Í Flóanum

Færslur: 2013 Júní

27.06.2013 23:23

Vestur í Djúp

Í fyrramálið er hugmyndin að keyra vestur í Ísafjarðardjúp og dvelja þar um helgina. Tilefnið er ættarmót afkomenda afa míns og ömmu í móðurætt sem haldið verður  í Reykjanesi. 

Afi og amma voru Aðalsteinn Eiríksson ( f. 31.01.1901 - d. 27.01.1990 ) og Bjarnveig Ingimundardóttir ( 31.10.1902 - d. 27.04.1992 ). Þau voru m.a. á langri æfi skólastjórahjón í Reykjanesi frá árinu 1934 til ársins 1944. Ég hef ekki tölu á fjölda afkomenda þeirra en þeir eru allavega fjölmargir. Það stefnir í góða mætingu  emoticon

23.06.2013 07:41

Heyskapur

Heyskapur er nú víða kominn af stað hér í Flóanum. Hér á bæ var byrjað að slá á fimmtudagskvöldið. Við slóum u.þ.b. 10 ha og nú er það allt komið í rúllur. Það er ennþá brakandi blíða svo senilega hefði maður átt að slá meira. Samkvæmt veðurspá er ekki víst að gefi til heyskapar í næstu viku.Eitt mikilvægasta atriðið í heyskap er að þær vélar sem verið sé að nota, bili nú ekki þessa fáu daga á ári sem á reynir.  Það eru líka takmörk fyrir hvað hægt er að liggja  með nýjar og dýrar vélar á meðan notkunn er ekki meiri en raun ber vitni á venjulegu búi. Við létum nú verða af því samt fyrir þennan heyskap að kaupa nýlega rakstrarvél.

Reynt verður að slíta meira út úr öðrum heyvinnuvélakosti búsins að sinni. emoticon

16.06.2013 08:00

Tengdapabbi

Í dag eru 101 ár síðan hann tengdafaðir minn heitinn (Júlíus Sigmar Stefánsson bóndi og verkamaður 1912-1989 ) fæddist. Í tilefni þess set ég hér inn þessa mynd af honum. Ég hef ekki hugmynd um hver teiknaði hana en hún hangir hér upp á vegg.í stofunni.

Júlíus er einn af eftirminnanlegustu einstaklingum sem ég hef kynnst. Hann var af þeirri kynslóð, sem tókst á við lífsbaráttuna af ærðuleysi og vinnusemi, sem lagði grunn að því velmegunnarþjóðfélagi sem við í dag búum við. Hann upplifði einar mestu tækniframfarir og þjóðfélagsbreytingar sem ein kynslóð hefur sennilega upplifað. Hann lét það nú lítið raska sinni ró og gerði litlar kröfur um hlutdeild í velsældinni.

Í fyrra á hundrað ára árstíð hans komu niðjar hans og tengdamönnu ( Guðfinna Björg Þorsteinsdóttir 1916-1984 ) saman á ættarmóti í Helgafellssveitinni.  Júllarar. () Þar var fjölmenni samankomið sem skemmti sér vel,  emoticon

12.06.2013 22:55

12. júní

Í dag er bóndinn í Jaðarkoti, hann Sigmar Örn  þrítugur. emoticon  Ég er nú búinn að þekkja hann í öll þessi þrátíu ár enda var ég viðstaddur fæðingu hans. Hann fæddist reyndar sama dag og við foreldrar hans áttum eins árs brúðkaupsafmæli.

Eins og allir sem þekkja Sigmar vita er hann, og hefur alltaf verið, einstaklega þægilegur í allri umgengni. Það er ekki hægt að segja annað en hann hafi verið vandræða lítill í uppeldi. Það breytir ekki þeirri staðreynd að hann hefur alltaf viljað fara sínar eigin leiðir á sínum forsendum. 

Hann hafði strax á barnsaldri einstakt lag á að komast upp með ýmislegt sem fáum öðrum  hefði getað tekist. Sennilega hefur það orðið til þess að hann er ennþá jafn sérvitur og hann hefur alltaf verið. Í dag erum við samstarfsfélagar og mér líkar það vel.  emoticon  

Eins og ég sagði áðan þá fæddist Sigmar sama dag að við Kolbún eigum brúðkaupsafmæli. Ég rakst á þessa mynd um daginn sem tekin var fyrir 31 ári síðan í brúðkaupsveislu í Þjórsárveri. Fyrir þá sem ekki átta síg á hvaða fólk þetta er þá eru þarna auk okkar brúðhjónanna, tengdaforeldrar mína, þau Guðfinna Björg Þorsteinsdóttir (1916 - 1984 ) og Júlíus Sigmar Stefánsson (1912 - 1989 ) og okkar elsta barn hún Hallfríður Ósk.Mér finnst hún Halla hafa elst svakalega mikið......emoticon    Hvað finnst ykkur?  09.06.2013 07:12

40 ára ferming

Tvær fyrrverandi skólasystur mínar þær Þórdís og Inga höfðu samband við mig nú um daginn og bentu mér á að nú fer að koma að þeim degi að það eru fjörutíu ár liðin frá því við fermdumst saman. Sú hátíðlega athöfn mun hafa farið fram 11. júní 1973.
 
Við vorum 7 sem fermdumst þenna dag í Villingaholtskirkju. Það þykir nú nokkuð stór hópur í þessari sókn. 

Ég er nú ekkert sérstaklega minnugur á svona stundir, man þó að veðrið var gott og hér kom fjöldinn allur af gestum. Það sem ég man helst, úr þessari ágætu veislu, var þegar ég fór með hluta af veislugestunum fram á Bjalla að sýna þeim þrílembuna mína. 

Á þessum tíma var ekki mikið um þrílemdur en ég var mjög stoltur af þessari fjáreign minni. Ég held að ég hafi átt orðið 7 ær þarna fermingarvorið mitt.og þær skilað 15 lömbum það vorið. Þrílembuna hafði ég heima í túni allt sumarið. Hún var með þrjár gimbrar sem allar voru svo settar á um haustið.

Í tilefni þess að nú eru 40 ár liðin stungu þær Þórdís og Inga upp á að við myndum hittast og rifja upp gömul kynni. Það verður bara skemmtilegt. Vona bara að sem flestir geti mætt.

Þau sem fermdust hér fyrir 40 árum voru:

Aðalsteinn í Kolsholti
Anna Lísa í Selparti.
Elvar Ingi í Villingaholti
Inga í Vatnsholti
Guðm. Helgi í Villingaholtsskóla
Þóroddur í Villingaholsskóla
Þórdís á Egilsstöðum.04.06.2013 22:52

Íslenski torfbærinn

Það rifjaðist upp fyrir mér, nú á föstudaginn var, að ég á í fórum mínum ljósmynd af málverki sem málað var af bæjarhúsunum í Kolsholti sennilega um eða stuttu eftir aldarmótin 1900. Þessa ljósmynd gaf mér fullorðinn maður sem hingað kom einu sinni. Það eru sennilega u.þ.b. 30 ár siðan.

Þegar hann kom hér bað hann mig um að sýna sér hvar bærinn hafi staðið áður fyrr og taldi ég mig getað sýnt honum það. Hann þakkaði fyrir sig með því að gefa mér þessa ljósmynd. Ef ég man rétt þá sagðist hann vera fæddur hér í Kolsholti (eða uppalin að einhverju leiti) og að hann ætti þetta málverk af bænum.

Ástæða þess að þetta fór að rifjast upp fyrir mér núna var að þegar hátíðin "Fjör í Flóa" var sett hér í Flóahreppi á föstudaginn við hátíðlega athöfn notaði sveitarstjórnin tækifærið og afhenti styrki til menningarmála. Meðal styrkhafa var Hannes Lárusson í Austur-Meðalholtum. 

Hannes og Kristín Magnúsdóttir hafa af miklu metnaði unnið að því að koma upp fræðasetri um íslenska torfbæinn í Austur-Meðalholtum. Nú er unnið að lokaframkvæmdum hjá þeim. Styrkurinn frá Flóahreppi er veittur til ljúka rannsóknum og setja upp sýningu um torfbyggingar í sveitarfélaginu. Verkið er unnið þannig að gagna er aflað, grunnmyndir teiknaðar, myndir fundnar og talað vð tugi eldra fólks. 

Það er mikilvægt gera þessari menningararfleyfð góð skil og það eru þau svo sannarlega að gera í Austur-Meðalholtum. 

  • 1
Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49723
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 03:43:11
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar