Í Flóanum

Færslur: 2017 Mars

28.03.2017 20:59

Bústofnstalning árið 1989

Ég sagði frá því hér á síðunni, fyrr í vetur, að fyrir tæplega  30 árum fórum við saman um gamla Villingaholtrherppinn, ég og Sigurður heitinn í Súluholti sem þá var hreppstjóri hér. Örnefni () Sigurður stundaði það talsvert að yrkja um menn og málefni líðandi stundar. Í þessari ferð okkar á útmánuðum árið 1989 setti hann saman fjölmargar vísum um hin ýmsu atvik sem hentu á okkar ferð. Hann skráði þetta allt saman valdlega ásamt greinagerð.. Til gamans hef ég ritað þessa greinagerð hans hér.

Margir sem þarna koma við sögu eru nú fallnir frá. Væntanlega hafa þeir sem til þekkja meira gaman af .þessum skáldskap Sigurðar.

   " Ég á að teljast hreppstjóri í minni sveit. Það embætti er nú orðið ekkert á móti því sem var fyrrum. Helstu verkefni hreppstjóra nú um stundir eru þau að vasast í óskilafénaði og birta stefnur, ef svoleiðis lagað fellur til.  Út af þessum rólegheitum bar nú í vetur, þegar landbúnaðarráðuneytið óskaði eftir ítarlegri talningu á bústofni landsmanna. Þá var dustað rykið af hreppstjórunum og má segja að annríki hafi verið hjá stéttinni allri núna undanfarið.

Það er ekkert layndarmál að þessi talning mæltist misjafnlega fyrir og ýmsar sögur af viðbrögðum manna hafa heyrst, hvað sem sannleiksgildið er.

Í minni sveit gekk þetta nú rólega fyrir sig og ekkert skeði þar bitastætt fyrir fjölmiðlamenn. Ekki er þó þar með sagt að ekkert hafi gerst. Ég taldi mér að minnstakosti skylt að hripa það helsta niður í gjörðabók, sem ég tók í brúk vegna þessa verks.

Fyrsta atriðið er hérna var bókuð athugasemd við, gerðist fyrsta talningadaginn og það hjá sjálfum mér. Þegar talið var í fjósinu stóð svo á að ein kýrin var að bera og  sáust klaufarnar. Samstarfsmaðurinn vildi bíða eftir kálfinum og telja hann með. Það vildi ég hinsvegar ekki því;
                 Halda sér við bókstaf ber,
                 bústofnstalning meinar
                 ekki kallast kálfur hér,
                 klaufirnar bara einar.

Nákvæmni var þó vissulega hjá okkur og vandlega talið, það sýnir þessi;
                 Í fjósi bónda fjölda sá
                 fyllt í hverja smugu.
                 Bættu við hann einni á,
                 - eldri skýrslur lugu.

Hann sagðist auðvita hafa heimt rolluna seint og það sögðu fleiri undir sömu kringumstæðum. Þetta er trúlega allt satt, því mikið er kvartað yfir lélegum smalamennskum.

Heilmikið mál var að telja hjá Finni bónda, en hann rekur hjá okkur hrossabú, býr sjálfur í fjarlægð og er ákaflega vandhittur maður. Enda fundum við manninn ekki, sem kom ekki að sök, því okkur bar ekki að telja hann heldur hrossin, sem við fundum mörg og á einum sex stöðum á landareigninni. Þar af tveir hestar bundnir inni. Litum líka í hlöðuna. Þetta var þar bókað;
                 Ekki gátum fundið Finn,
                 fola bundna sáum,
                 hungurmorða húsköttinn
                 og heldur fátt af stráum.

Mörg er búmannsraunin, segir máltækið. Þetta sannaðist núna líka. Góðir og farsælir gripir, sem bændur binda vonir við eiga ennþá til að misfarast;
                Villtir gera minkar mein
                á marga lund í Flóa,
                - núna taldist eftir ein
                önd í búi Jóa.

Sjálfur Ráðuneytisstjórinn í landbúnaðarráðuneytinu rekur hjá oss dágott hrossabú. Hann býr sjálfur í fjarlægð. Ekki vildum við láta undir höfuð leggjast að telja hjá honum, því frá hans ráðuneyti bárust fyrirmælin. Sá var þó hængur á að heimreið hans var bæði löng og torsótt, m.a. læst hlið nærri þjóðvegi. Hann sjálfan erfitt að hitta við gegningar. Varð því ráðið að tala við bónda í síma. Hann tók erindinu vel sem við reyndar vissum fyrir og gaf okkur tafarlaust upp töluna á bústofni sínum. Sagði hann okkur óhætt að treysta þessu, því síst sæti það á sér að lauma undan. Við vissum auðvita að þetta var satt - en samt ónáðaði samviskan. Vorum við ekki að svíkjast um í trúnaðarstarfi. Við áttum jú, sjálfir að telja nákvæmlega. Samviskan lét okkur ekki í friði, við horfðum þarna heim ef leið lá fram hjá. En;
                  Þriðja daginn gáfust góð
                  gullnu tækifærin,
                  ráðuneytisstjórastóð
                  stóð við landamærin.
og áður uppgefin tala passaði alveg nákvæmlega

Á einum stað var enginn heima, en þar sem langt var að aka þangað öðru sinni, ákváðum við að snuðra þar án leiðsagnar heimamanna og fórum í alla kofa;
                 Fólk í bænum fundum ei,
                 fullgild engin belja.
                 - Hænur þrjár og hanagrey
                 höfðum þar að telja.  

Fyrrverandi sveitungi okkar hélt eftir vænu landi við sölu jarðar sinnar. Hefur hann nú reist þar ágætt sumarhús undir hóli nokkrum. Þarna gefur hann hrossum úti í vetur. Sammæltum við okkur við hann þarna. Auðvita bauð hann okkur í bæinn, eins og áður var venja hans. Barst í tal að nauðsynlegt væri að koma nafni á staðinn, en þarna er fátt örnefna, nema áðurnefndir hólar, en;
               Þó að væri vetrarél
               og virðist fátt af skjólum.
               okkur gafst að una vel
               upp í Krækishólum.
Einhverjir verða að byrja að nota bæjarnöfnin, svo þau festist við staðinn.

Eirík á Gafli þekkja margir, hann er gamansamur náungi og lét það berast til okkar að hann leyfði okkur ekki inngöngu í nokkurt hús á laugardegi eða sunnudegi. Þá væru almennir frídagar í landinu. Við hikuðum því vegna þessara frétta;
                Seinna getum leitað lags
                að leik í veiku tafli,
                hunsum ekki helgidags
                húsfriðinn á Gafli.

Auðvitað fórum við til Eiríks á laugardegi seinna og þá viðbúnir að mæta honum með mótleik. Já, við sögðumst mega koma til hans í embættisnafni á laugardegi, nema ef  hann væri orðinn sjöunda dags aðventisti. Það var Eiríkur ekki. Við -
                Eyddum þarna öllum grun,
                áttum stoð í lögum,
                fengum skýrt að fullu mun
                á frí og helgidögum.

Annar gamansamur sveitungi trúði okkur fyrir því, að hefðu komið til hans utansveitarmenn eða borðalagðir rannsakendur, hefðu þeir mátt standað úti hjá sér, nema þá útbúnir með húsleitarheimild. " Það er annað með svona karla eins og ykkur, sem maður er nákunnugur"  Fyrir hans munn -
                   "Sæi ég bústna birtast hér
                   borðalagða fjanda,
                   illa líka mynda mér,
                   mættu þeir úti standa."

Seinna hittum við þennan sama bónda á förnum vegi. Hann kvaðst hafa tekið okkur óþarflega vel, nú væri hann búinn á sannfrétta úr öðrum héruðum allskonar varnaraðgerðir bænda, sem hann vissi ekki áður að mætti nota í svona tilfellum  Þessar fréttir segja ;
                    Teljararnir hafa haft
                    hrakning - ýmsir slá þá,
                    bændur líka brúka kjaft
                    og beita "smúlnum" á þá

                    Viðbrögð seint um síðir er
                    sannast illt að frétta
                    lengi taldi að lögin hér
                    leyfðu ekki þetta.

Það hendir að tveir góðbændur, sinn í hvorri sveitinni, ganga í eina sæng. Þá getur verið erfitt að hitta suma heima utan gegningatíma. Því var nauðsynlegt að mæla sér mót fyrirfram. Þar um segir:
                    Akstursleiðin öll á fót
                    upp til hæðstu brúna
                    stýrum hana á stefnumót
                    við Stefaníu núna.

Svona er háttað búskap á góðbýlinu Neistastöðum þessa dagana. Þarna gerðinn garðinn frægan um áratugi héraðskunnur Mývetningur, Sigurður Björgvinsson, frændi Þuru í Garði, landskunnrar skáldkonu. Sigurður er nú búsettur í Reykjavík, en þennan dag staddur á sínum gömlu slóðum. Bauð hann upp á kaffiveitingar;
                   Með Sigurði við sátum þar
                   sælir undir borðum.
                   - Þetta sami Siggi var
                   og Siggi hérna forðum.

Samkvæmt erindisbréfinu áttum við að telja refi, minka og kanínur líka. Einu sinni voru hér stór refabú í fullum gangi. Nú var hinsvegar svo komið að refir allir voru dauðir, en minkum hafði verið komið í fóstur utan sveitar;
                  Skelfa bænda skakkaföll
                  skuldir, óhöpp, sorgir,
                  refahúsin orðin öll
                  eins og draugaborgir

Ferjunesbændur hafa nokkra sérstöðu í minni sveit. Þar er ekki  amast við fuglum himinsins, sem sá ekki, en uppskera hinsvegar stundum lífsviðurværi sitt á ökrum bændanna. Þarna töldum við óbeðnir mörg hundruð álftir og gæsir, sem gengu sér til bjargar á túnum og garðlöndum;
                 Nóg af búfé núna er
                 í Nesi á tveimur fótum,
                 hundruð álfta og gæsager
                 gæðir sér á rótum.

Ekki hugsa allir upp á sama mátann. Það kemur fyrir að einhverjir þessir fuglar villist út úr friðlandinu, Þeim er nokkur vorkunn, því erfitt mun  þeim að afla sér þekkingar á hvar mörkin milli bæja liggja. Þær upplýsingar liggja ekki á glámbekk, því landamerkjabók Árnessýslu er geymd á Sýsluskrifstofunni á Selfossi. Þar er þeim meinaður aðgangur. Jæja, nágrannbóndi varð fyrir aðsókn fuglanna og vildi fæla þá út úr sínu landi með skothríð. Svo slyslega tókst til að þessi aðvörun dró einn fuglinn til bana. Bóndi útskýrði slysið fyrir okkur. Hann gat auðvita ekki öðru haldið fram en slysi, þegar hann sagði frá andláti alfriðaðs fugls;
                 Álftabrussa úti hlaut
                 ærið skjótan bana.
                 Vaskur Geiri vatnið skaut
                 - varla snerti hana.
Auðvita var þetta hreint slys. Geiri er ekki nokkur fuglaskytta. Hitta aldrei það sem hann miðar á.

Versti óvinur leitarmann og smala, - þokan, strýddi okkur líka. Það var þegar heimsækja þurfti stærsta stóðbónda sveitarinnar. Hann býr á víðáttumiklu kennileitalausu landi, þar sem peningur hans gengur jafnan. Treystum við okkur ekki þangað við slíkar aðstæður. Við myndum villast og ganga í hringi, telja suma gripina mörgum sinnum, en sjá aðra aldrei. Þar um segir;
               Leiða þokan lengi má
               leyna hófadýrum,
               voðalega verður þá
               villugjarnt á Mýrum.

Seinna gekk hann í norðrið með kulda, þá skein sól.
               Betra gerist veður vart
               á vorum heldur köldum,
               fjúklaust er og fjallabjart,
               - á fundinn Kidda höldum.

Þar var okkur tveimur höndum tekið og sýnt í hvern kofa og vísað á öll landamæri ríkisins, og við;
               Töldum kúa og kinda fans.
               - Kristinn ekkert felur.
               Betur eiga hrossin hans
               himnadrottinn telur.

                Kristinn fáka kóngurinn
                með klárahópa stóra,
                rekur báða á rassinn, Finn
                og ráðuneytisstjóra.

Eitt spursmál gátum við aldrei upplýst. Fyrrverandi sveitungi átti í vetur nokkur hross hérna í sveitinni. Ekki var þeim ætlað hús, en hey var lagt þeim til bjargræðis. Þau tolldu illa heima og þeirra varð víða vart. þegar hjarn var yfir öllu. Gengu þau milli góðbúanna, eins og sagt var einu sinni. Eftir þessum hrossum spurðum við mikið, en lítið gekk. Þar um þetta;
                 Lítið gengur undan oss,
                 þó eigi að heita vinna,
                 einhversstaðar Atla hross
                 ættum samt að finna.

Allt kom þó fyrir ekki, þó spurt væri og spurt og glápt til allra átta, síðast máttum við játa okkur  sigraða, því;
                   Hér er best að ljúka leit,
                   lúnum þyngir sporið,
                   þau hafa út úr okkar sveit
                   engavængir borið.

Þá er ekki fleira, sem festa þarf á blað viðvíkjandi talningarstarfinu. Svona aukreitis, - margir höfðu orð á kuldanum núna um sumarmálin;
                   Vori seinkar, - segja menn -
                   sunnan yfir hafið.
                   - Það er bara apríl enn
                  - eitthvað getur tafið.

                                                                                        Sig. Guðmundsson
                                                                                                      28. apríl 1989 "


   • 1
Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49800
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 04:25:35
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar