Í Flóanum

Færslur: 2019 Júní

26.06.2019 22:38

Páll Pálsson bókbindari.

Hafi einhverjum fundist frásögnin af æfi Páls Eiríkssonar og Guðbjargar Þorkelsdóttur Páll Eiríksson og Guðbjörg þorkelsdóttir () þjóðsagnakennd, þá virðast frásagnir af lífhlaupi Páls Pálssonar sonar þeirra vera enn þjóðsagnakenndara. Páll virðist vera sá eini af  6 börnum þeirra sem kemst til fullorðins ára. Ég hef nokkum sinnum áður minnst á hann hér á síðunni. En hér er samantekt á því sam ég hef lesið og heyrt af hans æfi. 


Eins og í frásögninni hér á undan um PE og GÞ foreldra Páls þá er stuðst við Íslendingabók.is varðandi ártöl og nöfn. Að öðru leiti er þetta samatekt af því sem ég man af því sem ég hef lesið og heyrt. Ekki er um neina vísindalega upplýsingaleit að ræða heldu kannski bara hending ein hvað ratað hefur fyrir mín eyru og augu. 


Páll fæddist 1818 í Bægisársókn. Hann flytur með foreldum sínum og eldri bróður Þorkatli að Hraunshöfða í Öxnadal 1822. Þegar Páll er 10 ára verða þeir atburðir að Þorkell bróðir hans hverfur og finnst ekki aftur. Grunur er um að hann hafi verið myrtur af húsbónda sínum Sigurði Sigurðsyni í Þverbrekku Öxnadal. Páll Eiríksson og Guðbjörg þorkelsdóttir ()


Þetta hafði djúpstæð áhrif á Pál og foreldra hans. Þau taka sig til vorið 1832 og flytja burt úr Öxnadalum og fara austur á Hérað. Páll er þá 14 ára gamall. Foreldrar hans eru í vinnumennsku í Vallanessókn eftir að þau koma austur. Árið 1835 er Páll sagður léttadrengur í Geitagerði í Valþjófsstaðasókn en 1840 er hann  vinnumaður á Ketilsstöðum í Vallanessókn. 


Á Ketilsstöðum er hann enn vinnumaður 1843 og er þar með foreldrum sínum. 1842 á hann barn með Þorbjörgu Þorsteinsdóttur ( f.1822 - d. 1887 ) sem var þá vinnukona einnig á Ketilsstöðum. Barnið var stúlka sem skírð var Jóhanna Pálína Pálsdóttir ( f.1842 - d.1904 )  


Árið er 1845 er honum kennt annað barn sem Páll reyndar synjar fyrir. Þá er talið að hann sé í Papey. Árið 1848 á hann barn með Kristínu Pálsdóttur (f. 1818 - d. 1892 ) og sama ár flytur hann í Vopnafjörð að Áslaugarstöðum.  Dóttir hans og Kristínar Pálsdóttur hét Matthildur Pálsdóttir.  (f. 1848 - d. 1939 ) 


Páll er þrítugur þegar hann kemur í Vopnafjörð. Hann er næstu ár í vinnumennsku á bæjum í  Vopnafirði og er hann m.a. tittlaður bókbindari á Þorvaldsstöðum árið 1850 og á Breiðumýri 1855. Árið 1852 kvænist hann Önnu Sæmundsdóttur  ( f.1833 - d.1852 ) frá Heiði á Langanesi en hún lést í nóv. sama ár af barnsförum.


Barnið sem var drengur lifði hinsvegar og var skýrður Stefán Pásson (f. 1852 - d ...?..)  Hann var alinn upp á Gunnarstöðum í Skeggjastaðasókn af Friðfinni Eiríkssyni (f. 1798 - d. 1873) og Ingibjörgu Ormsdóttur ( f. 1799 - d. 1865). Fyrst eftir lát Önnu er Páll í Vopnafirði en kemur svo einnig að Gunnarstöðum er vinnumaður þar.


Þegar Páll er orðin 39 ára gamall giftist hann svo seinni konu sinni Helgu Friðfinnsdóttur frá Gunnarstöðum, dóttir þeirra hjóna sem tóku Stefán son Páls í fóstur. Helga er þá aðeins 18 ára gömul.  Árið 1859 hefja þau svo sjálfstæðan búskap í Kverkártungu á Langanesströnd.


Helga og Páll eignast sitt fyrsta barn 1857 Hómfríði Pálsdóttur ( 1857 - d.1861 ). Árið 1860 eignast þau svo Guðríði Pálsdóttur ( f.1860 - d.1937 ) og 1861 Pál Pálsson ( f.1861 - d.1937 ). Það sama ár lést Hómfríður elsta barn þeirra.


Í Kverkártungu var tvíbýli. En á þorra veturinn 1861 flosnar bóndinn, sem bjó þar ásamt Páli og Helgu, upp og er tekinn þaðan með öllu eins og sagt var. Um svipað leiti veikist Hómfríður elsta barn Páls og Helgu og deyr. Helga er þá ófrísk að þriðja barni þeirra. Páll lætur þá konu sína og börn fara "bágra kringumstæða vegna". Helga mun hafa farið að Gunnarsstöðum til foreldra sinna.


Páll er því orðin einn í Kverkártungu. Á þorraþrælinn verður Páll svo fyrst var við drauginn "Tungubrest".  Draugagangur ()  Sagt var að sama dag hefði hann fengið bréf austan úr sveitum þar sem honum er tilkynnt lát föður síns. Páll Eiríksson faðir hans lést árið aður.


Tungubrestur lét öllum illum látum í Kverkártungu á meðan Páll bjó þar og reyndar lengur. Helga kom aftur að Kverkártungu um vorið. En reimleikarnir færðust bara í aukanna og hafði veruleg áhrif á þeirra búskap. Þegar Helga var á bænum virtust þeir mestir í kringum hana og þorði Páll nú varla að skilja hana eftir eina. Fór svo að lokum að Helga fór alfarin með börin að Gunnarstöðum en Páll varð eftir einn í Kverkártungu.


Það voru uppi nokkrar kennigar á sínum tíma um orsakir þessara reimleika og greindi menn á um það. Nokkrar þeirra eru í sambandi við þá atbuði sem gerðust í  Öxnadal rúmlega 30 árum fyrr  þegar bróðir Páll hverfur.  Páll Eiríksson og Guðbjörg þorkelsdóttir ()   Páll er sagður hafa verið þess full viss að þetta væri sending sér ætluð.


Ein kenningin var sú að þetta væri draugur Þorkels bróðir Páls sem fylgt hefði föður þeirra en þegar hann deyr hafi Páll tekið við. Aðrar kenningar eru um að tilkoma þessa draugs væri vegna heitstrenginga  sem Sigurður í Þverbrekku hafði gagnvart Páli þegar Páll reyndi að fá hann sakfelldann fyrir morðið á bróðir sínum.


Einnig mun Páll hafa lent í útistöðum við þann mann sem hann fékk til að sækja málið á hendur Sigurðar í Þverbrekku. Páli þóttu honum illa unnið að málinu og neitaði að borga honum. Sá mun einnig hafa opinberlaga haft í heitstrengingum við Pál. Aðrir héldu því fram að Páll sjálfur hafi vakið upp draug sem hafi átt að hjálpa honum við að ná fram hefndum á Sigurði í Þverbrekku. Sökum kunnáttuleysis hafi draugurinn hinsvegar snúist gegn Páli.


Fleiri kenningar vou uppi um tilvist "Tungubrests". M.a. að hann væri af völdum fyrri konu Páls Önnu sem hefði vitjað hans í draumi þegar komið var að þvi að skíra dóttir hans og Helgu. Anna vildi láta hana heita í höfuðið á sér og Páll lofað henni því í draumnum. Þessu hafi Helga algerlaga verið mótfallin og Páll látið hana ráða.


Einnig var sú kennig til að í Kverkártungu hjá Páli og Helgu hafi verið drengur smali sem látist hafi í vistinnu vegna illra meðferðar og hann gengið aftur.  


Hvað sem því líður þá er Páll í Kverkártungu til 1963 en hættir þá búskap og fer frá bænum. Hann er í vistun og húsmennsku á bæjum á Langanesströnd og Vopnafirði næstu árin. Helga er einnig í vinnumennsku á þessum slóðum. Hún er m.a. vinnukona á Þorvaldsstöðum í Vopnafirði og eignast tvö börn með Stefáni Jónassyni sem þar bjó kvæntur maður. Fyrst árið 1867 og aftur 1870.  Bæði þessi börn deyja u.þ. ársgömul.


Þó Páll og Helga hafi verið skilin var ekki um ósamlyndi að ræða á milli þeirra. Þau voru að vísu sögð mjög ólík. Helga var sögð hörku dugleg og ósérhlífin en óþrifin frekar. Páll var aftur á móti sagður hreinlátur mjög og þrifin. Hann var sagður gáfu- og merkismaður. En hann var drykkfeldur nokkuð.


Veturinn 1872 -1873 eru þau bæði í húsmennsku að Miðfjarðarnesseli á Langanesströnd. Helga verður þá þunguð af hans völdum. Um vorið ætlar Páll aftur til Vopnafjarðar. Hann kemur við í Miðfirði og hittir Matthildi húsmóðurina sem var yfirsetukona. Hann segir henni að brátt verði Helga léttari og biður hana að sitja yfir henni. Hann segir henni einnig að ef barnið verði strákur vilji hann að hann verði skírður Þorsteinn Eiríkur. Ef barnið verði stúlka skyldi Helga ráða nafninu. Fleira bað hann Matthildu um að gera, eins og hann byggist ekki við að koma aftur.


Páll fer nú til Vopnafjarðar og er þangað kemur fær hann gistingu á veitingahúsi í þorpinu. Hann er þar nokkra daga og drekkur stíft. Svo einn morguninn vill hann alls ekkert vín drekka. Hann ríður að Leiðarhöfn að hitta Andrés Nielsson  sem þar bjó. Páll biður Andrés um hvort hann megi ekki deyja þar.


Andrés bauð honum gistingu en taldi engar líkur á að hann mundi deyja starx. Páll sagist þegar vera orðin kaldur upp að hnjám. Þeir félagar sátu svo að spjalli fram á kvöld. Morguninn eftir var Páll látinn í rúmi sínu.   


Páll lést 2. júlí 1873. og var jarðaður að Hofi Í Vopnafirði. 12 dögum eftir lát Páls fæddist yngsta barn þeirra Helgu. Það var drengur sem skírður var Páll Eiríkur Pálsson. ( f.1873 - d. 1930 )


Árið 1878 á Helga barn,  Helgu Kristjánsdóttur ( f.1873 - d.1933 ), með Kristjáni Sigfússyni sem var um skeið bóndi í Miðfjarðanesi. Helga kemur svo aftur að Kverártungu um 1880 ásamt Kristjáni sem þar er í húsmennsku. Hún á annað barn með Kristjáni 1884  Stefán Ólaf Kristjánsson. ( f. 1884 - d.1956 )


Kristján lést árið 1897 en Helga árið 1909 þá sögð hreppsómagi í Miðfjarðarnesseli


Páll Eiríkur Pálsson yngsta barn Páls og Helgu var langafi minn.

 

 

 


  • 1
Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49800
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 04:25:35
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar