Í Flóanum

Færslur: 2015 Apríl

26.04.2015 11:40

Vorboðar

Sumardagurinn fyrsti var á fimmtudaginn og ekki seinna vænta en að óska ykkur gleðilegs sumars. Vorboðarnir hafa hver á fætur öðrum birts hér undanfarnar vikur. emoticon

Farfuglarnir koma hér á hverju ári þegar sól fer að hækka á lofti. Þeir eru nú misjafnlega snemma á ferðinni eins og æfinlega og ýmsir hafa ekki enn látið sjá sig hér í Flóanum. Aðrir eru þegar önnum kafnir við hreiðurgerð og jafnvel búnir að verpa.Árviss vorboði hér er þegar Ingjaldur  í Nesi kemur með áburðinn. Ingjaldur hefur nú í rétt tæp fimmtíu ár keyrt áburð til bænda í Flóanum. Hann mætti hér í síðustu viku og nú bíður áburðurinn hér tilbúinn að fara í flög og á tún.

Kuldakast í sumarbyrjun er kannski bara einn af vorboðunum. Alla vega er maður orðinn eldri en það að maður lætur það koma sér á óvart. Nú er frost og þó jarðklaki sé lítill eða enginn er yfirborðið frosið. Það hamlar því að hægt sé að hefja vorverkin að fullu. Eins og oft áður bíður maður óþreyjufullur eftir því að hlýni.Hver hefur ekki lent í þessu?

19.04.2015 20:58

Lífsbarátta á 19. öld

Nafn langalangömmu minnar er ekki nefnt í frásögnum í þjóðsagnasafni JÁ um drauginn í Kverártungu ("Kverkártungubrestinn" eða "Tungubrestinn" eins og hann er nefndur fyrir austan).Draugagangur () Kemur hún þó þar talsvert við sögu.

Hún mun hafa heitið Helga Friðfinnsdóttir og var fædd  í Sleggjastaðasókn N-Múl 1839. Faðir hennar (Friðfinnur Eiríksson 1798-1873) var þingeyskrar ættar, fæddur í Laxárdal S-Þing en móðir hennar (Ingibjörg Ormsdóttir 1799-1865) var úr Sauðanessókn í N-Þing.

Hún elst upp hjá foreldrum sínum. Þau búa m.a. á Gunnarsstöðum í Skeggjastaðasókn N-Múl. 18 ára gömul giftist hún Páli Pálssynni sem þá er 39 ára gamall og á með honum barn (Hólmfríði Pálsdóttur 1857-1861) Tveimur árum seinna árið 1859 hefja þau búskap í Kverkártungu og eignast sitt annað barn (Guðríði Pálsdóttur 1860-1935) árið eftir. 

Páll var fæddur í Bægisársókn í Eyjafirði en foreldrar hans voru báðir Þingeyingar. Faðir hans (Páll Eiríksson 1782-1860) var úr Aðaldal S-Þing en móðir hans (Guðbjörg Þorkelsdóttir 1788-1862) var fædd í Draflastaðasókn S-Þing.

Páll elst upp hjá foreldrum sínum sem m.a. búa á Hraunhöfða í í Öxnadal 1822-1832. Árið 1829 hverfur Þorkell eldri bróðir Páls þá 17 ára gamall þar sem hann átti að sitja yfir kvíám Sigurðar Sigurðsonar sem þá bjó í Þverbrekku. Faðir hans Páll Eiríksson lét gera mikla leit en án árangurs. Síðar flutti Páll Eiríksson með sitt fólk austur á land.

Páll Pálsson er í vinnumensku austur á héraði á unglingsárum og fram yfir tvítugt. Árið 1842 á hann barn með Þorbjörgu Þorsteinsdóttur (Jóhanna Pálína Pálsdóttir 1842-1904) Árið 1845 er honum kennt barn sem hann synjar fyrir að eiga. Þá er hann í Papey.

Árið 1848 flytur hann í Vopnafjörð. Tekur hann nú m.a. að vinna fyrir sér sem bókbindari og er hann yfirleitt titlaður Páll Pálsson bókbindari í þeim heimildum sem ég hef um hann. Sama ár og hann kemur í Vopnafjörð á hann barn með Kristínu Pálsdóttur (Matthildur Pálsdóttir 1848-...?...)

Árið 1852 giftist hann svo Önnu Sæmundsdóttur en þá er hann sagður bókbindari í Viðvík í Skeggjastaðasókn. Hann missir konu sína sama ár frá barni (Stefán Pálsson (1852-....?...). 1857 giftist hann svo Helgu Friðfinnsdóttur langalangömmu minni eins fram hefur komið.

Árið 1861 er svo örlaga ár í lífi þeirra Páls og Helgu en þá eignast þau sitt þriðja barn (Pál Pálsson 1861-1937). Sama ár lést elsta barn þeirra. (Hólmfríður). Þetta er árið sem sagan segir að Páll hafi "bágra kringumstæða vegna látið konu sína á annan bæ og börnin." Trúlega hefur Helga verið á Gunnarsstöðum þar sem foreldar hennar voru.

Helga kom aftur að Kverkártungu til Páls en svo fer að lokum að hún fer þaðan aftur alfarin og er "Tungubresti" kennt þar um. Páll er í Kverkártungu til 1863 en hættir þá búskap. Draumur þeirra um sjálfstæðan búskap er þá úti og er Páll í vistun og húsmennsku í Skeggjastaðasókn og í Vopnafirði næsta áratuginn. Páli er lýst sem atgerfis- og gáfumanni. Hann lést árið 1873 55 ára gamall. Hann var þá í Vopnafirði og er jarðaður þar.

Þegar Páll deir eru þau Helga skilin og "voru um það að vera lögskilin". Þrátt fyrir það fæðir Helga yngsta barn þeirra 12 dögum eftir lát Páls. Hann var skírður Páll Eiríkur og var langafi minn.

Helga var í vinnumensku víða á þessum slóðum mest alla sína æfi. Hún er m.a. á Bakka í Skeggjastaðasókn 1870. Þegar Páll Eríkur fæðist 1873 er hún í Miðfjarðarnesi í Skeggastaðasókn Þremur árum seinna á hún barn (Helga Kristjánsdóttir 1876-1932) með Kristjáni Sigfússyni sem var bóndi í Miðfjarðarnesi.

Árið 1880 eru þau bæði, Helga og Kristján, í Kverkártungu. Kristján er þar í húsmennnsku en Helga er  með Pál Eirík með sér 7 ára gamlan en Helga yngri 4 ára er sem tökubarn að Ytri-Brekkum í Sauðanessókn. N-Þing.

Árið 1884 þegar Helga er 45 ára á hún seinna barn sitt (Stefán Ólafur Kristjánsson 1884-...?...) með Kristjáni Sigfússyni. Ekki veit ég hvar þau voru þá en 1890 koma þau bæði sem vinnufólk að Viðvík í Skeggastaðasókn. Nefnt er að Pálll Eiríkur hafi einnig komið að Viðvík árið 1891 þá 18 ára frá Ytri-Brekkum þar sem Helga yngri hálfsystir hans var tökubarn. Stefán Ólafur þá 6 ára er í Viðvík með foreldrum sínum.

Langafi minn Páll Eiríkur hefur búskap í Krossavík í Þistilfirði um aldarmótin. Árið 1901 er Helga móðir hans og Stefán Ólafur hálfbróðir hans (þá 16 ára) þar. Ekki veit ég örlög Kristjáns. Búskapur Páls Eiríks í Krossavík var ekki langur en hann fer þaðan 1905. 

Helga Friðfinnsdóttir lifir til sjötugs. Þegar hún lést árið 1909 er hún sögð hreppsómagi í Miðfjarðarnesi


16.04.2015 22:17

Draugagangur

Í þjóðsögunum má finna fjölda sagna um drauga og draugagang. Reimleikar ýmiskonar eða sagnir um slíka hluti, virðist löngum hafa riðið hér húsum og í öllum landshlutum.

Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar er m.a. frásagnir um atburði sem áttu sér stað á árunum 1861-1862 í Kverkártungu á Langanesströnd í N-Múlasýslu. Það hafði verið tvíbýli í Kverkártungu en á þorra 1861 flosnaði annar bóndinn upp og er tekinn þaðan með öllu sínu. Á hinum bænum býr Páll Pálsson. Hann hafði nokkru áður látið konu sína og börn á annan bæ vegna bágra kringumstæða og var nú orðinn einn í Kverkártungu.

Á þorraþrælinn þegar Páll er í gegningum heyrir hann högg úti en þegar að var gætt fann hann enga skýringu á. Sama kvöld heyrir hann barið ofan í baðstofuna og upp frá því það sem eftir var vetrar heyrast barsmíðar og brestir af og til, nótt sem dag.

Af þessu fór svo að Páll varð svo hræddur að hann þorði varla eða ekki að sofa. Fékk hann þá sér mann af öðrum bæjum til að geta sofið eitthvað. Maður þessi var tvær eða þrjár nætur í senn hjá Páli og nokkuð hugarhress þó ýmislegt gengi á

Þegar líða fór fram á fór kona Páls smásaman að vera hjá honum. Voru nú brestirnir oftast nálægt henni og var Páll smeykur um að hún myndi verða of hrædd. Þorði hann aldrei að láta hana vera eina. 

Það fór svo þannig haustið eftir að kona Páls fer frá honum að Gunnarsstöðum í sömu sveit þar sem foreldar hennar voru. Páll hafðist áfrarm við í Kverkártungu. Nú þótti sem vofa þessi væri framar eða oftar hjá henni en honum. Í kringum hana heyrðust oft brestir en högg sjaldnar. 

Eitthvað greindi mönnum á hver orsök þess alls væri en Páll var þess fullviss að þetta væri sending honum ætluð.

Í því sambandi er þess getið að sama dag og Páll verður fyrst var við þetta fær hann bréf austan úr sveitum er sagði lát föður hans. Nóttina áður dreymdi pilt, sem var greindur og að öllu leyti vandaður, að til sín kæmi strákur sem sagðist ætla að finna Pál.

Faðir Páls sem hét Páll Eiríksson bjó eina tíð í Eyjafirði. Hann átti auk Páls annan son til, nokkum árum eldri. Þeir bræður voru til skiptist hjá Sigurði nokkrum við fjárgæslu um sumartíman, sína vikuna hvor. Einn sunnudag var bróðir Páls við fjárgæslu en átti von á að Páll kæmi og skipti við sig um kvöldið.

En Páll mætti ekki og mátti hann  áfram sitja yfir ánum um nóttina. Hann var pirraður yfir hlutskipti sínu og hleypti ánum í nes eitt sem verja átti fyrir skepnum sem engi. Þegar Sigurður fréttir þetta fer hann við annan mann og segir sagan að hann hafi í bræði drepið piltinn. Allavega komu þeir báðir aftur en bróðir Páls hefur ekki sést síðan. Var hans þó leitað rækilega.

Sennilega hefur Páli þótt hann bera ábyrð á örlögum bróður síns. E.t.v. hefur honum einnig fundist faðir sinn kenna sér um hvernig fór. 

Samkvæmt íslendingabók var Páll Pálsson sem bjó í Kverkártungu 1859-1863 langalangafi  minn


  • 1
Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49800
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 04:25:35
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar