Í Flóanum

Færslur: 2011 Janúar

30.01.2011 21:50

Raforkuverðið

Eins og ýmislegt annað hér í okkar þjóðfélagi þá hafa skipulagsbreytingar á liðum árum í raforkusölumálum leitt af sér vaxandi ójöfnuð og komið illa niður á dreifbýli landsnins. Þegar ákveðið var að aðskilja raforkuframleiðslu og raforkudreyfingu var talað um að það væri gert fyrir neytendur. Markmiðið væri að koma á virkri samkeppni í raforkuframleiðslu sem átti að skila lægra raforkuverði

Ekki veit ég hvort einhverjir landsmenn hafi orðið var við þá hagræðingu sem út úr þessu kom. Hitt veit ég vel að við sem í dreyfbýli búum höfum síðan þá eingöngu þurft að búa við hækkandi raforkuverð og það svo um munar.

Þetta kemur sérstaklega illa niður á þeim svæðum þar sem treysta þarf á húshitun með rafmagni. Hátt raforkuverð kemur reyndar einnig niður á atvinnusköpun í dreyfbýli og eru dæmi um fyrirtæki sem hafa flutt sig héðan á höfuðborgarsvæðið vegna þessa.

Mér finnst þetta óþolandi aðstöðumunur og með öllu óásættanlegt.  Ef mönnum er einhver alvara með því að efla byggð í þessu landi þá verður að taka á svona málum. Það vita tilgangslaust að vera að setja eitthvað af almanna fé í byggðamál og til atvinnusköpunnar í dreifbýli ef sífellt er á sama tíma verið að auka kostnað hjá þessum sömu aðilum umfram það sem gerist annarstaðar.

25.01.2011 07:28

Viðhaldið

Það er gömul saga og ný að alltaf er nauðsynlegt  að sinna viðhaldinu vel.  Fjósið hér er byggt fyrir rúmlega 25 árum og þó að vandað hafi verið til verka í upphafi fer ekki hjá því að  kominn er tími á ýmis viðhaldverkefni. 

Eitt af því sem hefur verið að bila í fjósinu eru steinbitarnir í gólfinu. Borið hefur á því að steypan hefur sprungið frá járnunum í bitunum og þeir molnað. Þetta hefur valdið slysahættu í fjósinu og því nauðsynlegt að bregðast við á einhvern hátt.

Nú er svo komið að ekki duga lengur neinar bráðabirgða viðgerðir á bitunum. Nauðsynlegt er að skipta um gólfið í allstórum hluta af fjósinu. Hefur það verið eitt af okkar verkefnum  í vetur meðfram öðrum verkum sem verið er að sinna.  

Til þess að skipta um gólfið þarf að byrja á því að saga eldra gólfið upp og koma því út. Í það verk fjárfestum við í  gamalli steinsög. Við  fengum síðan lánaðann lítinn rafmagnslyftara sem  hægt er að læðast með inn um fjós.  Gömlu bitarnir voru síðan sagaðir í hæfilaga stóra búta sem lyftarinn gat ráðið við og þeir keyrðir út.

Keyptir voru nýjir steinbitar í fjósið. Þeir eru innfluttir frá Hollandi og eru í rúmlega 3 fermetra einingum og engin léttavara.  Þar sem ekki er nú einfalt að koma við stórvirkum verkfærum inn í fjósi og lofthæðin gefur ekki tilefni til þass að vinna með krana varð að grípa til annarra ráða við að koma bitunum á sinn stað.


Sigmar smíðaði því sérstakt flutningstæki úr gamalli brettatrillu, tveimur fólksbílahjólnáum, vatnsrörum, einum glussatjakk, lítilli vökvadælu og 4 metrum af stálvír.  

Þetta verkfæri dugði vel. Við sjáum nú fyrir endan á því að koma nýju bitunum fyrir í þessum áfanga sem við tókum fyrir í vetur. Þetta eru rúmlega  50 fermetrar sem við erum að skipta um núna. Stefnt er að því að taka  meira síðar á þessu ári.

 

23.01.2011 07:34

Þorrinn

Þorrinn byrjar með hlýindum og rigninu.  Mér finnst nú þannig veður í skammdeginu ekki neitt spennandi en góðu fréttirnar eru samt þær að jarðklakinn sem kominn er lætur undan og ekki þarf að eyða peningum almennings í snjómokstur á meðan hann ringnir. 

Það er nú orðið nokkuð langt síðan hér hefur komið alvöru jarðklaki. Í frostunum um daginn hér á auða jörð rifjaðist það upp fyrir mér hvernig vorverkin gengu fyrir sig (eða gengu ekki) þegar klakinn var ekki farinn úr jörðinni fyrr en komið var fram í júní eins og ég man dæmi um.

Maður er nú ekkert að rifja slíkar raunir upp á meðan það er 5 til 10 stiga hiti og rigning. Þá ergir maður sig mikið frekar á bleytunni og drullunni sem allstaðar veðst upp. Malarvegirnir í Flóahreppi, sem eru nú æði langir, eru nánast að verða ófærir í þessu tíðarfari. Einnig er vont að komast um til þess að gegna hrossum úti því allstaðar veðst jörð upp í bleytunni.

Þrátt fyrir það að nóg er af verkefnum til þess að fást við bæði hér heima og í sveitarstjórnarmálunum hef ég gefið mér nokkrum sinnum tíma til þess að fara á hestbak. Við járnuðuðum hér á milli jóla og nýárs og höfum síðan þá verið að skreppa á bak.

Eins og stundum vill verða með hestamenn þá er farið að velta fyrir sér hrossaviðskiptum. Frekar vill það nú verða til þess að hrossunum fjölgi. Um síðustu helgi fór ég með Jóni tengdasyni upp í Landsveit og sóttum við hest sem hann var þar að kaupa.

Við erum einnig að gera okkur vonir um að það komi hér folöld í vor en það hefur ekki fæðst hér folald síðan hún Þúfa fæddist sumarið 2003

16.01.2011 07:42

Uppskeruhátíð

Hrossaræktarfélögin í Flóahreppi héldu í gærkvöldi sameiginlega uppskeruhátíð. Mikil gróska er í hrossarækt í sveitarfélaginu og félagslegur uppgangur í hrossaræktarfélögunum. Það eru þrjú hrossaræktarfélög starfandi í Flóahreppi. Öll eru þau með öflugt félagsstarf hvert um sig en eru nú að auka samstarf sín á milli.

Á hátíðinni sem fram fór í Félagslundi voru m.a. afhent verðlaun fyrir hrossarækt í sveitarfélaginu. Hvert félag fyrir sig veitti verðlaun fyrir árangur sinna félagsmanna í hrossarækt. Síðan voru einnig afhent í gærkvöldi í fyrsta skipti verðlaunagripir sem Flóahreppur gefur fyrir hæðst dæmdu hryssu og hæðst dæmda stóðhest á síðasta ári í sveitarfélaginu. Gripir þessir eru farandgripir sem veittir verða árlega. Markmið sveitarfélagsins með því að gefa þessa gripi er að hvetja til áframhaldandi ræktunnarstarfs í sveitinni og ekki síður að hvetja til öflugs félagsstarfs um hrossrækt.

Eitt þessa þriggja félaga er Hrossaræktarfélag Villingaholtshrepps. Það hefur nú nýlega haldið aðalfund sinn en mikil fjölgun félagsmanna hefur nú orðið í félaginu. Þessi fjölgun kemur í kjölfar þess að ný stjórn sem tók við félaginu á síðastra ári hefur unnið ötullega að því að fá fólk til liðs við félagið. Í fyrra varð stefnubreyting hjá félaginu þegar félagsmenn sjálfir stöðvuðu áform þáverandi stjórnar í áframhaldandi málarekstur gegn sveitarfélaginu. 

Í kjölfar þess tók ný stjórn við og hefur félagið nú snúið sér að fullum krafti að því að efla félagsstarfsemi um hrossarækt í Villingahotshreppi hinum forna. Ég óska félaginu til hamingju með þennan árangur og vona að þrátt fyrir það tjón sem vissulega hefur orðið, þá setji menn nú fortíðina aftur fyrir sig og stefni ótrauðir fram á veginn. emoticon 

08.01.2011 07:33

Vegatollar

Innanríkisráðherra boðaði til sín sveitarstjórnarmenn úr Suðurkjördæmi ásamt samgöngunefnd Alþingis á þrettándadegi jóla. Fundarefnið var að ræða stöðu framkvæmda við stofnbrautir á Suðvesturlandi og veggjöld sem hafa verið í umræðunni að undanförnu.

Nokkuð hefur borið á því í þessarri umræðu að fólk virðist oft á tíðum alls ekki vera að ræða sama hlutinn. Ýmist er verið að ræða það að skipta um tekjustofn ríkisins sem fer til vegamála. Í annan stað er verið að ræða það að leggja á sérstakann skatt, eða eins og ráðherran orðaði það "afnotagjöld", á þá sem fara um stofnbrautir út frá höfuðborgarsvæðinu til viðbótar við þau gjöld sem nú þegar eru innheimt af eldsneyti og fer beint til vegamála.

Það eru u.þ.b. 15 til 16 milljarðar sem innheimtist á ári með eldsneytigjaldi og fer það til vegagerðar í landinu öllu.  Þetta gjald er eingöngu innheimt af bensíni og díselolíu sem selt er á bíla. Ýmsir hafa haft af því áhyggur að þeir sem keyra á öðru eldsneyti eins og metan, rafmagni eða einhverju öðru sleppi við að taka þátt í kostnaði við uppbyggingu vegakerfisins. Þar sem stefna er að auka notkunn á öðru eldsneyti  sem mengar minna og draga úr notkunn á bensíni og olíu virðist sem þessi tekjustofn sé að verða ónýtur. 

Því er það að nú um einhvert skeið hafa menn verið að velta fyrir sér að taka í staðinn upp gjaldheimtu af bifreiðaeigendum sem tekur mið af notkunn þeirra á þjóðvegunum. Hugmyndin er að þetta verði mælt með sérstökum búnaði í bílunum sem styðst við GPS gerfihnattakerfið. Þeir sem tala fyrir þessari breytingu benda einnig á að með þessu kerfi er hægt að vera með allslags afslætti og kjör sem ekki er hægt með eldsneytisgjaldinu. Þar borga menn bara í réttu hlutfalli við keypt magn af eldsneyti en með nýju kerfi væri t.d. hægt að veita þeim afslátt sem þurfa að keyra mikið vegna vinnu eða náms og eins þeim sem fara um sérstaka slæma vegi. Mér sýnist það reyndar geta þá átt við um marga vegi hér í Flóahreppi.emoticon

Þetta er ekki það sem nú er verið að ræða í sambandi við framkvæmdir við tvöföldum á vegum út frá Reykjavík. Þar eru menn að tala um að það verði innheimt sérstakt gjald eingöngu af þeim sem fara um þessa vegi og það í viðbót við það sem þeir borga nú þegar í eldsneytisgjöldum. Það hefur reyndar komið skýrt fram hjá ráðherra að ekki verði farið í þessar framkvæmdir nema að hægt verði að fjármagna þær sérstaklega.

Margir hafa sett fram mótmæli við þessu m.a. margar sveitarstjórnir og þ.á.m. sveitarstjórn Flóahrepps og einnig stjórn SASS. Það er útilokað að réttlæta það að þeir vegfarendur sem nota þessa vegi eigi einir að greiða tvöfallt gjald til vegagerðar en aðrir ekki.  Ef að það á að auka skattheimtu til vegagerðar er grundvallaratriði að sú viðbót komi sem jafnast á alla sem nota vegina.

Ég geri mér allveg grein fyrir því að ríkissjóður er févana og það hefur áhrif á getu til þess að fara í miklar vegaframkvæmdir.  Nú fyrst staðan er þannig getur verið nauðsynlegt að endurmeta stöðuna. Nú þegar hefur t.d. verið ákveðið í sambandi vð suðurlandsveginn að minka þá framkvæmd frá því sem stefn var að og notast við svo kallaðan 2+1 veg um Svínahraun og Hellisheiði. Það getur líka verið nauðsynlegt að áfangaskipa verkinu meira. Það á auðvita þá líka við um allar aðrar vegaframkvæmdir í landinu.

01.01.2011 07:34

2011

Á þessum rólega nýársmorgni vil ég byrja á því að óska ykkur gleðilegs árs. Ég þakka góð samskipti og allt samstarf á gamla árinu. Nýtt ár er aldrei annað en ný tækifæri eins og framtíðin ávalt er og því ber að fagna. emoticon 
Hér í Kolsholtshverfinu er áratugahefð fyrir því að vera með sameginlega áramótabrennu á Bjallanum. Frá þvi að ég kom hér fyrst í Flóann fyrir rúmlega fjörutíu árum hefur þetta verið árviss atburður og á því var engin breyting í gærkvöldi.

Það skíðlogar reyndar enn í brennunni en kveikt var í henni kl hálf sjö í gærkvöldi. Þar kom saman nokkur fjöldi fólks á öllum aldri af báðum bæjum. Sumir ekki lengur hér heimilsfastir en hafa alist upp við þetta og mæta nú með sína fjölskyldu og taka þátt í gleðinni.  • 1
Flettingar í dag: 181
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49837
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 04:46:36
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar