Í Flóanum

Færslur: 2020 Febrúar

14.02.2020 20:44

Óveður

Það var bísna hvasst hér í nótt og í morgun. Óveður hefur gengið yfir landið og gætti þess í öllum landshlutum. Víða varð mikið tjón enda veðrið með allra versta móti. Einhver meiðsli urðu líka á bæði mönnum og skepnum en sem betur fer ekki í miklu mæli. Engin stórslys urðu á fólki og er það þakka vert.

Hér á bæ varð ekkert tjón og allir eru ómeiddir en svo hvasst varð að stórbaggarnir í baggastæðunni norðan við hlöðu fuku af stað. Einhverjum kann að finnast það ósennilegt enda svona meðalstórbaggi u.þ.b. hálft tonn að þyngd. Þetta hjómar því kannski eins og einhver ýkjusaga. Ég set því hér mynd til þess að reyna að sanna mál mitt. Baggarnir sem liggja þarna á veginum voru allir snyrtilega raðaðir í stæðunni hægramegin á myndinni í gærkvöldi en svona lágu þeir svo í morgun.

Þessir baggar eru nú reyndar ekki svo þungir. Þetta er hálmur sem tókst að þurrka nokkuð vel í haust. Þeir ná því væntanlega ekki neinni meðalþyngd en talsverðan vind þarf nú samt til að feykja þeim af stað.   

Þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem hvessir á landinu og ekki heldur hér í Flóanum. Veðurlýsingar geta verið með ýmsu móti og misáheyrilegar. Þær lifa kannski lengst sem eru svolítið krassandi og ég er ekki frá því að þær séu skemmtilegastar. Það skiptir þá kannski ekki allveg máli hversu sennilegar þær eru.

Margir hafa heyrt söguna sem sögð er að Jón Jónsson (Nonni) organisti á Vestri-Loftstöðum hér í Flóanum sagði. Ég hef heyrt hana nokkrum sinnum og minnir að hún sé einhvern vegin svona:

Auk þess að vera með búskap á Loftstöðum og vera organisti í Gaulverjabæjakirkju stundaði Nonni sjóróðra frá Loftstaðasandi. Það var ekki hættu laust að róa frá Loftstaðasandi, lendingin var erfið og mátti ekki mikið útaf bregða svo hægt væri að koma bátunum inn úr brimgarðinum.

Það var einhvern tíman á vertíðinnni í blíðskapar verðri að allir bátar voru á sjó og þar á meðal Nonni. Það var mok fiskirí og mannskapurinn upptekinn við veiðarnar. Allt í einu taka menn eftir þvi að það er byrjað að hvessa. Hafa menn nú snör handtök og hætta veiðum og byrja að róa til lands.

En það hvessir snöggt og áður en öllum tekst að koma sér til lands er komið snældu vitlaust veður. Nú berjast menn upp á líf og dauða þarna í brimgarðinum. Það er heldur betur tekið á því við árarnar og róið eins og þrek leyfir. Það sér ekki orðið út úr augum fyrir sjávarroki og seltu.

Þá er það sem Nonna finnst eins og eitthvað komi fjúkandi frá landi og fari yfir hann þar sem hann situr í bátnum og hamast við róðurinn. Eldsnöggt sleppir hann annarri hendinni af árinni og grípur í þetta og kippir því niður í bátinn. Það er svo ekki fyrr en hann er komin með heilu og höldnu í land sem hann fer að kann hvað þetta var.

Þá sér hann að þetta er stóra sleggjan á Loftstöðum sem staðið hafi upp við skemmu vegginn en var þarna að fjúka á haf út. En með snarræði tókst Nonna að afstýra því.







  • 1
Flettingar í dag: 108
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 72
Gestir í gær: 8
Samtals flettingar: 126832
Samtals gestir: 22930
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 12:18:12
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar