Í Flóanum

Færslur: 2012 September

30.09.2012 07:11

Opinber fjármál

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga var haldinn í síðustu viku. Samband íslenskra sveitarfélaga  stendur árlega fyrir þessari ráðstefnu. Ráðstefnan er jafnan fjölsótt af sveitarstjórnarmönnum og þeim starfsmönnum sveitarfélaganna sem að fjármálum og rekstri standa.

Þau verkefni sem sveitarstjórnarmenn eru að fást við snúast að mestu um fjármál. Að sitja í sveitarstjórn hefur mikið meira með það að gera að hafa vit á rekstri heldur en pólitík. Verkefnið er að nota það skattfé sem til ráðstöfunnar er á sem skynsamlegastan hátt í þau lögbundnu verkefni sem sveitarfélögunum er skylt að sinna. 

Til þess að ná árangri í þeirri vinnu er mikilvægt að gera sér grein fyrir umfangi verkefnanna í upphafi og unnið sé eftir fjárhagsáætlunum. Fjárhagsáætlanir þurfa þá að vera raunhæfar og bókhald þarf að vera með þeim hætti að hægt sé að fylgast með að þær geti staðist. Ef það er ekki að gerast þarf að endurskoða áætlanirnar í tíma áður en í algert óefni er komið.

Það væri æskilegt að menn einbeittu sér að þessu verkefni. Reynslan sýnir að því miður hefur það sumstaðar ekki alveg tekist sem skyldi. Þá hefst oft á tíðum rimma milli stjórnmálamanna við að kenna hvor öðrum um. Þetta á ekki síður við í ríkisrekstrinum  samanber nýtt mannauðs- og fjárhagskerfi fyrir ríkið og fleiri dæmi sanna. Þar stendur nú ekki á því að hver aðilinn reynir að kenna öðrum um jafnt stjórnmálamenn sem embættismenn.

Á fjármálaráðstefnunni í síðustu viku kom fram að flest sveitarfélög eru með sín mál í nokkuð góðu lagi að þessu leiti. Í heild eru sveitarfélögin betur sett en ríkið t.d. miðað við rekstrarniðurstöður og hlutfall skulda af tekjum. Það er samt ekki hægt að neita því að í sumum sveitarfélögum eru veruleg vandamál sem verða ekki leist nema með því að skattgreiðendur utan þessara sveitarfélaga komi með einum eða öðrum hætti að því verkefni.

Það er því full ástæða til að setja sveitarfélögum fjármálareglur eins og verið er að gera. Það er ekki ásættanlegt að sveitarfélög geti ráðist í einhver gæluverkefni og staðið í áhættu rekstri sem aðrir þurfa svo að standa straum að ef illa fer.

Nú er vinna við fjárhagsáætlnir næsta árs að komast á fulla ferð. Í næsta mánuði eru aðalfundir hinna ýmsu stofnanna og byggðasamlaga sem sveitarfélögin á Suðurlandi standa saman að. Fyrir alla þessar stofnanir, hverja fyrir sig, eru unnar áætlanir. Taka þarf svo tillit til þeirra, þegar búið er að afgreiða þær, í fjárhagsáætlunum einstakra sveitarfélaga.    

26.09.2012 21:06

Að slá í gegn í Ameríku

Haustið 2007 kom ég til Ameríku. Við Kolbrún heimsóttum þá Önnu mágkonu mína og fjölskyldu hennar. Anna hefur verið búsett í Bandaríkunum  í rúmlega 50 ár.

Við dvöldum hjá henni í hálfan mánuð og tókum okkur ýmislegt fyrir hendur á meðan dvölinni stóð.  Hún bjó á þessum tíma norðanlega í New York fylki u.þ.b. 50 km sunnan vð borgina Rochester.  Við keyrðum töluvert þarna um og sáum ýmislegt áhugavert.

Einn daginn komum við á heilmikla handverkssýningu sem haldinn var þarna skammt frá. Á þessari sýningu var aðallega verið að kynna ull ýmiskonar, prónaskap og vefnað. Við fórum að sjálfsögðu að spyrjast fyrir og leita að því hvort þarna væri eitthvað um íslensku ullina.

Margir virtust vita hvað við vorum að tala um en voru ekki vissir um að hana væri að finna á þessari sýningu þar sem um fágæta vöru væru um að ræða. Þó hafði einhver grun um að á svæðinu væri einhver að kynna þessa undraull.

Eftir stutta leit á svæðinu sem tók yfir einhverja hektara fundum við í litum sýningabás konu eina sem var að sýna gestum islenska ull. Þegar við fórum að ræða við hana komumst við að því að hún átti sjálf nokkra íslenskar kindur. Hún sagist vera virk í félagsskap um íslensku kindina í Ameríku. Félagsmenn skildist mér að væru þó nokkrir bæði í USA og Kanada.

Það sem kom þó kannski mest skemmtilaga á óvart að þegar við vorum að spyrja út í ræktunina hjá þeim var okkur sagt að þessir aðilar kaupa sæði á hverju ári héðan af sæðingastöðvunum.  Uppáhalds kindin hennar var meðal annars undan Rektor 00-889 frá Kolsholti í Flóa. emoticon

Þegar við svo upplýstum að umræddur hrútur Rektor væri okkur fæddur og hefði komið frá okkur á sæðingastöðina á sínum tíma varð konunni eins við og hún væri að hitta í eigin persónu sitt helsta idol.  Hún bauð okkur að koma til sín og sjá kindurnar og létum við verða af því nokkrum dögum seinna.


Þessi svarta ær í Ameríku  er undan Rektor 00-889 frá Kolsholti. (mynd sept 2007)


Það þykir heppilegt í Ameríku að vera með Lamadýr með kindunum. Þær verða síður fyrir árás villtra rándýra. (mynd sept 2007)


Þetta var rúmlega klukkutíma akstur á bíl heim til hennar. Okkur gekk greiðlega að finna staðin eftir korti. Þarna stoppuðum við dagpart og ræddum um hrúta og sauðfjárrækt við tvær amerískar konur .  Það var magnað að hitta þarna fyrir í henni stóru Ameríku kindur sem allt eins gætu hafa verið úr fjárhúsinu heima.

Nú er víða verið að spá og spekúlera í ásetningi lamba og útkomu í mati og vigt á sláturlömbum.  Á mánudaginn  voru mæld og stiguð hér 23 gimbrar og 11 lambhrútar. Af þessum lömbum völdum við 12 gimbrar og 2 lambhrúta til ásetnings.  Sláturlömbin fóru svo á bíl héðan áðan. Það verður spennandi að sjá hvernig þau koma út á morgun.  emoticon

21.09.2012 07:21

Veðurfarið

Það hefur löngum verið þannig að stæðsta og áhrifamesta breytan í afkomu bæði manna og dýra er veðurfarið.  Þannig hefur það verið frá örófi alda og er enn. Ekki er allveg víst, að með nútíma lifnaðarháttum, átti sig allir á því.

Sú stétt manna sem einna mest er með þetta samhengi á hreinu eru bændur. Nú um miðjan þennan mánuð skall á vetrarveður með fannfergi og ísingu víða norðanlands. Þessi bilur náði þegar verst lét hér aðeins suður fyrir jökla og truflaði smalamensku á afréttum í einn dag.

Norðlendingar urðu hinsvegra fyrir töluverðu tjóni. Fjárskaði varð talsverður. Fé fennti og fjöld fólks stóð í stöngu dögum saman við að leita og grafa fé úr fönn og koma því síðan heim. Ég átta mig vel á því hversu erfitt þetta hefur verið og í raun þrekvirki unnið.

Tjón varð víða m.a. á raflínum, girðingum og ýmsu öðru. Hjá bændum norðanlands bætist  það við að víða, vegna þurrka  í sumar, eru heyfengur lítill. 

Hér í Flóanum hefur tíðarfarið það sem af er þessu hausti verið gott. Þó ekki hafi verið hægt að smala einn daginn í norðurleitini vegna snjóbils var að öðru leiti þokkalegt veður á fjalli. Þegar ég reið innúr á þriðjudaginn í fjallvikunni var ágætis veður og fínt veður framan af miðvikudeginum.

Við lentum að vísu í slagviðri í lok dagsins og smalað var í rigningu allan fimmtudaginn. Skyggni var samt þokkalegt á þeim slóðum sem ég fór um. Það var reyndar nokkur þoka austar á afréttinum.

Síðustu dagar hafa verið þurrir og hefur  kornsláttur gengið vel. Unnið hefur verið dag og nótt við að slá þá akra sem eftir eru í Flóanum og sér nú fyrir endan á því þetta haustið. Hér á bæ er búið að binda rúmlega hundrað rúllur af þurrum hálmi. Við ættum ekki að verða hálmlausið í vetur eins og í fyrra. emoticon

10.09.2012 07:31

Haust

Seinnipartinn í dag er ráðgert að leggja af stað héðan ríðandi á fjall. Við ætlum að ríða upp í réttir. en þaðan verður svo farið í fyrramálið inn á afrétt.

Eins og í fyrra fer ég á Tangann sem er styðsta leitin í vesturleitinni á Flóamannaafrétti. Við komum á móts við aðra fjallmenn á miðvikudaginn og smölum með þeim fram afréttinn og á fimmtudaginn. Á föstudaginn er svo safnið rekið niður í réttir. Reykjaréttir eru svo á laugardaginn.Kornakranir hér á bæ voru slegnir um helgina. Metuppskera var um að ræða og áætla ég að u.þ.b. 65 til 70 tonn af þokkalega þroskuðu korni sé hér komið í hús. Kornið var valsað og súrsað í stíu í hlöðunni.

Á föstudaginn tók sveitarstjórn Flóahrepps á móti sveitarstjórnarmönnum í uppsveitum Árnessýslu og mökum þeirra. Mikil og góð samvinna er  með þessum sveitarfélögum á fjölmörgum sviðum. Áttum við góðan dag með þessu fólki.Fórum með þeim um sveitina í rútu. Stoppuðum m.a. í listasafninu "Tré og list" í Forsæti  þar sem þessi mynd var tekinn af hópnum. Einnig var farið að flóðgátt Flóaáveitunnar á Brúnastaðaflötum. Við enduðum daginn svo með kvöldverði í Vatnsholti.  

Vil ég þakka öllum sem heimsóttum okkur og tóku þátt í þessari ferð fyrir komuna og frábæran dag.

  • 1
Flettingar í dag: 105
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49761
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 04:04:13
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar