Í Flóanum

Færslur: 2011 Nóvember

30.11.2011 07:14

Vetur konungur

Þessa dagana er boðið upp á vetrarveður og er það í sjálfu sér ágætlega viðeigandi á þessum árs tíma. Snjór er yfir öllu og nokkuð frost.



Ærnar voru tekna á hús í síðustu viku. Þorsteinn Logi kom hér að rýja  á sunnudagskvöldið. Það styttist í fengitíma.



Á föstudagskvöldið s.l. komu starfsmenn Flóahrepps ásamt mökum saman í Vatnsholti hér í sveit og gæddu sér á jólahlaðborði. Það er glæsileg aðstaðan sem þau Margrét og Jói eru búin að koma upp í Vatnholti og frábær matur og þjónusta sem þau bjóða upp á. Þetta var hin fínasta samkoma og fólk skemmti sér vel, 


  

21.11.2011 21:55

Ásta Björg

Hún Ásta Björg Jónsdóttir dótturdóttir mín í Lyngholti er eins árs í dag. Í tilefni þess set ég hér mynd af okkur saman sem mamma hennar tók í réttunum í haust.



Eins og sést þá kann hún Ásta Björg mjög vel að hafa gaman af hlutunum. Við höfum oft skemmt okkur saman á þessu ári sem liðir er frá því hún fæddist og munum örugglaga gera það áfram á komandi árum.  emoticon 

 

20.11.2011 07:13

Steypudagur

Það var steypudagur hér á föstudaginn. Þá var ráðist í að leggja í gólfið á verkstæðinu. Það er liður í heilmiklum framkvæmdum sem þeir Sigmar og Kristinn hafa unnið að á síðustu mánuðum.







Eins og á alvöru steypudögum dreyf að mannskap og gekk verkið bæði fljótt og vel. Það er nú reyndar þannig með gólfsteypu og þegar búið er að leggja út steypuna er verkið rétt að byrja. Í gær og í nótt hafa þeir félagar unnið í þvi að slípa steypuna jafnóðum og hún hefur verið að þorna. Nú er komið hér hið glæsilegasta gólf. emoticon

18.11.2011 11:31

Haustblíða

Í þessari viku hefur veðurblíða verið allsráðandi. Hér er sumarhiti og úrkomulítið flesta daga.



Það verður nú ekki sagt um þetta haust að það hafi einkennst af svona blíðu. Fram að þessu hefur veðurfarið frekar verið bæði rigning og rok. Þó aðallega rigning.



Jörðin sem var að ofþorna í sumar vegna þurka er nú rennandi blaut og víða eru stórir pollar og tjarnir. Engan veginn hefur verið hægt að þurrka hálm í haust og ekki er físilegt að fara um túnin vegna bleytu. Birgðastaðan í haughúsinu er nú alveg að komast í þrot og nauðsynlegt að grípa til ráðstafanna í því sambandi fyrr en seinna. emoticon



Þó þetta séu ekki kjöraðstæður til að stunda jarðvinnslu létu þeir Sigmar og Kristinn sig hafa það í slagveðrinu um daginn og tóku inn skurðbakka á stykkjum sem sá á í næsta vor. Í verkið fengu þeir lánaða beltagröfu með breiðri skóflu. Það verður svo að koma í ljós hvenær hægt er að ýta til í þessum stykkjum og jafna.



Þó nú hafi loks dregið úr rigningunni, í bili að minnstakosti, og það er boðið upp á sumarblíðu er dagurinn ansi stuttur. Sólin röltir hér um hádaginn rétt við sjóndeildarhring. Þegar hún nær að brjótast í gegnum skýin svona lágt á lofti geta litabrigðin orðið talsverð.


09.11.2011 07:07

Námsárangur

Það var glæsilegur árangurinn sem grunnskólanemendur í Flóahreppi náðu á samræmdum könnunnarprófum sem tekin voru í grunnskólum landsins nú fyrr í haust. Sérstaklega vekur athygli árangur 10. bekkinga hér í sveit. Þar voru þeir með hæðstu meðaleinkunn í samanburði milli sveitarfélaga á landinu í íslensku og stærðfræði. Þeir voru svo með næsthæðstu meðaleinkunn í ensku.

Þó þetta sé fyrst og fremst árangur nemendanna sjálfra og þeim til sóma þá er þetta líka ákveðin staðfesting á því að skólastarfið í Flóaskóla er að virka vel.

Það hafa verið gerðar miklar breytingar á skólastarfi hér í sveit frá því að þessir nemedur sem nú eru í 10 bekk hófu sína skólagöngu. Það er vandasamt verk að gera breytingar á skólum. Mikið hefur verið lagt upp úr því að þegar hér hafa verið gerðar breytingar að nýta vel þau tækifæri sem í breytingunum hafa falist til að efla faglega starfsemi. Þetta átti við þegar Flóaakóli var stofnaður með sameiningu gömlu skólanna og einnig þegar unglingadeildin bættist við.

Í heild virðist þetta hafa tekist mjög vel hér og ég er þeirra skoðunnar að starfsfólk skólans hefur unnið að þessum málum af metnaði og náð góðum árangri. Gæði í skólastarfi er vissulega ekki eingöngu mæld í árangri í samræmdum prófum. Það eru ótal mörg önnur atriði sem skipta máli. Það er einnig viðstöðulaus vinna að halda upp góðu skólastarfi. Sífellt breytast aðstæður. Það koma nýir nemendur og ný verkefni.

Ég óska Flóaskóla og starfsfólki hans til hamingu með þennan árangur sem styrkir það mikla traust sem mér virðist skólinn hafa hér í samfélaginu.

Sérstaklega vil ég þó óska nemendunum sem náðu þessum frábæra árangri til hamingu. Þeir hafa staðið sig mjög vel. Það er ekki lítils virði fyrir samfélagið að geta verið stolt af sínu unga fólki. Það getur ekki annað en aukið bjartsýni á framtíðina. emoticon    

06.11.2011 07:09

"Glóð er enn í öskunni....."

Þetta var m.a. sungið á mögnuðum tónleikum hjá "Reiðmönnum Vindanna" í Þingborg í gærkvöldi. Það var fjölmenni á tónleikunum og fólk skemmti sér  vel. Það var helst kvartað undan því að ekki var hægt að dansa. Sumir nefndu það við mig að rétt væri að henda stólunum út til þess að bæta úr aðstöðuleysi til að iðka dans við þessa fjörugu músik sem boðið var upp á.  emoticon

Þessir tónleikar voru lokaatriðið á "Tónahátíð" félagsheimilanna í Flóahreppi. Þeir féllu einnig að dagskrá "Safnahelgi" á suðurlandi sem Menningarráð Suðurlands stendur nú fyrir. Um Safnahelgi hér á suðurlandi er boðið upp á gríðalega fjölbreytta og áhugaverða menningardagskrá um allt suðurland allt frá Hornafirði vestur að Hellisheiði. 

Tónahátíðin hér í Flóahreppi tókst vel og vil ég þakka rekstrarastjórn Félagsheimilanna fyrir góða og metnaðarfulla dagskrá. emoticon  

03.11.2011 07:28

Íbúafundur

Það er boðaður íbúafundur hér í sveit í kvöld. Fundarefnið er að ræða kosti og galla þess að hafa leikskóla og grunnskóla á sama stað í sveitarfélaginu. Tilefni þess að þetta er tekið til umræðu nú er að fyrir liggur að stækka þarf húsnæði leikskólans. Núverandi húsnæði er orðið of lítið miðað við fjölda barna á leikskólaaldri í sveitarfélaginu.

Í nýlegum lögum um leik- og grunnskóla er opnað fyrir mun meira samstarf, samnýtingu og samreksturs þessara skólastiga. Það er einnig tekið tillit til þessa í endurskoðuðum aðalmánskrám. Mörg sveitarfélög hafa verið að velta þessum málum fyrir sér og víða hafa verðir gerðar breytingar.

Markmiðið er að efla skólastarfið og nýta betur það fjármagn sem í málaflokkin fer. Ýmsir fagaðilar bæði skólastjórnendur og kennarar og aðrir sem að þessum málum koma hafa séð í þessu tækifæri og möguleika á betra og öflugra skólastarfi. Má m.a. nefna að á "Menntaþingi" sem sveitarfélögin á suðurlandi héldu í Gunnarholti í mars s.l. var töluvert rætt um eflingu tengsla milli skólastiga.

Nú er það svo að breytingar eru vandmeðfarnar og ekki hefur endilega allstaðar tekist vel til. Þekkt er úr fjölmiðlun andstaða við sameiningu leik- og grunnskóla víða um land. Enda ekki endilega víst að markmiðum um samþættingu á námi og öðru skólastarfi náist með því eingöngu að sameina stofnanir sem jafnvel eru í töluverðri fjarlægð hvor frá annari.

Það er mikilvægt að taka þetta til umræðu hér í sveit núna áður en lagt er í umfangs mikinn kostnað í húsnæðismálum leikskólans. Í dag eru báðar þessar sofnanir vel reknar og skólastarf er öflugt á báðum stöðum. Það er því ekki vegna þess að um einhvert vandamál sé að ræða að hafa þetta á sín hvorum staðnum áfram að verið er að ræða þetta sem möguleika.

Það kemur fyllilega til greina að byggja við leikskólann þar sem hann er og nýta húsnæðið sem fyrir er áfram. Við þurfum bara þá að vera viss um að við séum ekki að útiloka möguleika á að gera það allra besta fyrir skólastarfsemina í sveitarfélaginu í framtíðinni.


  • 1
Flettingar í dag: 74
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 94
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 131250
Samtals gestir: 24027
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 04:27:14
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar