Í Flóanum

Færslur: 2010 Apríl

30.04.2010 07:43

Afréttamálafélagið

Afréttamálafélag Flóa og Skeiða hélt aðalfund sinn í fyrrakvöld. Á árvissum afréttamálafundi í ágúst í fyrra setti félagið sér nýjar samþykktir um sína starfssemi og var þetta fyrsti aðalfundurin sem haldin er samkvæmt þeim.

Ég var talsmaður þess og lagði það til á sínum tíma að félagið setti sér nánari samþykktir til þess að starfa eftir en fram til þessa starfaði félagið eingöngu eftir óljósum tilmælum í fjallskilasamþykkt fyrir Árnessýslu austan vatna nr 408 /1998. Með sameiningu sveitarfélaga á svæðinu höfðu aðstæður líka breyst frá því að fjallskilasamþykktin var samþykkt og ýmislegt í þeim sem varla átti við lengur.
 

Samkvæmt nýjum samþykktum skal Afréttamálafélagið halda tvo afréttarmálafundi á ári hverju. Fyrri  fundin skal halda fyrir 1. maí þar sem m.a. reikningar síðast liðins árs eru afgreiddir og fjárhagsáætlun  ársins samþykkt. Seinni fundurinn er svo haldinn í ágúst þar sem raðað er í leitir og tilhögun smölunnar og rétta er ákveðin. Á fundunum fara fullrúar sveitarfélaganna sem standa að félaginu með atkvæðisrétt . Fulltrúarnir eru alls átta og koma 4 frá Flóahreppi. Sveitarfélagið Árborg skipar tvo og Skeiða-og Gnúpverjahreppur tvo.


Myndin er tekin í réttunum s.l. haust þegar verið er að leggja af stað heim á leið.   

26.04.2010 07:46

Ruslið

Eitt af þeim verkefnum sem mest hafa vaxið hjá sveitarfélögum á síðustu árum er sorphirða og sorpeyðing. Frá árinu 1995 hafa sunnlendingar getað losnað við allt sitt sorp á til þess að gera ódýran hátt í Kirkjuferjuhjáleigu þar sem það hefur verið urðað. En 1. desember s.l. var þessum sameiginlega urðunarstað sveitarfélaganna á Suðurlandi lokað samkvæmt samkomulagi við Sveitarfélagið Ölfus frá árinu 2004. Síðan þá hefur ruslinu verið ekið til Reykjavíkur þar sem það hefur síðan verið urðað í Álfsnesi.  Kosnaður hefur stórlega aukist bæði vegna lengri flutninga og mikið hærri kosnaðar við urðunina.


Þessi staða sem nú er komin upp hefur verið fyrirsjáanleg í tæp 6 ár og því nokkur aðlögunartími fyrir sveitarfélögin að bregðast við. Sveitastjórn Flóahrepps fór snemma á þessu kjörtímabili að velta fyrir sér hvernig best væri að sporna við þessum kostnaðarauka og vaxandi umhverfisskaða sem sífeld aukning á sorpi vissulega er.
 

Niðurstaðan varð sú að taka hér upp í samvinnu við Íslenska Gámafélagið þriggja tunnu sorpflokkunarkerfi. Kerfið sem byggir á þátttöku íbúa svæðisins hefur gengið mjög vel og sá árangur sem að var stefnt hefur náðst.  Ávinningur er margvíslegur og má t.d. nefna:

  • Sorp sem þarf að urða hefur minnkað um meira en helming í sveitarfélaginu.
  • Það sorp sem er urðað er ekki bara minna að magni heldur líka minna umhverfisspillandi.
  • Nýtanleg efni og verðmæti sem áður voru urðuð eru endurnýtt.
  • Aukin nýting dregur úr sóun á allskonar efnum sem viðgengist hefur lengi.
  • Þátttaka íbúa í sorpflokkun eykur vitund þeirra í þessum málum.
  • Aukin vitund neytenda í úrgansmálum hefur áhrif á neyslu og gæti minkað framleiðslu á sorpi.

Ýmislegt fleira jákvætt væri hægt að nefna í þessu sambandi en ég er mjög stoltur af þessu frumkvæði sem íbúar Flóahrepps hafa tekið í þessum málum. emoticon

 

24.04.2010 07:39

Vatnsveitan

 Á því svæði sem nú heitir Flóahreppur hafa verið reknar sameiginlegar dreifiveitur fyrir neysluvatn í hátt í fjörutíu ár. Um gríðalega mikla og stórhuga framkvæmd hefur verið að ræða á sínum tíma fyrir þau þrjú sveitarfélög sem þá voru hér starfandi. Ekki þarf að efast um það að þessi framkvæmd skipti sköpum fyrir allt samfélagið hér á sínum tíma og þær hafa skilað samfélaginu miklu á þessum áratugum sem þær hafa verið starfandi.

Í flestum tilfellum hafa þessar vatnsveitur reynst vel og eru í fullu gildi enn í dag. Töluverð breyting hefur samt orðið meðal neytenda og vatnsnotkun aukist á hvern íbúa hér eins og annarsstaðar. Í upphafi virðast menn þó hafa haft þá framsýni að dreifikerfið hefur í flestum tilfellum getað annað viðbótarnotkunn og nýjum notendum. Ljóst er samt að á ákveðnum stöðum er afkastageta veitunnar að verða of litil.

Þau vandamál sem helst hafa komið upp í rekstri þessara veita eru m.a. bilanir á veitunni. Lekar hafa á sumum svæðum verið þrálátir og kostnaður nokkur við lekaleit og viðgerðir. Vandamál við vatnslindirnar hafa einnig komið upp. Vatnsborð í þeim hefur lækkað í þurrka tíð og einnig hafa jarðskjálftar haft áhrif á lindirnar. Í einhverjum tilfellum hafa óhreinindi greinst í vatninu og í verstu tilfellum hefur gerlafjöldi farið yfir viðmiðunarmörk heilbrigisyfirvalda.. Þegar það hefur komið upp hefur það verið rakið til yfirborðsmengunar í "Urriðafosslind". Sú lind var virkjuð fyrir Stokkseyri á sínum tíma. Eftir að ný aðveita fyrir Stokkseyri frá Selfossi var tekin í gagnið hefur Urriðafosslind eingöngu verið notuð til þess að koma í veg fyrir vatnsleysi í miklum þurrkum.   


Í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga var nokkuð rætt um að úrbætur þyrfti að gera  á vatnsveitunni. Það vandamál sem helst var verið að benda á var þrýstingsleysi á vatnsveitunni í efsta hluta sveitarfélagsins þ.e.í hluta af gamla Hraungerðishreppnum og á efstu bæjum í gamla Villingaholtshreppnum og á sumarhúsasvæðunum í Merkurhrauni, Merkurlaut og í Mörk.  Til þess að bregðast við þessu hefur verið sett upp dæla við "Samúelslind" í Þingdal. Í fyrstu var keyrð þarna dísel rafstöð og komið fyrir bráðabirgða dælu en nú er búið að fá þarna rafmagn með heimtaug frá RARIK og koma fyrir varanlegri dælu með stýribúnaði sem heldur uppi jöfnum þrýsingi á veitunni. Jafnframt því var lindin fóðruð upp og tengingar allar endurnýjaðar.
 

Á síðasta ári var gerð umfangsmikil bilanaleit á veitunni. Það skilaði heilmiklum árangri og hefur viðgerð farið fram á veitunni á ýmsum stöðum. Vatnsveitan hafði í þessari vinnu aðgang að sérstökum rennslismæli sem mælir rennsli í lögnunum með nemum sem settir eru utan á þær. Þessi mælir hefur reynst mjög vel í þessarri bilanaleit þar sem með honum er hægt að mæla rennslið hvar sem er á lögnunum og rekja sig að bilunum.

Jafnframt þessu hefur sveitartjórn Flóahrepps leitað samstarfs við önnur sveitarfélög um vatnsöflun. Markmið sveitarstjórnar í þeirri vinnu er að tryggja að veitan hafi alltaf aðgang að fyrsta flokks neysluvatni á sem öruggastan hátt. Horft hefur verið til þess að geta sótt vatn á öflugri vatnstökusvæði en hægt er að finna hér innansveitar og með vatnsverndarsvæði utan byggðar við rætur hálendis eða fjalla. Hér er um mikið öryggisatriði að ræða og horft hefur verið til framtíðar í allri þessarri vinnu.

 

22.04.2010 07:46

Gleðilegt sumar

Í dag er Sumardagurinn fyrsti og óska ég ykkur öllum gleðilegs sumars.

Sumarkoman er alltaf fagnaðar efni og vel við hæfi að gera sér dagamun á þessum degi. Hér í gamla Villingaholtshreppnum er hefð fyrir því að íbúar hittast á Þjórsárbökkum og skokka saman í víðavagnshlaupi Ungmennafélagsins Vöku. Þarna koma allar kynslóðir saman og getur aldursmunur þátttakenda í sumum tilfellum verið allt að 80 ár. Þegar hlaupinu er lokið fagna menn sumri saman í Þjórsárveri.Feðginin í Lyngholti, þau Kolbrún Katla og Jón, skelltu sér í útreiðatúr í gærkvöldi. Eldur gamli hefur nú verið járnaður og hef ég grun um að hún Kolbrún Katla ætli sér nú að fara að stunda útreiðar með okkur. Ég á von að við munum finna okkur stundir til þess að fara á hestbak saman á þessu sumri. Það verður bara gaman.

19.04.2010 07:38

EyjafjallajökullHér í Flóanum hefur fjallahringurinn allt frá Selvogsheiðinni í vestri um Kálfstinda í há norður og fram í Seljalandsmúlann í suðaustri með Vestmannaeyjar lengra til suðurs verið að mestu leiti til friðs. Öll þessi fjöll hafa aðallega verið til prýði og skapað stórkostlega umgjörð um hið mikla víðsýni sem víða er í Flóanum.  

Eyjafjallajökull gnæfir við himin og hann er eitt mest áberandi kennileiti í fjallahringnum til austurs. Hann hefur löngum þótt tilkomu mikill héðan frá séð og ekki verið á nokkurn hátt til ama frá því ég kom hér í sveit.  Nú ber svo við að eldgos er hafið i jöklinum með hrikalegum afleiðingum í næstu sveitum. Töluverð ógn stafar víða af þessu gosi og ekki séð fyrir endan á þvi hvaða afleiðingar það getur haft þegar upp er staðið.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem eldgos verður í þessum fjallahring frá því að ég kom hér í sveit. Nokkrum sinnum hefur gosið í Heklu, einu sinni í Vestmannaeyjum og nú fyrir nokkrum vikum á Fimmvörðuhálsi.  Oftast hafa þessi gos verið til þess að gera meinlaus og valdið litlu tjóni. Það á ekki við um eldgosið í Vestmannaeyjum sem lagði heilt byggðalag í rúst um stund og hafði mikil áhrif á líf fjölda fólks. 
 

Eldgosið nú í Eyjafjallajökli er þegar búið að valda miklum skaða. Ég ef hitt nokkra sem voru fyrir austan um helgina m.a. björgunarsveitarmenn og heyrt lýsingar þeirra á aðstæðum og afleiðingum öskufallsins undir Eyjafjöllum. Það er ömurlegt að sjá öskugráar myndir af þessari fallegu sveit sem helst hefur skartað grænum gróðri upp allar hlíðar og glæsilegum túnum og ökrum. Ég get vel ímyndað mér þvílík martröð það er fyrir fólkið sem þarna býr og er að sinna sínum skepnum við þessar aðstæður og vita ekkert hvað ástandið varir lengi.

Um leið og við hugsum til þeirra sem nú þegar hafa orðið fyrir tjóni  er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að við vitum ekki enn hvað öskufallið úr þessu gosi verður mikið og hvert það á eftir að dreifa sér. Það er nauðsynlegt að við hér í Flóanum gerum okkur grein fyrir því að þó að við höfum sloppið enn sem komið er við öskufall úr eldgosum á síðustu áratugum er það ekki gefið að svo verði alltaf. 

 

15.04.2010 07:38

Framboð

Kynnt hefur verið til sögunnar annað framboð til sveitarstjórnar hér í Flóahreppnum. Hér kom með póstinum í gær einblöðungur þar sem nýr framboðslisti, T listinn, er kynntur. T..ið er sagt vera "tákn um traust" og megin markmið framboðsins eru tíunduð. Það er fagnaðarefni að fólk bjóði sig fram til forustu í sveitarfélaginu.

Mér finnst ljóst að þetta framboð er sett fram gegn því framboði sem ég hef gefið kost á mér að leiða og þykist vita að það er komið fram vegna óánægju þessa fólks með störf núverandi sveitarstjórnar. Það er mjög gott að fá mótframboð og vonandi verður það til þess að skapa hér málefnalega umræðu. Ég treysti því að íbúar allir taki þátt umræðunni og kynni sér málin vandlega og fordómalaust áður en gengið verður til kosninga nú í vor.
 
Ekki stendur á mér að taka þátt í þessari umræðu og á ég bara von á skemmtilegri og málefnalegri kosningabaráttu á næstu vikum.  emoticon

13.04.2010 07:44

Nettengingar

Það hefur ýmislegt gengið brösulega hér í þessu þjóðfélagi á undanförnum árum. Það sjónarmið var hér allsráðandi að hin svo kölluðu markaðslögmál myndu leysa hér öll vandamál. Farið var offari í því að einkavæða hinar ýmsu stofnanir og fyrirtæki sem áður voru í eigu samfélagsins í þeim tilgangi að koma hér á samkeppni sem allir áttu að græða á. Því var að minstakosti haldið fram á þessum tímum og almennigur beið spenntur eftir  öllum þessum ágóða. emoticon 

Í dag er nú komið í ljós að ekki voru allar þessar aðgerðir til fjár fyrir hinn almenna borgara og í sumum tilfellum sitjum við uppi með mjög bregað umhverfi sem allir tapa á. Í gærmorgun hittum við Margrét sveitastjóri, Kristján Möller samgöngu- og sveitastjórnarráðherra m.a. til þess að ræða möguleika á að koma á betri tölvutengingum hér í sveit. Kristján var kominn hér austur fyrir fjall til þess að hitta forsvarsmenn fangelsins á Litla Hrauni en þeim er umhugað að fá betri nettengingar vegna fangelsisins sem verið er að koma á legg í Bitru hér í sveit. Það hefur nefnilega komið í ljós að vegna þess að Bitra er hvorki staðsett í fjölmennu þéttbýli eða lengst inn í afdal þá er ekki hægt að bjóða upp á öflugar nettengingar nema fyrir margfaldann þann kostnað sem aðrir aðilar með svipaða þjónustu þurfa að borga. Þetta er einmitt það hlutskipti sem íbúar í Flóahreppi hafa þurft að búa við.

Vegna samkeppnissjónarmiða telur Síminn sig ekki geta boðið upp á öflugri tölvutengingar eins og ADSL hér í sveit nema þjónustan standi undir sé innan svæðisins. Mér skilst að sem markaðsráðandi fyrirtæki telji þeir sig ekki meiga deila þessum kostnaði á önnur viðskipi sín á öðrum þéttbýlli og arðsamari svæðum vegna þess að þá væru þeir að misnota stöðu sín gagnvart minni fyrirtækjum sem hér bjóða þjónustu. Værum við stödd í einangruðum afdal inni á afrétti þá er til reiðu fjármagn í opinberum sjóði til þess að greiða þennan kostnað vegna þess að þar eru engin önnur fyrirtæki að reyna fyrir sér með viðskipti.

Mér  finnst þessi staða ekki ásættanleg fyrir íbúa Flóahrepps. Það þarf að komast út úr þessu á einhvern hátt þannig að íbúar landsins sitji við sama borð allstaðar. Mér finnst þetta galin hugmyndafræði að íslendingar séu að leggja í kostnað við að reka fjölda dreifikerfa og nettenginga með misjöfnum árangri og verja það með þessum hætti.

Þetta er svo sem ekki eitthvað sem var að koma í ljós í gærmorgun. Sveitastjórn Flóahrepps hefur reynt að beita sér í þessu málum. Þetta hefur verið tekið upp í samtölum við síma- og fjarskiptafyrirtæki. Einnig höfum við bent á þetta við ráðherran áður og við þingmenn kjördæmisins. Nú þegar fangelsisyfirvöld hafa átta sig á þessu óréttlæti og gengið í lið með okkur í þessari baráttu er spurning hverju það breytir.

12.04.2010 07:49

Afreksbikar Búnaðarfélags Villingaholtshrepps

Í gærkvöldi var aðalfundur Búnaðarfélags Villingaholtshrepps haldinn í Þjórsárveri. Á fundinum var afreksbikar félagsins afhentur, en hann er farandbikar sem Búnaðarsamband Suðurlands gaf félaginu á eitt hundrað ára afmæli sínu. Að þessu sinni var bikarinn veittur starfsfólki og nemendum Flóaskóla fyrir frábæran árangur í starfi og leik.  Kristín skólastjóri mætti á fundinn og veitti bikarnum viðtöku. 

Ég á reyndar sæti í úthlutunnarnefnd fyrir þennan bikar sem oddviti sveitarfélagsins. Mér fannst það  vel við hæfi að veita þessum aðilum þessa viðurkenningu nú og samþykkti með ljúfu geði tillögu þar um í nefndinni. Gríðalega öflugt starf er unnið í Flóaskóla og nýtur skólinn mikils trausts hér í samfélaginu. Það eru mikil verðmæti í þvi fyrir þetta samfélag og sjálfsagt mál að vekja athygli á því og þakka fyrir það sem vel er gert.  

Ég óska nemendum og starfsfólki Flóaskóla til hamingu með þess viðurkenningu emoticon

11.04.2010 07:39

Auðhumla

Á föstudagsmorgun flaug ég til Akureyrar til þess að sitja aðalfund Auðhumlu sem annar af tveimur fulltrúum mjólkurframleiðenda í Gaulverjabæjar- Villingaholts- og Stokkseyradeild félagsins. Við erum 22 framleiðendurnir í deildinni og eins og annarsstaðar á landinu hefur okkur fækkað talsvert í gengum tíðina. Þegar ég var að byrja minn búskap fyrir rúmum 30 árum voru framleiðendur í gamla Villingaholtshreppnum yfir 30 talsins en eru í dag orðnir 8. Í þá daga var Mjólkurbú Flóamanna sjálstætt fyrirtæki og starfaði á svæðinu frá Hellisheiði í vestri að Lómagnúp í austri. Reyndar var MBF einnig hluti Mjólkursamsölunnar í  Reykjavík og var bundin af sameiginlegum ákvörðunum sem þar voru teknar í sinni starfsemi. 

Í dag hafa mjólkurframleiðendur á öllu landinu nema í Skagafirði sameinast í einu félagi Auðhumlu sem er samvinnufélag mjólkurframleiðenda. Fjöldi innleggjenda í félaginu öllu var á síðasta ári 641 og hafði fækkað um 22 frá árinu áður Á starfsvæði MBF á þeim tíma sem ég var að byrja minn búskap voru framleiðendur að mig minnir rúmlega 700 talsins. Auðhumla svf. og KS í Skagafirði eiga saman hlutafélagið MS sem annast rekstur 6 starfsstöðva  í mjólkuriðnaði þ.e. í Rvík, Búðardal, Ísafirði,  Akureyri, Egilsstöðum og á Selfossi  

Það er mín skoðun að það sé mikilvægt fyrir mjólkurframleiðsluna í landinu að bændum beri gæfa til þess að standa saman að framleiðslu og sölu á mjólkurvörum. Á undanförnum árum hafa orðið gífurlegar breytingar á úrvinnslu- og söluþættinum með sameiningu afurðastöðva. Það er alltaf spurning hverju má  kosta til við skipulagsbreytingar og hvernig sá kostnaður skilar sér til baka. Það er alveg ljóst að sterk fjárhagsstaða MBF á sínum tíma og Mjólkursamsölunnar, sem var til komin vegna þess að þessi fyrirtæki voru samvinnufélög framleiðenda, hefur skipt sköpum varðandi það að ná vinnslunni í hreint framleiðendafélag eins og Auðhumla svf er.  Þar var til fjármagn sem notað var til þess að kaupa upp og út úr þessu kerfi mjólkurbú sem voru í eigu kaupfélaga vítt og breytt um landið með opinni félagsaðild og starfsemi í ýmsum öðrum rekstri.

Það er áleitin spurning hvort þessum peningum hefur verið skynsamlega ráðstafað. Það er alls ekki víst að við sunnlenskir mjólkurframleiðendur hefðum átt að fara þennan veg og leggja þetta  undir. Ég held samt að nokkuð af því sem að var stefnt með þessu hafi náðst fram. Megnið af mjólkurvinnslunni og sölunni er nú á hendi framleiðenda sjálfra og það á að geta gefið okkur betra tækifæri á að standa þannig að hlutunum að hægt sé að stunda þennan búskap áfram. Spurningin er kannski sú hvort okkur ber gæfa til þess að gera það eða ekki....? 

Annað hefur líka áunnist með fækkun mjólkurbúa og uppstokkun á skipulagi framleiðsunnar er að það hefur tekist að ná niður kostnaði. Það hefur skilað sér bæði í lægra verði til neytenda og í hærra afurðaverði til bænda. Hlutfall vinnslu og dreifingarkostnaðar í verði mjólkurvara hefur lækkað eða eins og það var orðað hér á árum áður þá eru milliliðirnir að taka minna til sín. Þrátt fyrir það hefur ekki tekist að stilla rekstrinum þannig upp að hann standi undir sé nú síðustu ár. Það er verulegt áhyggju efni og getur hæglega gert út um þennan rekstur á nokkrum árum ef ekki tekst að snúa því við.

07.04.2010 07:44

Héraðsnefnd

Samstarf sveitarfélaga á suðurlandi er talsvert og af margvíslegum toga. Sveitarfélögin í Árnessýslu hafa með sér samstarfsvettvang í gegnum Héraðsnefnd Árnesýslu. Þar undir reka sveitarfélögin m.a. stofnanir á sviði menningamála eins og Byggðasafn Árnesinga, Listasafn Árnesinga. Héraðsskjalasafn Árnesinga. Tónlistaskóli Árnesinga og Almannavarnarnefnd Árnesinga eru líka stofnanir sem undir nefndina heyra.

Þetta samstarf er að skila bæði faglegum og fjárhagslegum ávinningi. Það er mikilvægt í öllu samstarfi að aðilar séu virkir í samstarfinu og líti ekki svo á að hlutirnir komi þeim ekki við lengur. Héraðsnefndin er nokkuð virkur samstarfsvettvangur sem byggir í langri hefð og þar gilda fornar hefðir. Nefndin kemur saman tvisvar á ári þ.e. vor og haust. 

Undanfarna daga er verið að undirbúa vorfund nefndarinnar sem er á morgun og föstudaginn. Við sem störfum í fjárhagsnefnd Hérðasnefndar höfum verið að yfirfara ársreikinga nefndarinnar og allra stofnanna hennar. Ársreikningarnir verða síðan til afgreiðslu á vorfundinum. 

Héraðsnefndarfundurinn byrjar reyndar í Alviðru á morgun. Landvernd og Árnessýslu var gefin jörðin Alviðra árið 1973 ásamt þeim byggingum sem þar eru. Fulltrúar Landverndar ætla að taka á móti héraðsnefndinni þar í upphafi fundar og kynna sína  starfsemi þar og ræða við nefndarmenn um þessa sameiginlegu eign. Ég hef á síðasta ári verið fulltrúi sveitarfélaganna í Árnessýslu í stjórn Alviðrustofnunnar. Ég tel nauðsynlegt að auka samskipti þessarra aðila um framtíðar uppbyggingu og skipulag starfseminnar í Alviðru.

02.04.2010 07:53

Kalt í Flóanum

Það er frekar kalt í Flóanum þessa dagana. Vorið liggur samt í loftinu og ekki laust við að maður sé farinn að hlakka til þess að geta farið að taka til við hin hefðbundu vorverk í sveitinni. Daginn er farið verulega að lengja og nú þegar það er orðið nánast fullbjart á morgnanna kl 6 þegar ég fer til morgunmjalta er ástandið að verða nokkuð þolanlegt. Kvöldin eru líka farin að nýtast betur og nær maður orðið góðum reiðtúr í björtu eftir að hefðbundum verkum er lokið. emoticon 

Það má segja að þessa dagana sé mannskapurinn komin á fullt í fyrstu vorverkin en þau felast nú aðalega í að vinna áburðaráætlun, ganga frá áburðar- og fræpöntunum, klára bókhaldið og skila skattskýrslunni. Ekki kannski það allra áhugaverðasta en mikilvægt að vera búinn að öllu slíku þegar hitastigið gefur færi á að hella sér í útiverkin. Yngri bændurnir á bænum voru nú það bjartsýnir um daginn þegar hér var frostlaust í nokkra daga að það var farið að undibúa að vinna flög. Síðan hefur verið kalt og jörð frosin.

  • 1
Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49695
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 03:22:05
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar