Í Flóanum

Færslur: 2020 Mars

24.03.2020 23:25

Fordæmalausir tímar

Það er óhætt að segja það að þessi staða sem nú uppi og hefur áhrif á alla jarðarbúa sé fordæmalaus. (...eða bara dæmalaus, ég veit ekki hvort einhver munur er á dæmalaus eða fordæmalaus.) Það er að vísu vel þekkt að farsóttir hafa gengið yfir áður og oftar en einu sinni með hörmulegum afleiðingum. Samt er það svo og ég verð að viðurkenna, að ég átti alls ekki von á að í nútíma samfélagi kæmi þessi staða upp. En það er að vísu bara merki um grandvaraleysi og hvað maður getur verið góður með sig.

 

Ég held að fáir hafi samt búist við þessu. Ég allavega gat miklu frekar átt von á einhvers konar öðrum náttúruhamförum, eins og jarðskjálfum, eldgosum eða flóðum, eða jafnvel styrjöldum eða efnahagshruni en ekki þessu. Ólíkt öðrum náttúruhamförum þá er ekki um staðbundnar hamfarir að ræða núna. Þessi farsótt mun ná til alls heimsins. Nú er um sameiginlegan óvin alls mannkyns að ræða. Nú er ekki hægt að kalla til hjálp frá öðum svæðum. Nú er hvergi hægt að komast undan. Það skiptir engu máli hvað þú átt mikla peninga í vasanum eða í skattskjóli. Það skipir engu máli hvort þú ert múslimi eða kristinn, hvítur eða svartur, Enginn er óhultur.

 

Þetta er því sameiginlegt verkefni allra að berjast við þessa óværu. Og það er heilmikið hægt að gera og ekki ástæða til að gefast upp eða að láta sér falla hendur. Mér finnst okkur takast  nokkuð vel upp hér á landi. Þessum sóttvarnar aðgerðum er stýrt af fólki sem nýtur mikils trausts í samfélaginu. Allir eru með einum eða öðrum hætti að takast á við verkefnið. Mér sýnist menn vinna mjög lausnamiðað.

 

Margir eru undir talsverðu álagi og má t.d. nefna heibrigðisstarfsfólk sem vert er að þakka sérstaklega fyrir þeirra þátt. En það eru fleiri sem eru undir miklu álagi. Allstaðar þarf að skipuleggja starfsemi upp á nýtt. Við getum nefnt starfsfólk skólanna sem standa frammi fyrir mjög ögrandi verkefnum. En allir eru að gera sitt til að standast þetta áhlaup sem best og það mun ganga yfir. Það er næsta víst.

 

 Eitt af því sem nýtist nú vel við  þessar aðstæður er internetið. Mörg fyrirtæki, sem og framhaldskólarnir, háskólarnir, mörg félagasamtök og einstakligar hafa fært  sína starfsemi að stórum hluta út á internetið. Það er hægt vegna þess að bæði netið og nettengingar eru til staðar sem og allur tæknibúnaður og forrit og öpp og hvað það nú heitir. Þatta er allt til staðar. En það er verið að nýta þessi tæki og tól miklu betur og gengur víða bara nokkuð vel.

 

Ég er búinn að vera hér heima hjá mér í viku í sótthví og á aðra viku eftir. Tvær vikur  þar á undan var ég í fríi á Spáni. Á þessum vikum hef ég getað sótt fundi hjá Parkinsonfélaginu og mætt í líkamsþjálfun í hóptíma hjá iðjuþjálfa þannig að fullt gagn var að. Allar þessar samkomur fóru fram á internetinu og það skipti mig engu hvort ég var út á Spáni eða í sótthví heima hjá mér. Ég var fullgildur þátttakandi á þessum viðburðum hjá félaginu.

 

Þetta er að opna augu manna fyrir því hvað þetta er lítið mál og getur verið tækifæri á að efla starfsemi félaga eins og Parkinsonsamtakanna. Það er og hefur verið takmarkandi fyrir þátttöku í félagstarfsemi Parkinsonsamtakanna að margir sem þennan sjúkdóm hafa eiga erfitt með að ferðast á milli staða og/eða vera í fjölmenni innan um fólk. Samt veit ég að margir hafa áhuga á að hitta og ræða við fólk með þennan sjúkdóm. Eins er fólk út um allt land með þennan sjúkdóm sem ekki hefur tækifæri á að taka þátt í hefðbundnu félagsstarfi samtakanna í Reykjavík. 

 

Mér finnst mjög áhugavert að skoða þetta sem raunhæfan kost til að efla félagsstarf Parkinsonsamtakanna í áframhaldandi framtíð, þegar þessarri farsótt líkur. 

 

 

  • 1
Flettingar í dag: 105
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49761
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 04:04:13
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar