Í Flóanum

Færslur: 2019 Október

25.10.2019 09:09

Fréttabréfin

Ég held að það hafi verið haustið 1984 eða fyrir 35 árum.  Vegna verkfalls félagmanna  í Félagi bókagerðamanna komu engin dagblöð út á landinu vikum saman þetta haust. Ekki man ég hvort það truflaði mannlífið í Flóanum nokkuð mikið. En stjórn Ungmennafélagsins Vöku var að leggja línurnar fyrir vetrarstarfið,. 

Formaður félagsins var á þessum tíma Einar H Haraldsson á Urriðafossi . Ég var, ef ég man rétt, gjaldkeri og Oddný Kristjánsdóttir í Ferjunesi ritari. Til þess að koma upplýsingum um væntanlega viðburði og verkefni félagsins til félgasmanna og íbúa sveitarfélagsins og segja fréttir af starfinu á liðnu sumri ákvað stjórnin að gefa út fréttabréf.

Á þessum árum voru ljósritunnarvélar að verða nokkuð algengar. Skólar og félagasamtök fóru að fjárfesta í þessum vélum. Var um algera byltingu að ræða í fjölföldun á efni. Efni fréttabréfsins var vélritað á venjulega ritvél. Fyrirsagnir og myndir voru teiknaðar og svo var þetta klipt til og límt upp á blaðsíður sem síðan voru ljósritaðar. 

Þetta fyrsta fréttabréf Umf. Vöku minnir mig að hafi verið ljósritað hjá Héraðsambandinu (HSK) en þar var nýlega komin  ljósritunnarvél. "Póst og síma" var svo falið að dreyfta fréttabréfinu á alla bæi í gamla Villingaholtshreppnum. Það fékk gríðalegar góðar viðtökur hér innansveitar og var vel lesið á flestum bæjum.. Kannski vakið meiri athygli en ella vegna þess að dagblöð höfðu ekki komið út í einhverjar vikur þegar fréttabréf ungmennfélagsins barst allt í einu.

Um veturinn eftir ákvað svo stjórn Umf. Vöku að stefna að þremur tölublöðum fréttabréfs á ári og fól ritnefnd Velvakanda að annast  útgáfu þess. Á hverjum aðalfundi Umf. Vöku var ritnefnd Velvakanda kosin.  Velvakandi var upphaflega handskrifað félagsblað Umf. Vöku og lesið upp á fundum félagsins. Árin 1977, 1978, 1979 og 1981 kom Velvakanda út sem veglegt fjölritað blað og var selt í lausasölu. 

Formaður ritnefndar og ritstjóri allra þessara blaða var Elín Bj. Sveinsdóttir þá í Kolsholti en í dag í Egilsstaðakoti.  Á þessum tíma voru formenn félagsins  Albert Sigurjónsson á Sandbakka (árin 1977,1978 og 1979) og Einar Hermundsson í Egilsstaðakoti (árin 1980, 1981 og 1982).

Á aðalfundi  Umf. Vöku í ársbyrjun 1985 var Kolbrún J Júlíusdóttir í Kolsholti 1 kostin formaður ritnefndar og það kom því í hennar hlut að ritstýra fréttabréfinu sem fékk nú nafnið "Fréttabréf Velvakanda"   Þrjú tölublöð komu út þetta ár en um mitt næsta árs (1986) var svo ákveðið að stefna að útgáfu fréttabréfsins í byrjun hvers mánaðar. Síðan þá hefur fréttabréf ungmennafélagsins hér í sveit komið út í hverjum mánuði eða allt frá því í júní 1986. 

Á aðalfundi Umf. Vöku 2. jan 1987 er ég kosin formaður félagsins þegar Einar á Urriðafossi gefur ekki kost á sér lengur, en hann var búinn að vera formaður frá 1984. Ég var búin að vera gjaldkeri félagsins frá árinu 1983 og fylgdist því vel með hvað fór fram á þessum árum. 

Frétabréfið var nú orðið nokkuð fastur punktur hér í sveitinni í byrjun hvers mánaðar. Strax í upphafi var því ætlað stærra og veigameira verkefni en bara að segja frá starfi ungmennfélagsins og birta tilkynningar og auglýsingar frá því, Öllum öðrum félögum í sveitinni og einstaklingum var boðið að nýta sér fréttabréfið til að koma hverju því á framfæri sem erindi átti við íbúa sveitarfélagsins.

Haustið 1988 var ákveðið í stjórn Umf. Vöku að halda stjórnarfundi reglulega í lok hvers mánaðar. Á þessa stjórnarfundi voru einnig boðaðir formenn allra nefnda félagsins. Á þessum fundum var farið yfir starfið í liðnum mánuði og komandi mánuður skipulagður. Ákveðið var hvaða fréttir þyrftu að koma í næsta fréttabréf og hvaða viðburði ætti að auglýsa.  Þannig var nú útgáfa fréttabréfsins orðið nokkurs konar prímusmotor í starfi félagsins.

Ég minnist þessara stjórnarfund sem með því skemmtilegra sem ég hef gert um daganna. Það var alltaf gaman á þessum fundum. Það var virkilega gefandi að vinna með og kynnast öllu því unga og áhugasama fólki sem þar koma saman í hverjum mánuði. Að loknum fundi var svo unnð að útgáfu næsta fréttabréfs. Ég tók yfirleitt lungað úr einum vinnudegi á milli gegninga og mjalta í að skrifa fréttir og auglýsingar frá ungmennafélaginu í byrjun hvers mánaðar á þessum árum.

Og ég er sannfærður um að fréttabréfið varð fjótt áhrifavaldur á allt félags- og menningarlíf í sveitinni. Eins og fram kom áðan var öllum boðið og þau í raun hvött til þess að nýta sér útgáfu fréttabréfsins. Mér fannst þetta falla vel að markmiðum félagsins að efla allt félags- og menningarlíf á félagssvæðinu sem var gamli Villingaholtshreppurinn. Mér er til efs að nokkuð annað sem ungmennafélagið hafi tekið sér fyrir hendur hafi haft meiri áhrif, til langs tíma, á jákvæðan hátt og einmitt fréttabréfið.   

Ég hætti svo í stjórn  ungmennafélagsins í ársbyrjun 1992 en þá var ég komin í stjórn Héraðsambandsins (HSK) og orðin þar gjaldkeri. Fannst mér tímabært að breyta til enda tel ég aðalsmerki öflugs félags að enginn sitji of lengi í sömu stjórnunnarstöðu. Í starfi ungmennfélags er það ekki síst mikilvægt þar sem alltaf eru að koma upp nýir árgangar. Ungmennfélögin hafa frá upphafi litið á það sem sína skyldu og verkefni að þjálfa upp og kenna  ungu fólki að stunda félagsstörf og því mikilvægt að sem flestir fái tækifæri til þess að takast á við það að sitja í stjórn.

Hrafnhildur Tryggvadóttir í Hróarsholti tók við formensku í félaginu þegar ég hætti. Ég var þó áfram eitthvað viðloðandi þessa mánaðarlegu stjórnarfundi og þá sem fulltrúi íþróattanefndar og skrifaði eitthvað af fréttum og auglýsingum í fréttabréfið. Á þessum árum stóð félagið líka í stórframkvæmdum með bygginu íþróttarvallar á lóð þjórasárvers og skólans. 

Gríðalegur fjöldi félagsmanna og aðrir íbúar í sveitarfélagu lögðust á eitt með félaginu í þeirri framkvænd. Ég er þeirra skoðunnar að fréttabréfið og það hvað ungmennafélagið var í góðu og miklu sambandi við alla sveitungana í gengum það er hluti af skýringunni  á þeirri velvild sem félagið nýtur

Kolbrún var öll þessi ár formaður ritnefndar og ritstjóri fréttabréfanna. Á henni hvíldi öll vinnan við að setja upp frétttabréfin og koma þeim út í byrjun hvers mánaðar. Því til viðbótar fór ungmennfélagið að gefa út árskýrslu hvers árs. Fyrsta fjölfaldaða árskýrslan kom út í jan 1989 fyrir árið 1988. og hefur komið út á hverju ári síðan. Árin 1986 og 1996 kom Velvakandi einnig út í prentaðri útgáfu. Öll þessi útgáfa var á hendi ritnefndar Umf . Vöku og ritstýrð af Kolbrúnu.

Eins og fram kom hér áður var allt lesefni fréttabréfsins vélritað upp. Kolbrún fékk efnið yfirleitt til sín handskrifað. Yfirleitt kom fólk sjáft með það hingað, Einnig var hægt að senda það hingað með faxtæki og í sumum tilfellum skrifaði hún það upp eftir fólki í síma. Fyrst í stað var fréttabréfið ljósritað hjá HSK en síðan í skólanum hér innansveitar þegar sveitarfélagið ákvað að koma að þessu með ungmennafélaginu með því að skaffa pappírinn og ljósritun 

Ungmennafélagið fjárfesti í rafmagnsritvél á kr. 13.000 haustið 1986 eða fljótlega eftir að ákveðið var að vera með reglulega útgáfu í hverjum mánuði.  Hún var notuð allt þar til talva kemur hingað á heimilið árið 1999. Það var heilmikil bylting, nú var hægt að ganga frá textanum með fyrirsögnum og leiðrétta í tölvunni. Áður varð að vinna allar fyrisagnir og leiðréttingar sérstaklega og líma ínn á blaðsíðurnar. Þeir sem höfðu aðgang að tölvu gátu nú unnið sinn texta sjálf og skilað honum tilbúnum á disklingi. 

Árið 2003 er svo intarnetið komið og orðið það allmennt að það er óskað eftir því að allt efni komi í tölvupósti. Það var líka heilmikil breyting en eftir sem áður þarf að setja fréttabréfið upp, prenta út, ljósrita og koma í póst í hverjum mánuði. 

Kolbrún tekur svo ákvörðun um að hætta á aðalfundi félagsins 2.jan 2007 eftir að hafa sinnt þessu í 22 ár. þá er búið að sameina bæða skólana hér í Flóanum (2004) og svo sveitarfélögin (2006). og ekki ljóst hvaða áhrif það mun  hafa  á alla félags- og menningarstarfsemi. Síðasta tölublaðið sem Kolbrún ritstýrir er janúar tölublað 2007. Við starfinu tekur Fanney Ólafsdóttir á Hurðarbaki og hefur hún sinnt því síðan. 

Eins og flestir vita hafa orðið heilmiklar breytingar hér síðan sameinað var. Í öllum þremur sveitarfélögunum sem sameinuðust hér í Flóanum árið 2006 voru starfandi öflug og virk ungmennfélög sem öll stóðu að útgáfu fétttabréfs með svipuðu sniði í sinni sveit. Fljótlega fóru ungmennfélögin að spá í meira samstarf og hugsanlega sameiningu. 

Eitt það fyrsta sem gert var í þeim efnum var að sameina fréttabréfin. Fyrst umf. Vaka og Umf. Samhyggð og síðar einnig Umf. Baldur.   Síðasta tölublað "Fréttabréfs Velvkanda" kom út í mars 2007 og fyrsta tölublað "Áveitunnnar" kom í næsta mánuði á eftir í apríl 2007. Þetta þróaðist svo áfram með meira samstarfi og að lokun sameiningu ungmennafélaganna þegar "Umf. Þjótandi" var stofnað hér í sveit en fyrsta stafsár þess var árið 2016.

Enn er útgáfa fréttabréfs í hverjum mánuðu hér í sveit í umsjón ungmennafélagsins. (nú Umf. Þjótanda.)  Þótt margt hafi breyst á þessum 35 árum í samskiftum fólks og upplýsingatækni halda fréttabréfin gildi sínu. Þrátt fyrir internet, heimasíðugerð, facbook og hvað annað sem ekki var til staðar þegar þessi saga hófst. Ég held að "Áveitan" sé með því mest lesna efni sem berst heim á bæina hér sveit og það hefur enn mikið gildi fyrir mannlífið hér.Set hér inn mynd af forsíðu og baksíðu 5. tbl. 1995 af "Fréttabréfi Velvakanda" svona til þess að rifja upp útlit þess. Líka vegna þess að mér finnst auglýsingin á baksíðunni skemmtileg. Þetta hefur sennilega verið í fyrsta en ekki síðasta skipti sem núverandi formaður ungmennafélagsins skrifaði í fréttabréfið.  emoticon   
  • 1
Flettingar í dag: 181
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49837
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 04:46:36
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar