf helst að byrja á því að sameina þau. 

Og þarna virðast ekki duga neinar litlar sameiningar eins og gert var hér í Flóanum. Það er jafnvel verið að tala um að sveitarfélög þurfi helst að vera ekki minni en 10- 20 þús.  íbúar til þess að geta ein og sér ráðið við öll verkefni  sem talað er um. Mér sýnist það nú því vera þannig fyrir flest sveitarfélög að í raun er verið að færa ákvarðatökur fjær fólkinu en ekki nær ef þessi vegferð verður farin.

Annað er það sem líka fylgir þegar verkefni eru færð til sveitarfélaga er að til að tryggja jafnræði í landinu, setur ríkisvaldið reglur og kröfur um þá þjónustu sem sveitarfélögin eiga að veita. Í raun eru flestar ákvarðanir varðandi málefnin því  teknar á vettvangi ríkisins.

Síðan þarf ríkisvaldið að hafa eftirlit með því að sveitarfélögin standi sig og að íbúar hafi kost á þeirri þjónustu sem lög mæla fyrir um. Það kostar líkast til eitthvað.

Nú er það ekki svo að ég sé því mótfallin að sveitarfélög taki við fleiri verkefnum frá ríkinu. Það hefur sýnt sig í mörgum tilfellum  að betur er farið með opinbert fé í rekstri  málaflokka hjá sveitarfélögum en ríkinu. Sveitarfélög hafa leyst ágætlega úr mörgum verkefnum sem þau hafa á sinni könnu m.a. með samvinnu sín á milli t.d. í byggðasamlögum, samstarfssamningum eða á vettvangi héraðsnefndar eða landshlutasamtaka.

Þessi samvinna veldur sumum spekingnum áhyggjum. Það er talað um lýðræðishalla því þessum samstarfsverkefnum er ekki beint stjórnað af fólki sem kosið er í almennri kosningu. Ég velti því fyrir mér hvort er lýðræðislegra fyrir íbúa hér í sveit að vera hluti af 10 til 20 þús. manna sveitarfélagi sem geti tekið að sér hin flóknustu verkefni eða búa áfram í 600+ íbúa sveitarfélagi sem leysir hluta af verkefnunum í samstarfi við önnur sveitarfélög.

Á Landsþinginu á föstudaginn var einnig í þessu sambandi rætt um íbúakosningar og persónukjör. Mikilvægt er að menn átti sig á þeim göllum sem geta verið við framkvæmd slíkra kosninga og spurning hvort þetta er í raun til þess fallið að auka lýðræðið.

Vandasamt getur verið að taka út einstakar ákvarðanir og efna til kosninga um. Gæta verður þess að slíta ekki hlutina úr samhengi og að íbúakosning setji ekki málin bara í pattstöðu.  Hugsanlega eru mál þannig að hægt er að fella í íbúakosningu allar færar leiðir og samfélagið sitji uppi með versta kostinn að ekkert er hægt að aðhafast í málinu.

Persónukjör er ekki svo óþekkt fyrirbrigði í mörgum smærri sveitarfélögum enda virka þær best við slíkar aðstæður. Mér finnst þó hæpið að telja óbundnar kosningar lýðræðislegri en listakosningar þar sem einfaldur meirihluti kjósenda getur í raun ráðið öllum sætum sem kosið er í.  

Talsvert hefur verið rætt um það að koma á kosningafyrirkomulagi sem er sambland af listakosningum og perónukjöri. Ýmsar leiðir eru færar í því sambandi og eru við lýði víða um heim. Hér á landi hefur mönnum ekki tekist að koma sér saman um neitt slíkt ennþá. Umræða um  þetta  rís þó alltaf upp rétt fyrir kosningar en aldrei tekist að gera neinar breytingar.

Það sem mér finnst þó mikilvægast í þessum málum er að það eigi sér einhverjar samræður í hverju samfélagi um sem flest málefni og að kjörnir fulltrúar gefi því bæði tíma og  gaum hvað íbúar hafa að segja. Það stendur þá líka svolítið upp á íbúana að taka þátt í þessari umræðu og koma sínun sjónarmiðum á framfæri.

Þetta þíðir samt ekki að engar ákvarðanir megi taka nema alllir hafi samþykkt hana. Kjörnir fulltrúar verða síðan að hafa kjark til þess að taka sínar ákvarðanir út frá heildarhagsmunum  fram yfir sérhagsmuni og langtímahagsmunum fram yfir skammtímahagsmuni. Þeir standa svo eða falla með sínun ákvörðunum í næstu kosningum.

19.03.2012 07:08

P 443

Fyrir réttu ári síðan rifjaði ég upp gamla ferðasögu hér á síðunni. Gömul saga () Tilefnið var að kona mín til margra ára, hún Kolbrún, átti stórafmæli og rifjaðist þá upp fyrir mér þessi saga frá fyrstu mánuðum í okkar sambandi. 

Nú er það svo að þegar maður hefur búið með sömu konunni í áratugi fer ekki hjá því að við erum farin að þekkja hvort annað bísna vel.  Ég get fullyrt það að það er  ekki  algengt að hún Kolbrún láti koma sér á óvart eða það að henni verði svarafátt. 

Þeim tókst það nú samt, Sigmari og Kristni, að koma henni í opna skjöldu í gær þegar fjölskyldan kom saman í tilefni þess að enn á ný var komið að afmælisdegi hjá móður og tengdamóður þeirra.  Og ég náði því meira að segja á mynd.

 

Síðustu vikur hafa þeir, með mikilli leynd,  gert upp gamlan Moskvítch. Þetta er samskonar bíll og sagt er frá í ferðasögunni sem ég nefndi hér fyrst. Þennan bíl, nær full uppgerðan og gljáfægðan, færðu þeir henni  svo í afmælisgjöf í gær. Afmælisdagurinn er reyndar í dag en þar sem fjölskyldan er mannmörg og upptekin í ýmsu, á virkum dögum frekar, var komið saman í gær í tilefni hans.
Það hefur  lengi verið draumur Kolbrúnar að eignast svona Moskvitch aftur. Meðal annarra verðmæta sem hér á bæ hafa leynst eru svona gamlir og lúnir Moskar. Ekki hefur mátt henda þessu því alltaf var meiningin að gera þetta upp.  Það hefur eins og ýmislegt annað sem manni hefur dottið í hug að gaman væri að gera dregist.

Sennilega var Kolbrún farin að reikna með því að aldrei yrði af þessu og þvi kom það henni gjörsamlega á óvart að þeir skyldu vera búnir að þessu og það án þess að hún vissi af því.

Nú þarf bara að koma bílum á skrá svo hægt sé að fara að ferðast á Moskanum aftur. Til þess að eiga nú einhvern þátt í þessu gamani þá ákvað ég að gefa henni Kolbrúnu númeraplötur á bílinn og hafa þær nú verð pantaðar.  Það kom að sjálfsögu ekkert annað til greina en að setja á gripinn  gamla númerið sem var á Moskanum sem  hún eignaðist fyrir 33 árum:  P 443 

 

 

 

11.03.2012 07:21

Ársuppgjör

Það er lögð á það áhersla hér hjá Flóahrepp að bókhald sveitarfélagsins nýtist sem best við fjármálastjórn sveitarfélagsins. Til þess að svo megi vera er nauðsynlegt að upplýsingar úr því hverju sinni gefi rétta mynd af stöðunni. Einnig er mikilvægt að ársuppjör liggi fyrir sem allra fyrst og endurskoðun sé markviss og trúverðug.

Í síðustu viku voru ársreikningar Flóahrepps fyrir árið 2011 lagðir fram á sveitarstjórnarfundi til fyrri umræðu ásamt endurskoðunnarskýrslu frá KPMG. Mér finnst rétt að halda því til haga að ég veit ekki um neitt annað sveitarfélag sem lokið hefur við gerð ársreiknings og lagt hann fram til umræðu í sveitarstjórn. emoticon

Afkoma Flóahrepps á síðasta ári var jákvæð um tæpar  25 milljónir. Það er nokkuð betri afkoma en reiknað var með og munar þar mestu að framlög jöfnunnarsjóðs drógust minna saman frá fyrra ári en reiknað var með. Útsvarstekjur voru aftur á móti heldur minni en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir en aðrar tekjur meiri. 

Sá gjaldaliður sem mest fór fram úr áætlun var vegna snjómoksturs en menn eru allveg hættir að reikna með að það geti snjóað. Reyndin varð síðan allt önnur síðustu vikur ársins. Fjárveiting til snjómoksturs á þessu ári  kláraðist einnig á fyrstu vikum ársins. Nú er bara að vona að ekki snjói meira fyrr en árið 2013. emoticon

06.03.2012 22:23

Af himnum ofan

Í vetur þegar snjóinn tók að taka upp og  maður fór að sjá  aftur í kringum sig héðan af bæjarhlaðinu virtist flest vera með kunnuglegum hætti. Eitt var þó sem fljótlega vakti athygli mína en það var að hér rétt norðan við bæinn var komin forláta gjafagrind sem ég kannaðist ekkert við.Um er að ræða svo kallaða gjörð sem ætluð er til að gefa hrossum rúllur í útigangi. Gripurinn virðist alveg nýr en er aðeins orðin sporöskjulaga, sennilega eftir það ferðlag sem kom honum á þennan stað. 

Nú hef ég ekki það ímyndunnarafl að  mér detti neitt annað í hug en að þessi gripur hafi borist hingað með vindinum. Hann hefur þá væntanlega einhvers staðar komið frá og þá saknar hans sjálfsagt einhver.

Ég hef spurt þá nágrana mína sem hér eru næstir hvort þeir kannist við þessa gjörð en þeir segja mér að hún sé ekki úr þeirra eigu. Nú vil ég því auglýsa eftir eigandanum og benda honum á að hann geti nálgast gripinn hingað til mín. 

Nú eru farnar að berast árlegar fréttir af fuglum himinins. Hér var í fjölmiðlum sagt frá því að Lóann væri komin og einnig Tjaldurinn. Þó daginn sé vissulega farin að lengja á ég ekki von á því það þessir fuglar séu nú umvörpum að hópast til landins á næstu vikum.

Hitt er annað mál að sjálfsagt er Máfurinn farin að koma sér hingað til lands aftur og um síðustu helgi flaug hér Álftahópur yfir.  Álftin er einmitt sá farfugl sem maður verður yfirleitt fyrst var við  hér í Flóanum. Ég er ekki hissa á því að hún komi hingað aftur núna eftir einstaklega gott haust í haust fyrir hana í Flóanum.  Byggið, þurkurinn, rigningin og loftárásir () emoticon


02.03.2012 22:23

Úrvalsmjólk

Það er gaman að segja frá því að nú í dag var sjö mjólkurframleiðendum héðan úr Flóanum veittar viðurkenningar fyrir að leggja inn úrvalsmjólk allt síðast liðið ár. Mér finnst skemmtilegt að við hér í Félagsbúinu í Kolsholti I skulum nú vera í þessum hópi.Það er metnaður allra mjólkurframleiðenda að viðhalda miklum gæðum í íslenskri mjólkurframleiðslu. Það eru gerða mjög strangar gæðakröfur til allra mjólkur sem er lögð inn og vel er fylgst með að svo er. Það eru tekinn sýni úr allri mjólk sem sótt er til okkar. Kannað er hvort um lyfjaleyfar geti verið að ræða og vikulega eru mældir hinir ýmsu þættir s.s.gerlamagn, frumutala og fítusýrur sem ákvarðar síðan hvort hún stenst gæðakröfur.

Ef mjólkin stenst ekki gæðakröfur er hún verðfeld og/eða sett er á sölubann frá viðkomandi búi. Það stendur enginn framleiðandi í slíkri framleiðslu enda gengur það alls ekki upp.

Þeir sem aftur á móti koma allra best út í þessum mælingum fá greitt sérstakt álag á mjólkurverðið eftir hvern mánuð fyrir úrvalsmjók. Á hverju ári eru það alltaf nokkrir sem ná því að vera með úrvalsmjólk alla mánuðu ársins.

Á aðalfundi Flóa og Ölfusdeildar Auðhumlu (samvinnufélag mjólkurframleiðenda) sem haldinn var í dag kom fram að á síðasta ári voru 42 mjólkurframleiðendur á svæði deildarinna. Af þeim voru 7 innleggendur sem lögðu inn úrvalsmjólk allt síðasta ár og hafa þeir aldrei verið svo margir áður.  • 1
Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49695
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 03:22:05
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar