Í Flóanum

Færslur: 2018 Febrúar

15.02.2018 09:22

Þorrablót

Í tilefni þess að nú er styttist í Þorraþræll og Þorrablótið í Þjórsárveri ætla ég að rita þessa sögu. Hún gerðist fyrir löngu síðan. Það er svo langt síðan að ég man ekki hvað er satt og logið í henni, en læt það mér engu skipta.


Við Kolbrún höfum verið saman í búskap í nær 40 ár. Allan þann tíma höfum við ekki svo oft farið saman út að skemmta okkur. Ein er sú skemmtun sem við látum þó aldrei fram hjá okkur fara en það er Þorrablótið í Þjórsárveri. Þar höfum við mætt á hverju ári og skemmt okkur vel.


Stundum hefur það nú verið harðsótt. Það hefur komið fyrir að það hefur rekist á við eitthvað annað. En alltaf hefur tekist að greiða úr því þannig að við höfum komist á Þorrablótið.


Einhverra hluta vegna hefur það æxlast þannig í gegnum tíðina að ég hef þvælt mér í allslagt félagsstörf. Um skeið var ég mikið að starfa fyrir ungmennfélagið og í framhaldi af því fyrir Héraðsambandið Skarphéðin.(HSK). Það kom fyrir að Héraðsþing HSK var haldið sömu helgi og Þorrablótið. Í þá daga stóðu Héraðsþing HSK í tvo daga ( laugardag og sunnudag)


Þegar þessi saga gerðist stóð svo á að Héraðsþingið var haldið austur að Skógum laugardag og sunnudag og þessa sömu helgi var Þorrablótið í Þjórsárveri um laugardagskvöldið. Ég starfaði þá sem gjaldkeri HSK og þurfti því að mæta á Héraðsþingið.


Nú það var ekki annað í stöðunni en fara á laugardagsmorgninum austur að Skógum. Planið var svo, þegar þingstörfum lyki á laugardeginum að bruna heim aftur í Flóann og mæta á Þorrablótið. Þegar Þorrablótinu væri svo lokið undir morgun yrði brunað aftur austur að Skógum á Hérðasþingið. Á þessum árum var maður ungur og kippti sér ekkert upp við það þó svefntíminn væri ekki alltaf reglulegur.


Sem gjaldkeri lagði ég fram tillögu að fjárhagsáætlun fyrir sambandið á þinginu. Seinnipartinn á laugardeginum tók fjárhagsnefnd þingsins til starfa. Ég átti í smá vandræðum með að fá fjárhagsáætluna samþykkta frá nefndinni þannig að mér finndist ásættanlegt. Umræður drógust á langinn og loks þegar niðurstað fékkst sem allir gátu sætt sig við var klukkan farin að ganga átta.


Nú var ég að verða of seinn ætlaði ég að vera komin á Þorrablót í Þjórsárveri kl níu. Ég henntist út í bíl og brunaði af stað heim. Sem betur fer var bæði veður og færi gott. Ferðin gekk því vel en þegar ég var kominn lagnleiðina að Markafljóti birtist allt í einu hvítklædd vera í ljósunum frá bílnum á miðjum veginum. Ég snarhemlaði!


Ég hugsaði með mér að þetta gæti ekki verið annað en vofa. Þrátt fyrir að ég nauðhemlaði átti ég varla von á að bíllinn næði að stöðvast áður en hann kæmi að þessu fyrirbrigði. Ég gat búist við að hann myndi bara renna í gegnum þetta eins og reyk.


En sem betur fer stöðvaðist bíllinn rétt í þann mund sem framstuðarin kom að verunni. Ég stökk út úr bílnum til að kanna þetta betur. Þá sá ég reyndar að þetta var ung kona af holdi og blóði. Hún virtist vera ómeidd en var greinilega nokkuð ölvuð. Ekki veit ég enn þann daginn í dag hvernig stóð á veru hennar þarna á veginum í þessu ástandi á þessum tíma. Ég fékk ekki nokkur botn í hvað hún var að reyna að segja. Hún vildi helst bara syngja fyrir mig.


Ég mátti nú ekki vera að því að dvelja þarna lengi. Ekki gat ég heldur skilið konuna þarna eftir. Þetta var löngu fyrir tíma GSM símanna þannig að ég gat ekki haft samband við neinn út af þessu þarna á staðnum.


Ég gerði því það eina sem mér datt í hug í stöðunni. Ég kom konunni fyrir í framsætinu í bílnum hjá mér. Síðan hélt ég áfram leið minni og ætlaði að reyna að nota tímann til að komast að því hver þessi kona var og hvert hún ætlaði að fara.


En ég var ekki kominn langt þegar það rann upp fyrir mér að nú fyrst var ég kominn í vandræði. Um leið og konan var kominn inn í heitan bílinn hjá mér leið hún útaf og steinsofnaði. Ég fékk hvorki hósta né stunu upp úr henni. Aðeins bara hroturnar í henni þar sem hún sat eins og hrúald í framsætinu hjá mér.


Þetta gat ekki vísað á gott. Að koma seint heim, einmitt þegar ætlunin var að fara  út með Kolbrúnu að skemmta sér. Það var nú ekki svo oft sem það stóð til. Heldur þyrfti ég nú líka að útskýra hvað dauðadrukkin ókunnug kona var að gera í bílum hjá mér.


Sem betur fer leystist þetta nú. Þegar ég kom á Hvolsvöll sá ég þar á gangi mann sem ég þekkti. Ég renndi bílnum upp að honum og útskýrði fyrir honum vandræði mín.  Þegar hann sá konuna í bílnum hjá mér kannaðist hann strax við hana. Hann tók að sér að koma henni til sýns heima. Bíllinn hans var þarna skammt frá og færðum við hana nú yfir í hans bíl. Ég gat nú haldið áfram för minni laus úr þessum vandræðum.


Þegar ég kom heim var klukkan rétt að verða níu. Kolbrún var búinn í öllum verkum og hafa sig til á blótið. Þannig að um leið ég renndi í hlað heima kom hún út í bíl og við gátum nú farið beint upp í Þjórsárver á Þorrablótið.


Þegar við vorum á leiðinni þangað tek ég eftir að annar skór ungu konunnar hafði orðið eftir á gólfinu í bílnum hjá mér. Þar sem allt hafði nú gengið upp í þessari lýgilegu atburðarás fram að þessu, fór ég nú að hafa áhyggur af því hvernig ég ætti að útskýra þennan ókunna kvennmannsskó í bílnum.  Ég hef sennilega óttast að það hefði einhvar áhrif á stemmingu kvöldsins.


Ég tók það þá til ráðs um leið og við keyrðum fram hjá Vatnsenda að ég bendi svona heim að bænum og segji: "Er þetta ekki gamall Moskvits sem stendur þarna heima hlaði á Vatnsenda." Kolbrún fer að horfa heim að bænum og þá notaði ég tækifærið. Ég læði hendinni niður með fætinum á Kolbrúnu og kræki með vísifingri í hælbandið á skónum og dreg hann til mín. Hendi honum svo út um gluggann mín meginn um leið og við förum yfir brúna á Vantsendagilinu.


Kolbrún varð ekki vör við neitt. Nú ökum við upp hlað í Þjórsárveri. Klukkan er akkúrat níu. Ég snarast út úr bínum en það virðist eitthvað hik vera á Kolbrúnu. Ég geng því kringum bílinn og opna fyrir henni hurðina. Enn er eitthvað hik á Kolbrúnu. Svo lítur hún á mig, þar sem ég stend fyrir utan bílinn og held upp hurðinni fyrir hana, og segir við mig:


" Heyrðu Steini, ég skil ekkert i því hvað orðið hefur um annan skóinn minn"

 

 

 

  • 1
Flettingar í dag: 98
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 94
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 131274
Samtals gestir: 24032
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 08:29:23
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar